hux

Úrslitaatriði og önnur atriði

Mér fannst athyglisvert að hlusta á Katrínu Jakobsdóttur, varaformann Vinstri grænna, í viðtali við Jóhann Hauksson á Útvarpi Sögu í morgun

Meginatriði viðtalsins var spjall um stefnu VG í sjálfbærri þróun, sem verður víst kynnt í dag. Þau komu víða við, Katrín lýstu því yfir að hún útilokaði virkjun á háhitasvæðinu við Þeistareyki á næstu árum og kom það svo sem ekki á óvart. Það sem kom mér hins vegar á óvart var hvernig Katrín brást við spurningu Jóhanns um einkavæðingu orkufyrirtækja ríkisins, í þeim efnum skildi hún eftir smugu. Katrín lagði áherslu á þá VG teldu komið nóg af einkavæðingu í samfélaginu og það væri mikilvægt atriði í stefnu flokksins að grunnþjónusta eins og orkufyrirtæki og rekstur vegakerfisins væri áfram í opinberri eigu. En væri þetta úrslitaatriði, spurði Jóhann Hauksson, t.d. í stjórnarmyndunarviðræðum ykkar við Sjálfstæðisflokkinn?  Katrín sagði að þetta væri mikilvægt stefnuatriði "en það alltaf erfitt að tala um úrslitaatriði þegar kemur að stjórnarmyndunum og slíku". Í viðræðum VG og Sjálfstæðisflokksins þyrfti um margt að semja enda væru þetta flokkar hvor á sínum á sstjórnmálanna "og við þurfum að sjá til en það er mjög skýrt að við teljum nóg komið af einkavæðingu," sagði Katrín og lagði sig fram um, fannst mér, að loka nú engum dyrum. Hlustið sjálf, hér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Rekstur vegakerfisins er að mestu nú þegar boðin út, bæði þjónusta við vegina og eins nýframkvæmdir. V-Grænir eru sem steinrunnin tröll þegar kemur að rekstri og fjársýslu enda er "gróði" skammaryrði í þeirra orðabók og þ.a.l. er hagræðing og nýting fjármuna ekki þeirra tebolli.

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.4.2007 kl. 12:54

2 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Ég sé nú ekki betur en vísbendingar um réttmæti daðurskenningar þinnar safnist í sarpinn. Þetta fer nú að verða svolítið fyndið að ganga "óbundinn til kosninga" um leið og maður skuldbindur sig til að halda ekki fast við skuldbindingar stefnu sinnar og skuldbindur sig til að vera opinn fyrir öllu og skuldbindur sig til að skuldbinda sig ekki til að taka einn samstarfsaðila fram yfir annan sé þess nokkur kostur. Má ganga að því vísu að þetta fólk mæti í þingsali ef það nær kjöri?

Pétur Tyrfingsson, 11.4.2007 kl. 15:36

3 identicon

Er ekki hægt að gera þá einföldu og  sanngjörnu kröfu að fólk sem vill láta taka sig alvarlega í stjórnmálum viti eitthvað um það er að tala?

Það kemur ekki lengur á óvart að Vg sé á móti virkjun að Þeistareykjum þó SJS hafi verið því fylgjandi áður en umhverfismál gáfu meira fylgi en 10%.
Spurningin er hinsvegar af hverju er Vg á móti þessum virkjunarkosti?

Ég vitna í formála rits Vg um sjálfbæra þróun sem Katrín sjálf ritar og kom út í dag en þar segir:
-------
„Umhverfisstefna Vinstri–grænna byggist á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Í skýrslu Brundtlandnefndarinnar: Sameiginleg framtíð vor (Our Common Future), sem gefin var út árið 1987, var sjálfbær þróun skilgreind á eftirfarandi hátt: Sjálfbær er sú þróun sem gerir okkur kleift að mæta þörfum okkar án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Þessi skilgreining hefur síðan verið útvíkkuð og dýpkuð í alþjóðlegri umhverfis- og heimspekiumræðu þannig að nú er hún einnig talin ná yfir rétt náttúrunnar og lífríkisins til að þróast á eigin forsendum"
-------
Hvernig fellur virkjun að Þeistareykjum ekki að þessari hugmyndafræði Vg ?

Egill Helga spurði Guðfríði Lilju hvað hún hefði á móti virkjun að Þeistareykjum og hún svaraði: "það verður kosið um það 12. maí". Því miður rangt svar hjá Guðfríði enda veit hún ekki af hverju hún né aðrir í Vg eru á móti.

Vg talar um byggðastefnu og atvinnumál á landsbyggðinni en er samt algjörlega á móti því að fyrirtæki (Þeistareykir ehf) í meirihlutaeigu heimamanna (Akureyri 32% og Orkuveita Húsavíkur 32%) fái að nýta jarðvarmann til atvinnuuppbyggingar á svæðinu. Vg talar um að ríkið eigi ekki að troða á einstaklingsframtakinu við atvinnuuppbyggingu með ríkisreknum virkjunum en þarna er ekki um það að ræða. Ef það er svona mikið issue af hverju er þá Landsvirkjun ekki bara einkavædd. Þarna virðist frekar vera um það að ræða að Vg ætlar að troða á frumkvæði heimamanna með vitleysunni sinni sem virðist takmarkalaus.

Iðnaðarráðherra svaraði Örlygi (Sf) um gríðarlega virkjanakosti á NA horninu, sjá hér. http://www.althingi.is/altext/131/s/0328.html

Það sem ég vil sjá er að ríkið ákveði næst að næstu losunarheimildum CO2 til stóriðju verði úthlutað á NA horninu en ekki á SV horninu. það er byggðastefna. Að tala um þensluáhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum á NA-horninu er brandari þegar fólk skoðar allar þær einka- og opinberu framkvæmdir sem eru í gangi á SV-horninu.

Margt fólk sem býr á NA horninu og hefur unnið þar að raunverulegri umhverfisvernd í verki í mörg ár sér ekkert að þessari framkvæmd meðan sjálfskipaðir umhverfisverndarsinnar í borg bleytunnar sem aldrei hafa gert neitt sérstakt til að vernda umhverfið vilja svo fá að ráða þessu með sínar "æðri" og "réttu" skoðanir á hlutum sem kemur svo í ljós að það veit ekkert um.

Hákon Hrafn (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 17:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband