hux

Hvað liggur á?

Það var með ólíkindum að hlusta á frétt Ríkissjónvarpsins um vinnubrögð dómsmálaráðuneytisins við það að auglýsa laust til umsóknar embætti vararíkislögreglustjóra, næstæðsta embætti s lögreglunnar í landinu. Það var eingöngu auglýst í leyni á vef Lögbirtingablaðsins og sama auglýsing svo birt í prentútgáfu Lögbirtings daginn sem umsóknarfrestur rann út, nú rétt fyrir kosningar. Eini maðurinn, sem vissi af auglýsingunni og sótti um í tæka tíð, er mér sagt að sé sonur ritara dómsmálaráðherra.

Sá heitir Páll Winkel og er nýtekinn við starfi hjá Ríkislögreglustjóra en var áður framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna. Páll er líklega þekktastur fyrir grein sem hann birti 3. febrúar sl. í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Hvenær brýtur maður lög? en þar hjólaði hann í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna Baugsmálsins og sagði meðal annars: "Það er athyglisvert að greina röksemdafærslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem haldið hefur því fram og síðast nú á dögunum að ákæruvaldið sé "handbendi" Sjálfstæðisflokksins."

Sú aðferð sem viðhöfð var við að auglýsa embætti vararíkislögreglustjóra ýtir væntanlega undir getsakir um að Páll mundi koma illa út úr faglegum samanburði við aðra umsækjendur ef embættið hefði verið auglýst fyrir opnum tjöldum og með eðlilegum hætti. Hvort sem formlegum skilyrðum laga um auglýsingu opinberra embætta er fullnægt eða ekki gefa vinnubrögðin til kynna að málið sé rekið áfram og að málstaðurinn standist illa gagnrýni. Er óþarfi að láta Pál liggja undir slíku ámæli og sjálfsagt að auglýsa embættið að nýju með eðlilegum hætti.

Maður hlýtur að ætla að nú taki Geir H. Haarde sjálfur eða þá erindrekar hans dómsmálaráðherra á beinið og setji honum stólinn fyrir dyrnar um embættisveitingar fram að kosningum. Og í því sambandi er rétt að benda á að nú hefur dómsmálaráðherra á borði sínu umsóknir um embætti ríkissaksóknara, sem hann auglýsti og kaus að láta umsóknarfrestinn renna út rétt fyrir kosningar. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að dómsmálaráðherra fylgi fordæmi félagsmálaráðherra sem auglýsti á dögunum lausa til umsóknar stöðu skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu en lét umsóknarfrestinn renna út löngu eftir kosningar, þannig að það komi í hlut þess sem gegnir embætti ráðherra á næsta kjörtímabili að skipa í embættið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pálmi Gunnarsson

Auðvitað á að auglýsa embættið aftur en trúir þú því virkilega í ljósi sögunnar að það verði gert.

Pálmi Gunnarsson, 7.5.2007 kl. 20:13

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Þetta lítur skelfilega út. Ef fréttir af þessu eru réttar (reynslan kennir manni að hafa alla fyrirvara á öllu og jafnvel rúmlega það), þá má spyrja: Er mönnum ekki sjálfrátt? Hvílíkur bjarnar-greiði við Sjálfstæðisflokkinn nokkrum dögum fyrir kosningar ...

Hlynur Þór Magnússon, 7.5.2007 kl. 22:00

3 identicon

Sæll nafni,

Þessar athugasemdir sem þú gerir eru svo sannarlega réttmætar. Við erum líka mjög lánsöm að eiga svo góðan og gagnrýnin fjölmiðil eins og Ríkissjónvarpið sem tekur hlutverk sitt sem fjölmiðill alvarlega.

Við sem borgarar verðum að geta treyst hinu opinbera til að véla um sín ráð fyrir opnum tjöldum, hvort sem við horfum á framkvæmdavaldið eða löggjafann. Maður prísar sig sælan að eiga trausta fjölmiðla þegar þeir sem fara með völdin missa svo allt niður um sig.

Samt sem áður get ég ekki stillt mig um að benda þér á (og ávarpa þig þá sem traustan framsóknarmann) að flestum flokkssytkina þinna þótti asinn sem allsherjarnefnd viðhafði um daginn fyllilega eðlilegur... Jón og séra Jón? 

Pétur Maack Þorsteinsson (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 22:31

4 Smámynd: Þórbergur Torfason

Þarf ekki að fara með stóra rjómaþeytarann í fleiri krummaskuð en framsóknar.

Þórbergur Torfason, 7.5.2007 kl. 23:07

5 identicon

Var ekki lágmarkskrafan að umsækjandi hefði lögfræðipróf? Á meðal lögfræðinga er Lögbirtingablaðið án nokkurs vafa vinsælasta ritið og auglýsing sem þessi ætti ekki að fara framhjá þeim mörgum.   

Bjarni M. (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 01:09

6 identicon

Lög sem birt eru í Lögbirtingarblaðinu teljast vera birt almenningi og hefur svo verið um ómunatíð og öllum ber að fara eftir og engin afsökun að brjóta lög og segjast hafa ekki vitað af lögum gegn slíkum brotum. Rétt mun vera að sennilega er enginn lögfræðingur á Íslandi svo slakur að hann lesi ekki Lögbirtingarblaðið. Það hafa bara ekki fleiri haft áhuga á að sækja um stöðuna.

Siggi (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 02:36

7 identicon

Ég hef ekki orðið var við það í mínu starfi að lögfræðingar lesi Lögbirting í erg og gríð, a.m.k. ekki til þess að kynna sér atvinnuauglýsingar. Þetta er ótrúlega vandræðaleg framkvæmd hjá dómsmálaráðherra sem enn einu sinni hefur farið langt yfir strikið í sinni embættisfærslu. Tilraunir til réttlætingar á þessu með því að allir lögfræðingar lesi Lögbirtingarblaðið eru fáránlegar. Það er líka sérstaklega athyglisvert að ríkið starfrækir sérstakt starfatorg til að auglýsa störf hjá hinu opinbera, en einhverra hluta vegna hefur þetta ekki ratað þangað. Það er líka frekar erfitt fyrir þá fáu lögfræðinga sem lúslesa sig í gegnum Lögbirting að sækja um á einum degi. Það sýður á manni við svona fréttir.  

Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 08:57

8 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Bjarmi: Það kom fram í frétt Sjónvarpsins að með nýju lögreglulögunum hefði einkaréttur lögfræðinga á starfi eins og þessu verið afnuminn, lögreglumenn hefðu líka getað sótt um. Siggi: Það eru stjórnartíðindi en ekki lögbirtingablaðið sem birta lögin, Lögbirtingur birtir auglýsingar um gjaldþrot, nauðungaruppboð, skráða kaupmála og svoleiðis dót sem enginn þarf að lesa nema rukkarar, held ég. 

Pétur Gunnarsson, 8.5.2007 kl. 09:11

9 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Samsæriskenning (aldrei nóg af slíku): Er með þessum fráleitu vinnubrögðum á lokaspretti kosningabaráttunnar verið að koma höggi á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður - og þar með á formanninn sem skipar efsta sætið?

Hlynur Þór Magnússon, 8.5.2007 kl. 10:06

10 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Ja Hlynur, ég er ekki hissa þótt þú klórir þér í kollinum þarna megin yfir þessu, mér er þetta alveg óskiljanlegt.

Pétur Gunnarsson, 8.5.2007 kl. 19:59

11 Smámynd: Andrés Jónsson

Sammála þessari færslu hjá þér Pétur. Stórundarleg vinnubrögð. EKki síst þar sem að ríkið stofnaði fyrir nokkrum árum sína eigin ríkisreknu atvinnumiðlun (starfatorg.is) og þar auglýsa þeir "ókeypis" flestar veigameiri stöður í opinbera geiranum. Halda þeir fólk sé fífl að sjá ekki hvaða leik þeir eru að leika þarna?

Ég er ekki áskrifandi að lögbirtingablaðinu, hvorki á netinu eða í pappírsformi og sá því ekki auglýsinguna en maður sem hefur séð hana sagði mér að beðið hefði verið sérstaklega um lögfræðipróf í starfslýsingunni. Það er því ekki rétt sem þú kemur inn á og tengir við breytingu á lögreglulögum og formaður Landssambands lögreglumanna sagði reyndar líka, að þeir hefðu getað sótt um þetta, menntaðir lögreglumenn.

Kv. Andrés
Annars held ég að það sé skoðun manna í öllum flokkum að dugnaði Björns sé betur varið í eitthvað annað en dómsmálin á næsta kjörtímabili.

Andrés Jónsson, 8.5.2007 kl. 21:54

12 Smámynd: Pétur Gunnarsson

En málið er Andrés var það lögmæt krafa um lögfræðimenntun? Mér er sagt að í nýjum lögreglulögum sé beinlínis tekið fram að slíka kröfu eigi ekki að gera til þessa embættis.

Pétur Gunnarsson, 8.5.2007 kl. 22:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband