28.4.2007 | 18:44
Formalismi dagsins
Ég heyrði í morgun sögu sem mér finnst benda til þess að þeir sérfræðingar sem sitja í yfirkjörstjórn í Reykjavík séu svo sannarlega að leggja sig fram um að vanda sig í störfum sínum. Þeir verða ekki hankaðir á því að fara ekki eftir lagabókstafnum.
Þegar framboðslistum Framsóknarflokksins í Reykjavík var skilað til kjörstjórnar skömmu fyrir hádegi í gær fylgdu með - eins og lög gera ráð fyrir - listar með tilteknum fjölda meðmælenda og að auki staðfesting allra frambjóðenda á að þeir tækju sæti á listunum. Í 22. sæti listans í Reykjavíkurkjördæmi norður situr maður að nafni Halldór Ásgrímsson, sem margir kannast við en hann sat á alþingi frá 1978-2006 og var nánast ráðherra allan sinn þingmannsferil, síðast forsætisráðherra, og formaður Framsóknarflokksins um 14 ára skeið. Þið munið hann Halldór. Hann skipar heiðurssætið í Reykjavík norður.
Halldór starfar nú sem framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar og er búsettur í Kaupmannahöfn, þess vegna var undirritun hans framvísað á faxi. Það mun hafa verið gott og gilt í undanförnum kosningum að frambjóðendur skili inn undirritunum á faxi.
En nú var annað hljóð í strokknum. Yfirkjörstjórn í Reykjavík var búin að þrengja reglurnar enda stendur ekki berum orðum í lögum að það megi skila undirritun á faxi, líklega var faxið ekki til þegar kosningalögin voru sett. Þess vegna var þess krafist að í stað faxins yrði lagt fram bréf með eiginhandarundirritun Halldórs í frumriti. Að öðrum kosti væri ekki hægt að ganga að því vísu að þessi Halldór Ásgrímsson hefði í raun og veru áhuga á að vera á lista hjá Framsóknarflokknum. (Ég ímynda mér að einu hagsmunirnir sem yfirkjörstjórnin geti hafa verið að verja séu þeir hagsmunir manna að vera ekki settir á framboðslista gegn vilja sínum.) En í stað þess að ógilda framboðslistann og koma í veg fyrir framboð Framsóknarflokksins í borginni vegna þessa ágalla veitti yfirkjörstjórn frest til kl. 14 í dag til þess að bæta úr.
Farið var í málið og fannst Íslendingur á leið frá Danmörku til Íslands sem gat tekið með sér bréfið frá Halldóri og komið því til reykvískra framsóknarmanna sem komu því svo til yfirkjörstjórnar sem tóku það gott og gilt. Líklega er þessi samviskusemi yfirkjörstjórnar og formalismi bara til fyrirmyndar en ég verð að segja að ég tel nú ekki miklar líkur á að embættismennirnir, sem ekki tóku gilt faxið með undirritun Halldórs, muni sjá í gegnum fingur sér við Arndísi Björnsdóttur sem skilaði framboði Baráttusamtakanna svonefndu hvorki meira né minna en heilli klukkustund eftir að auglýstur framboðsfrestur rann út.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:01 | Facebook
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 25
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ég geri ráð fyrir að þú, Pétur, sért að tala um Reykjavíkurkjördæmi norður. Af því að þú átt innangengt í Framsóknarflokknum gæturðu spurt um hvort sams konar dæmi hafi komið upp í Reykjavíkurkjördæmi suður, hjá sama flokki. Þessi formalismi er líklega sá minnsti sem hugsast getur. Það er merkilegt að þeir sem skrifa samþykki sitt við sæti á framboðslista þurfa ekki undirritun votta. En ef ég rek erindi fyrir aðra manneskju í banka, til dæmis, þarf ég skriflegt umboð viðkomandi, með tveim vottum. Alveg sama hvað raular og tautar.
Herbert Guðmundsson, 29.4.2007 kl. 13:43
Já Herbert er það svo að ekki þurfi að votta slíkar undirritanir, það veit ég ekki, mér þætti það eðlilegt og að það hafi verið vottar á þessu faxaða dæmi. Og auðvitað er það rétt sem þú segir um plögg í bönkum enda eru þar gerðir samningar sem verða aðfararhæfir fyrir dómstólum.
Pétur Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 14:04
Gleymdirðu nokkuð að gá að "hinu dæminu" hjá Framsókn, í Reykjavík suður? Það eru væntanlega einhverjar samræmdar reglur í gangi hjá kjörstjórnum, enda væri snautlegt ef einhver þeirra legði blessun sína yfir ólöglegt framboð! Kröfur bankanna o.m.fl. um vottun utanaðkomandi undirskrifta snúa ekkert frekar að samningagerð en almennum upplýsingum um stöðu umbjóðanda. Undirskrift hans ein dugir ekki og ekki nema með tveim vottum að undirskrift hans eða vottun eins lögmanns!
Herbert Guðmundsson, 29.4.2007 kl. 15:47
Nei, Herbert en segðu það sem þú veist endilega, ég veit ekkert um þetta og nenni ekkert að vera kanna það sem þú veist greinilega allt um. En þessi líking við bankana vefst fyrir mér enda er þar um að ræða aðfararhæfa samninga eða viðkvæmar persónuupplýsingar um einstaklinga.
Pétur Gunnarsson, 29.4.2007 kl. 22:16
Ég verð nú að segja að mér finnst þetta bara ágætis dæmi um samviskusöm vinnubrögð embættismanna sem gera ekki greinarmun á fólki.
Jújú, gott og vel - það má svo sem segja að líklega var Halldóri Ásgrímssyni það ekki á móti skapi að sitja á framboðslistanum... en hefði þá ekki mátt segja það sama um fólkið í 22. og 23. sæti - Árna Magnússon og Sigrúnu Magnúsdóttur. Líklega hefðu þau bæði talist svo "frægir Framsóknarmenn" að lítil ástæða væri til að gera sérstaka kröfu um frumrit af undirskriftum þeirra.
En hvenær hætta menn að teljast "frægir Framsóknarmenn"? Hvað með t.d. minn gamla skólabróður úr MR og fyrrum flokksfélaga úr Alþýðubandalaginu, Guðjón Ragnar Jónasson í 10. sæti. Hann hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn - dugir það til að kjörstjórn veiti honum afslátt af kröfum?
Eða þá Guðbjörg Guðjónsdóttir í fjórtánda sæti. Hún er eina manneskjan á framboðslistanum sem fær ekki af sér ljósmynd á heimasíðu flokksins: http://www.framsokn.is/reykjavik/frambodslisti%5F%2D%5Frn/ - ætti það e.t.v. að vekja grunsemdir kjörstjórnar?
Þótt vissulega sé kjánalegt að krefja Halldór Ásgrímsson um undirskrift sína, værum við fyrst komin út á hálan ís ef kjörstjórnarmenn færu að draga fólk í dilka eftir því hverjir séu nógu frægir til að fá að kvitta í gegnum fax og hverjir ekki. Eitt skal yfir alla ganga.
Stefán (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 11:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.