hux

TF-Pollýanna

Hvað hafa þessir sextíu flugumferðarstjórar, sem vinna hjá Flugmálastjórn en vilja ekki vinna hjá Flugstoðum frá áramótum, eiginlega verið að gera í vinnunni? Það mætti halda að þeir séu bara að bora í nefið fyrst að það er hægt að komast af án þeirra starfskrafta án þess að það hafi nokkur teljandi áhrif á öryggi flugsamgangna innanlands og utan. 

Ég hef verið að halda því fram að stofnun Flugstoða ohf. sé klúður af því að nú sé komin ellefta stund og engir flugumferðarstjórar hafi ráðið sig til starfa hjá fyrirtækinu. Þær staðhæfingar byggðust á þeirri trú að flugumferðarstjórar væru stéttin sem er kjarni starfseminnar hjá flugumferðarstjórn, svona líkt og læknarnir á spítalanum eða lögfræðingarnir á lögfræðistofunni. En nú les ég í hverju blaðinu á fætur öðru að þetta sé alls ekki svona og að það skipti litlu sem engu máli fyrir flugrekstur í landinu að engir flugumferðarstjórar séu við störf. Í Mogganum stendur þetta:

Í yfirlýsingu frá Flugmálastjórn kemur fram að flugöryggi skerðist ekki 1. janúar, eins og skilja megi af orðum formanns Félags flugumferðarstjóra í fjölmiðlum. Viðbúnaðaráætlunin miðist við fullt og óskert flugöryggi, bæði hvað varðar innanlands- og millilandaflug.

Þannig að ég er farinn að spyrja mig hvað eru þessir flugumferðarstjórar að gera í vinnunni ef það er hægt að komast af án þeirra? Ætti maður kannski að þakka Sturlu fyrir að losna loksins við þessa iðjuleysingja af launaskrá? Ég held ekki. Ég á erfitt með að taka þennan pollýönnuleik flugmálastjórnar alvarlega.

Svo á alltaf eftir að svara þeirri spurningu hvaða nauðsyn bar til þess að taka þessa starfsemi undan ríkinu og búa til um hana opinbert hlutafélag? Ég skil rökin fyrir því að gera sams konar breytingu á starfsemi RÚV, það er fyrirtæki í samkeppnisrekstri, en það á ekki við hér og hvernig er það með flugumferðarstjórina, eru einhver efnisleg rök fyrir því að henni sé betur fyrir komið með þessum hætti heldur en upp á gamla mátann, þar sem þetta var viðurkennt hlutverk ríkisins?

Eru einhver önnur rök fyrir þessari breytingu en sú pólitíska fjóstrú frjálshyggjumanna að ríkisvaldið sé af hinu illa í sjálfu sér. "Ríkið er ekki hluti af lausninni, það er hluti af vandamálinu," sagði Ronald Reagan, bandaríkjaforseti, ástmögur frjálshyggjumanna. Hann þótti ganga fram af miklum skörungsskap þegar bandarískir flugumferðarstjórar gerðu verkfall snemma á forsetaferli hans. Reagan reyndi að vísu ekki að halda því fram að flugumferðarstjórar væru óþarfir, heldur kallaði hann bara út hermenn með flugumferðarstjóraþjálfun og lét þá annast störfin. Reagan átti bandamann í Margréti Thatcher sem sagði einu sinni: "Það er ekki til neitt sem heitir samfélag, bara einstaklingar og fjölskyldur þeirra." Helsti lærifaðir Thatcher, Keith Joseph, er talinn hafa verið með asperger-heilkenni og útskýrir það vissulega þá hugmynd um mannlegt samfélag sem hin tilvitnuðu orð fela í sér. Það er spurning hvort þessi leiðangur Sturlu Böðvarssonar sé fyrst og fremst gerður þeim Reagan og Thatcher til dýrðar eða er eitthvað annað sem fyrir honum vakir. Nákvæmlega hvað græðum við - almenningur - á þessari breytingu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki að verða kominn tími á Sturlu Böðvarsson í ráðherrastóli?  Ég man varla eftir öðru en að hann hafi klúðrað málum sem skipta einhverju máli.  Hann hefði nú átt að taka á sig rögg og ganga frá þessu máli hið snarasta. Ég tek undir með þér að það þarf ekki að segja nokkrum manni, að allt í lagi sé að 60 sérfræðingar hætti á einu bretti.  Það hlýtur að vera hægt að semja, ég man ekki eftir því að annar aðilinn hafi náð öllum kröfum sínum fram í svona málum. Sturla ætti frekar að tala við flugumferðarstjórana en að skrifa grein eins og hann skrifaði í Mogann í gær.

Konni (IP-tala skráð) 29.12.2006 kl. 12:01

2 identicon

Thatcher afneitaði samfélaginu - Bill Clinton sagði "Ubuntu"

Ég hallast að því að kenning Clinton sé rétt. 

Baldur McQueen Rafnsson (IP-tala skráð) 30.12.2006 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband