hux

Orð dagsins

Leiðari Moggans í dag: 

Það er vond niðurstaða að stjórnarflokkarnir hafi ákveðið að afgreiða ekki á þessu þingi tillögur um breytingar á stjórnarskrá lýðveldisins þess efnis, að ákvæði um sameign þjóðarinnar á náttúruauðlindum verði tekið þar inn. Það þýðir ekkert fyrir Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk að kenna stjórnarandstöðunni um. Þessir tveir flokkar höfðu og hafa bolmagn á Alþingi til þess að afgreiða þetta mál. Þeir lofuðu því við upphaf kjörtímabilsins að taka þetta ákvæði inn í stjórnarskrá og þeir hafa nú formlega svikið það loforð. Verst er fyrir stjórnarflokkana að þeir hafa engin rök fyrir þessari ákvörðun. Þeir voru búnir að koma sér saman um orðalag og áttu að standa við það. Það þýðir ekkert að bera það fyrir sig að meiri tíma hafi þurft til að sameina ólík sjónarmið varðandi orðalag o.fl. Lögfræðingar eru margir miklir snillingar í sínum fræðum en það er alveg ljóst, að það er hægt að kaupa hvaða álit sem er hjá lögfræðingum. Að lokum er það Alþingi, sem setur lög og afgreiðir tillögur um breytingar á stjórnarskrá með sínum hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Um 70% landsmanna eru andvíg núverandi kvótakerfi og því er greinilega kominn tími til að taka upp nýtt og betra kerfi, sem meirihluti þjóðarinnar samþykkir. Ef hér er góð loðnuveiði er heildaraflinn um tvær milljónir tonna á ári og sæi íslenska ríkið í umboði þjóðarinnar um að úthluta veiðiheimildunum til einstakra byggðarlaga til eins árs í senn og tæki fyrir það tíu krónur að meðaltali fyrir kílóið í þorskígildum fengi þjóðin 20 milljarða króna í ríkiskassann. Hægt væri að útdeila þessari fjárhæð aftur til byggðarlaganna með margvíslegum hætti, til dæmis til samgöngubóta eða sem styrk vegna aflabrests. En að sjálfsögðu yrði verðið á aflaheimildunum mjög misjafnt eftir tegundum, til dæmis mun hærra verð fyrir kílóið af þorski en loðnu. Hægt væri að láta hvert byggðarlag fá ákveðnar veiðiheimildir árlega og veiðiheimildir yrðu að sjálfsögðu mismunandi frá ári til árs í samræmi við ástand fiskistofnanna. Veiðiheimildirnar yrðu einungis til eins árs í senn og ekki kvótaeign í nokkrum skilningi. Ríkið úthlutaði eingöngu réttinum til veiðanna og ákvæði hverju sinni hverjir fengju réttinn, til dæmis útgerðir, fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflyjendur. Fiskvinnslufyrirtæki og fiskútflytjendur gætu greitt útgerðum fyrir að veiða fyrir sig upp í veiðiheimildir sem keyptar hefðu verið. Og þeir sem hefðu áhuga á að hefja veiðar í fyrsta sinn ættu kost á því, þannig að nýir aðilar væru ekki útilokaðir frá veiðunum, eins og nú er mikið kvartað yfir.


Tíu krónur fyrir kílóið í þorskígildum gæti að sjálfsögðu verið lægri eða hærri upphæð eftir atvikum. Sagt er að nú greiði lítil byggðarlög, til dæmis á Vestfjörðum, allt að einum milljarði króna á ári fyrir veiðiheimildir og þessar fjárhæðir muni fyrr en varir leggja allar minni sjávarbyggðir í auðn. Og þrátt fyrir að útgerðarmenn kaupi og selji aflakvóta fyrir gríðarlegar fjárhæðir á ári, jafnvel einn milljarð í litlu sjávarplássi, segjast þeir ekki hafa efni á að greiða hóflegt gjald fyrir veiðiheimildirnar ef núverandi kerfi yrði lagt af. Það er nú ekki mjög trúverðugt. Margir hafa velt fyrir sér hvernig hægt sé að leigja þorskkvóta fyrir 155 krónur kílóið til eins árs og haft eitthvað upp úr því. Og sumir halda því fram að greiða þurfi allt að 75% af aflaverðmætinu í leigu fyrir kvótann. Verð fyrir kílóið af "varanlegum" veiðiheimildum í þorski í aflamarkskerfinu var komið uppfyrir 2.200 krónur í nóvember síðastliðnum en krókahlutdeildin kostaði þá um 1.900 krónur. Og sagt er að nú sé þorskverðið á "varanlegum heimildum" sem útgerðarmenn kalla svo, komið yfir 2.500 krónur fyrir kílóið. Það er engum blöðum um það að fletta að útgerðarmenn telja sig eiga aflakvótana á allan hátt, bæði í orði og á borði, og munu með kjafti og klóm berjast fyrir því að "eiga" þá áfram.


Hugtökin "þjóðareign", "ríkiseign" eða "sameign þjóðarinnar" í stjórnarskrá hefur ekkert að segja í þessu sambandi, ef útgerðarmennirnir eiga í raun aflakvótana, fara með þá sem sína eign, veðsetja þá, þess vegna hjá "íslenskum" bönkum sem eru og verða í raun erlendir, að hluta til eða jafnvel öllu leyti. Eigandi kvótans getur þess vegna verið íslenskur ríkisborgari sem býr á Bahamaeyjum, kemur hingað aldrei og hefur engan áhuga á afkomu íslenskra sjávarplássa. Hann hefur eingöngu áhuga á arðinum, fiskvinnslan og fólkið sem býr í sjávarplássunum er réttlaust hvað varðar sína afkomu. En þessu má engan veginn breyta, þá fer allt landið á hliðina, segja útgerðarmenn og sporgöngumenn hennar á þingi. Þjóðin á að vera eignalaus, getur aldrei eignast neitt og útgerðarmenn eiga að sjá um að eiga hlutina fyrir hana, frekar en ríkið. Það er kommúnismi og getur aldrei gengið upp í lýðræðisríki. Kommúnismi hins eldrauða Mogga. Og margir þeirra sem eru algjörlega andvígir inngöngu Íslands í Evrópubandalagið verja þetta kvótakerfi okkar út í ystu æsar, enda þótt eigendur kvótans gætu fyrr eða síðar allir verið íslenskir ríkisborgarar búsettir í Evrópu, þess vegna kvæntir erlendum konum sem fengju þá helming hagnaðarins af veiðum "íslenskra" skipa. 


Aflakvótar eru nú fluttir og seldir á milli landshluta í stórum stíl og einn útgerðarmaður getur lagt heilt byggðarlag í rúst með því að landa aflanum annars staðar eða selja kvóta "sinn" til annarra landssvæða. Vilja menn hafa þetta kerfi áfram? Meirihluti þjóðarinnar segir nei takk og 70% hennar hlýtur að vera fólk í öllum flokkum. Hagsmuna útgerðarmanna var hins vegar gætt á Alþingi að þessu sinni, þó þeir geti þess vegna búið á eyju í Karabíska hafinu. Þjóðin vill hins vegar að nýtt frumvarp um breytingu á stjórnarskránni verði lagt fram á næsta þingi, frumvarp sem gæti fyrst og fremst hagsmuna þjóðarinnar og einstakra byggðarlaga. Veiðiskip eru nú verðlítil eða verðlaus hér án aflakvóta. En þegar þau yrðu ekki lengur með "varanlegan" veiðikvóta fengju þau eðlilegt og raunverulegt verðmæti og úthlutaðan kvóta í sínu byggðarlagi, og myndu landa afla sínum þar. Byggðastofnun sagði í október 2000 að veikleikar sjávarbyggða á Vestfjörðum væru meðal annars versnandi kvótastaða, afli fluttur óunninn í burtu, erfiðar vegasamgöngur og lágt fasteignaverð.


Þannig ganga kaupin fyrir sig á eyrinni, samkvæmt Þórólfi Matthíassyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, og Ólafi Klemenssyni, fiskihagfræðingi hjá Seðlabanka Íslands:

Markaðsvirði Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum var 6,3 milljarðar króna árið 2002, eigið fé  tveir milljarðar, kvótastaðan var 15 þúsund tonn og bókfært verðmæti kvótans 1,7 milljarðar króna. Verð á kvóta á hlutabréfamarkaðnum var 403 krónur fyrir kílóið en þorskígildistonnið var þá selt á 1.070 krónur.

Lögmálið um eitt verð sem sagt ekki í gildi. Hlutabréfamarkaðurinn verðleggur kvótaeign sjávarútvegsfyrirtækja en mikill munur er á verði á kvótamarkaði og óbeint á hlutabréfamarkaði. Mögulegar ástæður ólíkrar verðmælingar geta annars vegar verið mæliskekkja, þannig að þorskígildi séu "ranglega" skilgreind, uppsjávartegundirnar fái of hátt vægi, fleira sé ómetið en upprunalegur kvóti (gjafakvóti), eða stjórnendaauður, viðskiptavild, og hins vegar ólíkar væntingar, þannig að kaupendur og seljendur á kvótamarkaði séu ekki þeir sömu og kaupendur og seljendur á hlutabréfamarkaði.

Verð á hlutabréfamarkaði ræðst af verði á lönduðum afla, sóknarkostnaði, líkindum á tækniframförum og hversu miklar þær gætu orðið hvað sóknina snertir, heimiliðum heildarafla, ávöxtunarkröfu og veiðigjaldshlutfalli.


Magnús Thoroddsen hæstarréttarlögmaður segir meðal annars í tillögu sinni um nýtt ákvæði í stjórnarskránni um þjóðareign á auðlindum:

"Tilgangurinn með því að stjórnarskrárbinda nýtt ákvæði þess efnis, að "náttúruauðlindir Íslands skuli vera þjóðareign" hlýtur að vera sá, og sá einn, að þjóðin öll skuli njóta arðsins af þeim. Því þarf að búa svo um hnútana í eitt skipti fyrir öll, að þessar auðlindir verði aldrei afhentar einhverjum sérréttindahópum á silfurfati. Ég leyfi mér því að leggja til, að þetta stjórnarskrárákvæði verði svohljóðandi:

"Náttúruauðlindir Íslands, hvort heldur er í lofti, legi eða á láði, skulu vera þjóðareign. Þær ber að nýta til hagsbóta þjóðinni, eftir því, sem nánar er ákveðið í lögum. Heimilt er að veita einkaaðiljum, afnota- eða hagnýtingarrétt á þessum auðlindum til ákveðins tíma gegn gjaldi, hvort tveggja ákveðið í lögum. Slík afnotaréttindi geta aldrei skapað eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðilja yfir náttúruauðlindinni."

Steini Briem (IP-tala skráð) 16.3.2007 kl. 18:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband