hux

Ertu að hlusta, Heimdallur?

Finnst engum öðrum en mér undarlegt að ekkert heyrist í ungum sjálfstæðismönnum vegna símhleranamálsins? Nú eru þeir frægir áhugamenn um verndun friðhelgi einkalífsins, það er einmitt hennar vegna sem þeir skunda ár hvert niður á skattstofu og vernda skattskrána fyrir augum forvitinna.

Nú eru uppi grunsemdir um að árum og áratugum saman hafi verið rekin hér án lagaheimilda einhvers konar leyniþjónusta sem stundaði eftirlit með einkalífi fjölmargra einstaklinga, jafnvel ráðherra í ríkisstjórn landsins. Er það ekki brot á stjórnarskrárverndaðri friðhelgi einkalífsins að hlera síma fólks nema um sé að ræða dómsúrskurði í tengslum við rannsóknir sakamála? Það hélt ég.

En ekkert heyrist frá Heimdalli og bræðrum hans. Eru þeir kannski ennþá niðri á skattstofu?

Huxandi um þetta fer ég að velta fyrir mér nafni félagsins. Var ekki Heimdallur sá ás sem sá jafnt nætur sem daga, þurfti minni svefn en fugl og heyrði svo vel að hann heyrði grasið gróa? Karlgreyið, hann hefur ekki komist hjá því að vera með nefið ofan í hvers manns koppi. Feginn er ég að vera ekki fæddur með þessum ósköpum.

Athyglisvert að ungir sjálfstæðismenn kenni sig við Heimdall, fáir aðrir hafa orðið til að halda nafni hans á lofti. Það hefur ekki einu sinni verið skírt eftir honum varðskip, eins og flestum öðrum ásum af karlkyni, sem halda uppi sýnilegri og lögbundinni öryggisgæslu í landhelginni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og níu?
Nota HTML-ham

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband