3.4.2007 | 13:31
Þegar Magnús Þór kvartaði undan of strangri útlendingalöggjöf
Þegar lögum um útlendinga var breytt á Alþingi árið 2004 til þess að undirbúa stækkun ESB til austur hafði Magnús Þ. Hafsteinsson, varaformaður Frjálslynda flokksins, helst áhyggjur af því að lögin gengju of langt og yrðu til þess að íslenska útlendingalöggjöfin yrði of ströng, jafnvel enn strangari en sú danska. Ég kem orðum hans á Alþingi þá ekki alveg heim og saman við það hvernig hann talar nú. Auðvitað hefur Magnús fullan rétt á að skipta um skoðun og kannski hefur hann gert það en ef ekki þá verður hann kannski svo vinsamlegur að útskýra hvernig það sem hann sagði þá samræmist því hvernig hann talar nú um þessi mál.
Mér finnast reglur eins og um 24 ára aldurinn, 66 ára aldurinn og lífsýnatökur og annað lykta af nokkurs konar nesjamennsku sem kannski má útskýra með einhverri landlægri hræðslu sem liggur í þjóðarsálinni sem sennilega var plantað þar inn þegar Tyrkjaránin stóðu sem hæst árið 1627 eða þar um bil. [...] [Kolbrún Halldórsdóttir] sagði að núgildandi lög yrðu strangari, íslensku lögin um útlendinga, þ.e. þegar þær breytingar sem nú liggja fyrir þinginu verða komnar í gegn verði íslenska löggjöfin í rauninni strangari en sú danska. Mér varð svolítið bilt við að heyra það því danska löggjöfin hefur verið mjög umdeild, það dylst engum sem fylgist með dönskum stjórnmálum að einmitt útlendingalögin og stefna danskra stjórnvalda í málefnum innflytjenda hefur verið mjög umdeild. Í Danmörku eru allt aðrar aðstæður en á Íslandi. Danmörk liggur miklu nær þéttbýlum svæðum í Evrópu og samgöngur á milli Danmerkur og annarra staða í heiminum, þaðan sem kannski kemur mikið af innflytjendum t.d. frá Afríku, Asíu, fjarlægum heimsálfum, eru með allt öðrum hætti en á Íslandi. Ísland er eyja úti í miðju Atlantshafi, það er yfir stórt og mikið haf að fara fyrir fólk sem vill hugsanlega koma hingað og fá hér aðsetur. Það er dýrt að ferðast hingað. Það eitt virkar því bara sem mikill hemill, (GHall: Enn þá.) frú forseti, á aðsókn útlendinga hingað til lands. Ég heyri að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson segir enn þá. Kann að vera enn þá. Ég gæti á vissan hátt tekið undir það. [...]Þá ber kannski að skilja löggjöfina núna sem svo að menn séu að reyna að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann. En mér finnst það í raun og veru óþarfi og mér finnst þá kannski óþarfi að ganga svona langt að setja inn reglu eins og t.d. þá um 24 árin. Mér finnst það óþarfi. En nóg um það.
Kannski var það vegna þessa málflutnings sem fjandvinur Magnúsar Þórs, Gunnar Örn Örlygsson, sagði eitthvað á þá leið í grein í Mogganum að Magnús væri ekkert á móti útlendingum en hann væri tilbúinn til að þykjast vera það til þess að ná sér í atkvæði. Í þeirri grein rifjaði Gunnar Örn upp að Magnús Þór, hefði kvartað undan hörku yfirvalda þegar þau vísuðu norskum Hell's Angels hópi frá landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 28
- Frá upphafi: 536623
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ert magnaður, Pétur!
Hlynur Þór Magnússon, 3.4.2007 kl. 13:51
Ég kunni betur við þennan Magnús Þór frá 2004 en þennan nýja Magnús Þór. Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 3.4.2007 kl. 13:53
Þetta er svo sannarlega merkilegt. Kærar þakkir fyrir að rifja þetta upp.
Svala Jónsdóttir, 3.4.2007 kl. 14:43
Maður er manns gaman.
Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 15:10
Þakka upplýsingar nú og fyrr! kv. www.baldur.is
Baldur Kristjánsson, 3.4.2007 kl. 15:39
Þakka upplýsingar nú og fyrr! kv. www.baldur.is
Baldur Kristjánsson, 3.4.2007 kl. 15:41
TYRKJARÁNIÐ var mikið framfaraskref fyrir Eyjamenn, því "Tyrkirnir" voru með mjög slæman smekk á kvenfólki, sem sést nú á fegurð allri og yndisþokka Eyjakvenna. Þessar aldursreglur í lögunum eru náttúrlega algjör steypa og ríkið fékk alla Evrópu á bakið á sér fyrir þann málatilbúnað allan. Magnús er mörg þúsund manna maki ef hann ætlar sjálfur að taka að sér öll fiskvinnslustörfin allt í kringum landið. Frjálsblindir eru dottnir ofan í brunninn, búið að setja á hann lok og henda lyklinum.
Steini Briem (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 16:00
Hefur Jóni tekist að eitra huga Magnúsar svona mikið
Guðmundur H. Bragason, 3.4.2007 kl. 16:58
Það er gaman að Pétur Gunnarsson skuli sýna ræðum mínum svona mikinn áhuga, enda hef ég sagt margt gott og merkilegt á þingi. Ekki minnst um Framsóknarflokkinn og myrkraverk hans.
Þessi ræða var haldin á þingi í apríl árið 2004 og ég skammast mín ekkert fyrir hana enda snöfurmannlega flutt eins og vænta mátti. Hún sýnir vel að ég er enginn útlendingahatari og hef aldrei verið. Ég var skeptískur á margt í þessum lögum enda fjöldi útlendinga hér á landi ekki mikill hlutfallslega miðað við nágrannaríkin og ekkert sem benti til að bylgja myndi skella á okkur. Ég talaði eftir bestu vitund og samvisku eins og mér ber að gera sem fulltrúi á löggjafaþinginu sem hefur svarið eið að stjórnarskránni.
Þarna á þessari stundu var ómögulegt að vita hver þróunin yrði eftir að gömlu kommúnistaríkin gengju í ESB 1. maí 2004 ef minnið svíkur mig ekki. Bretar opnuðu strax þá fyrir frjálsa för, bjuggust við nokkrum þúsundum frá þessum löndum en fengu tæp hundrað þúsund innflytjenda frá þessum löndum fyrsta árið muni ég rétt.
Tveimur árum síðar þegar apríl 2006 rann upp og félagsmálaráðherra Framsóknarflokksins var mættur með frumvarp um frjálsa för launafólks í þingið fáeinum dögum áður en 1. maí 2006 rann upp - höfðum við fengið reynslusögurnar frá Kárahnjúkum og víðar, við sáum hvað hafði gerst í Evrópu með stórfelldum fólksflutningum frá Austur Evrópu vestur á bóginn. Þá hrópaði ég viðvörunarorð þar sem sýnt yrði að alltof mikill fjöldi innflytjenda kæmi hingað á of stuttum tíma og við værum ekki búin undir slíkt. Þess vegna vildum við í Frjálslynda flokknum nýta heimildir til að fresta frjálsri för til 1. maí 2011. Við höfðum rétt fyrir okkur og viljum nú grípa til aðgerða þjóðinni til heilla. Allir aðrir flokkar vilja hafa þetta opið áfram og þá vitum við það. Kjósendur líka.
En ég skil að þið í Framsókn skulið vera logandi hrædd við þessa umræðu, enda hafið þið mikið og margt að svara fyrir sem ábyrgðarflokkur þeirra löggjafar sem leitt hefur til þess að hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi er nú um 10% og stígandi - og með því hæsta sem um getur í Vestur Evrópu. Bendi þér svo á góða grein fyrrum flokksfélaga þíns Kristins H. Gunnarssonar á vefsetri hans www.kristinn.is "Það var settur fyrirvari um innflutning vinnuafls".
Magnús Þór Hafsteinsson, 3.4.2007 kl. 17:29
Í ljósi þessara upplýsinga um fyrri skoðanir Magnúsar vinar míns sé ég mig knúinn til að játa eftirfarandi: Fram undir síðari hluta hausts árið 2005 gat ég með engu móti skilið það fólk sem lagði sér til munns franskar kartöflur. Frá téðri tímasetningu hefur brugðið svo við að núna þykir mér þessar frönsku kartöflur hinn besti matur.
Ekki nóg með þetta: fyrstu þrennar alþingiskosningar kaus ég Framsóknarflokkinn. Við þetta verð ég að lifa eins og margt annað úr minni fortíð. En ég brýni alla andstæðinga okkar Frjálslyndra að hafa nú hratt á hæli og leita uppi hvaðeina sem gæti varpað rýrð á trúverðugleka okkar. Einkum þarf að finna þar til hvaðeina sem bent getur til að við höfum aukist að þroska.
Gangi ykkur vel!!! Árni Gunnarsson
Árni Gunnarsson, 3.4.2007 kl. 18:26
Segðu mér Magnús, teldir þú betra að í stað launafólks væri hér nánast eingöngu erlent starfsfólk starfsmannaleiga, það hefðu verið helstu áhrif þess að nýta frestinn frá 1. maí, það hefði engu breytt um möguleika manna til þess að koma hér inn með starfsmenn starfsmannaleig að vinna þessi verk, eða hvað? Spurningin er sem sagt sú: hvað telur þú að það mundi muna miklu á fjölda útlendinga í landinu nú ef þið hefðuð nýtt aðlögunarfrest til hins ýtrasta? Væri munurinn ekki fyrst og fremst sá að hér væri fleira fólk á vegum starfsmannaleiga en færri ráðnir beint til íslenskra fyrirtækja? Hvernig ætlarðu að komast undan starfsmannaleiguflutningum ef ekki með því að segja upp EES-samningnum?
Pétur Gunnarsson, 3.4.2007 kl. 19:31
Gleymum ekki þessum skrifum Magnúsar Þórs.
Vítisenglum vísað úr landi.
Gestur (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 22:05
Undarlegur þessi Gestur sem ekki þorir að skrifa undir nafni. Lyktin af kauða er þó kunnugleg og fnykurinn vondur. En Pétur spyr um starfsmannaleigur. Við í Frjálslynda flokknum vildum að Ísland notfærði sér aðlögunarfrestinn varðandi frjálsa för innan EES til 2011 eins og okkur var heimilt að gera. Síðan átti að einhenda sér í þá vinnu að búa meðal annars til almennilega löggjöf kringum starfsmannaleigurnar og annað sem snéri að erlendu starfsfólki. Í raun hefði átt að vera búið að því fyrir löngu, og þetta er enn eitt dæmi um það hve illa stjórnvöld hafa verið undirbúin. Endurbætur á löggjöf um starfsmannaleigur voru ekki afgreiddar úr þinginu fyrr en nú um daginn - tæpu ári eftir að frjálsa förin var heimiluð. Við í Frjálslynda flokknum tókum undir þá löggjöf.
En ég veit ekki hve margir væru hér gegnum starfsmannaleigur ef frestir hefðu verið nýttir. Tel þó að þeir hefðu verið miklu mun færri en er í dag, vegna þess að það er meira mál að kalla eftir starfsfólki gegnum starfsmannaleigur. Strangari löggjöf kringum þær ef hún hefði verði sett, hefði einnig eflaust leitt til minna aðsteymis gegnum þær. Annars bendi ég á ágætan pistil eftir Kristinn H. þar sem hann bendir á að takmarkanir á aðstreymi vinnuafls erlendis frá hefðu vafalítið virkað hemjandi á þenslu ef þeim hefði verið beitt á réttan hátt.
Magnús Þór Hafsteinsson, 4.4.2007 kl. 16:02
Jahérna. Nefnir maður virkilega fnyk af fólki þegar manni líkar ekki skoðanir þess, sjónarmið eða framsetning efnis?
Ég hef sagt það áður, að vinna rökræðu á grundvelli málefna, án þess að grípa til útúrsnúninga, rökvilla eða persónulegra neðanbeltisskota, krefst aga og yfirvegunar.
Ég mæli eindregið með því að við tileinkum okkur þann aga og þá yfirvegun, því rökræðan verður svo miklu skemmtilegri fyrir vikið.
Elfur Logadóttir, 4.4.2007 kl. 20:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.