hux

Stórt er spurt

Í hinu ágæta fyrsta tölublaði DV undir ritstjórn -sme var meðal annars frétt um málefni Byrgisins og ástandið þar þessa dagana. Eftir lestur þessarar fréttar var ég huxi yfir ýmsum atriðum sem að málum Byrgisins snúa.

Ef ég man rétt liggur fyrir að Byrgið hefur fengið um 27 milljónir á ári frá ríkinu í rekstrarstyrk, auk þess hefur ríkið greitt 9 milljónir á ári í húsaleigu. Alls eru þetta 36 milljónir. Þarna hafa líklega verið um 40 vistmenn þegar mest var og strax í fyrsta Kompásþættinum kom fram að þeir greiddu um 57 þúsund krónur á mánuði í leigu og fæði meðan á dvölinni stendur. Þeir peningar koma af örorkubótum vistmanna og framfærslustyrkjum sveitarfélaga til vistmanna. Nú er komið fram að Reykjavík hefur borgað til Byrgisins um 58 þúsund krónur vegna um 20 skjólstæðinga.

Ég skil þetta þannig að þetta séu 58x20 á mánuði eða 1.160 þúsund krónur á mánuði eða  13.920.000 krónur á ári. Ég gef mér að þetta sé um helmingur af leigutekjum, sem nemi þá samtals 27.840 þúsund krónum (sem mundi þýða að rekstrarframlag ríkisins nemur akkúrat um helmingi). Að afgangurinn af leigunni komi frá Kópavogi, Hafnarfirði og öðrum sveitarfélögum þar sem vistmenn eru eða hafa síðast verið búsettir. Líklega kemur eitthvað af leigu heimilislausra vistmanna af örorkubótum þeirra og líklega má gera ráð fyrir því að talsverð rýrnun sé á leigunni og að kannski fjórðungur hennar innheimtist ekki.

Þetta ætti að þýða að innheimtar leigutekjur eru samtals 20.880.000 krónur á ári og að tekjur Byrgins séu samtals 48.720 krónur á ári og að það beri engan húsnæðiskostnað af því að ríkið greiðir leiguna á Efri-Brú með sérstöku framlagi upp á 9 milljónir á ári. Ef húsnæðisframlag ríkisis er tekið nema tekjurnar amk um 57,7 milljónum króna. Þá eru undanskildir hugsanlegir styrkir frá öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem fyrir liggur að Byrgið aflar.

Allt eru þetta spekúlasjónir en ég held að þær eigi ágætlega við miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið.  Ég held að þetta sé varfærnisleg áætlun. Það væri t.d. fróðlegt að vita hve önnur sveitarfélög en þau á höfuðborgarsvæðinu hafa styrkt starfsemina mikið. Ég hef upplýsingar um að það hafi víða verið leitað hófanna.

Í fréttinni í DV kemur svo fram í gær að svo virðist sem Byrgið hafi lítil sem engin útgjöld haft til þessa af því að greiða mat fyrir vistmenn, því að ég get ekki skilið fréttina öðru vísi en þannig að allur matur hafi verið gefinn af Bónus, bakaríi á Selfossi og kannski fleiri fyrirtækjum, en einhver þeirra hafa kippt að sér höndum síðustu vikurnar.

Eftirtöldum spurningum hef ég aldrei séð svarað í fjölmiðlum:

  • Hvað eru margir starfsmenn á launaskrá hjá Byrginu í hlutastarfi og fullu starfi?
  • Hverjir eru helstu útgjaldaliðir fyrir utan launakostnað?
  • Vinna vistmenn sjálfir við matseld og þrif frá því að afeitrun lýkur eða er þar um keypta vinnu að ræða, að hluta eða að öllu leyti?

Guðmundur Jónsson og núverandi forstöðumaður hafa lengi verið á launaskrá en hvað margir aðrir?

Miðað við ofangreindar spekúlasjónir hefur Byrgið amk 48.720 þús. kr til ráðstöfunar til greiðslu launakostnaðar á ári. Er óvarlegt að ætla að fyrirtæki í þessari starfsemi með þessar  tekjur hafi um það bil 10 starfsmenn á launum í fullu starfi?

Annað atriði er þetta: Nú hefur komið fram að rekin hefur verið einhvers konar afeitrunarstarfsemi í Byrginu, en án tilskilinna leyfa. Það þýðir að þar hafa verið stundaðar lyfjagjafir á valíum og líbríum (og hugsanlega öðrum lyfjum vegna meðferðar morfínfíkla) til vistmanna í 10-30 daga eftir komu á staðinn.

  • Hver er lyfjakostnaður vegna afeitrunar í Byrginu?
  • Hafa þau lyf verið greidd af hinu opinbera eða eru þau kannski greidd með þeim styrk sem Byrgið fær frá ríkinu.
  • Hafa lyfjafyrirtæki og/eða lyfsalar gefið lyf til afeitrunar?
  • Og hvað með laun þeirra tveggja lækna sem hafa tekið faglega ábyrgð á afeitruninni, þ.e. fyrstu dögum meðferðarinnar, eru þau greidd af þessum styrkjum eða með öðrum hætti, t.d. úr ríkissjóði.

Auðvitað er vel hugsanlegt að þeir merku læknar Ólafur Ólafsson og Magnús Skúlason leggi þarna  fram sjálfboðavinnu við afeitrunina og líti á hana sem líknarstarf sem hún auðvitað er.

Svo er eftir spurningin: Að hvaða leyti er sá hópur sem sækir meðferð til Byrgisins frábrugðinn þeim hópi sem leitar í Krísuvík og í Hlaðgerðarkot? Og jafnvel til SÁÁ og geðdeildar Landspítalans? Er hugsanlegt að munurinn sé fyrst og fremst munur á ímynd og þá tilkominn vegna þess hve forsvarsmenn Byrgisins hafa verið duglegir í að leita liðsinnis fjölmiðla í sókn sinni inn á styrkjamarkaðinn? 

En svör við öllum þessum spurningum finnst mér að muni auðvelda manni að fá mynd af því hvernig starfsemin hefur verið og í framhaldi af því stendur maður á fastari fótum þegar kemur að því að meta hvort nægilegt opinbert eftirlit hefur verið með starfseminni í Byrginu og hjá öðrum sambærilegum stofnunum. Miðað við það, sem nú liggur fyrir, bendir fátt til þess.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband