hux

Frá drögum til ályktunar: einkavæðingarsinnar urðu undir

Við samanburð á endanlegri ályktun og ályktunardrögum landsfundar Sjálfstæðisflokksins um umhverfismál og auðlindanýtingu kemur í ljós að bak við tjöldin á landssfundinum hefur verið tekist á um einkavæðingu  orkufyrirtækjanna og einkavæðingarsinnarnir hafa orðið undir í glímunni. Niðurstaðan gefur þeim færi á að halda andlitinu en þó er ljóst að fjaðrir þeirra hafa verið stýfðar. 

Ályktunardrögin, sem lágu fyrir fundinum, voru svohljóðandi:

Íslensku orkufyrirtækin eru í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki. Tímabært er að losa um eignarhald hins opinbera á orkufyrirtækjunum og leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins, svo þessi fyrirtæki fái að fullu notið sín í útrás íslenskrar sérþekkingar. Landsfundur leggur til að stefnt verði að því að færa eignarhald opinberra aðila að orkufyrirtækjunum yfir til einkaaðila, þó þannig að gætt sé vandlega að samkeppnis- og jafnræðissjónarmiðum.

 Þarna hefur sú stefna verið mótuð í málefnanefnd í aðdraganda landsfundar að orkufyrirtæki hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, -  Landsvirkjun, Rarik, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, svo og væntanlega Landsnet - skyldu seld einkaaðilum. Þessi hugmynd hefur greinilega mætt andstöðu því að niðurstaðan sem samþykkt var er svohljóðandi: 

Íslensku orkufyrirtækin eru í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki Landsfundur fagnar aðkomu einkaaðila að útrás orkufyrirtækjanna. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í þeirri útrás. Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila, sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða.

Breytingarnar fela í sér að í stað þess að stefnt skuli að því að færa eignarhald opinberra aðila yfir til einkaaðila skal skoða kosti þess að færa eignarhald ríkisins yfir til einkaðaila. Sem sagt: 1. Það er ekki á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að selja Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. 2. Í stað þess að stefnt sé að því að selja hlut ríkisins í Landsvirkjun, Rarik o.fl. ber að skoða kosti slíkrar sölu. Þannig að hófsemdarmennirnir hafa á fundinum rutt úr vegi þeirri hindrun fyrir stjórnarsamstarfi sem það hefði orðið ef flokkurinn hefði krafist einkavæðingar orkufyrirtækjanna. Einnig hefði það vafalaust valdið erfiðleikum í meirihlutasamstarfi í sveitarfélögum ef flokkurinn hefði viljað selja hlut einstakra sveitarfélaga í orkufyrirtækjum. Framsóknarflokkur, Samfylking og VG hafa að ég held allir ályktað að orkufyrirtækin eigi áfram að vera í opinberri eigu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Guðlaugur Þór? Ekki ólíklegt finnst mér.

Pétur Gunnarsson, 16.4.2007 kl. 21:38

2 identicon

Þeir (XD) eru samt byrjaðir.....  Hlutur ríkisins í HS auglýstur til sölu - FRAMKVÆMDANEFND um einkavæðingu hefur auglýst eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf. til sölu. TÍU aðilar lýstu yfir áhuga á að kaupa eignarhlut ríkisins í Hitaveitu Suðurnesja hf. Ríkið á í dag 15,203% hlut í Hitaveitu Suðurnesja. Þeir sem sendu inn tilboð eru: Askar Capital hf., Atorka Group hf., Base ehf., Geysir Green Energy ehf…….

Guðmundur Björnsson (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 22:15

3 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Nú fer Pétur Gunnarsson frjálslega með þegar hann túlkar textann sem hann vitnar í "skyldu seld einkaaðilum", sem stendur nákvæmlega hvergi og hefur allt aðra merkingu en textinn. Ég sé ekki neinn meiningarmun á tillögu og samþykkt og enga ástæðu til að gera mál úr þessu nema til þess að gera mál úr því. Sem gerir lítið úr þeim sem notar þessa samanburðaraðferð.

Herbert Guðmundsson, 16.4.2007 kl. 22:17

4 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Ef þú sérð ekki muninn þá er rétt að lesa aftur Herbert. Þetta er svona.

Pétur Gunnarsson, 16.4.2007 kl. 22:18

5 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Ágæti Pétur, ég sé engan meiningarmun í þessum texta, fyrri og síðari. Og sé sem sagt hvergi fullyrðinguna sem þú nefndir til sögunnar, að orkufyrirtækin "skyldu seld einkaaðilum". Eða hvar stóð það?

Herbert Guðmundsson, 16.4.2007 kl. 22:43

6 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Herbert ef þú sérð ekki muninn á því að stefna að því að færa eignarhald til einkaaðila (les: stefnt skal að því að selja einkaaðilum) og að skoða kosti þess að færa eignarhald til einkaaðila ( les: stefnt skal að því að kanna hvort eigi að selja) þá get ég ekki útskýrt þetta fyrir þér frekar og mun ekki reyna það. 

Pétur Gunnarsson, 16.4.2007 kl. 22:57

7 identicon

Er þetta ekki bara spurning um að bjóða upp hverja virkjun fyrir sig og haga því þannig að nógu margir óskyldir aðilar kaupi virkjanirnar. Hafa flutningsnetið áfram í eigu ríkisins og láta þá sem kaupa svo keppa?? Svona svipað eins og hefði átt að gera við Símann...

IG (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 23:35

8 Smámynd: Gestur Guðjónsson

IG nei, það gengur ekki. Sjá hér

Gestur Guðjónsson, 16.4.2007 kl. 23:55

9 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Ég var að vísu í Samgöngunefnd en leit við hjá þeim í Auðlindanefndinni.

Þar voru harðlínumennirnir, að berjast gegn því, að ákvæðin um Fullveldisrétt þjóðarinnar héldust inni.  Þeir vildu einnig halda mjög fast í ákvæði um, að uppspretturnar (fallvötnin og jarðhitinn, ) sem væru eign orkufyrirtækjanna, væru EKKI skilin frá hugsanlegri sölu.

Þeir þurftu að lúta í lægra haldið í þetta sinn en ég vil árétta,a ð fundasköpin, sem nú voru samþykkt í upphafi fundar, eru gerónýt og ekki hafandi í frjálsum og framsýnum flokki.

Miðbæjaríhaldið

Bjarni Kjartansson, 17.4.2007 kl. 08:19

10 identicon

Gestur: Ég get ekki séð að það sé nokkuð í þessari grein sem mæli gegn skiptingu á Landsvirkjun. Þú athugar að það þarf að sjálfsögðu að fylgja með góður lagapakki um rekstur orkufyrirtækja. Eignarnámið hefur þegar farið fram og rentan af því myndi enda í ríkissjóði við sölu á viðkomandi virkjun.

Það sem ég er kannski að segja er að það þyrfti að endurskipuleggja umhverfið sem Landsvirkjun og aðrir heildsalar á rafmagni starfa í áður en einkavæðingarferlið gæti hafist. Þetta er ekkert einfalt mál en það er allt hægt...

IG

IG (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 08:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband