hux

Kapall í gangi

Líklega kemur fátt í veg fyrir að Baugsstjórnin nái í mark og verði mynduð innan tíðar. Það má samt enn vona að Ingibjörg Sólrún gangi að gylliboðunum um forsætisráðherrastólinn sem nú rignir yfir hana. Guðni og Steingrímur J. buðu þetta báðir í Kastljósi í gær og Árni Þór undirstrikar þetta á blogginu sínu í dag og Jón Sigurðsson í nýrri grein á framsokn.is. Það er nú ansi seint fram komið verður maður að segja og ekki laust við að maður hristi hausinn yfir því að VG hafi þurft allan þennan tíma. Ólafur Teitur segir í Viðskiptablaðinu í dag að það sé óskiljanlegt öðrum en greindustu mönnum af hverju vinstri stjórn var ekki mynduð strax á sunnudag og bið ég spenntur eftir því að greindustu menn komi fram með skýringuna.

Það er ekki spurning að þetta er óskastjórn Baugs og sennilega líka annarra auðhringa í landinu, líka álitsgjafanna. Það verður athyglisvert að fylgjast með hvaða ráðherraliði Sjálfstæðisflokkurinn stillir upp. Geir, Þorgerður og Guðlaugur Þór eru sjálfgefin, líka Árni Mathiesen en svo vandast málið fyrir Geir þegar kemur að þeim fimmta og sjötta. Menn minnast hinna hörðu átaka sem urðu um uppstillingu í Norðvesturkjördæmi. Sturla stimplaði sig þar inn sem andstæðing Geirs og þeirra sem nú eru við völd í Sjálfstæðisflokknum. Verður honum skákað út? Einar Kr. stendur sterkur og er líklegastur í 5. ráðherrastólinn. Takist að losa um Sturlu og koma honum fljótlega af þingi sest þangað í hans stað Herdís Þórðardóttir, mágkona Geirs H. Haarde. Mest er spennan í kringum Björn Bjarnason og hvort hann fær sjötta ráðherrastólinn. Í mínum huga geta sjálfstæðismenn ekki verið þekktir fyrir að fórna Birni, með því innsigla þeir Baugsstimpilinn á þessa ríkisstjórn. Ég hef gagnrýnt Björn og hann virðist ekki geta farið í viðtöl án þess að hafa þennan bloggara á hornum sér, síðast í Viðskiptablaðinu í dag, en ef Sjálfstæðisflokkurinn lætur Jóhannes í Bónus fella Björn úr sínu liði verður sú skömm lengi uppi.

Hvað varðar Samfylkinguna er m.a. spennandi að sjá hvort varaformaðurinn Ágúst Ólafur hefur þá vigt sem þarf innanflokks til að verða ráðherra. Ingibjörg Sólrún hefur líka talað um að hún muni hafa jafnt kynjahlutfall í sínu ráðherraliði. Þá hljóta Jóhanna og Þórunn Sveinbjarnardóttir að vera efstar á blaði. Og hvor stendur sterkar innan þingflokksins Kristján L. Möller eða framtíðarmaðurinn Björgvin G. Sigurðsson? Þetta kemur allt í ljós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Eftirfarandi er í samþykktum síðasta landsfundar Samfylkingarinnar 

8. Að í ráðherraliði Samfylkingarinnar verði jafnt hlutfall karla og kvenna og að Ísland verði meðal þeirra landa þar sem hlutfall kvenna í stjórnmálum er hvað hæst.

     

9. Jafnt hlutfall kvenna og karla í hópi forstöðumanna ráðuneyta og ríkisstofnana sem og í nefndum og ráðum á vegum ríkisins.

     

10. Vinna að auknum hlut kvenna í stjórnum og ráðum á almennum vinnumarkaði og í stjórnum almenningshlutafélaga. Fyrirtækjum verði gefið ráðrúm til að rétta hlut kvenna en lög sett að öðrum kosti fyrir lok kjörtímabils.

Þetta þýðir að ef auglýstar verða stöður forstöðumanna ríkisstofnanna, verða eingöngu ráðnar konur á næsta kjörtímabili, óháð menntun, reynslu eða öðrum mælistokkum. Fyrirtæki landsins verða líka að passa sig...

Gestur Guðjónsson, 18.5.2007 kl. 12:59

2 Smámynd: Ingólfur H Þorleifsson

Sporin hræða. Í þau fáu skipti sem tekist hefur að mynda vinstri stjórn þá hafa þær sprungið. ISG er búin að komast að hinu sanna eðli VG og ætlar ekki að láta þá svíkja sig aftur eins og í R listanum forðum.

Ingólfur H Þorleifsson, 18.5.2007 kl. 17:14

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Vil benda Ingólfi á að síðasta vinstri stjórn sprakk ekki sem ætti nú að vera fólki í fersku minni.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 18.5.2007 kl. 17:52

4 Smámynd: Gústaf Níelsson

Athyglisvert að þú skulir reyna að skrifa Björn Bjarnason inn í ríkisstjórnina, þótt allar raunverulegar forsendur skorti til þess. Allt tal um "Baugsstjórn" er geðillskutal. Raunalegt hvað framsókn hélt illa á spilunum. Kann að vera að formann flokksins skorti í reynd pólitíska reynslu?

Gústaf Níelsson, 18.5.2007 kl. 21:01

5 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Baldur: Það er staðreynd að auðhringur sem mjög hefur blandast í opinber mál hér undanfarin ár hefur óskað sérstaklega eftir því að þessi stjórn verði mynduð, þetta er svona. Þessi kennitölubrandari þinn - ég er ekki að fíla hann., en hitt veit ég að sá sem fer með slíkar dylgjur getur illa sakað aðra um að vera ómálefnalegir.

Gústaf:  Ég er ekki að skrifa Björn inn í stjórnina enda ekki mitt að ákveða en  ég er þeirrar skoðunar að  tilraunir Hreins og Jóhannesar til að hlutast til um  kosningar og stjórnarmyndun séu mikil tíðindi og  sjálfstæðismenn hljóti að láta menn sjá að þeir verjist þeim tilraunum.  

Pétur Gunnarsson, 18.5.2007 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband