18.5.2007 | 23:24
Var pólitísk trúlofun í janúar?
Það er margt úrvalsfólk í þingflokkum þeirra flokka sem nú sitja við að mynda nýja ríkisstjórn. Ekki spurning, ágætt mannval er í herbúðum beggja og ekki þarf að efast um einlægan vilja alls þess fólks til að verða landi sínu og þjóð að því gagni sem best það má. Einn þeirra ungu efnilegu manna sem nú á möguleika á ráðherrastóli heitir Björgvin G. Sigurðsson, leiðtogi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.
Á liðnum vetri skrifaði Björgvin nokkra athyglisverða pistla á heimasíðu sína sem langminnugir menn hafa rifjað upp fyrir mér. Einkum er þessi pistill frá 15. janúar sl athyglisverð lesning í dag. Hann var skráður í framhaldi af því að Morgunblaðið flutti fréttir af því að þingmenn úr Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki væru að hittast og leggja á ráðin um stjórnarsamstarf að loknum kosningum. Björgvin þótti vont að vera brigslað um þetta enda brann honum í brjósti sannfæring um að Samfylkingin ætti að vera mótvægi og valkostur við Sjálfstæðisflokkinn í íslenskum stjórnmálum en alls ekki þátttakandi í pólitískri fegurðarsamkeppni um hylli Sjálfstæðisflokksins. Þarna talaði sko ekki maður sem var á leið í samstarf með Sjálfstæðisflokknum. Björgvin sakaði Moggann um að fara með kjaftasögur. Hann sagði:
Það var ansi skrítið að lesa um það í Mogganum í gær að einhverjir ónafngreindir þingmenn Samfylkingarinnar sitji nú í samtölum með forystumönnum úr Sjálfstæðisflokki um nýja ríkisstjórn þessara tveggja flokka.
Allir tuttugu liggja nú undir ámæli Mogga. Svo hugguleg sem svona vinnubrögð eru hjá blaði allra landsmanna. Kannski að Moggi greini nánar frá þessu þannig að þetta liggi ekki eftir sem hrein kjaftasaga án nokkurrar stoðar í veruleikanum.
Gott og vel. Ekkert að því að menn spjalli saman og hver hefur sína skoðun á samsetningu nýrrar ríkisstjórnar. En er það nú við hæfi að sjálft Morgunblaðið slengi í súper leiðara hverrar viku, Reykjavíkurbréfinu, fram frásögnum í formi kjaftasagna um jafn alvarlega hluti og þessa?
Hvað meinar Mogginn, í hvað er hann að vitna?
Það sem liggur að baki er augljóst: Örvænting sjálfstæðismanna um að nú sé flokkurinn á leið í langvarandi stjórnarandstöðu. Samstilling stjórnarandstöðunnar um að hún muni freista þess að ná saman um nýja ríkisstjórn að loknum kosningum veldur þessu augljóslega.
Auk hræðslu Geirs Haarde við að brjóta sér leið út úr þeirri dæmalausu þöggun sem Davíð Oddsson kom á um Evrópumálin innan flokksins. Samfylking og Framsókn eru á góðri siglingu í rétta átt í Evrópumálum og meira að segja Vg er hætt að útiloka aðild.
Íhaldið er að daga uppi sem nátttröll í Evrópumálum og það blasir við að það mun kosta flokkinn í næstu kosningum ranki hann ekki við sér. Geir þorir ekki að stökkva yfir skuggann sinn og taka ráðin í sínar hendur.
Ríkisstjórnin mun að öllum líkindum falla. Þá eru góð ráð dýr og flestu kostað til að halda íhaldinu innan stjórnar.
Látið er að því liggja að allir þræðir séu í hendi Sjálfstæðisflokks. Úllen dúllen doff. Hver fær að koma með í nýja ríkisstjórn; Vg eða Samfylking. Búið er að blóðnýta Framsókn.
Nú þarf nýjan partner.
Auðvitað er ekki einboðið að stjórnarandstaðan nái saman. En eftir stendur tækifærið til að mynda nýja ríkisstjórn jafnaðarmanna undir forystu Samfylkingarinnar. Hvernig sem okkur farnast við að nýta það.
Þetta veit Moggi. Það meinar hann og veit. Því er byrjað að skjóta upp flugeldum tortryggninnar. Riðla samstöðu stjórnarandstöðunnar. Sem er merkileg og hefur verið meiri og raunverulegri í þinginu en margir áttu von á.
Spennan vex í takt við örvæntinguna íhaldsmanna.
Í leiðara sínum í dag virðist Mogginn með böggum hildar yfir því að stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sé í burðarliðnum. Menn hafa spurt hvort það sé rétt skilið að leiðarahöfundur blaðsins eigi nú þá von helsta að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti taki í taumana og komi í veg fyrir stjórnarmyndun. Það er nú ansi langsótt von. En hitt getur Mogginn gert og það er að segja nú frá því hverjir það voru úr þingliði beggja sem settust niður um miðjan janúar og lögðu drög að því samstarfi sem nú er verið að innsiglað. Og hvað segir Björgvin í dag? Mun hann treysta sér til að halda því fram aftur að hið raunverulega erindi Samfylkingarinnar í íslensk stjórnmál sé að mynda mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Facebook
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 536798
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
"Auk hræðslu Geirs Haarde við að brjóta sér leið út úr þeirri dæmalausu þöggun sem Davíð Oddsson kom á um Evrópumálin innan flokksins. Samfylking og Framsókn eru á góðri siglingu í rétta átt í Evrópumálum og meira að segja Vg er hætt að útiloka aðild. Íhaldið er að daga uppi sem nátttröll í Evrópumálum og það blasir við að það mun kosta flokkinn í næstu kosningum ranki hann ekki við sér. Geir þorir ekki að stökkva yfir skuggann sinn og taka ráðin í sínar hendur."
Athyglisverð ummæli Björgvins um Evrópumálin. Ætli það sé tilviljun að þeir tveir flokkar, sem mest hafa daðrað við Evrópusambandsaðild, komu verst út úr kosningunum á laugardaginn á meðan þeir tveir flokkar sem hafa verið harðastir gegn aðild voru sigurvegarar þeirra?
Hjörtur J. Guðmundsson, 18.5.2007 kl. 23:51
Hjörtur, ekki get ég láð þér þess að halda þessari staðreynd til haga, það verður ekki deilt um það að þeir tveir flokkar sem juku fylgi sitt hafa báðir verið andvígir ESB-aðild. Evrópu bar hins vegar varla á góma í þessari kosningabaráttu svo ég yrði var við.
Pétur Gunnarsson, 19.5.2007 kl. 00:02
Það er ekki þar með sagt að einhver hluti kjósenda hafi ekki tekið afstöðu flokkanna til Evrópumálanna inn í myndina enda flestum sennilega ljóst hvar þeir nokkurn veginn standa í þeim efnum. Gleymum annars ekki að í kringum síðustu áramót fór í gang talsverð umræða um Evrópumálin og þá einkum evruna. Í hópi Evrópusambandssinna fór Valgerður Sverrisdóttir fremst í flokki og síðar bættist Ingibjörg Sólrún Gísladóttir m.a. í hópinn.
Þess utan tel ég persónulega að það sé engin tilviljun að Evrópumálin hafi að öðru leyti nánast ekkert borið á góma í aðdraganda kosninganna. Ef forysta Samfylkingarinnar hefði talið sig vera með tromp á hendi þar sem áherzla á Evrópusambandsaðild væri þá hefði hún ekki hikað við að leggja áherzlu á það. En hún kaus að gera það ekki. Hvers vegna?
Hjörtur J. Guðmundsson, 19.5.2007 kl. 00:39
Heyrðu nafni! Þú ert nú allur í "spunanum", fjölmiðlaljón og væntanlega með aðgang að öllum gögnum eins og Mogga langt aftur í tímann. Ég er kannski ekki einn af þeim langminnugu en ég mann altént eftir því að Magga Björns (erkikafbátur vinstrihreyfingarinnar til margra ára, fór í fyrstu bylgju frá Allaballa yfir til kratanna) skrifaði einmitt grein snemma í vetur eða s.l. haust einmitt um að Samfylkingin ætti að stíla uppá að starfa með Sjálfstæðisflokknum. Góði leitaðu þetta nú uppi til að stríða okkur öllum og ergja! Ekki veitir af í öllu þessu húmorsleysi.
Pétur Tyrfingsson, 19.5.2007 kl. 03:32
Nafni, ég mun með ánægju verða við þessari frómu ósk og birta hér innan skamms þessa merku grein Margrétar.
Pétur Gunnarsson, 19.5.2007 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.