16.4.2007 | 20:20
Pilsnerstyrkur Kaffibandalagsins og fleira
Blendnar tilfinningar, sá frasi átti við við lestur fréttarinnar um skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag. Tvennt vakti athygli mína í könnuninni: 1. Sá fjöldi framsóknarmanna sem vill áframhaldandi stjórn með Sjálfstæðisflokknum. 2. Afhroð Kaffibandalagsins. Nánar í öfugri röð:
Samkvæmt könnuninni nefna innan við 4% kjósenda Kaffibandalagið sem fyrsta kost við ríkisstjórnarmyndun. Hljóta það að vera vonbrigði þeim leiðtogum stjórnarandstöðunnar sem héldu blaðamannafund til þess að lýsa yfir vilja til að fella ríkisstjórnina og starfa saman að kosningum loknum. Þó er löngu ljóst að bandalagið var andvana fætt en Steingrímur J., Ingibjörg Sólrún og Össur hafa verið treg til þess að gefa út dánarvottorðið. Geta þau lengur neitað að horfast í augu við hið augljósa?
En aðallega var það sú staðreynd hve mikill meirihluti þeirra sem lýstu stuðningi við Framsóknarflokkinn lýsti áhuga á endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins sem vakti athygli mína. Ég varð ekki hissa á að sjá og heyra Baldur Þórhallsson leggja þetta þann veg út að allir vinstri sinnar væru farnir úr Framsóknarflokknum og getur hann trúað því ef hann vill en ég veit reyndar ekki til að hann umgangist mikið af framsóknarmönnum eða hafi teljandi tengsl inn í flokkinn. Mín reynsla er önnur. Hvaða framsóknarmenn eru þetta? voru fyrstu viðbrögð mín, af því að ég þekki þá ekki sem eru svona áhugasamir um að endurnýja ríkisstjórnarsamstarfið þegar kannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn græðir á árangri ríkisstjórnarinnar en Framsóknarflokkurinn tapar.
Við nánari umhugsun sannfærðist ég um að tvennt ræður miklu um þessa útkomu: 1. Þarna eru framsóknarkjósendur að lýsa andúð á VG og nýta tækifæri til að hafna ríkisstjórnarsamstarfi við þann flokk, ég þekki varla nokkurn mann sem er þess fýsandi nema það verði algjörlega óhjákvæmilegt að öllum öðrum kostum fullreyndum. Þar uppsker VG ávexti eigin málflutnings á kjörtímabilinu. 2. Mönnum gafst ekki kostur á að tjá sig um hvort þeir teldu að flokkurinn ætti að standa utan stjórnar og leitast við að ná nýrri viðspyrnu ef niðurstaða kosninga yrði í samræmi við það sem kannanir gefa til kynna. Ég hefði gjarnan vilja sjá mælingu á svörum við þeirri spurningu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Facebook
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 24
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 12
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Sæll Pétur.
Stjórnin mun halda meirihluta sínum.
Sérstaklega vegna þess að efnahagsmálin og kaupmáttaraukningin mun ráða umfjölluninni síðustu 4 vikurnar fyrir kosningar. Við þann árangur getur stjórnarandstaðan ekki keppt, og "buddan" ræður atkvæðunum þegar á reynir.
1. Það er langt síðan að ég spáði eftirfarandi úrslitum;
D= 37/39%;
B= 14/16%;
S= 22/24%;
V= 14/16%;
Frjálslyndir munu hugsanlega "lafa" inni með 6/8%;
Ómar/Margrét verða með 3/4% og skipta því litlu máli.
2. Með "Framsóknarmennina" sem þú hefur ekki heyrt af að vilji áframhaldandi stjórnarsamstarf við D, þá virðist þú t.d. algjörlega gleyma skrifum þeirra"Zumanns", BINGA og margra fleiri.
3. Framsóknarflokkurinn, nú þegar, kallar til sín aftur hluta af sínu gamla, þjóðlega fylgi með því að fara af leið Halldórs Ásgr. til ESB og draga þar að ýmsu leyti í land með þá kolröngu stefnu hans, sem var miklu meira í ætt við krata en ÞJÓÐLEGA Framsókn.
4. Framsókn mun sækja mikið af sínu gamla, vinstra, þjóðlega fylgi frá Vinstri grænum, ef hún gefur út skýra og skorinorða yfirlýsingu um það, vel fyrir kjördag, að Framsókn muni ekki undir neinum kringumstæðum stuðla að eða taka þátt í könnunarviðræðum við ESB um aðild og/eða skilmála að aðild við ESB a.m.k. ekki tvö næstu kjörtímabil, og að Framsókn sjái engar líkur á því, að aðild að ESB verði ásættanleg fyrir Íslendinga á næstu áratugum. Ég spái því að slík yfirlýsing muni skila gömlum Framsóknarmönnum "heim" í hundraðatali en einungis fæla, örfáa ígildings- "krata", sem kjósendur flokksins frá flokknum, í minna mæli en nemur fjölda fingra annarrar handar.
5. Og svo á Framsóknarflokkurinn að halda áfram að vera hreykinn af sínum þætti í atvinnu- og efnhagsmálum þjóðarinnar s.l. 12 ár. Síðar meir munu margir fleiri en stjórnarflokkarnir óska þess heitt og innilega að þeir hefðu átt þátt í að kveða þá "Lilju".
Kveðja.
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 21:02
Margt til í þessu, Guðmundur en ekki tek ég undir með þér um Evrópumálin og Halldór enda evrópustefna halldór stór þáttur í því að ég gerðist framsóknarmaður. Spáin þín finnst mér trúleg að flestu leyti en athugaðu að það bil sem þú nefnir er lágmark þess fylgis sem ég tel að framsókn þurfi til þess að áframhaldandi samstarf við D, sé á dagskrá að mínu mati. Þannig að ef kjósendur vilja áframahaldandi stjórn þurfa þeir umfram allt að kjósa B.
Pétur Gunnarsson, 16.4.2007 kl. 21:31
Sæll Pétur, það er fullt af framsóknarmönnum sem vill sýna vinstri vangann og ekki ólíklegt margir liðsmenn hafa horið frá flokknum.
Sveinn Haraldsson (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 22:03
Sæll Pétur
Spurt var; hvaða flokka vilt þú að myndi ríkisstjórn eftir næstu kosningar og svo voru gefnir 10 valmöguleikar með ýmsum stjórnarmyndunum auk þess sem "annað" var í boði, þar sem hægt var að nefna hvað sem fólk helst dreymdi um, jafnvel Framsókn í meirihlutastjórn, ef fólk var þannig þenkjandi.
Framsóknarmenn höfðu því kost á því að velja framsóknarflokkinn í stjórnarandstöðu, eða í stjórn með öðrum flokkum en Sjálfstæðisflokknum. Það var bara þannig að laaaaang flestir þeirra sem svöruðu og sögðust myndu kjósa Framsóknarflokkinn sögðust vilja í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum. Ég er ekki með tölurnar fyrir framan mig en ég man ekki eftir neinum sem sagðist vilja annan möguleika á stjórnarmyndun, en mig rámar í örfáa sem vildu í stjórn með S og minnir að þeir hafi verið bæði Framsóknarmegin og Samfylkingarmegin.
Mkv. Svanborg
Svanborg (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 22:20
Sæll aftur Pétur.
Varðandi Evrópumálin.
Þá, því miður, yrðir þú væntanlega einn af þessum fimm. Ég viðurkenni það fúslega að mér mundi finnast eftirsjá að þér.
Evrópumálin eru grundvallaratriði varðandi að "sauðirnir" skili sér heim.
Minni á að Norðmenn hafa tvívegis, ekki bara einu sinni, hafnað aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það skilja nú flestir, að norska þjóðin vildi ekki afsala sér þeim sjálfstæða rétti í sínum málum, sem þeir hafa með því að standa utan EU. Væri þeim nú væntanlega meiri þörf á aðild en okkur Íslendingum, m.a. vegna landfræðilegrar legu sinnar.
Ég hef enga trú á því, að nokkur meirihluti muni nokkurn tíma myndast á Íslandi meðal þjóðarinnar fyrir aðild að EU. Rómarsáttmálinn, lögin og regluverkið í EU er því miður slíkt og ósveigjanlegt, auk þess að afsal yfirráða þjóðarinnar yfir auðlindum sínum er og verður alltaf óásættanlegt. Það eru engin efnahagsleg rök fyrir aðild Íslands að EU, þ.e.a.s. hafi menn efnahagslega velferð Íslendinga í fyrirrúmi í huga sér.
"Sauðirnir" skila sér ekki heim nema þetta verði á ný stefna Framsóknarflokksins eins og var fyrir tíð H. Á.
Skilji forsvarsmenn Framsóknar ekki þessi sannindi, þá tel ég því miður, að ég verði að endurskoða spá mína um fylgið. Með hálfvolgri stefnu flokksins í aðild eða skoðunar aðild að EU verður fylgið ekki hærra en 10/11%.
EU afstaðan mun valda því hvort "sauðir" skili sér heim eða halli sér að D eða V. Ég er þeirrar trúar að Jón Sigurðsson skilji þetta mætavel.
Það er mín skoðun, að í flestum öðrum stefnumálum á hinu pólitíska sviði, sé svo lítill munur á milli stefnumála S og B, að verði skoðun þín ofan á innan B, þá eigi bara að bræða saman S og B. Kannski var það líka eini upphaflegi tilgangur H.A. og stuðningsmanna hans með breyttri EU stefnu Framsóknarflokksins.
Spyr sá sem ekki veit?
Bestu kveðjur.
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 09:12
Það er hætt við því að aðeins fleiri en fimm myndu sjá sitt óvænna ef að forysta flokksins myndi lýsa því ,,að Framsókn sjái engar líkur á því, að aðild að ESB verði ásættanleg fyrir Íslendinga á næstu áratugum."
Það væri svo sannarlega ekki í anda flokksins enda hefur hann lagt sig fram um að skoða málefni á fordóma- og öfgalausan hátt.
Það er alveg ljóst að vel ríflega helmingur ungra framsóknarmanna myndi ekki geta sætt sig við slíkar yfirlýsingar, enda slíkir öfgar í málflutningi ekki stíll Framsóknarflokksins hvorki fyrr né síðar.
Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 10:07
Sæll Stefán Bogi.
Ég bið forláts, ég tók of djúpt í árinni.
Að sjálfsögðu á Framsóknarflokkurinn, eins og aðrir, að hafa þá fyrirvara um aðild og/eða viðræður við EU, að sjálfsagt sé að skoða málin með opnum huga varðandi slíkt, þá og þegar búið er að breyta Rómarsáttmálanum á þann veg, að allar þjóðir í EU hafi óskilyrt og ótvíráð yfirráð yfir auðlindum sínum til allrar framtíðar.
Hvenær ætli það nú verði??
Eða eru ungir Framsóknarmenn kannski á því, að það sé hálfgert aukaatriði hvort Íslendingar hafi sjálfir óskilyrt og ótvíræð yfirráð yfir auðlindum sínum til frambúðar?
Spyr sá aftur sem ekki veit.
Bestu kveðjur.
Guðm. R. Ingvason
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 10:59
Ekki opnar þú nú gluggann upp á gátt Guðmundur, ef skilyðrin fyrir aðild eiga að vera jafn stíf og þú segir. Ég hef persónulega verið á þeirrar skoðunar að vitræn umræða fáist ekki um hugsanlega aðild okkar að ESB fyrr en við fáum að semja um aðild og getum svo rætt þá samninga og kosti þeirra og galla. Allt annað eru getgátur.
Ég skil þessar áhyggjur sem margir hafa af fullveldi landsins og yfirráðum yfir auðlindum, en einhvern veginn hefur mörgum nágrannaþjóðum okkar tekist að ganga í ESB án þess að séð verði að sjálfstæði þeirra hafi verið skert eða hvað þá fullveldisrétturinn.
Það eru margir heitir andstæðingar ESB aðildar innan flokksins og þar með innan SUF, sem gætu hugsanlega tekið undir það sem þú hefur sagt. Það eina sem ég vildi koma á framfæri er það að það eru líka mjög margir framsóknarmenn, sérstaklega í hópi þeirra yngri sem eru beinlínis fylgjandi aðild að ESB. Það að loka dyrunum endanlega gæti því haft mun alvarlegri afleiðingar fyrir flokkinn en þú virðist halda.
Stefán Bogi Sveinsson (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 14:04
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.