hux

Tæknileg mistök, vegamál og annað hvalræði

Staksteinar eru í dag að senda Árna Johnsen einhvers konar skilaboð um að það væri nú bara best fyrir hann að draga sig til baka af framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og líta svo á að hann hafi fengið nægilega mikla uppreisn æru með þeim árangri sem hann náði í prófkjörinu. Athyglisvert verður að sjá hvort  Árni gerir eitthvað með þetta álit sinna gömlu samstarfsmanna og vina á Mogganum, sem stóðu við bakið á honum lengur en stætt var í tjarnardúksmálinu á sínum tíma. Mogginn treysti Árna og hann lét blaðið villa um fyrir lesendum sínum og prenta einhverja steypu um dúkinn sem hann var að flytja milli lands og Eyja meðan fjölmiðlar voru að fletta ofan af hans "tæknilegu mistökum".

En aftur að Staksteinum, þeir tala um áhyggjur áhrifamanna í Sjálfstæðisflokknum af stöðu ýmissa mála og nefna þar helst til sein viðbrögð Sturlu Böðvarssonar og Árna Mathiesen við kröfunni um úrbætur á Suðurlandsvegi og Vesturlandsvegi. Allt rétt, þau viðbrögð voru ekki til fyrirmyndar. En hins vegar vakti það furðu mína í þessu sambandi að Staksteinar nefni ekki embættisferil Einars K. Guðfinnssonar, en þar hefur hvert óhappið rekið annað eins og Mogginn sjálfur hefur verið allra miðla  duglegastur að halda til haga.

Þannig hjólaði blaðið af mikilli hörku í Einar vegna þess hvalræðis sem ákvörðun um veiðar á 30 hrefnum og níu langreyðum hefur leitt yfir íslenska hagsmuni. Sú ákvörðun hefur þegar eyðilagt markaðsstarf fyrir íslenskar matvörur í Bandaríkjunum og gert að verkum að málsmetandi menn og stofnanir neituðu Einari K. Guðfinnssyni um fund þegar hann kom vestur um haf í síðustu viku til þess að reyna að bæta fyrir skaðann. Þær skammir sem Íslendingar hafa fengið fyrir andstöðuna við bann við botnvörpuveiðum á úthafinu standa áreiðanlega í beinu sambandi við hvalræðisákvörðunina nokkrum vikum fyrr. Þegar þessi tvö mál eru tekin saman komast menn í Bandaríkjunum að þeirri niðurstöðu að Íslendingar séu siðferðislegir einfarar í málefnum hafsins eins og það var orðað í Washington Post.

Á nokkurra mánaða ráðherraferli hefur alþjóðlegri ímynd Íslendinga sem þjóðar sem er til fyrirmyndar í umgengni um auðlindir hafsins verið rústað og er óvíst hvort það tekst að endurreisa þá ímynd. Mogginn hefur ekki dregið af sér í gagnrýni á málið og beint henni allri að sjávarútvegsráðherranum. En þegar Staksteinar tala nú um þau mál sem helst séu flokksmönnum áhyggjuefni eru mál sjávarútvegsráðherra, sem þó hafa verið fyrirferðarmikil í umræðu blaðsins, ekki talin upp þar á meðal. Skyldi það vera vegna þess að Staksteinar vita sem er að raunverulega ábyrgð á hvalræðinu og eftirleik þess ber ber ekki síst formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra. Geir H. Haarde stóð ekki í lappirnar þegar á reyndi að berja niður kröfuna um hvalveiðar líkt og forverar hans Davíð og Halldór höfðu gert. Kannski eru Staksteinar að hlífa Geir fremur en Einari K. með því að halda þessum málum ekki til haga þegar rætt er um þau mál sem eru Sjálfstæðisflokknum erfið um þessar mundir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband