hux

Kemur traustið að utan?

Samfylkingin kynnti í gær efnahagsstefnu sína og af því að það er margt til í því hjá Ingibjörgu Sólrúnu að þingflokkurinn nýtur ekki trausts þjóðarinnar var stefnumótuninni úthýst til  fyrrverandi Seðlabankastjóra, sem ber hið þjóðlega nafn Jón Sigurðsson og var iðnaðar- og viðskiptaráðherra á ofanverðri síðustu öld. Samfylkingin hafði  að nokkru leyti undirbúið jarðveginn fyrir kynningu þessarar stefnu með greinarskrifum framkvæmdastjóra ASÍ í siðustu viku.

Morgunblaðið fjallar í leiðara í dag um þessa efnahagsstefnu og bendir á að það sé dýpt og þungi í gagnrýni hins virta sérfræðings, sem mótað hefur stefnuna sem samþykkt verður umorðalaust á landsfundi umræðustjórnmálaflokksins mikla sem hefst á morgun. Sá böggull fylgi þó skammrifi að stefnan kalli á að forysta Samfylkingarinnar svari öðrum spurningum. Efnahagsstefna Jón Sigurðssonar felur í sér gagnrýni á hagstjórnina og kallar eftir því að dregið verði úr ríkisútgjöldum og fjárfestingaráformum ríkisins á næsta kjörtímabili. Því spyr Mogginn:

Úr því að þetta er mat Samfylkingarinnar hljóta forráðamenn hennar að upplýsa kjósendur um það hvaða útgjöldum ríkissjóðs þeir ætla að draga úr og hvaða fjárfestingaráformum þeir ætla að hægja á?

Ég tek undir þessa spurningu og í fullri hógværð býð ég Samfylkingunni afnot af kommentakerfinu hér til að koma svarinu á framfæri. Í leiðinni þætti mér vænt um að fá svar við annarri spurningu Moggans: 

Ætlar Samfylkingin komist hún til valda t.d. að falla frá fyrirhugaðri tvöföldun hringvegar til austurs og vesturs frá höfuðborgarsvæðinu?

En auðvitað er það ósanngjarnt af mér, andstæðingi Samfylkingarinnar, að eigna Jóni Sigurðssyni einum efnahagsstefnuna sem kynnt var í gær. Auðvitað hafa forsvarsmenn flokksins sjálfir tekið þátt í starfinu. Líklega hafa þingmenn og jafnvel starfsmenn flokksins lagt hönd á plóg, t.d. í þeim köflum sem Morgunblaðið lýsir með þessum orðum: 

Um leið og rit þetta einkennist af mikilli þekkingu á efnahagsmálum og yfirsýn koma þar líka fram skrýtnar vísbendingar um óraunsæi og takmarkaða þekkingu á því sem er að gerast í grasrót atvinnulífsins.  [...] Svona fáránlegar staðhæfingar draga úr trúverðugleika kynningarrits Samfylkingarinnar um efnahagsmál.

Þannig að kenning mín er sú að Jón Sigurðsson eigi kaflana sem eru svona traustir en þingflokkurinn, sem nýtur jú ekki trausts, að sögn flokksformannsins, hina kaflana sem Mogginn segir að séu ekki traustir heldur skrýtnir. Var nokkuð að því spurt á blaðamannafundinum í gær hvort Jón Sigurðsson verði ráðherra á vegum Samfylkingarinnar í nýrri ríkisstjórn?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er allt afar fróðlegt, ekki síst fyrir þá sem horfðu á oddvitana í Suðurkjördæmi ræða málin á Stöð 2 í gær. Þar hélt Björgvin G. Sigurðsson, odditi Samfylkingarinnar, langa ræðu um tækifærin í kjördæminu, aðspurður um atvinnumál. Þau tækifæri voru m.a. téð tvöföldun á austurleiðinni úr Reykjavík, bygging Suðurstrandarvegar, samgöngumannvirkjaframkæmdir vegna Vestmannaeyja og svo talaði hann um uppbyggingu háskóla á svæðinu, í fleirtölu ef ég skildi rétt. Sem sagt, atvinnustefnan á einn samnefnara: allt fjármagnað af skattborgurum. Ágæt verkefni allt saman, en alls ekki það sem sum okkar flokka sem atvinnulíf, heldur eingöngu ríkiskostuð umsvif og athafnir. Sem tónar ekki vel við þessa blessuðu efnahagsstefnu flokksins.

Gústaf (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 11:11

2 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ekki það að ég hafi kynnt mér þessa skýrslu Samfylkingarinar nema það sem ég hef lesið hér á netinu. En við það  mundi ég eftir einhverju sem ég lærði í Þjóðhagsfræði 101 í Fjölbraut í gamladag. En það eru fræði sem ganga út á að í uppsveiflu og þennslu eigi ríkð að draga úr framkvæmdum á sínum vegum og síðan að draga úr skellinum þegar niðursveifla hefst. Þannig að það gæti nú verið rétt að huga að því í stað þess að gera eins og Sturla að lofa og hálf lofa framkvæmdum á næstu 11 árum upp á 390 milljarða í vegamál. Því að það eru ákveðnar líkur á því að þegar svona mikil uppgangur og þennsla hefur verið lengi og vaxið stöðug að ef ekkert er að gert þá verði fallið langt og mikið. Minni á að uppsveiflan hér er rekinn á lánum og ef að harnar á dalnum væri gott ef að ríkð hefði haldið í sér og ætti eitthvað að gefa til að draga úr áhrifum með því að geta þá staðið í auknum framkvæmdum.

Svona minnir mig að þetta hafi verið sett upp í Þjóðahagsfræðinni

Magnús Helgi Björgvinsson, 12.4.2007 kl. 11:14

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Já, Magnús, þetta hef ég lesið líka, ekki spurning þetta er hið mikla prinsipp þjóðhagfræðinnar, ríkið framkvæmi í kreppu en haldi að sér höndum í þenslu, en þá er vandinn að svara: hvar á að skera niður? Flokkur sem boðar efnahagsstefnu sem krefst niðurskurðar og samdráttar getur ekki um leið boðið til útgjaldaveislu eins og þá sem Gústaf bendir á að hafi einkennt málflutning Björgvins í gærkvöldi.

Pétur Gunnarsson, 12.4.2007 kl. 11:33

4 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sammála hverju orði hjá þér Pétur. Varð fyrir miklum vonbrigðum með þetta. Kommentaði á það hér

Gestur Guðjónsson, 12.4.2007 kl. 11:33

5 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Jamm Gestur, og Magnús bendi þér líka á þetta hér úr næstu færslu að undan. Sá sem talar er Vilhjálmur Egilsson, sem er líka landsþekktur hagfræðingur, nú framkvstj. SA en var m.a. fulltrúii Íslands hjá Alþóðabankanum í Washington, þingmaður og framkvæmdastjóri Verslunarráðs, ætli hann hafi ekki svipaða vikt og Jón Sigurðsson sem hagfræðingur: 

Seðlabankinn gaf út tölur um viðskiptahalla og erlenda skuldastöðu fyrir árið 2006 hinn 6. mars sl. Niðurstaðan var sú að viðskiptahallinn hefði numið 305 milljörðum króna eða 26,7% af VLF og að hrein skuldastaða í árslok hefði verið neikvæð um 120% af VLF. Þessar tölur eru ótrúlega háar og ættu að vekja skelfingu meðal allra sem eiga hagsmuna að gæta í íslensku efnahagslífi. Samt virtust viðbrögð almennt vera furðu róleg og fæstir í raun trúa því að eitthvað mikið sé að í efnahagslífinu. [...] Ástæða þess að viðbrögðin eru ekki eins og þau hefðu átt að vera samkvæmt bókinni er fyrst og fremst sú að enginn kannast við þann raunveruleika sem tölurnar lýsa. Þær aðferðir sem Seðlabankinn notar til þess að safna saman tölunum og þær tölur, sem birtar eru, lýsa ekki þeim raunveruleika sem íslenskt efnahagslíf býr við. Allt væri á öðrum endanum í atvinnulífinu ef tölur bankans væru réttar, fjöldi fyrirtækja væri á vonarvöl, stórfellt atvinnuleysi framundan og lánstraust íslenskra banka og íslenska ríkisins væri á við það sem gerist meðal þróunarlanda.

Pétur Gunnarsson, 12.4.2007 kl. 11:37

6 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Það er náttúrulega hægt að fara yfir framkvæmdir og áætlanir og týna út þær sem mega bíða sem og hversu arðsamar þær eru. Það er líka hægt að setja virkjanir fyrir stóriðju í salt á meðan við náum tökum á stöðunni. Það er ýmislegt hægt að gera. Mér hefur verið sagt útgöld ríkisins hafi og muni aukast svo vegna loforða nú síðasta árið að ef ekki komi til frekari framkvæmdir við stóriðju með tekjum fyrir ríkissjóð fljótlega þá verði ríkissjóður rekin með tapi strax á næsta ári. Það er náttúrulega ekki endalaust hægt að hækka hér vexti til að reyna að stöðva þensluna. Því eru fleiri og fleiri að átta sig á að þetta verður ekkert sáraukalausar aðgerðir þegar þar að kemur. Má t.d. áætla að ef að því kemur að framboð af húsnæði fer fram yfir eftirspurn bæði vegna vaxta og verðbólgu þá lækki húsnæðisverðið og fólk hafi þannig ekkert til að nota sem veð við áframhaldandi vöxt á einkaneyslu. Og eins að þegar að atvinnumarkaðurinn hættir að þenjast út þá hætta laun að hækka og þá vera margir í erfiðleikum við að standa skil á greiðslum af þessum lánum. Og því seinna sem við tökum á þessu máli því meiri sársauka á það eftir að valda mörgum einstaklingum.

Magnús Helgi Björgvinsson, 12.4.2007 kl. 12:04

7 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Magnús, er það ekki alveg ljóst að það bendir ekkert til þess að framkvæmdir við stóriðju séu að fara að hefjast hér fyrr en í fyrsta lagi 2010? Hvað með samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu?

Pétur Gunnarsson, 12.4.2007 kl. 12:10

8 identicon

Í DRÖGUM AÐ SJÁLFSMORÐI, sem liggja nú fyrir landsfundi Samfó, segir að fylgja þurfi þeirri stefnu sem mörkuð hafi verið með starfi Auðlindanefndar, sem skilaði áliti árið 2000, og undirbúa samræmda gjaldtöku fyrir nýtingarrétt á auðlindum í þjóðareign. Samfó fylgir því stefnu Moggans í einu og öllu. Landsfundir Samfó og Sjalla hafa því stolið öllum mínum hugmyndum hér.

Sveitarfélög á Suðurlandi og Sjóvá hafa stofnað félag um lagningu vegar á milli Selfoss og Reykjavíkur, sem yrði fjórar akgreinar og upplýstur, en hann er 57 kílómetra langur. Einkaaðilar myndu greiða kostnaðinn við lagningu vegarins, um sjö milljarða króna. Ekki yrði greitt veggjald, heldur myndi ríkið greiða eigendum vegarins fyrir hvern bíl sem færi um veginn. Upplýstur vegur alla leið frá Selfossi til Akureyrar með fjórum akreinum yrði 7,5 sinnum lengri, 430 kílómetrar, og myndi samkvæmt því kosta um 53 milljarða króna.

Ég veit ekki til þess að til dæmis formaður Vinstri grænna hafi sett sig upp á móti öllum hugmyndum um að ríkið greiði einkaaðilum fyrir kostnað við lagningu vega og jarðgangna, til dæmis Vaðlaheiðargöng, og þegar upp er staðið greiða jú neytendur kostnaðinn af öllum slíkum framkvæmdum.

Ef útgerðirnar myndu árlega greiða auðlindagjald til þeirra sem úthluta hér aflakvótum árlega, nú sjávarútvegsráðherra í umboði þjóðarinnar, yrðu það 18 milljarðar króna á ári, um 14% af útflutningsverðmætinu, miðað við að útgerðirnar greiði rúmlega þrisvar sinnum lægra verð fyrir aflakvótana en þær greiða nú hver annarri, 50 krónur í stað 155 króna fyrir kílóið af þorski, sem er að sliga útgerðirnar. Auðlindarentan gæti því greitt upp kostnaðinn við tvöföldun vegarins á milli Selfoss og Akureyrar á þremur árum. 

Skatttekjur hins opinbera voru 41% af vergri landsframleiðslu í fyrra en 32% árið 1994 og aðalástæðan fyrir þessari gríðarlegu hækkun er að persónuafslátturinn hefur dregist mjög mikið aftur úr hækkun tekna. Fjárlög fyrir árið 2007 fela í sér verulega aukningu ríkisútgjalda í ár, þrátt fyrir yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um aðhaldsstefnu í ríkisfjármálunum, og því litlar líkur á að Seðlabankinn geti lækkað stýrivextina að ráði á næstunni.

Viðskiptahallinn er um þriðjungur af landsframleiðslunni og engin önnur dæmi um slík firn fyrirfinnast nú í "öðrum" þróuðum ríkjum. Þjóðarbúið eyðir því um efni fram, það gera heimilin einnig og greiða 23% yfirdráttarvexti af þeirri eyðslu, sem er heimsmet.

Steini Briem (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 14:31

9 identicon

Pétur, ég var ekki bara að tala um útgjaldaveislu í ræðu Björgvins, heldur líka að benda á að hann virðist hreinlega ekki hafa skilning á hugtakinu atvinnulíf, heldur talar bara um vegagerð í því sambandi. Heyrum þetta mikið hjá vinstri flokkunum þessa dagana, endalaust tal um framkvæmdir... en aldrei um alvöru leiðir til að stuðla að eiginlegri verðmætasköpun.

Gústaf (IP-tala skráð) 12.4.2007 kl. 15:33

10 identicon

Var nokkuð að því spurt á blaðamannafundinum í gær hvort Jón Sigurðsson verði ráðherra á vegum Samfylkingarinnar í nýrri ríkisstjórn?

Pétur, þú meinar hvort það sé orðinn kækur að draga Jón Sigurðsson inn í ríkisstjórn bara af því að þið framsóknarmenn byrjuðuð á því?

Sennilega er Jón Sig krati ekki verri en Jón Sig frammari.

Kjósandi (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 22:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband