hux

Meira um sameininguna sem ekki varð

Aðstandendum DV og Króníkunnar ber ekki saman um hvor aðilinn átti frumkvæði að viðræðum um sameiningu miðlanna tveggja. Í upphafi vildi Króníkufólk ná samlegðaráhrifum í rekstri skrifstofu, ljósmyndunar og umbrots. Krafa um að Króníkan yrði lögð niður kom fram frá DV á föstudag og það var hún sem leiddi til þess að Sigríður Dögg og Valdimar slitu viðræðum við Hrein Loftsson. Enginn af blaðamönnum Króníkunnar vildi fara yfir á DV.

Það er athyglisvert að  viðræður um samkrull þessara miðla hafi farið í gang svo skömmu  eftir að þeir hófu göngu sína. Það hlýtur að vera staðfesting á því að áætlanir eru ekki að ganga eftir og sala beggja er undir væntingum.

Hvað varðar efnistök eru DV og Króníkan kannski tvö ólíkustu blöðin á markaðnum og vandséð að þau eigi annað sameiginlegt en nýjabrumið. Það var alltaf vitað að Króníkan stæði og félli með Sigríði Dögg og Valdimar og að þau hefðu auk eiginfjár fengið lánsfé frá Björgólfsbatteríinu.

En maður hélt að bakland DV sem er í eigu Baugsveldisins, væri traustara en svo að fara þyrfti í svona æfingar eftir fáeinar vikur. Ég veit að frá upphafi hefur DV verið í klandri með að fullmanna stassjónina og hefur keypt talsvert af efni utan úr bæ frá degi til dags. Líklega sáu menn leik á borði að leysa mönnunarvandann á einu bretti og kaupa þaulreynda ritstjórn Króníkunnar. En hugmyndirnar að blöðunum tveimur eru gjörólíkar. Blaðamenn Króníkunnar slitu upp djúpar rætur á öðrum miðlum til þess að hrinda nýrri hugmynd í framkvæmd en ekki til þess að ráða sig á DV-skútuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú þarft eiginlega að halda áfram að reyna að komast að því hvor átti frumkvæði. Fyrirsögnin í Fréttablaðinu er mjög afgerandi. Þar er fullyrt að DV hafi verið boðin yfirtaka. Þar sem DV er í sömu eigu og Fréttablaðið er þeim mun mikilvægara að segja satt og rétt frá. Ef fréttin er ekki sannleikanum samkvæmt virkar það dálítið eins og Fréttablaðið sé að búa til frétt um að Krónikan sé misheppnuð tilraun.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 12:26

2 Smámynd: Herbert Guðmundsson

Það er forvitnilegt að fylgjast með pælingum um þessa fjölmiðla, nýja eða nýendurreista. Af langri reynslu minni í þessum bransa hef ég ekki séð græna glóru í Króníkunni né nýju DV eins og til þessara fjölmiðla er stofnað, og sama á við um Viðskiptablaðið sem dagblað. En allir þessir fjölmiðlar eru með ríkidæmi eigenda á bak við sig, með einum eða öðrum hætti, sem mér sýnist vera að henda í þessi "gæluverkefni" spilapeningum. Af hverju? Til hvers? Og hvers er að vænta af starfsmönnum fjölmiðla sem standa á þessum brauðfótum?

Herbert Guðmundsson, 18.3.2007 kl. 20:49

3 identicon

Herleg brúðkaupsveislan var,
voru DrýsilVísir og Krónikan
þar pússuð næstum saman,
en Siggu Dögg og Valdimar
í veislunni fannst ei gaman
og vild'ei hreina loftið þar.

Steini Briem (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 20:55

4 identicon

Mjög gaman að fylgjast með þessu. Eitt sem ég myndi hafa áhyggjur af er þröngur lesendahópur Króniku. Það er lygilegt að Sigríður Dögg og eiginmaður hafi staðið í þessum viðræðum nema að þau sjái strax að þetta gengur ekki - en það er samt ekki fullreynt. Hins vegar held ég að fyrir þeim hafi vakið að kaupa DV til að leggja það niður en það er stíllinn þegar fólk er  örvæntingafullt. Veik von en samt hugmynd. DV hefur þurft að losna við Króniku hugmyndina af markaðnum líka og þess vegna verið tilbúnir í dansinn. Þegar góðar hugmyndir fara að snúast upp í andhverfu sína þá er tendensinn að forðast sjálfheldu og selja eða kaupa og allt fer að snúast um það. Þá gleymast upphaflegu hugmyndirnar og menn gera asnastrik. Vonandi koma bæði blöðin út áfram.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 18.3.2007 kl. 23:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband