hux

Ólíkar áherslur sjálfstæðismanna

Það var ekki beinlínis samhljómur með ræðum flokksbræðranna forsætisráðherra og forseta Alþingis á þjóðhátíðardaginn. Báðir ræddu vandann í sjávarútvegi, sem hefur verið mál málanna frá því um  sjómannadagshelgina.

Geir segir að vandinn í sjávarútvegi sé eitt helsta viðfangsefnið nú, viðurkennir vanda sjávarbyggðanna; undirstrikar styrkleika þjóðarbúsins til að mæta áföllum í sjávarútvegi nú og lýsir trausti á sjávarútvegsráðherra og væntanlega ákvörðun hans um hámarksafla. Þetta finnst mér benda til Einar K. muni leggja niðurstöður Hafró til grundvallar þótt hæpið sé - í ljósi reynslunnar - að gera ráð fyrir að hann fylgi ráðum Hafró um að breyta aflareglunni og færa hlutfallið niður í 20%.

En það er ræða Sturlu sem mér finnst sæta mestum tíðindum, svona pólitískt séð. Það er greinilegt að það eru ekki bara þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar sem ætla að taka sér mikið svigrúm til að undirstrika sérstöðu sína í þessu stjórnarsamstarfi, forseti Alþingis áskilur sér allan rétt til hins sama. Það er athyglisvert að þessa ræðu flytji 1. þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, forseti Alþingis, nýstaðinn upp úr ráðherrastól en ennþá í stjórnarliðinu og í lykilhlutverki þar.

Athugið að með þessu dreg ég ekki úr því að mér finnst þetta hin fínasta ræða hjá Sturlu og má súmmera það álit upp með því að endurbirta úr henni þennan kafla:

"Áform okkar um að byggja upp fiskistofnana með kvótakerfinu sem stjórnkerfi fiskveiða virðist hafa mistekist. Sú staða kallar á allsherjar uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu ef marka má niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar. Staðan í sjávarútvegsmálum er því mjög alvarleg og kallar á breytingar ef sjávarbyggðirnar eiga ekki að hrynja. Margt bendir til þess að aflaheimildir safnist á hendur fárra útgerða sem leggja skipum sínum til löndunar í útflutningshöfnunum og herða enn frekar á þenslunni í atvinnulífinu þar, allt í nafni hagræðingar sem mun koma hart niður á þeim byggðum sem allt eiga undir veiðum og vinnslu sjávarfangs."

Sturla, sem lagði sig einnig fram um að hafna því að einungis væri hægt að bregðast við með flutningi opinberra starfa, talar þarna nánast með sama hætti og Björn Ingi gerði á sjómannadag og fleiri hafa síðan gert. En strax eftir sjómannadag lagði Einar K. Guðfinnsson sig fram um að ganga gegn þessum sjónarmiðum, og virtist í talsverðri vörn gagnvart umræðu af þessu tagi. Nú virðist það blasa við að þeir eru alls ekki á sömu blaðsíðunni í sjávarútvegsmálum sjávarútvegsráðherrann, sem skipar 2. sæti á D-lista í NV-kjördæmi og Sturla, sem skipar 1. sætið á sama lista. Og forsætisráðherrann hefur uppi sömu sjónarmið og Einar K. Guðfinnsson, eftir því sem mér sýnist og þótt Geir hafi lýst sérstöku trausti á þá ákvörðun sem Einar K. muni taka liggur beint við að túlka orð Sturlu þannig að hann hafi ekki sama traust á því sem í vændum er úr sjávarútvegsráðuneytinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján H Theódórsson

"Batnandi manni er best að lifa ".  Sturla verður boðinn velkominn í raðir Frjálslyndra verði hann goggaður niður af hinum Kvótahænsnum LÍÚ í Sjálfstæðisflokknum!

Kristján H Theódórsson, 17.6.2007 kl. 23:35

2 identicon

Sammála þér að það var margt fínt í ræðu Sturlu - en ég horfi þannig á þessa uppákomu að Sturla sé í ákveðnu powergeimi hér - honum var hafnað sem ráðherra - hann er mjög ósáttur við það ef marka má viðbrögð hans í kjölfarið. Tímasetningin sem hann velur fyrir að tjá þessi sjónarmið er ekki tilviljun að ég tel, hann gerir það á sama degi og Geir, sá hinn sami og hafnaði honum, flytur hátíðarræðu í tilefni sautjándans. Hann stal athyglinni í dag - og ég held að honum hafi ekki þótt það vont!

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 17.6.2007 kl. 23:47

3 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Kíktu á Moggann í dag.

Ekki er Einar Oddur neitt mikið samþykkur Kvótakerfinu.

Raunveruleikinn er, að ÖLL Kratakerfi, hvað þá kerfi sem gerð eru í samráði Framsóknar og Krata, eru ólög og fela sjálfan Dauðann í sér.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 18.6.2007 kl. 11:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband