hux

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þröstur frá DV til Blaðsins

Þröstur Emilsson hefur verið ráðinn fréttastjóri á Blaðinu. Þröstur var fréttastjóri á DV þegar blaðið hóf göngu sína undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar, fyrir nokkrum vikum, en er hættur og búinn að ráða sig yfir til Blaðsins og verður þar fréttastjóri við hlið Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur.

DV fær mann á móti því að í dag hættir á Blaðinu Trausti Hafsteinsson og fer til starfa hjá föðurbróður sínum, nefndum -sme. Þar hittir hann líka fyrir frændsystkini sín Janus og Hjördísi Sigurjónsbörn.

Af DV er það annars að frétta að sme ber sig vel yfir gengi blaðsins og segist vera að undirbúa að koma því í áskrift til lesenda. Nú er aðeins hægt að fá helgaráskrift en breyting verður væntanlega á því í apríl.


Óbundnar hendur

Auðvitað er það laukrétt hjá Jónínu Bjartmarz að með því að vinna gegn frumvarpi iðnaðarráðherra um auðlindir í jörðu og koma í veg fyrir afgreiðslu þess vann stjórnarandstaðan gegn náttúruvernd. Og það er laukrétt hjá Sæunni Stefánsdóttur að með þessari frestun hefur stjórnarandstaðan fært iðnaðarráðherra óbundnar hendur til þess að gefa út leyfi til rannsóknar og nýtingar á vatnsafli og jarðhita.

Og þegar Ingibjörg Sólrún talar um að frumvarpið hafi verið til marks um sátt stjórnarflokkanna einna er hún að dissa sinn eigin fulltrúa í nefndinni, Jóhann Ársælsson, hann tók þátt í að semja þetta frumvarp eins og Kolbrún Halldórsdóttir, þingkona VG, sem er sömuleiðis dissuð með afgreiðslu málsins sem hefði komið í veg fyrir að skref yrðu stigin til virkjana á nýjum svæðum fyrr en eftir gildistöku rammaáætlunar. Í greinargerð frumvarpsins segir:

Frumvarp þetta er samið af nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði.  Í nefndina voru skipaðir eftirtaldir aðilar: Karl Axelsson, formaður, tilnefndur af iðnaðarráðherra; [...] Arnbjörg Sveinsdóttir, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins; Birkir J. Jónsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins; [...]  Ingileif Steinunn Kristjánsdóttir, tilnefnd af þingflokki Frjálslynda flokksins; Jóhann Ársælsson, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar; Kolbrún Halldórsdóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.[...]"

Frumvarpið var samið í þverpólitískri sátt með þátttöku fulltrúa allra flokka, en stjórnarandstöðuflokkarnir virtu ekki niðurstöður sinna eigin fulltrúa þegar frumvarpið kom til meðferðar í þinginu. Þess vegna hefur iðnaðarráðherra óbundnar hendur um útgáfu nýrra leyfa. Þetta er svona. Og stjórnarandstaðan hefði líka getað lögfest frumvarp umhverfisráðherra um meginreglur umhverfisréttarins. En hún kaus frekar 70 klst málþóf um RÚV og að slá pólitískar keilur.


Capacent kannar og kannar

Í skoðanakönnuninni sem Capacent er að gera núna er meðal annars spurt hvort fólk sé líklegt eða ólíklegt til að kjósa framboðslista Íslandshreyfingarinnar, flokksins þeirra Margrétar og Ómars. Einnig er sams konar spurning um fylki við baráttuhóp aldraðra eða öryrkja.

Auk þess að spyrja um fylgi við flokka, aldur, menntun, fyrri störf, tekjur, skóstærð, fjölskylduhagi og hvað maður kaus síðast spyr Gallup hvort maður hafi orðið var við lækkun matarskatts í verslunum og veitingahúsum. Líka hvert mikilvægasta málefnið sé í kosningabaráttunni, annars vegar á landsvísu og hins vegar í viðkomandi kjördæmi. Svo er spurt: Hvað finnst þér brýnast að gert sé í samgöngumálum og málefnum aldraðra.


Göngur og réttir

Það hafa 1029 skrifað undir sáttmálann sem Framtíðarlandið lagði fram í gær núna kl. tæplega 12. Á heimasíðu þeirra getur maður lesið nöfnin og meira að segja leitað að því hverjir hafa skrifað og hverjir ekki. Athyglisvert, þetta er skipulagður og öflugur þrýstihópur, sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera.

Ég ákvað að nota þessi verkfæri á heimasíðunni í þeim eina tilgangi sem þau geta átt að þjóna, nefnilega til þess að leita að því hvaða þingmenn og þingmannsefni eru nú þegar búnir að hoppa á vagninn.  Það var fljótlegt að ganga úr skugga um að allir þingmenn VG eru nú þegar búnir að skrifa, nema Þuríður Backman, þingmaður í Norðausturkjördæmi. Spái því að hún eigi eftir að skila sér, og að hún sé óhrædd við að þurfa að deila við kjósendur sína í nágrenni Húsavíkur um réttmæti þess.

En það var athyglisvert  að leita þingmanna og þingmannsefna Samfylkingarinnar á þessum lista. Þar vantar býsna marga. Ingibjörg Sólrún, Ásta Ragnheiður, Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Gunnar Svavarsson, Guðbjartur Hannesson, Karl V. Matthíasson,  Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson, Lára Stefánsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Róbert Marshall. Öll þessi láta sig ennþá vanta. Hins vegar eru Össur, Mörður, Guðrún Ögmundsdóttir, Björgvin G. Sigurðarson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir búin að skrifa sig á listann og líka starfsmenn flokksins, Skúli Helgason, Dofri Hermannsson og Guðmundur Steingrímsson. Kannski Ingibjörg, Jóhanna og þau viti bara ekki af þessu, ef þið sjáið þau segið þeim að fara inn á framtidarlandid.is og undirrita sáttmálann og sýna í verki hvað það ríkir mikil eindrægni í hópnum um virkjanamálin.  


Kosningar í fullum gangi

Kosningar eru í fullum gangi. Á laugardaginn hófst utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þingkosninganna sem fara fram 12. maí. Samt er framboðsfrestur ekki runninn út og enn eru Ómar og Margrét að koma saman xÍ listunum fyrir Íslandshreyfinguna sína. Utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna álverskosninganna í Hafnarfirði sem fram fara 31. mars er líka búin að vera í gangi síðan 15. febrúar. Hún hófst um svipað leyti og Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri, lýsti því yfir að hann gæti ekki myndað sér skoðun á málinu af því að hann hefði ekki nægilegar upplýsingar í höndum. Ef Lúðvík hefur ekki upplýsingarnar, hver hefur þær þá?

Ómar + Margrét = xÍ

Í verður listabókstafur framboðs Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur og annarra aðstandenda. Mér er sagt að Ómar Ragnarsson sé búinn að tryggja sér þennan listabókstaf. Það hefur komið fram að vinnuheiti framboðsins er Íslandsflokkurinn. Umsókn um listabókstafinn Í bendir til að vinnuheitið eigi að verða endanlegt heiti. Það er stórt orð Hákot, sagði karlinn.

ps. 19.3: 08:50. Hermt er að nafn framboðsins eigi að verða Íslandshreyfingin - lifandi land.


Hann sagði það nú samt

Í Silfri Egils í dag þrætti Steingrímur J. Sigfússon fyrir að Ögmundur Jónasson hefði nokkru sinni sagt að hann vildi bankana úr landi. Svar Ögmundar við lesendabréfi á heimasíðu hans hefði verið afbakað. En Ögmundur sagði þetta nú samt eða það er amk fullkomlega eðlileg túlkun á ummælum hans. Hér er frétt Fréttablaðsins um málið, hér er pistillinn sem Steingrímur vísar til og hér er þessi færsla um málið.

Það sem Ögmundur sagði var þetta:

Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi


Meira um sameininguna sem ekki varð

Aðstandendum DV og Króníkunnar ber ekki saman um hvor aðilinn átti frumkvæði að viðræðum um sameiningu miðlanna tveggja. Í upphafi vildi Króníkufólk ná samlegðaráhrifum í rekstri skrifstofu, ljósmyndunar og umbrots. Krafa um að Króníkan yrði lögð niður kom fram frá DV á föstudag og það var hún sem leiddi til þess að Sigríður Dögg og Valdimar slitu viðræðum við Hrein Loftsson. Enginn af blaðamönnum Króníkunnar vildi fara yfir á DV.

Það er athyglisvert að  viðræður um samkrull þessara miðla hafi farið í gang svo skömmu  eftir að þeir hófu göngu sína. Það hlýtur að vera staðfesting á því að áætlanir eru ekki að ganga eftir og sala beggja er undir væntingum.

Hvað varðar efnistök eru DV og Króníkan kannski tvö ólíkustu blöðin á markaðnum og vandséð að þau eigi annað sameiginlegt en nýjabrumið. Það var alltaf vitað að Króníkan stæði og félli með Sigríði Dögg og Valdimar og að þau hefðu auk eiginfjár fengið lánsfé frá Björgólfsbatteríinu.

En maður hélt að bakland DV sem er í eigu Baugsveldisins, væri traustara en svo að fara þyrfti í svona æfingar eftir fáeinar vikur. Ég veit að frá upphafi hefur DV verið í klandri með að fullmanna stassjónina og hefur keypt talsvert af efni utan úr bæ frá degi til dags. Líklega sáu menn leik á borði að leysa mönnunarvandann á einu bretti og kaupa þaulreynda ritstjórn Króníkunnar. En hugmyndirnar að blöðunum tveimur eru gjörólíkar. Blaðamenn Króníkunnar slitu upp djúpar rætur á öðrum miðlum til þess að hrinda nýrri hugmynd í framkvæmd en ekki til þess að ráða sig á DV-skútuna.


Yfirtaka DV á Króníku rann út í sandinn

Fyrir tveimur klukkutímum runnu út í sandinn viðræður um yfirtöku DV á Króníkunni. Tilboð DV til Örnu Schram um aðstoðarritstjórastöðu var liður í einhvers kona taugastríði meðan þreifingar stóðu yfir um sameiningu, eða frá sjónarhóli DV: yfirtöku á Króníkunni, sem átti að hætta að koma út.

DV menn töldu sig hafa náð samningum við eigendur Króníkunnar, hjónin Sigríði Dögg og Valdimar Birgisson, og átti að undirrita samning kl. 17 í dag. Af því varð ekki, að sögn vegna þess að Ólafsfell, félag í eigu Björgólfsfeðga, neitaði að framselja DV lánssamning við útgáfufélag Króníkunnar. Talið er að þess í stað hafi Króníkunni verið tryggt fé til að halda áfram útgáfunni.

Samkomulagið er sagt hafa gert ráð fyrir að Sigríður Dögg yrði umsjónarmaður Helgarblaðs DV og Valdimar auglýsingastjóri. Jafnframt hafi DV ætlað að yfirtaka launasamninga allra starfsmanna Króníkunnar sem vildu koma til starfa á DV. Þreifingar milli blaðanna munu hafa hafist fyrir viku, gengu hægt í fyrstu, en komust á skrið í gær, og stefndi í samkomulag þar til Björgólfsfeðgar ákváðu að koma í veg fyrir að Króníkan kæmist í hendur félags í eigu Baugs.


Upphefðin kemur að utan

Ingibjörg Sólrún er nú á fundi sænskra jafnaðarmanna sem ætla að heiðra hana, það má með sanni segja að upphefð hennar komi að utan þessa dagana. Ingibjörg vék af þingi fyrir Ellert B. Schram meðan allt var í háalofti í pólitíkinni. Mér er sagt að alþingi beri kostnaðinn af ferðalagi hennar.

ps. Skúli Helgason, framkvæmdstjóri Samfylkingarinnar, segir í kommenti hér að Alþingi beri engan kostnað af ferðinni heldur sé hún farin á kostnað Samfylkingarinnar. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband