hux

Ótti við nærveru og ótti við fjarveru

Forseti Íslands er nú á sjúkrahúsi en sem betur fer er ekki talið að veikindi hans séu alvarleg. Megi hann komast til heilsu fljótt og vel.

Í kjölfar frétta af veikindum forsetans hefur athyglisverð umræða átt sér stað á bloggi Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur, Samfylkingarkonu. Bryndís óttast að fjarvera forsetans geti sett strik í stjórnarmyndunarviðræður að loknum kosningum. Hún lýsir áhyggjum af því að handhafar forsetavalds sinni skyldum forsetans við stjórnarmyndun en í því þríeyki hefur Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta, sem kunnugt er, Bryndís óttast að fjarvera forsetans auki líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn leiði næstu ríkisstjórn.

Síðastliðinn sunnudagsmorgun henti það Ástu Möller að opinbera í bloggi ótta sinn og fleiri  sjálfstæðismanna vð nærveru forsetans við stjórnarmyndun. Ásta óttaðist að nærvera forsetans drægi úr líkum á því að Sjálfstæðisflokkurinn leiði næstu ríkisstjórn. Það er illa varðveitt leyndarmál að sjálfstæðismenn hafa lengi óttast það að forseti Íslands geti gerst plássfrekur við stjórnarmyndunarviðræður og jafnvel ráðið þar úrslitum.

Að vísu róaðist Ásta undraskjótt. Sama kvöld lýsti hún með ógleymanlegum hætti fullu trausti á því að forsetinn þekkti og mundi virða skyldur sínar við stjórnarmyndun. Skildi ég hana þannig að hún hefði verið fullvissuð um að enginn munur væri á hugmyndum Ólafs  Ragnars Grímssonar og sjálfstæðismanna um hlutverk og vald forstans, skv. stjórnarskránni. Voru það nokkur tíðindi.

Það var talsvert hneykslast og hlegið að þessari uppákomu hjá Ástu. Hæst hlógu Samfylkingarmenn, t.d. þessi og þessi. Í leiðinni hneyksluðust þeir á að hún léti sér til hugar koma að forsetinn misbeitti valdi sínu til að hafa áhrif á stjórnarmyndun. Guðmundur Steingrímsson, sagði að Ásta hefði gert þau reginmistök að taka undir með Reykjavíkurbréfi og sagði:

Nú ætluðu þeir að sá tortryggni í garð forsetans. Að hann myndi hafa "óeðlileg afskipti" eins og það heitir, af stjórnarmyndunarviðræðum.

En nú kemur Bryndís Ísfold fram og sýnir okkur að nákvæmlega sami óttinn býr í hjörtum Samfylkingarfólks og sjálfstæðismanna,  bara í annarri mynd. Báðar óttast að Ólafur Ragnar ráði úrslitum. Ásta óttaðist áhrifin af nærveru hans en Bryndís óttast nú áhrifin af fjarveru hans. Þarf nú ekki Samfylkingin að róa Bryndísi og fullvissa hana um að þetta sé óþarfi og forsetinn hafi auðvitað engin "óeðlileg afskipti" af stjórnarmyndunarviðræðunum. Þarf ekki Samfylkingin að minna  Bryndísi Ísfold á að trúa ekki Reykjavíkurbréfinu?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir

Jæja, Pétur minn er þetta ekki full mikil túlkun í orð mín, það sem ég var að benda á var að eins og margir hafa verið að tala um að stjórnarmyndun gæti orðið flóknari en oft áður og þess vegna gæti komið upp erfið staða fyrir þremenningana sem fara með vald forseta í fjarveru hans þ.e. ef forsetinn væri fjarverandi vegna veikinda.  Ekki láta kosningahitann fara alveg með þig!

Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir, 7.5.2007 kl. 00:48

2 Smámynd: Jón Lárusson

Er þetta ekki tiltölulega einfalt? Er það ekki sigurvegarinn í kosningunum sem fær fyrsta tækifærið?

Jón Lárusson, 7.5.2007 kl. 09:28

3 Smámynd: Guðmundur Magnússon

Ég hnaut líka um þennan pistil hennar Bryndísar. Og af því að hún er frambjóðandi í kosningunum (og fer vonandi á þing) staldraði ég einmitt við það sama og þú. Þarna fannst mér ákveðin mótsögn í gangi hvað málflutning Samfylkingarinnar um forsetann og forstavaldið áhrærir.

En kannski var þetta oflestur eins og Bryndís Ísfold virðist núna vilja meina.

En hvað á þá að segja um annan góðan mann í sama flokki?  Hér bloggar Hreinn Hreinsson undir þeirri dularfullu fyrirsögn "Ástæða til tortryggni?". Hann skrifar:

"Hér er ég ekki að halda því fram að ég telji líklegt að valdarán  sé framundan en ég held að allir geti verið sammála um  að þessi staða [handhafar forsetavalds í stað forseta] væri afskaplega óheppileg þar sem allar aðgerðir handhafa forsetavalds væri hægt að draga í efa og setja í pólitískt samhengi. "

Það er nú gott að það er ekki valdarán framundan! En af hverju á að setja handahafana í pólitískt ljós í sínu hlutverki frekar en forsetann okkar með alla sína fortíð í stjórnmálum? Eigum við ekki frekar að treysta því að allir - jafnt handhafar sem forsetinn - geri skyldu sína?

Guðmundur Magnússon, 7.5.2007 kl. 10:54

4 identicon

Þú ert nú skemmtilega stríðinn Pétur  

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 12:42

5 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Eru þessar gagnkvæmu áhyggjur af stjórnarmyndun forboði? D+S? Annars af því að sumir hafa þessar þungu áhyggjur af fordæmi veitingar tiltekings ríkisborgararéttar, má þá spyrja saklaust um fordæmi þess að þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út af því að Ólafur Ragnar Grímsson fann sig ekki í formi eftir veisluhöld og hóteldvöl vestur á Snæfellsnesi? Heilsist honum og konu hans vel eftir áföll sín, en eiga þau ekki að vera fordæmi?

Herbert Guðmundsson, 7.5.2007 kl. 13:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband