27.4.2007 | 15:57
Á atkvæðaveiðum í gruggugu vatni?
"Við komum í veg fyrir að vatnið væri einkavætt þangað til þá eftir kosningar, þannig að nú er meðal annars hægt að kjósa um það í vor hvort menn vilja að einkavæðingarlög ríkisstjórnarinnar um vatnið gangi í gildi eða hvort við fáum meirihluta til að fella þau úr gildi."
Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon í viðtali við Morgunvakt Ríkisútvarpsins í morgun og var þá að lýsa sigrum stjórnarandstöðunnar á liðnum vetri. Einkavæðing á vatni! Þetta hljómar eins og það eigi að fara að setja gjaldmæla á kranann inni í eldhúsi hjá manni? Er það svo? Er VG að fara að heyja kosningabaráttu sem snýst um það að það sé markmið þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni að láta almenning í landinu borga einkaaðilum gjald fyrir aðgang að neysluvatni? Hvað hefur VG fyrir sér í þessu?
27.4.2007 | 13:29
Herra og frú
Félagsmálaráðuneytið auglýsir stöðu skrifstofustjóra barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu lausa til umsóknar á netinu í dag og rennur umsóknarfrestur út 31. maí, eða löngu eftir kosningar. Það rifjar upp þessi ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur í grein í Mogganum 28. mars þar sem hún sagði:
Það eina sem ráðherrann nefnir er að setja eigi á fót nýja skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu, væntanlega til að ráðherrann geti skipað skrifstofustjóra í það embætti áður en hann hverfur úr ráðuneytinu í vor.
Umsóknarfresturinn rennur sem sagt út eftir kosningar, Jóhanna, skuldarðu ekki "þessum herramanni" í félagasmálaráðuneytinu afsökunarbeiðni?
27.4.2007 | 13:29
Vænn vefur
Nýr og athyglisverður vefur natturan.is sem er bæði verslun með umhverfisvænar vörur og líka hjálpartæki fyrir neytendur sem þurfa að komast í samband við umhverfisvæn fyrirtæki eða vörur sem eru umhverfisvænni en aðrar. Allir geta lagt til efni og upplýsingar. Það er Gunna Tryggva, sem haldið hefur úti grasagudda.is, sem er potturinn og pannan á bak við natturan.is.
26.4.2007 | 16:41
Norska ríkisstjórnin?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Bloggið hans Össurar er horfið af Hexia-slóðinni þar sem það hefur verið frá upphafi og engar slóðir á síðuna hans eru virkar. Allar aðrar síður sem ég nota hjá Hexia eru í lagi. Hvað er nú á seiði? Tvær hugmyndir: 1. Er Samfylkingin búin að setja Össur í bloggbann fram yfir kosningar? Varla trúi ég því. 2. Eða er Össur að flytja sig á nýjar slóðir, e.t.v. hingað á Moggabloggið? Komi hann þá fagnandi.
Uppfært kl. 12.28: Meðfylgjandi athugasemd hefur borist við þessa færslu frá Tóta, sem er aðalmaðurinn hjá Hexia: Hann upplýsir gátuna og segir: "Heh, rólegan æsing. Samspil nokkurra þátta. Alvarleg Ruslkommentaárás á kerfið og gagnagrunnur að svitna undan álagi. Verið er að þurrka svitann af gagnagrunninum og Össur ætti að vera kominn á sinn stað innan tíðar."
Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt um tölvumálin, nú veit ég að gagnagrunnar eiga það til að svitna. Takk fyrir upplýsingarnar, Tóti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
26.4.2007 | 09:15
Sjaldan er undirfyrirsögn ein á ferð
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
25.4.2007 | 20:21
Ég verð að segja það
Ég sá frétt á Stöð 2 um að það væri óánægja innan Framsóknarflokksins vegna þess að iðnaðarráðherra hefði ákveðið að skipa Jóhannes Geir Sigurgeirsson ekki áfram sem stjórnarformann þótt hann hafi lýst áhuga á þessu. Ég er alveg hissa á þessu, ég verð að segja það, Jóhannes Geir er búinn að sitja þarna í stjórninni í 12 ár. Er það ekki ágætur tími? Er ekki eðlilegt að skipta reglulega um menn í opinberum trúnaðarstörfum, jafnvel þótt ekki væri um að ræða fyrirtæki sem á síðari árum er orðið eitt umdeildasta fyrirtæki landsins og í tómu tjóni í almennri umræðu, svo ég segi það bara hreint út?
Og eru einhver málefnaleg rök gegn því að skipa í hans stað Pál Magnússon, sem er æðsti embættismaður næststærsta sveitarfélags landsins? Og sem hefur verið aðstoðarmaður iðnaðarráðherra frá því einhvern tímann um aldamót, ef ég man rétt, og gjörþekkir orkugeirann frá öllum hliðum. Ég verð að segja það sem framsóknarmaður að ég bókstaflega treysti engum manni betur en Páli Magnússyni til þess að standa vörð um þá ályktun flokksþingsins að orkufyrirtæki ríkisins verði áfram í eigu almennings á næstu árum. Það gæti meira að segja gerst að Landsvirkjun næði aftur fyrri vinsældum undir stjórn Páls.
25.4.2007 | 15:23
Óspurðar fréttir
Fréttablaðið greindi frá því í gær að það hefði árangurslaust reynt að ná tali af Geir H. Haarde til að spyrja um afstöðu hans til þeirrar hugmyndar Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, að komið verði á eðlilegu sambandi milli Íslands og þjóðstjórnar Palestínu.
Tilefni þess að Fréttablaðinu þykir rétt að fá fram sjónarmið Geirs er augljóslega það að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt ályktun sem virðist fela í sér að Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn samskiptum við stjórnvöld í Palestínu.
Þegar ég heyrði að Morgunvaktin á RÚV hefði átt ítarlegt viðtal við Geir í gærmorgun leitaði ég að því á netinu til þess að heyra svar hans við spurningunni. Ég varð fyrir vonbrigðum, spurningin kom ekki fram.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.4.2007 | 10:53
Hin eiginlega stjórnarandstaða
Ég hef verið hin eiginlega stjórnarandstaða. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogi Kaffibandalagsins í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.
Steingrímur J er í viðtölum í tveimur blöðum í dag. Í viðtalinu við Fréttablaðið sætir það eitt tíðindum finnst mér að Steingrímur áætlar kostnaðinn við að hrinda í framkvæmd áætlun flokksins um að útrýma fátækt og segir að það muni kosta 10-12 milljarða króna. Það finnst mér benda til þess að amk eitt af þrennu eigi við: 1. VG-liðar séu ótrúlega snjallir ef hægt er að útrýma fátækt fyrir upphæð sem er ekki hærri en sem nemur 3-4% af ríkisútgjöldum; 2. að í þessu felist viðurkenning á almennri velmegun þjóðarinnar; 3. VG-liðar séu ekki mjög sterkir í reikningi og að þessi tala sé bara fengin með því að setja vísifingurinn reiðilega upp í vindinn. Í raun viti VG ekkert hvað hugmyndir þeirra kosta.
Í viðtalinu við Viðskiptablaðið, sem er hvasst og ber með sér að samræður hafi verið líflegar, nefnir Steingrímur svo að hann telji að þriðjungur aldraðra búi við fátækt og fimm þúsund börn á Íslandi alist upp við fátækt. Þannig að það er ekki þröng skilgreining sem hann styðst við þegar hann lýsir því yfir að með 10-12 milljörðum króna megi útrýma fátækt á Íslandi með áætlun VG.
Hér kemur í lokin sá kafli þar sem Steingrímur krýnir sjálfan sig sem hina eiginlegu stjórnarandstöðu. Auðbjörg Ólafsdóttir, blaðamaður, minnir Steingrím á að sums staðar í þjóðfélaginu sé talað á þeim nótum að það sé hættulegt hagsmunum viðskipta- og efnahagslífsins ef VG fái aðild að ríkisstjórn og Steingrímur yrði e.t.v. fjármálaráðherra. Steingrímur svarar:
Það er fyrst og fremst ríkisstjórnin og málpípur hennar sem eru að reka þennan hræðsluáróður gegn flokknum og mér. Það er vegna þess að ég hef verið hin eiginlega stjórnarndesstaða í þessum efnum og haldið uppi málefnalegu andófi gegn ábyrgðarleysinu. Ég varaði við skattalækkununum eins og þær voru útfærðar í miðri þenslunni og ég benti á að það gæti verið leikur að eldi að hækka húsnæðislánin í 90%.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.4.2007 | 23:18
"Þessir herramenn"
Jóhanna Sigurðardóttir blandaði sér loksins í kosningabaráttuna í þætti sjónvarpsins um félagsmál í kvöld. Ég hef verið að undrast það að Samfylkingin hafi haldið Jóhönnu til hlés í baráttunni og líka fólki eins og Helga Hjörvar og Ástu Ragnheiði - þetta eru einhverjir öflugustu þingmenn flokksins og hafa líka sterka félagslega skírskotun, þau er líkleg til að vinna flokknum fylgi frá Vinstri grænum. Kannski hefur planið verið það að geyma þau fram á lokaspretinn, sem framundan er. Það gæti borið árangur.
En Jóhanna mætti í kvöld og talaði um félagsmál enda þekkir hún þau mætavel eftir langan þingferil. En það sem vakti mesta athygli mína við framgöngu Jóhönnu var að hún nýtti hvert tækifæri til þess að beina spjótum að fulltrúum ríkisstjórnarflokkana með ávarpinu "Þessir herramenn". Þetta sagði hún oftar en ég hef tölu á og því oftar sem hún notaði ávarpið því augljósara varð að í hennar huga er þetta ekki eitthvert kurteisisávarp heldur argasta skammaryrði. Þegar ég horfði á þetta minntist ég þess að einhverjir voru að tala um það um daginn að líklega væri íslenska þjóðin sú eina sem notaði orðið herrar og herramenn sem skammaryrði, amk var það þannig að í munni Jóhönnu í kvöld hljómaði: "Þessir herramenn" svona álíka virðulega og ef hún hefði sagt: "Þessar kellingar".
24.4.2007 | 19:05
Geir skiptir um gír
Það er athyglisvert viðtal við Geir H. Haarde, forsætisráðherra, í Viðskiptablaðinu í dag. Þar talar Geir mun ákveðnar gegn "stóriðjustoppi" og mun ákveðnar með stóriðjuframkvæmdum en ég hef séð frá honum lengi og glöggur maður benti mér á að hér kveði við aldeilis annan tón en einkenndi ræðu hans á Landsfundi flokksins fyrir rúmri viku. Eftir þann landsfund var tónninn talinn sá að sjálfstæðismenn vildu hægja á ferðinni í stóriðjumálum. En það er ekki aldeilis svo að sjá á þeim orðum sem höfð eru eftir Geir í Viðskiptablaðinu. Hann segir:
Stóriðjustopp yrði síst til fallið að sporna gegn yfirvofandi samdrætti. Þvert á móti höfum við séð það fyrir okkur að áframhald á stóriðju gæti komið í veg fyrir samdrátt í hagkerfinu. Með því á ég ekki við að allt þurfi að gerast í einu. Tímasetning stóriðjuuppnbyggingar þarf að vera rétt og það þarf að vera rými fyri rþær í hagkerfinu. Ég tel að þetta rými sé til staðar nýuna. Ég tel að reynslan af stóriðjuframkvæmdunum fyrir austan sýni að okkar hagkerfi er orðið nægilega stórt til að rúma svona aðgerðir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.4.2007 | 11:36
Uppskurður eða niðurskurður?
Niðurskurður í heilbrigðis- og velferðarkerfinu í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þetta er leiðarstef í kosningabaráttu stjórnarandstöðunnar. Andspænis því stefi teflir Sigfús Ingi Sigfússon, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins, eftirfarandi staðhæfingu í grein í Blaðinu í dag:
Framlög ríkisins til heilbrigðismála voru til að mynda áætluð ríflega 80 milljarðar á árinu 2006 og höfðu þá aukist að raungildi um 27,5 milljarða frá árinu 1998 eða um 49%. Framlög ríkisins samkvæmt fjárlögum 2006 námu um 8% af áætlaðri vergri landsframleiðslu. Árið 1998 nam þetta hlutfall 6,9%. [...] Framlög ríkisins til almannatrygginga og velferðarmála voru áætluð 73,4 milljarðar króna í fjárlögum 2006 og jukust að raungildi um 23 milljarða króna frá árinu 1998 eða um 45%. Framlög ríkisins til almannatrygginga og velferðarmála samkvæmt fjárlögum 2006 námu um 7% af áætlaðri vergri landsframleiðslu. Árið 1998 nam þetta hlutfall 6,3%.
Spurningin er vitaskuld þessi: Fer Sigfús með rétt eða rangt mál? Hann staðhæfir að staðreyndirnar séu svona og nú stendur upp á stjórnarandstöðuna að sýna fram á að hann fari með rangt mál.
Og fyrst ég er farinn að blogga um þetta er rétt að nefna það að frambjóðandi í 13. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík norður, sem starfar sem stjórnandi á Landsspítalanum var í fréttum Stöðvar 2 í fyrrakvöld að tala um svikin loforð stjórnvalda og niðurskurð í málefnum geðsjúkra. Það er með hreinum ólíkindum að opinber embættismaður gangi fram með þessum hætti í kosningabaráttu sinni og ég gef mér að fréttamaður Stöðvar 2 hafi ekki vitað um pólitískan status viðmælandans.
En svo er þessi punktur: Ríkið úthlutar fjármunum til heilbrigðisstofnana, þar á meðal LSH. Stjórnendur LSH og heilbrigðiskerfisins almennt hafa það verkefni að forgangsraða í rekstrinum innan sinna stofnana. Án þess að ég vilji halda því fram að stjórnmálamenn beri ekki pólitíska ábyrgð á rekstri sjúkrahússins vil ég benda á að stjórnendur í heilbrigðis- og velferðargeiranum eru aldrei spurðir: hvers vegna forgangsraðið þið með þessum hætti? Bitnar forgangsröðun ykkar stundum á þeim hópum, sem höllustum fæti standa, af því að þannig er best að fá fjölmiðla til liðs við ykkur í því að þrýsta á stjórnmálamenn um meiri framlög?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.4.2007 | 18:47
Þurr tár Árna Bergmann
Ég heyrði Árna Bergmann, fyrrverandi Þjóðviljaritstjóra, lýsa því yfir í viðtali við Frey Eyjólfsson á Rás 2 í dag að Boris Jeltsín hefði verið lélegur forseti og yrði grátinn þurrum tárum. Nú er ég lítið fyrir það að halda á lofti orðum Möggu Thatcher en ég hallast samt að því að hún hafi rétt fyrir sér um að kallsins verði lengi minnst, amk á Vesturlöndum. Það mun lifa minningin um það að Jeltsín var tákngervingur þess að sovéska hernum tókst ekki að brjóta aftur lýðræðisþróunina í Sovétríkjunum með vopnaðri uppreisn. Hver man ekki eftir honum við stjórnarbyggingarnar, standandi uppi á skriðdreka, hvetjandi hermenn til þess að hlýða ekki fyrirskipunum yfirmanna sinna? Þetta verður ekki af honum tekið þótt hann hafi misþyrmt lifrinni sinni meir og lengur en flestir aðrir og vakið athygli fyrir opinber drykkjulæti.
Það er líka ógleymanlegt að hafa heyrt Bóris Jeltsín lýsa því í sjónvarpi hvernig hann upplifði það að koma í fyrsta skipti í stórmarkað á Vesturlöndum og sjá aðganginn sem vestrænir fátæklingar höfðu að varningi sem aðeins forréttindastéttin í Sovétríkjunum gat látið sig dreyma um. Á þeirri stundu gerði hann sér ljóst að hann var alinn upp í hugmyndafræði lyga og blekkinga. Ég er ekki eins vel að mér um rússnekt stjórnmál og Árni Bergmann en ég held að Jeltsín verði lengi minnst sem eins eftirminnilegasta þjóðarleiðtogans á 10. áratug síðustu aldar.
Thatcher: Án Jeltsíns væru Rússar enn í greipum kommúnismans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.4.2007 | 18:46
Hvað tafði?
Hitaveita Suðurnesja og Norðurál undirrita orkusamning vegna álvers í Helguvík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.4.2007 | 15:09
VG dagsins
Ögmundur Jónasson sér greinilega aðeins tvo möguleika á ríkisstjórnarmyndun í spilunum eftir kosningar: 1. Kaffibandalagið sem nýtur 3,9% fylgis þjóðarinnar. 2. Samstjórn VG og Sjálfstæðisflokksins. Af hverju dreg ég þá ályktun? Þessum orðum verðandi bankamálaráðherra VG í svari við lesendabréfi á heimasíðu sinni:
Hvað Framsókn varðar finnst mér að fólk eigi að halda áfram að vera góðhjartað. Mesta náð og líkn sem ég get hugsað mér Framsóknarflokknum til handa er að kjósendur sameinist um að leggja þann flokk til hinstu hvílu. Í því væri fólgin mikil miskunnsemi. Kv. Ögmundur
Ögmundur vinnur greinilega markvisst gegn því að möguleikar myndist á samræðum milli VG og Framsóknarflokksins um ríkisstjórnarmyndun að loknum kosningum. Mér finnst það ágætt, enda held ég að framsóknarmenn mundu ekki - fyrr að öðrum kostum fullreyndum - nema það væri stjórnarkreppa í landinu íhuga í alvöru að bera ábyrgð á því að færa VG þau völd sem felast í ríkisstjórnarsetu.
Kolbrún Halldórsdóttir skrifar grein í Moggann í framhaldi af grein Guðjóns Ólafs Jónssonar um daginn þar sem hann vakti athygli á því að á fundi með stúdentaráði hefði hún talið það koma til greina að leysa húsnæðismál stúdenta í Reykjavík með því að þeir flyttust í tómar íbúðir á varnarsvæðinu. Kolbrún mótmælir því að hafa sagt þetta en þegar ég les greinina get ég samt ekki fengið annað út en að Guðjón hafi sagt satt og rétt frá. Eða hvernig á að túlka þessi orð Kolbrúnar?
22.4.2007 | 20:10
Hættir Tony Blair 9. maí?
Tony Blair mun láta af embætti forsætisráðherra Bretlands þann 9. maí næstkomandi, að því fullyrt er í breska blaðinu Sunday Mail í dag og haft þar eftir ónafngreindum þingmanni Verkamannaflokksins. Ég hef ekki séð þessa dagsetningu nefnda fyrr. Nánar hér og í þessari frétt Raw Story.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.4.2007 | 18:48
Össur á flæðiskeri
Jakob Ólafsson, þyrluflugstjóri hjá Landhelgisgæslunni, skrifar grein í Moggann í dag til þess að andmæla hugmyndum um flugvöll á Hólmsheiði. Jakob telur Lönguskerjaflugvöll betri kost þótt helst vilji hann flugvöllinn á sama stað. En hann skynjar þungann í kröfunni um að Vatnsmýrarlandið verði nýtt í þágu borgarinnar og segir:
Ef bráðnauðsynleg þörf er talin vera á að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni þá er öllu skárra að hann flytjist þessa fáeinu hundruð metra út á Löngusker með þeim mikla tilkostnaði og fyrirhöfn sem því fylgir, en þar yrði veðurfar og flugtæknilegar aðstæður sambærilegar við þær sem eru á núverandi flugvelli og ekki síst yrði aðgangurinn að þjónustunni styttri og betri en uppi á Hólmsheiði. Á þetta ekki síst við um sjúkra- og neyðarflugið.
Jakob nálgast málið frá flugtæknilegu sjónarmiði og kemst að sömu niðurstöðu og Björn Ingi Hrafnsson, Jónínu Bjartmarz og sá sístækkandi hópur sem sér að flugvöllur á Lönguskerjum er langlíklegastur til þess að sætta pólitískt þau sjónarmið að Reykjavíkurborg fái Vatnsmýrarlandið til nauðsynlegra nota en að höfuðborgin veiti landsbyggðinni áfram viðunandi þjónustu sem miðstöð innanlandsflugsins í landinu.
Össuri Skarphéðinssyni virðist ógna sú staðreynd að Löngukerjaleiðin, sem framsóknarmenn í Reykjavík báru fram í borgarstjórnarkosningum sl. vor, á vaxandi fylgi að fagna í þjóðfélaginu, ekki síst eftir að samráðsnefnd samgönguráðherra og borgarstjóra gaf þeirri leið mjög góða einkunn í nýrri skýrslu. Því reynir hann að setja á spuna á bloggi sínu um málið en fer rangt með staðreyndir og eru útleggingarnar eftir því. Annað hvort hefur hann ekki séð kjördæmaþáttinn í Reykjavík suður og treyst ónákvæmri frásögn annars manns eða þá að hann hefur verið utan við sig þegar hann horfði. Ekki ætla ég honum að vilja fara rangt með staðreyndir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.4.2007 | 17:37
Tifandi tímasprengjur
Samfylkingin virðist heldur vera að hressast í skoðanakönnunum, sem öll kosningabaráttan snýst um, og hvarvetna varpa Samfylkingarmenn öndinni léttar því að nú virðast þeir loksins komnir upp fyrir VG í fylgi. En léttirinn er samt kvíðablandinn því að það vofa skuggar yfir kosningabaráttu flokksins. Í farangrinum eru tvær tifandi tímasprengjur, Jón Baldvin Hannibalsson og Össur Skarphéðinsson, tveir flokksformenn, tvær prímadonnur sem líkar illa að vera ekki lengur í aðalhlutverki og hafa með reglulegu millibili valdið flokksbræðrum sínum og systrum angist og vandræðum.
Jón Baldvin var einu sinni enn í Silfri Egils í dag, eftir opnuviðtal við Kolbrúnu ævisöguritara sinn Bergþórsdóttur í Blaðinu í gær. Það verður að segjast um Jón Baldvin að því meir, sem hann talar, því meir talar hann af sér. Í dag kallaði hann Þorgerði Katrínu ljósku í Silfri Egils, í Lesbókargrein fyrir röskri viku lýsti hann nánast yfir stuðningi við Íslandshreyfinguna og í kjölfarið fóru í gang kenningar um að hann yrði forsætisráðherraefni Ómars Ragnarssonar, komist Ómar í oddaaðstöðu eftir kosningar. JBH hefur líka lýst því yfir að sameining vinstri manna í Samfylkinguna hafi misheppnast. Það var verkið sem föður hans tókst ekki að ljúka á sínum pólitíska ferli en Jón Baldvin ætlaði að ljúka þess í stað, svona rétt eins og George W. Bush fannst að hann yrði að koma Saddam Hussein frá völdum af því að pabba hans hafði mistekist það. Nú virðist mega segja um Jón Baldvin það sem Bjarni Guðnason sagði um Hannibal gamla í aðdraganda þingrofsins 1974: "Hann er vestur á fjörðum og klýfur þar rekavið til þess að þjóna lund sinni." Kallinn hlýtur amk að vera kominn með vondan hiksta, svo illa tala fyrrverandi félagar hans og margir úr hópi lærisveinanna um hann nú orðið.
Össur Skarphéðinsson hefur allt síðan hann tapaði formannskosningu fyrir Ingibjörgu Sólrúnu verið órólegur, fyrst stóð hann fyrir öflugri stjórnarandstöðu innan flokksins sem var með öðru ástæða þess að fylgi flokksins rauk niður úr öllu valdi. Eftir prófkjör flokksins á liðnu hausti hristi hann vopn sín framan í formanninn og stærði sig af því að hvarvetna hefðu hans menn haft sigur í prófkjörum en hennar fólk tapað. Þótt Össur hafi haft fremur hægt um sig undanfarnar vikur og helst farið á stjá af og til síðla nætur á bloggi sínu eru flokksmenn hans enn órólegir og telja að hvenær sem er megi vænta þess að hann sprengi einhverja fýlubombuna framan í eigin forystu. Í síðustu kosningabaráttu spáði Össur miklu samdráttarskeiði og talaði um viðskiptahallann sem tifandi tímasprengju. Sú sprengja sprakk aldrei. Nú talar Samfylkingin hins vegar um aðrar tifandi tímasprengjur, sem geti sprungið framan í flokkinn hvenær sem er, og það eru þessir tveir fyrrverandi leiðtogar hennar sem þá er átt við.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.4.2007 | 15:36
Fingraförin á blogginu: Saga úr Mosfellsbæ
Góð nýjung hjá Moggablogginu að birta IP-tölur þeirra sem setja óskráðir inn komment við færslur. Sumir hafa skákað í skjóli nafnleyndar og gervinetfanga til þess að svívirða mann og annan hér og allur gangur á því hvort bloggarar hér, sem ég held að séu upp til hópa sómakært fólk, hafa undan því að eyða út óhróðrinum jafnóðum.
En um leið og Moggabloggið tók upp þennan sið á dögunum birtust líka IP-tölur þeirra sem sett hafa óskráð komment inn á bloggið í fortíðinni, þannig að nú skilja þeir eftir sig fingraför. Og ef marka má bréf sem mér barst áðan eru nú víða um bæinn menn í rannsóknarstörfum að átta sig á því hverjir hafa átt nafnlaus komment fram að þessu.
Sá sem sendi mér bréfið segir fréttir: Sama IP-tala birtist við komment sem Karl Tómasson, forseti bæjarstjórnar Mosfellsbæjar og 8. maður á sæti VG í Kraganum, skrifar óskráður í eigin nafni á eigin bloggsíðu og birst hefur á svívirðingakommentum á bloggsíðum Varmársamtakanna og annarra Mosfellinga. Hér eru nokkur dæmi, fyrst af síðu Karls sjálfs þar sem hann svarar kveðju annars bloggara án þess að skrá sig inn með þessum orðum:
Á bloggi Hjördísar Kvaran birtist svo sama IP-tala í kommenti sem er svohljóðandi:
Sem sagt: Sá sem setur inn athugasemdina undir nafninu Píka og forseti bæjarstjórnar í Mosó hafa sömu IP-tölu. Sú IP-tala kemur víðar við sögu í sömu færslu og fleirum á þessu mosfellska bloggi, og hér fylgir listi yfir óskráðar athugasemdir sem hafa borið með sér sömu IP-tölu og þá sem fylgdi forseta bæjarstjórnar:
Píka (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 31.3.2007 kl. 00:42
Ágúst (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 29.3.2007 kl. 16:18
Þóra (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 30.3.2007 kl. 17:35
Píka 2 (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 31.3.2007 kl. 00:47
Ósk (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 31.3.2007 kl. 21:27
Árni (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 31.3.2007 kl. 22:41
Einar Óli (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 27.3.2007 kl. 14:28
Karl Tómasson (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 1.4.2007 kl. 14:56
Þórunn Jónsdóttir (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 14.4.2007 kl. 02:06
Ólafur Gunnarsson (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 17.4.2007 kl. 19:23
Lárus (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 17.4.2007 kl. 21:29
Haukur Ólafs (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 13.4.2007 kl. 23:17
Uppfært kl. 15.59. Nú þekki ég lítið til tölvumála og veit ekki hversu óyggjandi tenging IP-tala er við einstaka notendur en ef svo er ekki þá er vandséð hvaða tilgangi birting þeirra þjónar.
ps. kl. 16.50 Í kommenti hjá mér er því haldið fram að eina ályktunin sem hægt er að draga sé sú að allir þessir nafnlausu höfundar kommenta séu með ADSL-hjá Símanum, ef svo er sýnist mér ljóst að það þjónar engum tilgangi hjá moggablogginu að vera að birta þessar upplýsingar. En í gær barst mér og væntanlega öðrum moggabloggurum svohljóðandi póstur frá moggablogginu: "Kæru notendur blog.is. Eins og sumir hafa eflaust tekið eftir eru IP-tölur nú birtar við athugasemdir frá óskráðum gestum. Þessi breyting er skref í átt að betri auðkenningu óskráðra höfunda athugasemda. Með þessu fylgir möguleiki á að banna athugasemdir og gestabókarfærslur frá ákveðnum IP-tölum. Á síðunni Blogg/Athugasemdir í stjórnborðinu er sýslað með tölurnar. Hægt er að slökkva á birtingu IP-talna ef þess er óskað, val um birtinguna má finna með því að velja Stillingar/Blogg/Frekari stillingar í stjórnborðinu. Í fyrradag gerðum við ýmsar öryggisbreytingar á blog.is sem tengjast innskráningu og JavaScript-samskiptum. Ef þú hefur lent í vandræðum með innskráningu eða vistun bloggfærslna síðan þá, lestu þá leiðbeiningar um hreinsun forvistaðra skráa (cache) á síðunni http://mbl.is/go/binns . Við biðjumst velvirðingar á hvers kyns óþægindum sem þetta kann að hafa valdið. veðja, stjórnendur blog.is. blog@mbl.is"
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
22.4.2007 | 15:11
Árni bak við tjöldin
Árni Johnsen er greinilega að slá í gegn hjá kjósendum á Suðurlandi. Miðað við könnun Gallup fengið Sjálfstæðisflokkurinn 40,9% fylgi í kjördæminu og er í mikilli sókn.
Það er greinilegt að Árni Johnsen er að vinna vel bak við tjöldin, eða amk er hann ekki framan við tjöldin, Sunnlendingar hafa spurt sig hvar hann væri eiginlega. Hann hefur verið lítið sýnilegur á fundum frambjóðenda, mætti t.d. ekki nýlega á fjölmennan fund frambjóðenda á Flúðum. Styrkur Árna hefur ekki síst legið í því að rækta vel kjósendur í uppsveitum og halda við þá persónulegu sambandi. Þess vegna voru margir hissa á að Árni sé lítið sýnilegur á svæðinu.
Það vakti svo athygli í kjördæmaþættinum í Sjónvarpinu í dag þegar Bjarni Harðarson sakaði Árna Mathiesen og aðra sjálfstæðismenn að gera allt sem þeir geta til þess að vinna gegn hugmynd Árna Johnsen um jarðgöng til Vestmannaeyja, Bjarni segir að það séu flokksmenn Árna sem séu honum erfiðastir í taumi við að vinna að framgangi þeirrar hugmyndar.
Sjálfstæðisflokkur bætir við sig tveimur þingmönnum í Suðurkjördæmi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 536804
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Takk fyrir komuna Jens.
Jú ég á örugglega eftir að rausa eitthvað um Gildruna.
Kveðja Kalli Tomm.
Karl Tómasson (Óskráður. IP-tala: 85.220.25.22) 1.4.2007 kl. 14:56