hux

Skoðanakannanir og veðurfræði

Við Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og -bloggari, vorum að drekka saman kaffi yfir fartölvunum okkar og hann var að fara með mér yfir útreikninga sína á nýjustu skoðanakönnun Capacent, sem birt var í Mogganum í gær.  Af því að Einar bloggar bara um veðrið bað ég um og fékk leyfi til miðla þessum þeim útreikningum hans. Þeir eru svona:

Það voru 1225 manns í úrtakinu og svarhlutfallið var 62,3%, sem þýðir að ekki náðist í 37,7% af úrtakinu og því liggja 763 svör til grundvallar niðurstöðunni. Af þeim segjast um 26% vera óákveðnir, neita að svara eða segjast ekki ætla að kjósa. Þá eru eftir 575 einstaklingar um land allt sem svara Capacent og gefa upp afstöðu sína. Þrátt fyrir að fjöldinn sé ekki meiri en þetta brýtur Capacent svörin niður í kjördæmi og gefur upp prósentur í einstökum kjördæmum. Það er merkilegt af því að það þýðir að upplýsingarnar um stöðu mála í Reykjavíkurkjördæmunum byggist á svörum frá 116 einstaklingum. Út frá því er svo fullyrt að þessi sé inni, þessi sé úti og Sjálfstæðisflokkurinn fái annað hvert atkvæði.

Í Norðvesturkjördæmi eru uppgefin svör frá 61 einstaklingi á bak við þær niðurstöður sem Capacent gefur upp. Mér þykja þetta merkilegar upplýsingar. Einar fullyrðir að þetta séu mun smærri úrtök en Capacent hefur áður notað í skoðanakönnunum þar sem fylgi í einstökum kjördæmum er gefið upp, enda ekki skrýtið af því að það er ljóst að þegar fjöldinn er ekki meiri en þetta getur hver svarandi sveiflað fylgi flokkanna til og frá um heilt prósentustig eða jafnvel meira, eins og í Norðvesturkjördæmi, þar sem hver svarandi vigtar vel á annað prósent.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stórgott Pétur.Þarft var að segja frá þessum ábendingum Einars.Sagt er að eitthvað sé: (a)tóm lygi;(b)helber ósannindi og (c)tölfræði og staðreyndastífla.

Róbert Trausti Árnason (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 12:42

2 identicon

„Það er merkilegt af því að það þýðir að upplýsingarnar um stöðu mála í Reykjavíkurkjördæmunum byggist á svörum frá 116 einstaklingum. Út frá því er svo fullyrt að þessi sé inni, þessi sé úti og Sjálfstæðisflokkurinn fái annað hvert atkvæði.“

Pétur, ef þetta er svona spyr ég nú bara af hverju virt fyrirtæki eins og ég held  að Capacent hljóti að teljast á þessu sviði láti þessa könnun frá sér fara án þess að setja margfalda fyrirvara við þessar niðurstöður??? Eða er það kannski svo að Capacent gerir það en svo komi fjölmiðlarnir og byrja að túlka út í eitt en gleyma að nefna fyrirvarana. Mér finnst þetta sláandi, ég verð að segja það!! (eins og góður og gegn fyrrverandi [veit ekki hvort hann er núverandi] flokksbróðir ykkar Einars sagði hér um árið)

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 5.5.2007 kl. 16:34

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Ég spyr mig að þessu sama Anna og held að þú getir átt kollgátuna og að það séu fjölmiðlarnir sem leggja upp að fá svona niðurbrotin svör út úr svona takmörkuðu úrtaki. En svo er auðvitað þetta mál um ofreiknaða auglýsingakostnaðinn heldur ekki til þess að auka trú manns á vinnubrögðum Capacent um þessar mundir.

Pétur Gunnarsson, 5.5.2007 kl. 17:37

4 Smámynd: Jóhannes Freyr Stefánsson

Skessuhorn.is fjallaði ágætlega um þetta mál í gær. Skora á þig og lesendur þína að lesa greinina, "Eru skoðanakannanir marklausar?"

XS

Jóhannes Freyr Stefánsson, 5.5.2007 kl. 18:00

5 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Það er alveg makalaust að Capacent Gallup láti frá sér svona niðurstöður. Enda hefur verið áberandi að það er þó nokkur munur á tölum frá þeim og svo Félagsvísindastofnun fyrir einstök kjördæmi. Þetta verður náttúrulega til að fólk hættir að treysta tölum frá Capacent í framtíðinni. Það að byggt sé á skoðun undir 100 manns segir nákvæmlega ekkert um stöðunna. Þetta er óásættanlegt. Ef að fréttamiðlar  eru að kaupa kannanir eiga þeir að kaupa færri en stærri kannanir.

Magnús Helgi Björgvinsson, 5.5.2007 kl. 18:18

6 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Tek undir með Jóhannesi. Í Skessuhorni er einmitt bent á að vikmörkin eru svo gríðarleg að lítið verður ályktað af könnuninni. Allar þessar skoðanakannanir og túlkun fjölmiðlamanna á þeim hafa nokkra veikleika: 1. Svarhlutfallið er alltaf undir þeim mörkum (70%) sem menn sætta sig við í félagsvísindum. 2. Í túlkun kannana og sér í lagi þegar fullyrt er um breytingar frá einni könnun til annarrar er nánast aldrei tekið tillit til vikmarka. 3. Engin tilraun er gerð til að læra af könnunum í gegnum árin t.d. að leiðrétta fylgi Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks þar sem hinir fyrrnefndu eru síður í hópi þeirra sem gefa ekki upp afstöðu en hinir síðarnefndu eiga líklega hærra hlutfall meðal þeirra sem neita að gefa upp afstöðu. 4. Það væri mjög fróðlegt að sjá breytingar á fjölda þeirra sem eru óákveðnir milli kannana. Þetta er ekki síður athyglisverð pólitísk breyta.

Mér finnst það einkenna þessa kosningabaráttu umfram fyrri kosningar að skoðanakannanir virðast hafa meiri áhrif á umræðuna. Nær allir sjónvarpsfundir byrja alltaf á algerlega merkingarlausu tali aftur og fram um niðurstöðu nýjustu skoðanakönnunar. Sú umræða hefur ekkert pólitískt innihald og mér þykir einkennilegt að taka þetta út sem sérstakt umræðuefni og eyða í það drjúgum tíma.

Pétur Tyrfingsson, 5.5.2007 kl. 20:04

7 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Ef nauðsynlegt þykir að hafa einhverjar misvitlausar bremsur á auglýsingakostnaði flokkanna, þá finnst mér þó hálfu nauðsynlegra að hafa bremsur á skoðanakannanavitleysunni.

Hlynur Þór Magnússon, 5.5.2007 kl. 20:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband