hux

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Fórnarlamb dagsins

Ólafur Hannibalsson hefur skrifað reglulega greinar á leiðarasíðu Fréttablaðisins undanfarin þrjú ár. Greinin í dag fjallar um að þetta sé síðasta greinin hans á þessum vettvangi, af því að ritstjórnin hafi tilkynnt að nú verði gerðar breytingar á hópi pistlahöfunda og þjónustu hans sé ekki óskað lengur. Það er greinilegt að Ólafi er misboðið, hann hefur reiknað með að skipa þennan sess á síðum blaðsins svo lengi sem hann sjálfur vildi. Kannski telur hann að blaðinu - en ekki honum sjálfum - sé sómi sýndur með því að hann skrifi á leiðarasíðuna.

Að minnsta kosti velur Ólafur að kveðja lesendur sína með því að hrauna yfir Fréttablaðið og Ríkisútvarpið, þá fjölmiðla sem veitt hafa honum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með áberandi hætti undanfarin ár. Það eru samsæri í hverju horni. Hvers vegna ritstjórn Fréttablaðsins taldi nauðsynlegt að birta þetta veit ég ekki - nema þeim finnist það bara í anda páskanna að hafa fórnarlömb í hávegum.


Þegar Magnús Þór kvartaði undan of strangri útlendingalöggjöf

Þegar lögum um útlendinga var breytt á Alþingi árið 2004 til þess að undirbúa stækkun ESB til austur hafði Magnús Þ. Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, helst áhyggjur af því að lögin gengju of langt og yrðu til þess að íslenska útlendingalöggjöfin yrði of ströng, jafnvel enn strangari en sú danska. Ég kem orðum hans á Alþingi þá ekki alveg heim og saman við það hvernig hann talar nú. Auðvitað hefur Magnús fullan rétt á að skipta um skoðun og kannski hefur hann gert það en ef ekki þá verður hann kannski svo vinsamlegur að útskýra hvernig það sem hann sagði þá samræmist því hvernig hann talar nú um þessi mál.

Í ræðu sinni sagði Magnús:

Mér finnast reglur eins og um 24 ára aldurinn, 66 ára aldurinn og lífsýnatökur og annað lykta af nokkurs konar nesjamennsku sem kannski má útskýra með einhverri landlægri hræðslu sem liggur í þjóðarsálinni sem sennilega var plantað þar inn þegar Tyrkjaránin stóðu sem hæst árið 1627 eða þar um bil. [...] [Kolbrún Halldórsdóttir] sagði að núgildandi lög yrðu strangari, íslensku lögin um útlendinga, þ.e. þegar þær breytingar sem nú liggja fyrir þinginu verða komnar í gegn verði íslenska löggjöfin í rauninni strangari en sú danska. Mér varð svolítið bilt við að heyra það því danska löggjöfin hefur verið mjög umdeild, það dylst engum sem fylgist með dönskum stjórnmálum að einmitt útlendingalögin og stefna danskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda hefur verið mjög umdeild. Í Danmörku eru allt aðrar aðstæður en á Íslandi. Danmörk liggur miklu nær þéttbýlum svæðum í Evrópu og samgöngur á milli Danmerkur og annarra staða í heiminum, þaðan sem kannski kemur mikið af innflytjendum t.d. frá Afríku, Asíu, fjarlægum heimsálfum, eru með allt öðrum hætti en á Íslandi. Ísland er eyja úti í miðju Atlantshafi, það er yfir stórt og mikið haf að fara fyrir fólk sem vill hugsanlega koma hingað og fá hér aðsetur. Það er dýrt að ferðast hingað. Það eitt virkar því bara sem mikill hemill, (GHall: Enn þá.) frú forseti, á aðsókn útlendinga hingað til lands. Ég heyri að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson segir enn þá. Kann að vera enn þá. Ég gæti á vissan hátt tekið undir það. [...]Þá ber kannski að skilja löggjöfina núna sem svo að menn séu að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. En mér finnst það í raun og veru óþarfi og mér finnst þá kannski óþarfi að ganga svona langt að setja inn reglu eins og t.d. þá um 24 árin. Mér finnst það óþarfi. En nóg um það. 

Kannski var það vegna þessa málflutnings sem fjandvinur Magnúsar Þórs, Gunnar Örn Örlygsson, sagði eitthvað á þá leið í grein í Mogganum að Magnús væri ekkert á móti útlendingum en hann væri tilbúinn til að þykjast vera það til þess að ná sér í atkvæði.  Í þeirri grein rifjaði Gunnar Örn upp að Magnús Þór, hefði kvartað undan hörku yfirvalda þegar þau vísuðu norskum Hell's Angels hópi frá landinu.


Frjálslyndi og staðreyndir

Það má deila endalaust um smekk en sá sem fer rangt með staðreyndir getur ekki bara sagt: mér finnst það nú samt, ef hann vill láta taka sig alvarlega. Þetta er formáli að umfjöllun um málflutning frjálslyndra í málefnum útlendinga. Auðvitað mega þeir vera á móti útlendingum en þegar þeir vilja styðja mál sitt með staðreyndum er rétt að gá að hvað á baki býr. Og nú skulu hér  nefndt tvö dæmi um að Frjálslyndir hafi sýnt fullmikið frjálslyndi í staðhæfingum um staðreyndir í umræðum um útlendinga undanfarna daga. Fyrra dæmið varðar berkla og sóttvarnir, hið síðara "undanþáguheimildir" EES-samningsins.

Úr röðum frjálslyndra hefur verið rætt um hættu á berklafaraldri vegna útlendinga og nauðsyn þess að efla sóttvarnir. Tók ég rétt eftir að Magnús Þór Hafsteinsson hefði sagt í Silfri Egils að embætti sóttvarnarlæknis hefði verið stofnað í skjóli nætur síðastliðið vor vegna hættu á smitsjúkdómum frá útlendingum? Hvað sem því viðvikur er þetta reginfirra. Árum saman hefur Haraldur Briem sóttvarnarlæknir og haft það verkefni að skoða þá sem hingað flytjast frá löndum utan EES m.t.t. berklasmits.

Kunningi þessa bloggs úr  læknastétt gaukaði að mér upplýsingum af heimasíðu landlæknis þar sem er að finna töflu yfir fjölda berklatilfella frá árinu 1997. Þar kemur í ljós að berklatilfellum hefur alls ekki fjölgað, þau voru 10 árið 1997, 17 árið 1998, 12 árið 1999, 9 árið 2000, 15 árið 2001, 8 árið 2002, 8 árið 2003 og 8 árið 2004 en 11 árið 2005. Að jafnaði hefur aðeins um 1-2 tilvik á ári verið vegna smitandi berkla. Helmingur tilfella greinist í eldri Íslendingum, sem smituðust á unga aldri, meðan hér geysaði berklafaraldur. Sjúkdómurinn blossar upp þegar aldurinn færist yfir því þá verður ónæmiskerfið veikara fyrir.

Árni Páll Árnason, frambjóðandi Samfylkingarinnar og sérfræðingur í Evrópurétti, er búinn að leggjast yfir 1. apríl auglýsingu frjálslyndra og tætir í sig það sem þar segir um EES-samninginn og í honum sé undanþáguákvæði sem frjálslyndir vilji nýta til að stjórna flutningi vinnuafls til landsins.  Árni Páll segir

Staðreyndin er einfaldlega sú að ekki stendur steinn yfir steini í staðhæfingum Frjálslyndra í þessu efni. Tillögur þeirra fela í sér að brotið verði gegn ákvæðum EES-samningsins og tekin upp höft í milliríkjaviðskiptum til að halda uppi verði á vinnuafli innanlands. EES-samningurinn er forsenda efnahagslegrar velmegunar í landinu síðastliðinn einn og hálfan áratug. Við eigum ekki að stofna honum í hættu þótt Frjálslyndir séu með örvæntingarfullum hætti að leita að athygli.


Fleiri komust að en vildu

Það vakti athygli á ársfundi Seðlabanka Íslands síðastliðinn föstudag að hann var óvenjufámennur. Venjulega hafa slíkir fundir verið viðburðir í íslensku efnahagslífi en nú var fundurinn fremur illa sóttur. Menn sem setið hafa þá nokkra telja að nú hafi vantað 40-50% af fastagestunum.  Hvers vegna skyldi það nú vera? spurði ég, þá ypptu menn öxlum en nefndu að pirrings væri farið að gæta hjá forkólfum atvinnulífsins í garð formanns bankastjórnarinnar.

Hvar eru verkalýðsflokkarnir?

Í öllum umræðunum í aðdraganda kosningarinnar í Hafnarfirði var kyrjað heldur lágt, en kyrjað þó, eitt stef sem mér þykir vert að gefa meiri gaum. Þetta er umræðan um það hvort vinstri flokkarnir hafi fjarlægst uppruna sinn, horfi ekki lengur á heiminn út frá hagsmunum vinnandi fólks, fólksins sem þeir voru stofnaðir til að berjast fyrir.

Gæðabloggarinn Pétur Tyrfingsson,  er farinn að láta að sér kveða í umræðum á ný af miklum krafti (man síðast eftir að hafa heyrt til hans tala um pólitík þegar hann var að takast á við Hannes Hólmstein á fjörugum málfundum í MR fyrir svona 30 árum). Hann  hefur fjallað um þetta á sínu bloggi. Pétur er í VG en hefur verið eina röddin sem ég hef heyrt úr þeim herbúðum halda á lofti hagsmunum verkalýðsins í álverinu. Sjá t.d. skrif hans um þetta hér og hér þótt greinilega sé hann hlynntur íbúalýðræði og hafi lýst andstöðu við Kárahnjúkavirkjun.

Og það var líka fast skotið sem vinstri flokkarnir fengu í grein sem trúnaðarmaður VR í álverinu, Andrés Ingi Vigfússon, birti í Mogganum sl. þriðjudag. Þar tekur hann vinstri flokkana á beinið fyrir að vera firrtir uppruna sínum. Þeir skoði heiminn frá sjónarhóli ungra menntamanna en hafi sagt skilið við alþýðu manna. Andrés segir: 

Sá flokkur sem skilgreinir sig lengst til vinstri og leggur ríkari áherslu en aðrir á félagshyggju, jafnrétti kynjanna og réttindi vinnandi fólks, leggur stóriðjuna nánast í einelti og vill helst hafa störfin af okkur sem vinnum í álverinu. Í staðinn er boðið upp á „eitthvað annað“ sem að mínu viti eru slæm býtti. Hinn flokkurinn á vinstri vængnum er lítið skárri þótt andstaðan við okkar góðu störf sé ekki eins afdráttarlaus og hjá þeim sem fyrr voru nefndir. Flokkurinn virðist hafa gleymt uppruna sínum enda er svo komið að vinnandi fólk á varla samleið með honum...

Vinstri flokkarnir voru stofnaðir til að standa vörð um hagsmuni fólksins sem hafði ekki annað að selja en handafl sitt. Þá var öldin önnur...


Spádómur dagsins

"Kannski páskarnir verði viðburðaríkur tími í sögu Glitnis?" Svona enda Staksteinar í dag eftir umfjöllun um átök í eigendahópni Glitnis. Staksteinar segja að þau átök muni örugglega enda með því að Hannes Smárason yfirtaki bankann. Ég er vanur því að leggja við hlustirnar þegar ritstjóri Moggans birtir spádóma, það má segja að ég sé í hópi hinna trúuðu. Því ætla ég að trúa því að niðurstaða komi í deilur stóru strákanna í Glitni um páskana og að í næstu viku verði Hannes orðinn aðalmaðurinn þar eins og sums staðar annars staðar. Ég held ég hafi ekki verið svona spenntur síðan ég var að bíða eftir 2000 vandanum.

Er kaffibandalagið til eftir auglýsingu Frjálslyndra?

Eftir auglýsingu Frjálslynda flokksins í Fréttablaðinu í dag hlýtur að vera komið að því að Samfylkingin og Vinstri grænir taki endanlega afstöðu til þess hvort málflutningur Frjálslyndra í garð útlendinga gangi of langt til þess að flokkurinn teljist samstarfshæfur.

Hingað til hafa þeir sagst mundu fylgjast með hvernig Frjálslyndir töluðu um útlendinga, ennþá væri málflutningurinn í lagi en ef Frjálslyndir gengju of langt yrðu þeir ekki samstarfshæfir. Hvað segja þeir nú?

Ég hef hlustað á Guðjón Arnar Kristjánsson segja í leiðtogaþætti á Stöð 2 að Frjálslyndir meini nánast ekkert með þessu tali öllu, útlendingamálin verði tekin út af borðinu um leið og stjórnarmyndunarviðræður hefjist og en nú birtist þessi dæmalausa auglýsing. Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða fyrir aðra aðstandendur Kaffibandalagsins að gera nú strax upp við sig hvort það eigi að gefa þessu sambandi líf eða ekki.


Sögulegt

Söguleg og merkileg niðurstaða er fengin í íbúakosningum í Hafnarfirði. 88 atkvæði skilja fylkingarnar í kosningu þar sem þátttaka var gríðarleg. Endanleg niðurstaða er fengin í málið með lýðræðislegum hætti.

Hafnarfjörður er kannski vinstrisinnaðasta sveitarfélag á Íslandi, þar voru VG og Samfylking samtals með um 67% atkvæða í sveitarstjórnarkosningunum sl. vor. Því kemur niðurstaðan kannski ekki mjög á óvart og endurspeglar meðal annars það sem vitað var að mjög skiptar skoðanir hafa verið um þessi mál meðal  kjósenda Samfylkingarinnar.  Andstaðan hefur hins vegar farið þvert á flokka og andstæðinga mátti finna í öllum flokkum og stuðningsmenn sjálfsagt líka. Eins er eðlilegt að menn velti því nú fyrir sér, eins og ég sé að ýmsir bloggarar eru þegar farnir að gera,  hvort rammpólitískar yfirlýsingar Seðlabankastjóra frá því í gær hafi ráðið úrslitum. Hver sem þýðing þeirrar yfirlýsingar var á endanum er ekki vafi á því að hún sætti talsverðum tíðindum.

Og víst verður fróðlegt að fylgjast með áhrifum þessara úrslita á umræður næstu daga og vikur.


Eldfjöll og dollarar: hvað er eitt núll milli vina?

Hugmyndin um Eldfjallagarð á Reykjanesi hefur fengið mikla athygli sem valkostur í atvinnumálum. Henni hefur verið haldið á lofti af Landvernd en þó einkum Ómari Ragnarssyni og hans fólki í seinni tíð. Á dögunum var viðtal við Ástu Þorleifsdóttur, jarðfræðing um þetta í sjónvarpinu þar sem fram kom að tekjur af eldfjallagarði í Hawaii, sem iðulega er nefndur sem fyrirmynd eldfjallagarðsins á Reykjanesi, næmu milljörðum. Á vef Víkurfrétta er svo greint frá því að tekjur af eldfjallagarðinum á Hawaii, , séu um 5 milljarðar króna á ári. Fréttin byggir á því sem fram kom í erindi Ástu Þorleifsdóttur á fundi Landverndar,  á Suðurnesjum  25. febrúar.

Í dag var svo haldinn aðalfundur Hitaveitu Suðurnesja en þar flutti Júlíus Jónsson, forstjóri, ræðu og greindi frá því að hann hefði kynnt sér mál varðandi eldfjallagarðinn á Reykjanesi og m.a. skoðað glærur þær sem Ásta byggði erindi sitt á. Þar hefði hann komist að raun um það að samkvæmt henni væru tekjur eldfjallagarðsins á Hawaii 7 milljónir dollara á ári. Það eru um 500 milljónir króna. En Ásta (sem  gekk einmitt úr Frjálslynda flokknum með Margréti Sverrisdóttur) virðist hafa margfaldað gengi dollarans með  rúmlega 700 en ekki rúmlega 70 til þess að umreikna yfir í íslenskar krónur. Þannig fær hún út fimm milljarða en ekki 500 milljónir.

Auðvitað er hugsanlegt að mistök Ástu hafi verið fólgin í því að skrifa 7 milljónir dala en ekki 70 milljónir dala á glæruna. Hvort heldur er verður væntanlega útskýrt og þá með vísun í þær heimildir sem á er byggt. Eins og málið lítur út núna er Eldfjallagarðurinn í Hawaii sannarlega ekkert stórfyrirtæki á íslenskan mælikvarða og varla einu sinni á Suðurnesjamælikvarða.


Skarð fyrir skildi

Það vakti athygli á fundi með alþingismönnum sem stjórn SÁÁ boðaði til í gær að enginn fulltrúi Vinstri græningja átti tök á að sækja fundinn. Vakti það athygli þar sem VG beitir sér einatt í áfengismálum, kom t.d. nýlega í veg fyrir að leyfð yrði sala á áfengi í matvörubúðum. En VG vantaði sem sagt á fundinn og voru umræður rólegar og málefnalegar. Þó varð smá uppistand þegar Pétur Blöndal, fulltrúi sjálfstæðismanna, spurði hvort SÁÁ-menn hefðu aldrei velt því fyrir sér að það væri óheppilegt að yfirlækniirinn væri líka stjórnarformaður. Þá kom svipur á gestgjafana en allt var það þó með ágætum brag.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband