hux

Íslenskur þrýstingur á Washington Post?

Tilburðir íslenskra stjórnvalda til þess að vinda ofan af þeim skaða sem hvalveiðar og andstaða við botnvörpuveiðar á úthöfunum hafa valdið íslenskum hagsmunum virðast hafa borið einhvern pínulítinn árangur. Það merki ég af því að breytingar hafa verið gerðar á leiðaranum sem Washington Post birti um málið og kallaði Blame Iceland.

Harðasta skotið á Ísland - mest móðgandi orðalagið - hefur verið tekið út úr textanum fyrir birtingu í öðrum blöðum. Eins og algengt er um leiðara stórblaðanna hefur þessi leiðari verið seldur til birtingar í fjölmörgum smærri dagblöðum vítt og breitt um Bandaríkin. Eitt þeirra blaða sem birtir hann er St. Petersburg Times í Florida, sem birtir hann í dag og velur honum fyrirsögnina: Iceland leads maulers of the seas, eða Ísland í fararbroddi níðinga hafsins. Svo sem engin ástæða til þess að fagna þessari nýju fyrirsögn, hún er svakaleg. 

En breytingin er þarna samt og hún er þessi. Í upphaflegu útgáfunni voru Íslendingar kallaðir "genuine moral outliers in world attitudes toward oceans" (lauslega: raunverulegir siðferðislegir einfarar hvað varðar viðhorf heimsins til málefna hafsins). Þessi setning hefur verið tekin út úr leiðaranum fyrir endurbirtingu. Slíkar breytingar gera ritstjórnir ekki að tilefnislausu, þetta hlýtur að þýða að íslensk stjórnvöld hafi sett sig í samband við ritstjórnina og gert henni grein fyrir íslenskri fiskveiðistjórnun og fleiru sem borið hefur þann árangur að þessari móðgandi staðhæfingu hefur verið kippt út. Breytir litlu en er án efa stærsti sigur Einars K. Guðfinnssonar í þessu vonlausa stríði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér góða ábendingu, Pétur. Má ég líka benda á bréf mitt til ritstjóra Washington Post (birt þar 11. des.), sem andmælti hinum ósanngjarna leiðara blaðsins, sbr. nánar þessa grein mína hér á Moggablogginu. (Leiðrétting mín við athugasemd dr. Weavers, sem birt var á netslóð WP á eftir bréfi mínu, bíður væntanlega birtingar.) -- Allar slíkar leiðréttingar á röngum og villandi málflutningi áhrifaríkra stórblaða um hvalamál okkar og fiskveiðar hljóta að skipta máli, ef ætlun okkar er að forðast illbærilegar viðskiptaþvinganir, sem í upphafi sínu eru runnar undan rótum græningja. Þetta landhelgisstríð okkar er ekki vonlaust.

Jón Valur Jensson, 17.12.2006 kl. 14:31

2 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sæll Jón Valur, ég var reyndar búinn að sjá bréfið þitt og bloggaði aðeins um það hér. En ég er ósammála þér og held að botnvörpuveiðar eigi ekki mikla framtíð, því miður, bæði vegna áhrifa þeirra á hafsbotninn og eins vegna hins að ég er viss um að umhverfissinnar munu í auknum mæli verða til þess að fiski veiddum á krók verður gert hærra undir höfði á mörkuðum.

Pétur Gunnarsson, 17.12.2006 kl. 14:55

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Jæja, karl minn, ertu að fara að hefja krókaveiðar í stórum stíl?! Áfram með balana og handfærin, er það nýja Framsóknarstefnan? Alveg er ég hissa á þér að tala svona, hélt þú værir upplýstur maður. Hélt líka, að einhver baráttuandi væri eftir í Framsókn. En nú fer ég að líta á þessa tilvísuðu vefsíðu þína -- kem kannski aftur seinna!

Jón Valur Jensson, 17.12.2006 kl. 15:23

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég þakkaði pent fyrir mig á hinni vefsíðunni þinni -- full ástæða til þess. Kannski við séum þá samherjar að einhverju leyti eftir allt saman? Og ekki er ég einsýnn og harðvítugur verjandi botnvörpuveiðanna, eins sést á þessari grein minni um kórallana við Ísland. Lausnin er bara lokun vissra, viðkvæmra svæða, ekki kreddulegt, algert bann við botnvörpuveiðum. Með góðri kveðju,

Jón Valur Jensson, 17.12.2006 kl. 15:43

5 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Ég er enginn talsmaður framsóknar Jón Valur, bara minnar eigin sannfæringar. Botsvörpuveiðar eru deyjandi atvinnugrein, vona að við eigum báðir eftir að lifa þann dag að þeim ljúki að mestu leyti, líklega er það rétt hjá þér að fyrst og fremst er að loka viðkvæmum svæðum en ég held að kröfur markaðarins muni styrkja samkeppnisstöðu krókaveiðanna í baráttunni um aflaheimildir.

Pétur Gunnarsson, 17.12.2006 kl. 15:59

6 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ertu þá ekki hann Pétur, fyrrverandi aðstoðarmaður einhvers ráðherrans, heldur Pétur rithöfundur?

Jón Valur Jensson, 17.12.2006 kl. 16:04

7 Smámynd: Pétur Gunnarsson

ég er í framsóknarflokknum en það þýðir ekki að orð mín séu stefna framsóknarflokksins.

Pétur Gunnarsson, 17.12.2006 kl. 16:06

8 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þá kannast ég væntanlega við manninn, sem oft sést á skjánum og kann að koma frá sér máli sínu. En um völdin viltu meina, að þú sért nokkur hliðstæða við mig, sem þó ræð engu í mínum flokki og verð að láta mér nægja að segja: Skipað gæti ég, væri mér hlýtt!

Jón Valur Jensson, 17.12.2006 kl. 21:25

9 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Já, kannski,  ég er í flokki af því að ég er sammála grunngildum hans en ekki af því að mig vanti asklok fyrir himin. Þess vegna mynda ég mér bara eigin skoðanir en í langflestum tilfellum falla þær að stefnu flokksins sem ég er í og ótrúlega oft reyndar að stefnu annarra flokka. Framsóknarmenn horfa fremur á það sem sameinar en hitt sem greinir að, það finnst mér eitt besta einkenni framsóknarmennskunnar.

Pétur Gunnarsson, 17.12.2006 kl. 21:56

10 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég leyfi þér að eiga þarna þitt ágæta síðasta orð.

Jón Valur Jensson, 18.12.2006 kl. 10:30

11 Smámynd: Arnljótur Bjarki Bergsson

Ef ég má blanda mér í þetta tveggja manna tal, hví agnúast þú út af þessu?

Arnljótur Bjarki Bergsson, 19.12.2006 kl. 05:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband