hux

Á hægri leið inn úr kuldanum

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins í dag sætir tíðindum. Guðmundur hefur þegar gert það að umtalsefni og vísa ég á skrif hans. En þegar ég las þetta Reykjavíkurbréf datt mér fyrst í hug að nú væri ritstjórinn að stíga skref í þá átt sem hann hefur nokkrum sinnum gert atrennu að, fyrst í minningargrein sem sem Styrmir Gunnarsson skrifaði um Eyjólf Konráð Jónsson, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins og alþingismann, og birtist þann 14. mars 1997.

Í minningargreininni sagði Styrmir:

Eyjólf Konráð Jónsson þekkti ég lítið þar til dag einn fyrir tæpum fjórum áratugum að æskuvinur minn, Hörður Einarsson hrl., sem leiddi mig til starfa á vettvangi Sjálfstæðisflokksins,  bað mig að fara á fund Eykons, eins og hann var jafnan kallaður, hann ætti við mig erindi. [...] Þetta var á þeim árum, þegar gríðarleg harka var í kalda stríðinu á milli hins frjálsa heims, undir forystu Bandaríkjanna, og Sovétríkjanna, sem höfðu raðað í kringum sig leppríkjum í Austur-Evrópu og víðar. Þeir sem ekki upplifðu kalda stríðið eins og það var harðast munu aldrei skilja þau viðhorf, sem réðu gerðum manna á þeim árum.

Í þessu samtali fékk ég örlitla innsýn í veröld, sem ég vissi ekki að væri til á Íslandi en tengdist þessum alheimsátökum. Eykon bað mig um að taka að mér verkefni, sem ég gerði, en ekki fyrr en að lokinni alvarlegri umhugsun. Því sinnti ég á hans vegum fram eftir Viðreisnaráratugnum. Það starf hafði margvísleg áhrif á pólitíska vígstöðu flokkanna en eins og margt af því, sem gerðist á tímum kalda stríðsins, bíður frásögn af því síðari tíma. [...] Upp úr þessu hitti ég hann a.m.k. vikulega en oft daglega. Við skiptumst á upplýsingum.

Feitletrunin í tilvitnuninni er mín. Í Reykjavíkurbréfinu stígur Styrmir svo raunverulegt skref, þótt það sé sannarlega aðeins hænufet, að segja allt af létta um þennan leynilega erindrekstur sinn. 

Meira hlýtur að vera á leiðinni, því eins og Guðmundur bendir á vekur frásögn Reykjavíkurbréfsins fleiri spurningar en svarað er og það eina sem við vitum nú er að forysta Sjálfstæðisflokksins vildi koma hér á leynilegu varaliði - væntanlega undir eigin stjórn- undir því yfirskyni að verjast átökum á vinnumarkaði þótt hitt eiginlega tilefni væri ótti við átök vegna samnings í landhelgisdeilunni. 

Þeir æskuvinir Styrmir og Hörður Einarsson hafa svo báðir tengst náið blaðaútgáfu á Íslandi, Styrmir sem ritstjóri Morgunblaðsins, Hörður sem útgefandi Vísis og síðar DV.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband