hux

Guðlaugur Þór inn - hvar verður skrifstofa viðskiptaráðherrans?

Sjálfstæðismenn halda sínu striki óháð fréttum af því að kynjahlutfall í ráðherraliði Samfylkingarinnar verði jafnt. Þorgerður Katrín er eina konan í ráðherraliði flokksins, nú eins og áður. Stærsti flokkur landsins blæs eins og jafnan á umræður um kynjakvóta.

Guðlaugur Þór verður heilbrigðisráðherra, mér fannst blasa við að hann yrði ráðherra, oddviti flokksins í Reykjavík norður og mikill áhrifamaður um gæfu og gengi manna í prófkjörum víða um land á liðnum vetri. Heilbrigðisráðuneytið er mikil áskorun fyrir hann. Guðlaugur Þór mun jafnframt hætta sem formaður Orkuveitu Reykjavíkur, eins og um var samið og tilkynnt þegar meirihlutinn í borgarstjórn var myndaður fyrir ári síðan.

Nú verða almannatryggingar teknar undan heilbrigðisráðuneytinu og fluttar undir félagsmálaráðuneyti. Ætli eitthvað verði tekið undan félagsmálaráðuneytinu í staðinn? T.d. málefni sveitarfélaga flutt til dómsmálaráðuneytis eða jafnvel húsnæðismálin færð undir viðskiptaráðuneytið eða fjármálaráðuneyti? Seinni kosturinn gæti verið valinn ef ætlunin er að einkavæða Íbúðalánasjóð.

Þá var augljóst orðið að Björn Bjarnason héldi sínu ráðherraembætti, atlaga Jóhannesar í Bónus setti Geir í þá stöðu að við Birni varð ekki hróflað og líklega ekki ástæða til, Björn hefur átt farsælan feril þótt hann þurfi að una því eins og aðrir menn að verk hans geta orkað tvímælis. Sturla rýmir til, hann hefur verið ráðherra líklega í ein sjö ár og verið óvinsælasti ráðherra landsins skv. Gallup lengst af þeim tíma.

Annars er greinilegt að Samfylkingin er hér að fá mjög rýran hlut, hún hefur minni áhrif með sína 18 þingmenn en framsókn hafði með 12 þingmenn. Samfylkingin þarf að skipta iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti upp milli tveggja ráðherra, það verður ekki einu sinni til skrifstofa fyrir annan þeirra án þess að gripið verði til æfinga, eða hvað? Þannig að einn ráðherra Samfylkingarinnar verður ráðherra án skrifstofu. Ætli sá skrifstofulausi fái Hagstofuna í sárabót?

Það er varla hægt að tala um helmingaskipti í stjórnarsamstarfinu þótt þau séu í fjölda ráðherrastóla. Vigtin er miklu meiri sjálfstæðismannamegin. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjármálaráðuneyti og tvö langstærstu útgjaldaráðuneytin, menntamála- og heilbrigðisráðuneyti. Samgönguráðuneytið fer til Samfylkingar, ætli hún láti það landbyggðarþingmanni eftir eða verða mörkuð ákveðin tímamót og þingmanni af höfuðborgarsvæðinu falið forræði samgöngumála í fyrsta skipti? Það yrði nú fagnaðarefni.

Ps. Það var athyglisvert að hlusta á Jóhönnu Vigdísi, sem hefur sinnt þingfréttum árum saman, tala um það úr Valhöll áðan að Geir H. Haarde væri að tilkynna þingmönnum sjálfstæðismanna hverjir yrðu ráðherrar. Spurði svo Geir hvernig þingmenn hefðu tekið tíðindunum. Geir svaraði sem von var að tillaga hans hefði verið samþykkt samhljóða. Þannig að þingkonur sjálfstæðismanna hafa samþykkt samhljóða tillögu um að ráðherraembættum yrði skipt milli fimm karla og einnar konu. Formaðurinn gerir tillögu um skipun ráðherra en þingflokkurinn kýs um þá tillögu. Umboð ráðherranna byggist á stuðningi þingmannanna, en ekki tillögu formannsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eygló Þóra Harðardóttir

Jóhanna Vigdís hefur nú varla haldið vatni yfir Geir síðustu dagana. Ekkert einkennilegt að hún haldi að hann tilkynni bara val sitt, frekar en að það sé kosið um það af þingflokknum.

Ásta Möller var greinilega ekkert sérstaklega glöð með þessa niðurstöðu, þegar hún kom niður eftir fundinn. 

Væntanlega enn með óbragð í munninum.  

Eygló Þóra Harðardóttir, 23.5.2007 kl. 08:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband