hux

Einnar bókar fólkið

Hvað eiga þessar skáldsögur sameiginlegt?

Allar eru á þessum lista sem Samök bókasafna í Bandaríkjunum hafa tekið saman yfir þær 100 bækur sem ofstækismenn reyndu mest að fá bannaðar í þarlendum bókasöfnum á síðasta áratug. Oft hefur verið látið undan kröfunum enda öflugur og hávær þrýstihópur á ferð. Það er því síður en svo sjálfsagt að þessar bækur séu til á bókasöfnum vestanhafs.


Blaðið

Nú er könnunarvika, feðgarnir -sme og Janus umbrotssnillingur, munu áreiðanlega uppskera eins og þeir hafa til sáð undanfarnar vikur. Fara tæplega yfir Moggann í þessari atrennu en færast nær og fara að anda ofan í hálsmálið á stóra bróður.

Halldór Baldursson skopmyndateiknari blaðsins er gífurlega flottur þegar honum tekst vel upp. Ómetanlegt fyrir blað að eiga aðgang að slíku efni. Góðir teiknarar eru sannarlega fágætir í blaðamennsku. Halldór er sá fyrsti sem teiknar í íslensk blöð sem ég hef virkilega smekk fyrir. Sigmund hefur alltaf verið eitthvað of ... fyrir minn smekk þótt ég hafi oft getað hlegið að honum.

Af hverju ætli það sé svona langt síðan Andrés Magnússon fékk að skrifa leiðara? Hvað er komið langt síðan? Nokkrar vikur.


Stilltir strengir

Rétt eftir að stjórnarandstöðuflokkarnir tilkynntu þann ásetning sinn að stilla saman strengina og bjóða upp á valkost við ríkisstjórnarflokkana leggur Samfylkingin fram tillögur um lækkun matarverðs sem allir andmæla, ekki síst Vinstri grænir og Frjálslyndir.

Það sem mig langar að vita frá Samfylkingunni er þetta: 1. Mun flokkurinn láta myndun nýrrar ríkisstjórnar stjórnarandstöðuflokkanna stranda á tillögum sínum um matarverð og því aðeins fara í ríkisstjórn á næsta kjörtímabili að hann nái þessum tillögum sínum fram í stjórnarmyndunarviðræðum? 2. Hvaða líkur eru á því að 1. verði að veruleika í ljósi þeirra viðbragða sem fram eru komin?


Espresso og latte

Á einhver í fórum sínum upptökuna af þessari ræðu samgönguráðherra við vígslu nýs flugvallar á Þingeyri 20. ágúst sl? Ég hefði gaman af því að heyra hana. Upptakan er ekki á vef RÚV, ég var of seinn, þeir geyma bara hljóðupptökur í hálfan mánuð, held ég.

Ég er búinn að heyra mikið um þessa ræðu. Sturla lætur okkur Reykvíkingana heyra það, segir að við viljum bara fara með flugvöllinn úr Vatnsmýrinni svo að við getum byggt fleiri kaffihús þar sem við getum setið og drukkið espresso og latte allan daginn.

Því miður er þessi ræða ekki á vef samgönguráðuneytisins, bara þessi fréttatilkynning þar sem ekkert er minnst á kaffihúsin og Reykvíkingana.


Athyglisverður fróðleikur

Þetta hafði farið fram hjá mér en kemur vel heim og saman við það þá mynd sem er að verða til af málinu:

Samkvæmt Speglinum, fréttaskýringarþætti Ríkisútvarpsins, í gærkvöldi, sem hér má hlusta á, vissu hvorki Steingrímur Hermannsson, sem var dómsmálaráðherra 1978 til 1979, né Jón Helgason, sem var dómsmálaráðherra 1983 til 1987, um tilvist leyniþjónustu þeirrar sem Þór Whitehead prófessor segir frá í Þjóðmálum.
Þó voru báðir þessir menn yfirmenn leyniþjónustunnar og lögreglunnar. Hvernig getur staðið á þessu? Starfaði leyniþjónustan kannski ekki á þessum tíma?


Þetta blogg er gagnlegt að lesa fyrir áhugamenn um málið.


Bak við tjöldin

Af reynslu sinni sem ráðherra og embættismaður telur Björn Bjarnason fráleitar fullyrðingar Guðna Th. Jóhannessonar að lögreglan hefði haldið úti eins konar öryggisdeild Sjálfstæðisflokksins. Athyglisvert að hann vísi til reynslu sinnar sem embættismaður en embættismennska Björns fólst í því að vera skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, þar sem hann starfaði meðal annars undir stjórn Ólafs Jóhannessonar ef ég veit rétt.

Engin gögn liggja fyrir um dómsúrskurði eða hleranir í tíð Ólafs (eða hef ég misst af einhverju?). Mér finnst það ekki óeðlileg túlkun á orðum Björns að hann hafi sem embættismaður haft eitthvað með starfsemi "öryggislögreglunnar" að gera, fyrst hann vísar til embættismennskunnar í þessu sambandi. En jafnalvarlega og ég tek staðhæfingar Björns allajafna duga þær ekki til í þessu tilviki. Það nægir mér ekki að hann einn lýsi því yfir að þetta hafi verið þverpólitísk starfsemi.

Allt hnígur í eina átt, þá sem Björn Bjarnason lýsti sig reyndar fylgjandi í fréttum í gær, ef ég skildi hann rétt, að galopna eigi aðgang að öllu sem að starfsemi njósnadeildar lögreglunnar í Reykjavík lýtur. Björn segir ljóst að starfsemin hafi öll verið innan ramma laganna þannig að þeir sem verkin unnu hafa ekkert að óttast. Það eru þeir sem hleraðir voru sem knýja á um gögn og upplýsingar og fyrst hinum ætluðu landráðamönnum er sama, hverjum má þá ekki vera sama? Öryggishagsmunir ríkisins? Ríkið, sem óttast var að landráðamenn ynnu fyrir er ekki lengur til og brottför Varnarliðsins segir allt sem segja þarf um það hvort slík umræða væri skaðleg frá öryggissjónarmiði í dag. Utan gildissviðs upplýsingalaga? Já, það á við um mál sem eru til lögreglurannsóknar og mál sem varða öryggi ríkisins en stjórnvöldum er alltaf heimilt að ganga lengra en upplýsingalögin kveða á um, þau fjalla bara um lágmarksaðgang að upplýsingum.


Íslendingur þekkir grunaðan hryðjuverkamann

Davíð Logi þekkir manninn á myndinni hér fyrir neðan. Lesið meira á hans gæðabloggi.


Með og á móti

Af hverju skyldi Samfylkingin styðja svo gott mál í Kópavogi en leggjast gegn því í Reykjavík?

Nú er í lagi að greiða foreldrum barna í Kópavogi umönnunargreiðslur, en í Reykjavík er það argasta ósvinna.


Sindri sagði upp

Það er rétt að Sindri Sindrason er hættur á NFS, hins vegar var ekki rétt hjá mér að honum hefði verið sagt upp. Rétt er að hann sagði upp fremur en að þiggja það nýja starf sem honum var boðið.


Red alert

Myndin er sjálfsagt háð höfundarrétti en er birt hér engu að síður enda gæti þjóðaröryggi ef ekki heimsfriður verið í húfi.

Guardian:

Yet for three and a half years the US government deemed this elderly, infirm man an "enemy combatant", so dangerous to America's security that he was imprisoned at Guantánamo Bay.


Lifirðu tvöföldu lífi? Viltu fá borgað fyrir það?

Í boði MSNBC og YouTube: Þegar unga fólkið í Bandaríkjunum fer í bíó að horfa á nýjustu myndina með Bruce Willis sér það líka þessa atvinnuauglýsingu frá CIA.


Og nú er farið að gjósa

Athyglisverðar fréttir af kjördæmisþingi Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi og mörgum mikið fagnaðarefni. Sýnir almennar áhyggjur flokksmanna og ríkan vilja til endurnýjunar. Það verður spennandi að fylgjast með hvernig þessi mál þróast.


Veit það ekki

Ætli það sé tilviljun að Þór Whitehead finnur engin gögn um hleranir vegna fundar Nixons og Pompideu hér á landi?

Velti því fyrir mér vegna þess að á þeim tíma var Sjálfstæðisflokkurinn utan ríkisstjórnar, ef ég man rétt.


Jólabókin

...verður bók Margrétar Frímannsdóttur, sem nú er verið að skrifa. Hlakka sérstaklega til þess að lesa frásögn hennar af síðustu árunum á hennar pólitíska ferli. Hef eins og aðrir heyrt allar sögurnar af samskiptum hennar og núverandi formanns.

Mun Ljósmóðir Samfylkingarinnar varpa sprengjum út í jólabókaflóðið í ár, á kosningavetri? Eða verður niðurstaðan sú að það sé betra að bókin komi út næsta haust, þegar búið er að kjósa?


Annar er stjórnmálamaður - hinn er hagfræðingur

Með framboði Gylfa Arnbjörnssonar í 3.-4. sæti Samfylkingarinnar í Reykjavík er stiginn fram einn nánasti ráðgjafi Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, formanns Samfylkingarinnar, en jafnframt einn harðasti andstæðingur Össurar Skarphéðinssonar innan Samfylkingarinnar.

Gylfi lýsir yfir áhuga á 3.-4. sætinu, án vafa í samráði við Ingibjörgu Sólrúnu. Andstaða Gylfa Arnbjörnssonar hefur orðið Össuri pólitískt dýrkeypt. Það var hann sem leiddi uppreisnina gegn Össuri innan flokksins vegna eftirlaunafrumvarpsins á haustþinginu 2003. Í þeim átökum missti forysta Samfylkingarinnar trúnað verkalýðshreyfingarinnar, sem um leið ákvað endanlega að fylkja sér að baki Ingibjörgu Sólrúnu sem formanni. Og líkt og hjá Verkamannaflokknum í Bretlandi stjórnar enginn Samfylkingunni í blóra við vilja verkalýðshreyfingarinnar.

Spurningin er hvort sú bíræfni Gylfa að tefla með þessum hætti gegn Össuri og fleiri landsþekktum stjórnmálamönnum Samfylkingarinnar muni ekki koma honum í koll þegar talið verður upp úr kjörkössunum.


Af uppsögnum

Sindri Sindrason er mér sagt að sé þekktasta nafnið fyrir utan Róbert Marshall sem sagt var upp hjá NFS. Lóa Aldísardóttir verður í kvöldfréttum, Lára Ómarsdóttir fer í Kompás, Hallgrímur Thorsteinsson verður tengdur Vísi. Þeir sem missa vinnuna eru ungt fólk, lítt þekkt, en þekktustu andlitin og nöfnin halda sínu eða verða flutt til.


Ég veit ekkert af eða á um þann orðróm um Róbert Marshall sem ég fleytti fram hér áðan. Hvað sem síðar verður mun Róbert væntanlega byrja á að taka sér langt frí enda á hann þriggja mánaða uppsagnafrest á launum og sjálfsagt eitthvað í uppsafnað 3ja mánaða frí blaðamanna eins og gengur í þeim bransa. Þannig að það er ekki eins og hann mæti upp í Hádegismóa á mánudaginn, hvað sem síðar verður.


Róbert kominn með nýja vinnu?

Óstaðfestar fréttir herma að Róbert Marshall sé búinn að ráða sig til vinnu í nýja Morgunblaðshúsinu, hjá fyrirtæki tengdu Árvakri.

Óvænt og setur suma atburði undanfarinna daga í nýtt ljós ef rétt reynist. Rétt er að halda þeim fyrirvara til haga en maður má samt spekúlera.

Í ljósi þess að Róbert og Sigurður G. Guðjónsson eru gamlir félagar, sem meðal annars gengu saman á tind Kilimanjaro (er það ekki skrifað svona?) fyrir nokkrum árum, þá þarf þetta kannski ekki að koma á óvart.

Sigurður G. á dreifiveituna Hive, tímaritaútgáfuna sem áður hét Fróði, stóran hlut í útgáfufélagi Blaðsins, sem hefur aðsetur í Moggahúsinu, og nokkrar útvarpsstöðvar. Það þarf ekki mikla skarpskyggni til þess að sjá að hér er fjölmiðlaveldi í fæðingu þótt enn vanti einhverja kubba í púsluspilið.

ps. Ég sagði ykkur að hann mundi skúbba aftur í dag.


Þannig er það

Þetta er ekkert flókið, maður linkar á þann sem á skúbbið. Og ef sá sem maður linkar á á mörg skúbb þá linkar maður oft á hann. Ég gæti meira að segja trúað að þetta væri ekki í síðasta skipti í dag sem ég linka á hann. Það eru nefnilega fleiri fréttir í vændum og ég veit engan líklegri til þess að verða fyrstur með þær en einmitt hann.

Þetta bréf hans Róberts er gott, nei ekki gott, það er eiginlega klassi yfir því, allt að því fallegt, og ef menn taka ekki sjálfa sig svolítið hátíðlega á stundum sem þessum, hvenær þá?


Tölfræði

Meðalfjöldi sjónvarpstækja á bandarísku heimili: 2,73. Meðalfjöldi íbúa á bandarísku heimili: 2,55. Sjá hér.

Þegar bensínverðið lækkar eykst álit Bandaríkjamanna á Bush. Þegar bensínverðið hækkar minnkar álit Bandaríkjamanna á Bush. Skoðið sambandið þarna á milli hér.


Getraun dagsins

Er ekki nokkuð ljóst að það eru greinar Hreins Loftssonar um Björn Bjarnason sem eru tilefni Staksteina í dag, einkum seinni greinin? Ég held það.

Þarna er líka talað um einhverja sem að baki standi og oti mönnum eins og Hreini fram, það er eins og Hreinn megi ekki bara bera ábyrgð á þessu sjálfur heldur sé hann verkfæri í höndum annarra, ekki maður heldur peð. Hvaða illvirki er það sem teflir Hreini fram. Eiga Staksteinar við Jón Ásgeir? Var mér amk ekki ætlað að skilja það þannig?

Annarri spurningu er ósvarað (ef það er rétt kenning að við Hrein sé átt): Fyrst skrif Hreins voru svona rætin og svakaleg, af hverju samþykkti ritstjóri Morgunblaðsins þá að birta þau í blaðinu sínu?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband