hux

Egill segir upp án þess að viðurkenna samning

Það dregur til tíðinda í máli Egils Helgasonar og Stöðvar 2. Í dag svarar lögmaður Egils bréfi lögmanns Stöðvar 2. Þar kemur fram að bréfið sé skrifað til þess að segja upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti þeim samningi sem Ari Edwald telur sig búinn að gera við Egil án þess þó að viðurkenna að sá samningur hafi verið gerður. 

Egill hafni því að samningur hafi verið kominn á en leggi áherslu á að forðast málaferli og dómstólaþjark og vilji ljúka málinu eins hratt og kostur er. Því hafi verið ákveðið að bregðast við líkt og samningur hefði verið kominn á í stað þess að hafa málaferli hangandi yfir sér. Í því felist þó ekki viðurkenning á að nokkur samningur hafi legið fyrir.

Það undarlega í málinu er að staða Egils gagnvart Stöð 2 er alveg óbreytt eftir þessi tíðindi. Sá samningur sem 365 telur sig hafa haft í höndum gerði ráð fyrir Egill væri bæði launalaus og verkefnalaus fram á haust og nú er hann sem sagt kominn á uppsagnarfrest og allan þann uppsagnarfrest hefur hann - samkvæmt þeim samningi sem Ari segist sjálfur hafa gert - hvorki skyldu til þess að mæta í vinnu né gera nokkurn skapaðan hlut í þágu Stöðvar 2 og þiggur engin laun frá vinnuveitandanum á tímabilinu. Ætli stjórnendur Stöðvar 2 telji sig hafa unnið frækinn sigur í málinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Pétur!

Þetta er vissulega athyglisvert mál. Og á sér ýmsar hliðar. Vinur minn Egill hefur alltaf haft öðrum hnöppum að hneppa að sumri til -- meðal annars huga að ferðamálum í Grikklandi - að eigin ósk eftir því sem ég kemst næst. Tvo mánuði á ári er hann því ekki (eða hefur verið) á launum hjá 365. Hann hefur verið á launum júní og fer aftur á launaskrá 1. sept. Ég rek í það augun í Fbl. að Egill átti sem launamaður að fá milljón á mánuði. Væntanlega þá fyrir Silfrið, bloggskrif á Vísi og eina innkomu á viku í Ísland í dag. Flestum í stéttinni þætti þetta fínn díll þannig að ég held að óþarfi sé að stilla málum þannig upp að Egill hafi verið hlunnfarinn í gegnum tíðina -- eins og hann lætur reyndar að liggja blessaður sjálfur á sínu bloggi sem væntanlega hverfur nú af Vísi -- að hann sé klaufi í samningum. Ef hann er klaufi...

En... Guð láti á gott vita. Páll er því væntanlega að borga á aðra milljón til handa Agli fyrir tvo vikulega þætti, annan um pólitík, sem væntanlega verður ládeyða í lengstum frá og með þessum punkti að telja og svo bókmenntaþátt að frönskum hætti. Sem skattgreiðandi þá efast ég um að það sé svo góður díll fyrir fjölmiðil sem haldið er úti með almannafé en sem blaðamaður hrópa ég húrra! Hugsanlega verða vistaskipti Egils til að laga stórkostlega kröpp kjör þeirrar stéttar sem er á sultarlaunum gegnumsneytt. Eða ég get ekki ímyndað mér annað en þeir fjölmörgu standardar sem hafa staðið vaktina á RÚV á opinberum launum, og telja sig varla minni karla en Egill, muni nú knýja á um verulegar launahækkanir sem vonandi ganga yfir línuna. Því segi ég: Gott hjá Agli. Huganlega mun hann óvart gera stéttinni meira gagn en samninganefnd BÍ því ekki er að hann sé oflaunaður heldur eru flestir hinna á lúsarlaunum.

Bestu kveðjur,

Jakob

Jakob Bjarnar (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 12:04

2 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Blessaður Jakob, megirðu hafa lög að mæla, vonandi er bara til vitnis um að laun reyndra blaðamanna fari að nálgast laun Seðlabankastjóra, ég held það færi ágætlega á því. En að vísu veit ég ekki hvort það er rétt að Egill sé að fá allan þennan pening frá RÚV, sá ég hann ekki vísa því á bug einhvers staðar.

Pétur Gunnarsson, 6.6.2007 kl. 12:22

3 identicon

Ég hélt að blogg Vísis væri frjáls vettvangur skoðanaskipta og öllum heimilt að blogga þar héldu þeir sig innan velsæmismarka hvort sem þeir ynnu hjá 365.

Það veikir jafnan stöðu fjölmiðla þegar þeir reyna að hefna sín á fyrrum starfsmönnum sínum, hvort sem þeir eru fastráðnir eða lausráðnir. Um laun Egils segi ég lítið, en óskandi væri að þetta brambolt hefði einhverjar kjarabætur í för með sér. En forráðamenn Vísis ættu að hugsa alvarlega sinn gang. Væntanlega verður þetta tiltæki til þess að bloggarar flýi vefinn unnvörpum.

Svona er þá frelsið í reynd!

Arnþór Helgason (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband