hux

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Sögur úr kosningabaráttunni

Þetta er að mörgu leyti óvenjuleg kosningabarátta sem nú stendur yfir og flokkarnir beita óvenjulegum aðferðum og þá er ég ekki bara að tala um umræðuna á blogginu og öll þau áhrif sem tilkomu þess fylgja.

Meginbreytingin er bakvið tjöldin og hún er sú að flokkarnir, einkum hinir stærri eru að leggja miklu meiri áherslu á beina markaðssetningu en nokkru sinni fyrr. Í stað þess að treysta á auglýsingar í blöðum og ljósvaka, sem Gallup mælir og birtir, er farið nær einstökum kjósendum í von um að hafa áhrif á þá.

Samfylkingin hefur t.a.m. sent markpóst á ýmsa hópa sérfræðinga til þess að kynna þeim stefnumótunarplöggn, sem frambjóðendur flokksins veifa við hvert tækifæri í sjónvarpi eins og Vottar Jehóva Varðturninum. Unga Ísland var t.a.m. sent með þessum hætti út með persónulegu bréfi frá Ingibjörgu Sólrúnu á fagfólk sem starfar á sviði barna- og fjölskyldumála. Ekki er ólíklegt að sömu aðferðum hafi verið beitt með Fagra Ísland og efnahagsstefnuna hans Jóns Sigurðssonar.

Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki hátt í auglýsingum en stendur engu að síður fyrir Móður allrar kosningabaráttu um þessar mundir. Höfuðáhersla er lögð á símhringingar og er sagt að markmiðið sé að hringja í nánast hvern einasta atkvæðabæran mann í landinu fyrir kosningar. Gríðarleg áhersla verður lögð á vinnu á kjördag og flutning kjósenda á kjörstað. Það eru komnir nýir húsbændur í Valhöll og þeir ætla sér að sýna að þeir geti hrundið þeirri mýtu að Sjálfstæðisflokkurinn eigi lægra hlutfall en aðrir flokkar í lausafylginu, sem gerir upp hug sinn vikurnar fyrir kjördag og á kjördaginn sjálfan. Lykillinn að því er bein markaðssetning fremur en auglýsingar í fjölmiðlum.


Á atkvæðaveiðum í gruggugu vatni?

"Við komum í veg fyrir að vatnið væri einkavætt þangað til þá eftir kosningar, þannig að nú er meðal annars hægt að kjósa um það í vor hvort menn vilja að einkavæðingarlög ríkisstjórnarinnar um vatnið gangi í gildi eða hvort við fáum meirihluta til að fella þau úr gildi."

Þetta sagði Steingrímur J. Sigfússon í viðtali við Morgunvakt Ríkisútvarpsins í morgun og var þá að lýsa sigrum  stjórnarandstöðunnar á liðnum vetri. Einkavæðing á vatni! Þetta hljómar eins og það eigi að fara að setja gjaldmæla á kranann inni í eldhúsi hjá manni? Er það svo? Er VG að fara að heyja kosningabaráttu sem snýst um það að það sé markmið þeirra flokka sem standa að ríkisstjórninni að láta almenning í landinu borga einkaaðilum gjald fyrir aðgang að neysluvatni? Hvað hefur VG fyrir sér í þessu?


Herra og frú

Félagsmálaráðuneytið auglýsir stöðu skrifstofustjóra barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu lausa til umsóknar á netinu í dag og rennur umsóknarfrestur út 31. maí, eða löngu eftir kosningar. Það rifjar upp þessi ummæli Jóhönnu Sigurðardóttur í grein í Mogganum 28. mars þar sem hún sagði:

Það eina sem ráðherrann nefnir er að setja eigi á fót nýja skrifstofu barna- og fjölskyldumála í félagsmálaráðuneytinu, væntanlega til að ráðherrann geti skipað skrifstofustjóra í það embætti áður en hann hverfur úr ráðuneytinu í vor.

Umsóknarfresturinn rennur sem sagt út eftir kosningar, Jóhanna, skuldarðu ekki "þessum herramanni" í félagasmálaráðuneytinu afsökunarbeiðni?


Vænn vefur

Nýr og athyglisverður vefur natturan.is sem er bæði verslun með umhverfisvænar vörur og líka hjálpartæki fyrir neytendur sem þurfa að komast í samband við umhverfisvæn fyrirtæki eða vörur sem eru umhverfisvænni en aðrar. Allir geta lagt til efni og upplýsingar. Það er Gunna Tryggva, sem haldið hefur úti grasagudda.is, sem er potturinn og pannan á bak við natturan.is


Norska ríkisstjórnin?

Athyglisvert og skemmtilegt að þessi samningur sé gerður af hálfnorskum forsætisráðherra og utanríkisráðherra sem sótti sér eiginmann Noregs. Svo er þriðji "Norðmaðurinn" í ríkisstjórninni, Siv Friðleifsdóttir, en móðir hennar er norsk. Þannig að 25% núverandi ríkisstjórnar tengist Noregi sterkum böndum. Ef menn vantar viðurnefni á ríkisstjórn Geirs H. Haarde sting ég upp á að menn kalli hana bara Norsku ríkisstjórnina. En villist ekki á því að ég fagna þessum samningi, allt til að losa tengslin við Bush og félaga og treysta aðrar stoðir utanríkisstefnunnar.

Hvar er blogg Össurar? - gátan leyst, ruslkomment og sveittur gagnagrunnur

Bloggið hans Össurar er horfið af Hexia-slóðinni þar sem það hefur verið frá upphafi og engar slóðir á síðuna hans eru virkar. Allar aðrar síður sem ég nota hjá Hexia eru í lagi. Hvað er nú á seiði? Tvær hugmyndir: 1. Er Samfylkingin búin að setja Össur í bloggbann fram yfir kosningar? Varla trúi ég því. 2. Eða er Össur að flytja sig á nýjar slóðir, e.t.v. hingað á Moggabloggið? Komi hann þá fagnandi.

Uppfært kl. 12.28: Meðfylgjandi athugasemd hefur borist við þessa færslu frá Tóta, sem er aðalmaðurinn hjá Hexia: Hann upplýsir gátuna og segir: "Heh, rólegan æsing. Samspil nokkurra þátta. Alvarleg Ruslkommentaárás á kerfið og gagnagrunnur að svitna undan álagi. Verið er að þurrka svitann af gagnagrunninum og Össur ætti að vera kominn á sinn stað innan tíðar."

Alltaf er maður að læra eitthvað nýtt um tölvumálin, nú veit ég að gagnagrunnar eiga það til að svitna. Takk fyrir upplýsingarnar, Tóti.


Sjaldan er undirfyrirsögn ein á ferð

Undanleg vinnubrögð í frétt á bls. 2 í Morgunblaðinu í dag um að Guðni og Siv séu komin í hár saman út af skipun Páls Magnússonar sem formanns stjórnar Landsvirkjunar. Þetta staðhæfir Mogginn í undirfyrirsögn en í fréttinni sjálfri er ekki orði vikið að þessu. Hvað hefur gerst hjá Mogganum, það er fátítt að undirfyrirsögn vísi ekki til efnisatriðis fréttar og þegar það gerist dettur manni fyrst í hug að einhver mistök hafi orðið á ritstjórninni. Hver ætli skýringin sé?  Þarna er ýjað að deilum í ráðherraliði án þess að nokkuð sé reynt að skýra málið. Siv segir á heimasíðu sinni að þetta sé í annað sinn á skömmum tíma sem blaðið spinnur lygavef tengdan henni. Það er amk óvenjulegt að sjá svona kæruleysi í Mogganum í fréttum af þessu tagi.

Ég verð að segja það

Ég sá frétt á Stöð 2 um að það væri óánægja innan Framsóknarflokksins vegna þess að iðnaðarráðherra hefði ákveðið að skipa Jóhannes Geir Sigurgeirsson ekki áfram sem stjórnarformann þótt hann hafi lýst áhuga á þessu. Ég er alveg hissa á þessu, ég verð að segja það, Jóhannes Geir er búinn að sitja þarna í stjórninni í 12 ár. Er það ekki ágætur tími? Er ekki eðlilegt að skipta reglulega um menn í opinberum trúnaðarstörfum, jafnvel þótt ekki væri um að ræða fyrirtæki sem á síðari árum er orðið eitt umdeildasta fyrirtæki landsins og í tómu tjóni í almennri umræðu, svo ég segi það bara hreint út?

Og eru einhver málefnaleg rök gegn því að skipa í hans stað Pál Magnússon, sem er æðsti embættismaður næststærsta sveitarfélags landsins? Og sem hefur verið aðstoðarmaður iðnaðarráðherra frá því einhvern tímann um aldamót, ef ég man rétt, og gjörþekkir orkugeirann frá öllum hliðum. Ég verð að segja það sem framsóknarmaður að ég bókstaflega treysti engum manni betur en Páli Magnússyni til þess að standa vörð um þá ályktun flokksþingsins að orkufyrirtæki ríkisins verði áfram í eigu almennings á næstu árum. Það gæti meira að segja gerst að Landsvirkjun næði aftur fyrri vinsældum undir stjórn Páls.


Óspurðar fréttir

Fréttablaðið greindi frá því í gær að það hefði árangurslaust reynt að ná tali af Geir H. Haarde til að spyrja um afstöðu hans til þeirrar hugmyndar Valgerðar Sverrisdóttur, utanríkisráðherra, að komið verði á eðlilegu sambandi milli Íslands og þjóðstjórnar Palestínu.

Tilefni þess að Fréttablaðinu þykir rétt að fá fram sjónarmið Geirs er augljóslega það að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var samþykkt ályktun sem virðist fela í sér að Sjálfstæðisflokkurinn leggist gegn samskiptum við stjórnvöld í Palestínu. 

Þegar ég heyrði að Morgunvaktin á RÚV hefði átt ítarlegt viðtal við Geir í gærmorgun leitaði ég að því á netinu til þess að heyra svar hans við spurningunni. Ég varð fyrir vonbrigðum, spurningin kom ekki fram.


Hin eiginlega stjórnarandstaða

Ég hef verið hin eiginlega stjórnarandstaða. Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon, leiðtogi Kaffibandalagsins í viðtali við Viðskiptablaðið í dag.

Steingrímur J er í viðtölum í tveimur blöðum í dag. Í viðtalinu við Fréttablaðið sætir það eitt tíðindum finnst mér að Steingrímur áætlar kostnaðinn við að hrinda í framkvæmd áætlun flokksins um að útrýma fátækt og segir að það muni kosta 10-12 milljarða króna. Það finnst mér benda til þess að amk eitt af þrennu eigi við: 1. VG-liðar séu ótrúlega snjallir ef hægt er að útrýma fátækt fyrir upphæð sem er ekki hærri en sem nemur 3-4% af ríkisútgjöldum; 2. að í þessu felist viðurkenning á almennri velmegun þjóðarinnar; 3. VG-liðar séu ekki mjög sterkir í reikningi og að þessi tala sé bara fengin með því að setja vísifingurinn reiðilega upp í vindinn. Í raun viti VG ekkert hvað hugmyndir þeirra kosta.

Í viðtalinu við Viðskiptablaðið, sem er hvasst og ber með sér að samræður hafi verið líflegar, nefnir Steingrímur svo að hann telji að þriðjungur aldraðra búi við fátækt og fimm þúsund börn á Íslandi alist upp við fátækt. Þannig að það er ekki þröng skilgreining sem hann styðst við þegar hann lýsir því yfir að með 10-12 milljörðum króna megi útrýma fátækt á Íslandi með áætlun VG.

Hér kemur í lokin sá kafli þar sem Steingrímur krýnir sjálfan sig sem hina eiginlegu stjórnarandstöðu.  Auðbjörg Ólafsdóttir, blaðamaður, minnir Steingrím á að sums staðar í þjóðfélaginu sé talað á þeim nótum að það sé hættulegt hagsmunum viðskipta- og efnahagslífsins ef VG fái aðild að ríkisstjórn og Steingrímur yrði e.t.v. fjármálaráðherra. Steingrímur svarar: 

Það er fyrst og fremst ríkisstjórnin og málpípur hennar sem eru að reka þennan hræðsluáróður gegn flokknum og mér. Það er vegna þess að ég hef verið hin eiginlega stjórnarndesstaða í þessum efnum og haldið uppi málefnalegu andófi gegn ábyrgðarleysinu. Ég varaði við skattalækkununum eins og þær voru útfærðar í miðri þenslunni og ég benti á að það gæti verið leikur að eldi að hækka húsnæðislánin í 90%.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband