hux

Reykjavík+snjór=umferðarteppa

Þetta er svona dagur þegar landsbyggðarfólk hristir hausinn og talar um að það megi aldrei koma korn úr lofti þá sé komin umferðarteppa í Reykjavík af því að fólk þar kunni ekki að keyra. Jamm.

Ég er ekki landsbyggðarmaður, hef búið í borginni alla tíð og var rétt í þessu að koma inn úr umferðinni eftir einhverjar mestu umferðarteppur sem ég man eftir um langt árabil.  Var tæpar tæpar 20 mínútur á leiðinni frá Bólstaðarhlíð og að gervigrasvellinum í Laugardal. Klukkan 18.30 voru enn þéttar biðraðir á stofnbrautum og bíll við bíl á Kringlumýrarbraut, milli Miklubrautar og Háaleitisbrautar.  Þetta ástand hefur ekki bara verið á stofnbrautum heldur líka á safngötum á borð við Skipholt, Háteigsveg og Nóatún.

Þessu veldur snjórinn. Þó er hann ekki mikill, - rétt þæfingur.  Ótrúlega margir bílar ráða illa við að fara af stað úr kyrrstöðu, sérstaklega í þeim götum þar sem eru smábrekkur. Væntanlega verður allt brjálað að gera á dekkjaverkstæðum borgarinnar á morgun og líklega hafa margir ákveðið í dag að sækja nagladekkin ofan í geymslu og setja þau undir hvað sem borgaryfirvöld segja.

En þótt margir séu vanbúnir held ég að aðalorsök umferðarteppunnar í dag ég sé röng viðbrögð við aðstæðum. Ótrúlega mögrum bílum er ekið inn á hálffull gatnamót þótt augljóst sé að þeir muni ekki komast yfir áður en rautt ljós kviknar. Þess vegna afkasta fjölmörg gatnamót borgarinnar litlu sem engu við þessar aðstæður, það er allt fast af því að taugaveiklun og tillitsleysi eru áberandi sem aldrei fyrr í umferðinni á degi sem þessum. Sem betur fer taka margir ökumenn ástandinu með brosi á vör og gefa sénsa og reyna að gera ekki illt verra. Ég náði því stundum en stundum náði pirringurinn völdum við að horfa upp á feigðarflan og fólk á bílum sem ekki voru í standi til að vera á götunum.

En loks kem ég að því sem rak mig til þess að skrifa þessa færslu og það er það að allan þann tíma sem ég hef átt í bílnum mínum í dag hef ég ekki séð einn einasta lögreglubíl. Nú hef ég fylgst með mikilli ánægju með því hvernig Stefán Eiríksson hefur farið af stað sem nýr lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Honum er greinilega ofarlega í huga að lögreglan er fyrst og fremst þjónustustofnun fyrir borgarana. Hann leggur áherslu á sýnilega löggæslu en ekki einn einasti lögreglumaður var sýnilegur við gatnamót í dag til þess að greiða umferðinni leið og koma í veg fyrir þarflaust flan inn á gatnamót. Ég er viss um að Stefán verður ekki lengi að kveikja á þessu og endurvekja þá gömlu venju - sem var í gildi meðal lögregluþjónar voru í Reykjavíkurlögreglunni en ekki bara lögreglumenn - að stjórna umferð á helstu umferðaræðum þegar aðstæður eru eins og verið hafa í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Runólfsdóttir

Einmitt það sem ég landsbyggðarmanneskjan hugsaði, en gat keyrt út um alla borg á nagladekkjunum mínum. Þetta var meira að segja frekar skemmtilegt. 

Ég hef nú samt heyrt þá kenningu að fólk stoppar ekki á gul-rauðu ljósi í svona færð af ótta við að drífa ekki af stað aftur...

Anna Runólfsdóttir, 12.1.2007 kl. 10:30

2 identicon

Veistu ég er nú bara hið tíbíska borgarbarn og átti ekkert erfitt með að keyra á nöglunum mínum. Það er eins og það komi Reykvíkingum alltaf jafn mikið á óvart þegar það kemur snjór, við búum nú einu sinni á Íslandi. Ég er líka alveg sammála með lögguna, hvar var hún?

Steinunn (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 13:27

3 identicon

Lögreglan vill vera sýnileg en kannski var of vont veður i dag til að fara út að sýna sig.

Þóroddur (IP-tala skráð) 12.1.2007 kl. 19:49

4 Smámynd: Birgir Þór Bragason

Þetta eru skrítin skrif. Setning eins og Ótrúlega margir bílar ráða illa við að fara af stað úr kyrrstöðu veltur það ekki á ökumanninum að koma bílnum af stað? Og svo Ótrúlega mögrum bílum er ekið inn á hálffull gatnamót af ökumönnum sem kunna ekki reglurnar, og svo kemur!!! Sem betur fer taka margir ökumenn ástandinu með brosi á vör og gefa sénsa og reyna að gera ekki illt verra. Þetta var þó allt ökumönnum að kenna frá upphafi til enda. Ekki bílnum, ekki snjónum, ekki borgarstarfsmönnum, ekki Vegagerðinni, ekki lögreglunni og svo framvegis. Það er nefnilega pínu skrítið hvernig gáfaðir Íslendingar virðast skilja heilan eftir heima þegar farið er út að aka. Málshátturinn úti að aka er sennilega rammíslenskur, er það ekki? En besta að taka þessu með brosi á vör :)

Birgir Þór Bragason, 13.1.2007 kl. 23:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband