9.4.2007 | 18:25
Hægar sagt en gert
Fyrir viku var Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði að rifja upp athyglisverða sögu í Íslandi í dag. Það var í upphafi árs 2003 að Vestfirðingar lýstu því yfir að landshlutinn yrði stóriðjulaus. Þetta var þegar framkvæmdir fyrir austan voru að hefjast og andstæðingar þeirra höfðu talað um að hægt væri að búa til 700 störf við eitthvað annað. Í viðtali við Moggann 29. janúar 2003 tók Halldór þau á orðinu og sagði:
Hann segir Vestfirðinga ekki hafa kallað eftir stóriðju, líkt og aðrir landshlutar, og því eigi þeir ákveðna samleið með fólki sem vilji nýta náttúruna á annan hátt en með virkjun fallvatna og stóriðju. Sjálfur vill hann virkja hugmyndir þessa fólks og fá það til samstarfs um nýtingu sóknarfæra sem felast í aukinni ferðaþjónustu í stórbrotinni náttúru. Á Vestfjörðum sé ekki eins mikil víðátta og fyrir norðan Vatnajökul en mikið hálendi sé þar að finna, djúpa firði, elstu berglög landsins, fegurð Hornstranda, fjölbreytt fuglalíf, jökul, snarbrött björg, rauða sanda og sögufræga staði. [...] "Ég mundi gjarnan vilja að þeir sem eru í forsvari fyrir náttúruverndarsamtök gengju í lið með okkur eða bjóði upp á samstarf um að þróa svona verkefni hér," segir bæjarstjórinn.
Daginn eftir fagnaði Mogginn orðum Halldórs í leiðara og sagði hugmyndir hans athyglisverðar enda hefðu náttúruverndarsinnar legið undir ámæli fyrir að leggja ekki fram raunhæfar tillögur er komið gætu í stað stóriðju til lausnar bágbornu atvinnuástandi, svo sem á Austfjörðum:
Áeggjan hans er eftirtektarverð að því leyti að ef náttúruverndarsinnar taka henni af alvöru mætti nota Vestfirði - þótt þeir séu ekki í bráðri hættu frá náttúruverndarsjónarmiði - til þróunarstarfs, þar sem sýnt væri og sannað að aðrar leiðir en stóriðja séu færar í atvinnuuppbyggingu og eflingu efnahagslífsins. Þær forsendur sem þannig yrðu til á Vestfjörðum gætu, ef vel tekst til, orðið raunhæfur valkostur við stóriðju í framtíðinni og þannig komið í veg fyrir að enn lengra sé seilst í þá átt að skerða ósnortin öræfi landsins.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 26
- Frá upphafi: 536621
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Af hverju er ekki þjarmað að svona fólki sem talar um eitthvað annað og lofar 700 störfum en ekkert gerist? Hvar eru fréttamenn t.d.? Hvar eru Ólöf Guðný og Árni? Enn að mótmæla og tala um eitthvað annað er það ekki?
Guðmundur H. Bragason, 9.4.2007 kl. 20:35
MOGGINN hefur sjálfur lagt fram lausnina, auðlindarentuna. Byggðarlögin, til dæmis Vestfirðir, eiga sjálf að úthluta aflakvótum sínum árlega, Vestfirðir sínum 30 þúsund tonnum á ári í þorskígildum, til dæmis fyrir 50 krónur kílóið, rúmlega þrisvar sinnum lægra verð en útgerðarmennirnir kaupa nú kvótann á hver af öðrum, 155 krónur, og það verð hækkar stöðugt. Þannig yrði auðlindarenta Vestfirðinga 1,5 milljarðar króna á ári, um 14% af útflutningsverðmætinu, sem þeir gætu til dæmis notað til að gera jarðgöng á Vestfjörðum. Jarðgöng á milli Syðridals í Bolungarvíkurbæ og Hnífsdals í Ísafjarðarbæ kosta 2,4 milljarða króna og Vestfirðingar gætu greitt þau upp sjálfir á framkvæmdatímanum með auðlindarentu sinni.
Með þrisvar sinnum lægra verði fyrir aflakvótana er einnig hægt að greiða sjómönnum og fiskverkafólki hærri laun og slíkt hefur að sjálfsögðu margfeldisáhrif í sjávarbyggðunum. Þar að auki myndi slíkt kerfi ekki brjóta í bága við Vatneyrardóm Hæstaréttar frá árinu 2000. Skipin geta fengið sama kvóta og þau fá nú en alltaf hætta einhverjir í útgerð og nýir aðilar geta þá komið inn í útgerðina. Í framtíðinni verður að láta erlenda ferðamenn greiða fyrir aðgang að annarri náttúruauðlind, íslenskum náttúruperlum, og það þætti nú ekki gáfulegt eða hagkvæmt að láta ferðamennina greiða hver öðrum fyrir aðganginn að þeim.
Það er því til nóg af peningum nú þegar á Vestfjörðum og þeir þurfa því ekki á ölmusu að halda að sunnan. Vandi Vestfjarða er núverandi kvótakerfi, lélegar samgöngur og skortur á ferðamönnum, og með breyttu kvótakerfi er hægt að leysa þennan vanda á einu bretti. Vestfirðingum byrjaði að fækka árið 1984, þegar núverandi kvótakerfi var tekið upp, og síðan hefur þeim fækkað um fjórðung, enda þótt 500 erlendir ríkisborgarar búi þar nú, um 7% af íbúum Vestfjarða.
"Eitthvað annað" stóriðjusinna er stóriðjan sjálf, því árið 2003 var hlutur ál- og kísiljárnframleiðslu hér einungis 1,3% af landsframleiðslunni, en verslunar, veitinga- og hótelreksturs 11,7%, fiskveiða og fiskvinnslu 9,6%, samgangna 7,7%, menningar 4%, rafmagns-, hita- og vatnsveitna 3,4% og landbúnaðar 1,4%. Og landsframleiðslan eykst einungis um 1,2% með álverinu í Reyðarfirði.
Steini Briem (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 20:53
Það hefði nú mátt gera eitt og annað á Vestfjörðum, ef ríkisstjórnin hefði beitt sér fyrir því að veita þó ekki hefði verið nema helmingnum af þeim peningum sem fóru í framkvæmdirnar fyrir austan til að byggja upp atvinnu fyrir Vestfirðina. En núverandi ríkisstjórnarflokkar sjá enga aðra möguleika í stöðunni nema virkjanir og álbræðslu. Þeir staðfestu það báðir formennirnir í sjónvarpsþættinum í kvöld.
Þórir Kjartansson, 9.4.2007 kl. 21:27
Pétur.
Auðvitað lugu "Landverndar" fólkið og aðrir slíkir, þegar þeir töldu ekkert mál að
skaffa þessi störf til Vestfjarða. Þeir einfaldlega gátu það ekki þá, ekki sl. 4 ár og munu ekki geta það í framtíðinni. Þeirra sjónarmið eru einfaldlega skýjaglópa draumórar, sem þau vita vel að þau þurfa aldrei að standa við, og þeim er ALVEG SAMA UM VESTFIRÐINGA, sem og aðra Íslendinga. Atvinna og framfærsla annarra Íslendinga en þeirra sjálfra, er einfaldlega ekki á þeirra "áyrgð", "not their cup of tea".
Og ég segi nú bara aftur og enná ný við Steina Briem;
Vow, Vow, þú ert enn og aftur svo svakalega klár.
Þú hefur ekki ennþá svarað neðangreindum "kommentum" mínum frá 2. apríl sl. í umfjölluninni um verkalýðsforkólfana.
Endemis ruglið sem þú berð á borð fyrir almenning um "eitthvað annað" til starfa og framfærslu heilu fjölskyldnanna og bæjarfélaganna er bara hreint og klárt bull eins og það var þá. Er þér virkilega svona illa við allan almenning?. Má hann ekki hafa ofan í sig og sína með heiðviðri vinnu?
Bestu kveðjur og lestu og lærðu betur.
Guðm. R. Ingvason.
"2.04.2007.
Vá Steini Briem, þú ert svo klár.
Hysjaðu nú upp um þig buxurnar, farðu í sparifötin, kallaðu með þér í hópinn ISG, SJS, Ögmund, Jón Bjarna., Ómar, Össur, Margréti, Magnús Þór og hina snillingana og umhverfisverndarsinnana alla saman, heilsið þið svo uppá Sigga E. og Heiðar; Björgúlfana báða og Bjarna Á. og Einar Sv., fáið þið líka með ykkur til að gefa þessu ennþá meiri "trúverðugleika" Baugs feðga og Hannes Smára þeir kunna nefnilega að gera "gull úr engu", sækið þið svona 100/150 milljarða til bankakallanna, þar er nóg "cash" á lausu fyrir arðbærar, einfaldar sjálfsagðar gróðahugmyndir eins og þínar, og búið þið til ca. svona 3500/5000 störf og afleidd störf á Íslandi með öruggum tekjum og seldum afurðum 30/40 ár fram í tímann, með hagnaði, og við allir íslendingar föllum að fótum þér, og...næstum því tilbiðjum þig. Og a pro pos, gleymdu ekki því að taka Lúðvík Geirs með þér í frumkvöðlahópinn, hann getur lagt í púkkið lýðræðisástina að hætti Lenins.
Gott væri ef þið í leiðinni sköffuðuð þessi ca 700 störf sem umhverfisvindhanasinnarnir töldu víst svo auðvelt að búa til fyrir Vestfirðinga árið 2003, eins og við heyrðum af á Stöð 2í kvöld, en hafa víst annað hvort, því miður og ábyggilega alveg óvart, týnst eða ekki fundist á leiðinni þangað, nema a.m.k. ennþá, eins og venjulega, þetta margtuggða og notadrjúga "eitthvað annað (núll)".
Góða skemmtun snillingur og gangi þér í þjóðarþágu þetta verkefni allt í haginn. Þú býður mér svo upp á glas með þér fyrir hvatninguna þegar þú færð fyrstu arðgreiðsluna af hagnaðinum á næsta ári, er það ekki????
Kveðja.
Guðm. R. Ingvason"
Óskráður (Guðm
Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 21:31
Ríkissjóður borgaði ekki krónu í framkvæmdirnar. Fyrirtækið Landsvirkjun, sem er sameignarfélag í eigu ríkisins, byggði virkjunina til að græða á henni.
Kalli (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 21:59
Veit ég vel, ,,óskráði Kalli" en eins og þú hlýtur að vita byggðist virkjunin á því að ríkisstjórnin náði eyrum Alcoa og þar með fór þetta allt af stað. Þess vegna sagði ég að þeir hefðu kannski átt að beita sér fyrir því að ná einhverju til Vestfirðinganna, en af því að þeir afþökkuðu stóriðju var sjálfsagt ekkert annað í kortunum að áliti stjórnarherranna.
Þórir Kjartansson, 9.4.2007 kl. 22:21
Við vitum báðir að ef eitthvað stórfyrirtæki myndi lýsa yfir áhuga á marg-milljarða fjárfestingu á Vestfjörðum þá mynd engin standa gegn því.
En því miður þá hefur það ekki gerst. Það skortir auðlindir, bæði land, mannfjölda og virkjunarmöguleika.
Það er mikilvægt að við áttum okkur á því að ríkisstjórnin er ekki lengur að stjórna atvinnulífi landsins nema að litlu leiti. Þegar Davíð lokaði stóru niðurgreiddu byggðasjóðunum þá lauk því tímabili.
Kalli (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 22:45
Íslenska ríkið hefur ekki einungis lagt einhverja milljarða króna í undirbúning, samningagerð og rannsóknir vegna framkvæmdanna hér á Austurlandi, heldur hefur hún einnig ábyrgst lán fyrir Landsvirkjun og ráðherrar hafa verið á þönum vegna þessa alls. Stundum hefue mátt halda þeir væru upplýsingafulltrúar Landsvirkjunar eða Alcoa.
Það væri nú aldeilis öflugt atvinnulíf á Vestfjörðum ef þeir hefðu haft ráðherra í svona vinnu í jafn mörg ár og við Austfirðingar.
Björgvin Valur (IP-tala skráð) 9.4.2007 kl. 23:04
Kæri Þórir, það var ekki ríkisstjórnin sem talaði um að koma með 700 ný störf á svæðið þannig að við skulum ekki blanda henni í málið. Ríkisstjórn getur að sjálfsögðu gert ýmislegt og má sjálfsagt gera meira oft á tíðum. Þessi pistill er bara ekkert um ríkisstjórnina heldur fólk í forsvari fyrir samtök, sem lofaði 700 nýjum störfum í gegnum "eitthvað annað". Fólk er enn að bíða eftir þessu "eitthvað annað".
Guðmundur H. Bragason, 9.4.2007 kl. 23:30
Á bloggi Eiríks Bergmanns er birt áhugaverð grein þar sem rakið er hvernig áhersla gömlu kommúnistaflokkanna í Evrópu á umhverfismál og femínisma á árunum fyrir 1999 er niðurstaða ákafrar leitar þeirra að nýrri fótfestu meðal kjósenda í kjölfar hruns Berlínarmúrsins og Austurblokkarinnar. Þessi uppruni meginstefnumála VG á Íslandi ku vera ein meginástæða þess að náttúruverndarsinnar á miðjunni og til hægri í stjórnmálum vantreysta flokknum og veðja frekar á aðra flokka eða hreyfingar til að flytja málstað náttúruverndar.
Mjög skemmtileg mynd í lok greinarinnar þar sem meira að segja merki gömlu kommúnistaflokkanna og litanotkun er að mestu samræmd og rauðgræn.
http://eirikurbergmann.blog.is/blog/kremlarlogia_ei/entry/167357/
Arn (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 00:16
Hvaða milljarða króna hefur ríkið lagt fram? Síðan er það nú þannig að fyrst Lansvirkjun er í eigu ríkisins að það nýtur kjara í samræmi við það.
Kalli (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 00:17
Hefur engum ykkar dottið í hug að þótt náttúruverndarfólk hafi verið boðið og búið til að koma með góðar hugmyndir (og staðið við það eins og HH vitnar um í ofangreindu viðtali) þá er það að sjálfsögðu ekki á færi náttúruverndarfólks að leggja fram fjármagn í nýsköpun eða samgöngubætur - nokkuð sem er algert skilyrði til að hægt sé að færa Vestfirðina inn í 21. öldina.
Hins vegar hafa stóriðjuflokkarnir haft til þess 12 ár en ekki notað þau. Þeir hafa misfarið með fé Byggðastofnunar, markvisst svelt Nýsköpunarsjóð og ítrekað gengið á bak loforða sinna í samgöngumálum.
Svo finnst þeim sæmandi að níða þann stóra hóp fólks sem kallar sig náttúruverndarfólk fyrir það eitt að einhver þeirra hafi lofað og staðið við að koma með hugmyndir að nýsköpun í atvinnulífi á Vestfjörðum.
99% starfa á Íslandi eru ekki við stóriðju heldur "eitthvað annað". Það er hins vegar ekki heldur hlutverk misviturra þingmanna að ákveða hvað það á að vera.
Þessi hugmyndafræði að riddari á hvítum hesti (þingmaður) eigi að bjarga sauðheimskum almúganum með því að búa til handa honum störf tilheyrir fortíðinni. Almennileg stjórnvöld eiga að búa til góð skilyrði fyrir fólk svo það geti sjálft gert verðmæti fyrir sig og samfélagið úr hugmyndum sínum og þekkingu.
Það er hugsun sem ég vona að verði loksins ofan á eftir 12. maí.
Dofri Hermannsson, 10.4.2007 kl. 00:29
Það er ánægjulegt, Pétur, að þú hafir opið hér á umræður, ólíkt félaga þínum Birni Inga, sem sniðgengur þennan þátt lýðræðislegrar umræðu.
En hverjir hafa verið að leggja mikið af atvinnulífi á Vestfjörðum í rúst nema einmitt flokksforingjar ykkar? -- með kvótakerfinu.
Jón Valur Jensson, 10.4.2007 kl. 02:00
Dofri, þú skilur kannski betur hvað náttúruverndarmenn voru að tala um í þessum pistli Hér
Eins gæti verið fróðlegt fyrir ykkur að sjá hvað raunverulega er að gerast á Reyðarfirði : Hér
Gunnar Th. Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 02:43
Frábærir pistlar sem þú bendir á Gunnar
Guðmundur H. Bragason, 10.4.2007 kl. 03:07
Jón Valur Jensson, voru það floksforingjarnir sem seldu kvótan frá vestfirðingum,
sem þeir fengu í upphafi þegar kvótanum var skipt samkvæmt veiðireynslu.
Leifur Þorsteinsson, 10.4.2007 kl. 09:25
Jón Valur, eins og Leifur segir: Vestfirðingar höfðu forskot þegar kvótakerfið var sett á, þeim tókst ekki að nýta sér það, sumir segja að þeir hafi aldrei sætt sig við kerfið og aldrei viljað spila innan þess og sett traust sitt á yfirlýsingar manna á borð við Matthías Bjarnason að þessu yrði breytt fljótlega, menn biðu í stað þess að bregðast við.
Kerfið var sett á vegna þess að sóknargetan var langt umfram afkastagetu fiskistofnanna, takmörkun á veiðum var nauðsyn. Hver svo sem takmörkunin hefði verið hlaut hún að leiða til uppstokkunar og samþjöppunar, skipin voru einfaldlega of mörg. Þeir sem nutu nálægðar miðanna hefðu vitaskuld átt að hafa forskot í þeirri samkeppni. Ef sú leið að leyfa viðskipti með aflaheimildir hefði ekki verið leyfð hefðu menn farið aðra leið að þessu marki, t.d. þá að kaupa og selja heilu fyrirtækin. Ekki hefði sú leið farið betur með ýmis byggðarlög. Viðskipti með veiðiheimildir voru snjöll leið til þess að auka sveigjanleikann og gefa fyrirtækjum og byggðum tækifæri til þess að takast á við þessar breytingar. Það er langt í frá gallalaust og auðvitað er það sárt að atvinnugrundvöllur heilla byggðarlaga sé orðinn framseljanleg og verðmæt eign nokkurra einstaklinga, kannski eina seljanlega eignin í byggðinni. En grundvallarvandinn var og er sá að menn höfðu ofveitt fiskinn í sjónum, menn höfðu umgengist fiskistofnana sem ótakmarkaða auðlind og þurftu að hætta því. Út úr því var engin gallalaus leið og ég held að erfitt hefði verið að finna aðra sem reynst hefði betur því að kvótakerfið hefur þrátt fyrir allt verið stjórnkerfi sem hefur eflt og umbreytt íslenskum sjávarútvegi.
Dofri, sammála þér um að stjórnmálamenn eiga ekki að stofna fyrirtæki en þeir einstaklingar sem tala um hvað það sé lítið mál ættu kannski bara að fara í bankann með allar frábæru viðskiptahugmyndirnar sínar og hrinda þeim í framkvæmd. Hvað áttu við með að það hafi verið staðið við þessi orð? Það var einmitt ekki gert, það var ekki verið að biðja um hugmyndir að opinberum rekstri enda stendur hann ekki undir lífi byggðar þótt ágætur sé.
Pétur Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 10:12
Mjög góð ábending Pétur og andmæli sumra bloggara við greininni sanna það. Ekki bara það að menn tala um "eitthvað annað" í atvinnumálum, þá hafa þeir sömu engin svör við greininni, heldur benda á "eitthvað annað" sem orsakavald.
Staða Austfjarða væri líklega svipuð og Vestfjarða ef ekki hefði verið farið út í margumtalaðar framkvæmdir. En sem betur fer er staðan fyrir austan mjög góð eins og Gunnar (14) bendir á. Þetta geta því miður margir ekki enn sætt sig við, þ.e. þeir geta ekki viðurkennt að staðan er góð né að þeir geta samgleðst því fólki sem þar ætlar að búa og starfa. Heldur er hamast í neikvæðni og afturhaldi með villandi og röngum málflutningi á sviði umhverfismála. Sama fólk skilur það ekki að stórt og mikið fyrirtæki styrkir atvinnulífið þar sem fleiri fyrirtæki fylgja í kjölfarið, sum á allt öðrum sviðum, t.d. í ferðamennsku og þjónustu. Og engin er að tala um að "virkja allt" eins og einn vinsæll frasi er eða "álver í hverjum firði".
Ég bendi öllum áhugasömum á grein sem Gísli Gunnarsson, félagi í Samf., skrifaði fyrir nokkru í Mbl. Hann eins og fleiri var í fyrstu ekkert sérstaklega hlynntur álveri og virkjun fyrir austan en ekkert mótfallin heldur. Hann hafði ákveðnar spurningar og kannski efasamdir. Sagðist hafa fengið svör við nokkrum spurningum sem vörðuðu stífluna o.fl. Að lokum ég sagðist hann ekkert hafa á móti þessari framkvæmd. Við svo búið mætti hann ítrekuðum fjandskap af hálfu mótmælenda, þar sem einn mótmælandi sagði Gísla vilja "nauðga fjallkonunni". Já, rökræðan má sín oft lítils varð honum þá að orði og sleppti frekari tilraunum til að ræða málið.
Með kveðju, Gísli
Gísli Tryggvason (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 11:49
Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég kem vestur á sumrin og sé kraftinn í Vestfirðingum eftir að hafa hlustað á fréttirnar að vestan allan veturinn. Ég hafði á sínum tíma, sem formaður Landverndar, samband við Halldór Halldórsson og bauð samstarf um hugmyndir um atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum. Man ekki betur en að við höfum fundað um málið en Halldór og hans fólk hélt því ekki vakandi.
Ég bætti síðar um betur og átti frumkvæði, ásamt Hallvarði Aspelund arkitekt fyrir vestan, að því að kalla saman hóp og fá fjármagn til að kanna forsendur á að koma á fót alþjóðlegri rannsóknarstofnun á sviði loftslagsbreytinga og jarðkerfisfræða á Ísafirði. Skýrsla nr. 2 um slíka stofnun kom út nýlega. Hún er skrifuð af Haraldi Sigurðssyni prófessor, Birni Erlingssyni, haffræðingi og Björgólfi Thorsteinsen, hagfræðingi. Þessa skýrslu hefur nefnd forsætisráðherra um atvinnumál á Vestfjörðum fengið formlega í hendur.
Ég veit að Vestfirðir hafa ekki fengið skerf í góðærinu. en það var ljóst þegar innspýtingin í efnahagslífið varð fyrir austan að aðrir landshlutar þyrftu að gjalda fyrir. En það er líka hægt að tala sig áfram eða afturábak og mér finnst að Halldór Halldórsson ætti nú að óska eftir formlegum fundi með Landvernd og Náttúruverndarsamtökum Íslands. þar verður honum örugglega vel tekið og menn tilbúnir til samvinnu og aðstoðar, en ég veit satt að segja ekki hver tilgangur hans var með þessari aumu sendingu til náttúruverndarfólks.
Áfram Vestfirðir.
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir.
Ólöf Guðný Valdimarsdóttir (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 13:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.