3.10.2006 | 11:22
Atvinnumál
Mér telst svo til að 33 af 63 alþingismönnum séu á leið í prófkjör á næstu vikum. Ætli atvinnumál verði ekki meginmál haustþingsins að þessu sinni?
3.10.2006 | 11:03
Hagnýt ættfræði
Valgerður Bjarnadóttir ætlar að sækjast eftir öruggu þingsæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík. Hún hefur verið áberandi í greinaskrifum og sem álitsgjafi í sjónvarpi undanfarin ár. Valgerður er dóttir Bjarna Benediktssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, og þess vegna systir Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra.
Fái Valgerður framgang í prófkjörinu munu þau systkinin hittast á þingi og sitja þar hvort fyrir sinn flokkinn. Ætli það auki líkur á stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að gera Valgerði að þingmanni?
Í stjórnarmeirihlutanum sem nú situr hafa eins og kunnugt er verið bræður, hvor í sínum flokki. Kristinn H. Gunnarsson, framsóknarmaður, og Gunnar I. Birgisson, sjálfstæðismaður, eru hálfbræður. Gunnar hefur nú sagt af sér þingmennsku til þess að einbeita sér að starfi bæjarstjóra í Kópavogi.
2.10.2006 | 21:39
Hvar er fjarstýringin?
Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra annað kvöld í beinni útsendingu á RÚV. Þetta er algjör tímaskekkja, það ætti að láta dagskrá RÚV óhreyfða og vísa okkur þessum 2% sem horfum á þetta á beinar útsendingar frá sjónvarpsstöð Alþingis á Digital Ísland eða Skjánum. Það er ekki lengur hægt að treysta á að nokkur sé að horfa á þetta, fjarstýringin flytur fólk á ljóshraða yfir á Stöð 2, Sýn, Skjá einn eða Sirkus. Þar er örugglega betra sjónvarpsefni í boði. Það er oft ágætt sjónvarpsefni að hafa á Alþingi, en sjaldnast í þessum umræðum. Það eru líka oft ágætar pólitískar umræður á Alþingi en sjaldnast í umræðum um stefnuræðu.
Utandagskrárumræður, umræður um störf þingsins, athugasemdir um fundastjórn forseta og óundirbúnar fyrirspurnir eru beinlínis eru á dagskrá þingsins til þess að sjá sjónvarpsfréttunum fyrir líflegu myndefni úr þingsalnum. Sumir þingmenn hafa náð mikilli leikni í því að spila á það form, til dæmis Össur, Steingrímur J og Helgi Hjörvar sem tala blaðlaust og af innlifun á þeim tveimur mínútum sem þeim er þá úthlutað og passa að "punchline-ið" komi akkúrat þegar forseti rís virðulega á fætur og lætur glymja í bjöllunni.
(Bloggerinn er að stríða mér og er búinn að setja kvóta á lengd færslna, því verður framhald hér að neðan í næstu færslu.)
2.10.2006 | 21:33
Jómfrúrræða Jóns á kvöldinu hans Steingríms
Meira um stefnuræðuna. Ég sagði hér að ofan að oft sæist gott sjónvarpsefni í þingsalnum. Það gerist hins vegar sjaldnast í umræðum um stefnuræðuna. Fólk sem í utandagskrárumræðum, athugasemdum og andsvörum sýnir mikil tilþrif, tilfinningahita og á köflum leiftrandi mælsku minnir þetta kvöld iðulega á sýslumann a ð lesa upp aðfarargerð. Það er bara Steingrímur J sem blómstrar alltaf á þessu kvöldi, mætir blaðlaus í pontuna eins og endranær og lætur vaða á súðum í viðtengingarhætti. Sjaldnast verða þarna raunverulegar umræður, flestir halda sig við nestið sitt og eyða ekki orði á það sem aðrir hafa sagt.
Það er þó eitt sem gerir þessar umræður athyglisverðar í ár, í þeim mun nýr formaður Framsóknarflokksins í fyrsta skipti stíga í ræðustól Alþingis og flytja boðskap sinn. Í Gallup í kvöld kom fram að flokkurinn situr fastur í 9% fylgi og vinsældir nýja formannsins í ráðherrastóli mælast mitt á milli Björns Bjarnasonar og Sturlu Böðvarssonar. Það er kannski ekki óvænt, því Jón er lítið þekktur, en bendir til þess að hann eigi mikið verk óunnið fyrir kosningar. Það er því mikið í húfi fyrir Jón að honum takist vel upp í kvöld. Ætli hann mæti blaðlaus í pontuna?
2.10.2006 | 09:57
Tvö dagblöð
Ég var að lesa bloggið hans Skapta og reyna að klóra mig fram úr fyrirsögnum spænskra blaða um Eið Smára þegar blaðið La Vanguardia varð á vegi mínum. Það mætti halda að sama góða fólkið hefði hannað hausinn á því blaði og hannaði haus Fréttablaðsins á sínum tíma.
2.10.2006 | 09:32
Fjórir Eyjamenn í prófkjörum á Suðurlandi?
Spurningin er víst ekki hvort Róbert Marshall fer í prófkjör á vegum Samfylkingarinnar heldur hvar. Ég sagði frá því um daginn að rætt væri um að hann ætlaði sér í prófkjörið í Reykjavík. Samfylkingarfólk á Suðurlandi býst líka við því að Róbert fari fram þar enda borinn og barnfæddur Eyjapeyi eins og kunnugt er og leysti Árna Johnsen af í Brekkusöngnum meðan Árni var á Kvíabryggju.
Ef Róbert lætur slag standa verða amk fjórir Eyjamenn að sækjast eftir þingsæti í prófkjörum næstu vikna, því báðir þingmenn Eyjamanna, Lúðvík Bergvinsson, Samfylkingu, og Guðjón Hjörleifsson, Sjálfstæðisflokki, sækjast eftir endurkjöri. Svo er auðvitað Árni Johnsen.
2.10.2006 | 09:19
Orð dagsins
Mogginn í dag, bls. 10:
"Jón Baldvin sagði herðaðarkenningu Bandaríkjamanna frá 2002 jafngilda því að þeir segðu sig úr lögum við alþjóðasamfélagið. "Svo getur hver og einn svarað því fyrir sig, hvort öryggi vopnlausrar smáþjóðar er best borgið í bandalagi við slíkt herveldi.""
29.9.2006 | 14:26
Þetta snerist um Kárahnjúka
Það voru Vinstri grænir sem tryggðu sjálfstæðismenninum Halldóri Halldórssyni, bæjarstjóra á Ísafirði, formennskuna í Sambandi íslenskra sveitarfélaga í dag. Kosningin var mjög spennandi og aðeins munaði fjórum atkvæðum.
Niðurstaðan hlýtur að vera fagnaðarefni fyrir áhugamenn um ríkisstjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins. VG var sigurvegari sveitarstjórnarkosninganna í vor. Flokkurinn er nú fyrst orðið raunverulegt afl á sveitarstjórnarstiginu og lét finna fyrir því afli við fyrsta tækifæri sem gafst og það var á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á Akureyri.
Framganga Smára Geirssonar, sem oddvita þeirra Austfirðinga sem börðust harðast fyrir álveri í Reyðarfirði og Kárahnjúkavirkjun, gerði að verkum að sveitarstjórnarmenn VG litu á hann sem höfuðandstæðing og máttu ekki til þess hugsa að honum yrði falið að leiða samtök sveitarstjórnarmanna. VG reyndi fyrst að skapa samstöðu um Árna Þór Sigurðsson sem valkost við Smára en þegar það gekk ekki eftir fylktu þeir liði um sjálfstæðismanninn Halldór Halldórsson.
Samfylkingarmönnum féll niðurstaðan þungt. Kom til hvassra orðaskipta Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur og Svandísar Svavarsdóttur strax og niðurstaða úr kosningunni lá fyrir. Sveitarstjórnarmenn Samfylkingarinnar stóðu langflestir með Smára, sem og framsóknarmenn. Flokkslínur héldu þó líklega hvergi alveg, nema innan raða VG.
Einnig naut Halldór víðtæks stuðnings vestfirskra sveitarstjórnarmanna.
29.9.2006 | 11:37
Eru ekki allir í stuði?
Síðan ég horfði á Hemma Gunn í gærkvöldi er ég búinn að reyna að sjá fyrir mér að Davíð Oddsson hefði klætt sig í jogginggalla með hinum formönnum flokkanna og tekið þátt í Morfís-keppni til þess að hita upp fyrir Magna. Ég sé það bara ekki fyrir mér. Annað mál með Örn Árnason.
29.9.2006 | 11:34
Af hverju ekki Halldór?
Ungir Framsóknarmenn eru farnir að kenna sig við fallinn foringja. Hér segir að á fundinum hafi fráfarandi formaður beint spjótum að þingmanni flokksins í kjördæminu.
29.9.2006 | 11:31
Bitlingur í boði
Ég veðja á að Þórólfur Halldórsson hreppi hnossið. Hann er forystumaður í Sjálfstæðisflokknum í Vesturbyggð.
28.9.2006 | 19:03
Kvöldsaga
Það var einhvern tímann á Mogganum þegar mikið gekk á, ég man ekki hvert málið var en það var sótt að blaðinu.
Matthías Johannessen var kominn niður á gólf og menn litu til hans. Hvernig ætlaði hann að taka á málinu?
Matthías lét sér ekki bregða og sagði: Ég ansa ekki flugnasuði.
28.9.2006 | 13:22
Uppsagnarbréf með einkaflugvél
Í dag er Ólafur Örn Haraldsson aðstoðarforstjóri Ratsjárstofnunar á ferð og flugi á einkaflugvél um landið.
Hann flýgur á milli ratsjárstöðvanna í grennd við Bolungarvík, Þórshöfn og Höfn. Erindið er að segja upp öllum starfsmönnum ratsjárstöðvanna. Uppsagnirnar koma fólkinu á óvart. Það vissi að störfin yrðu lögð niður en átti ekki von á uppsögnum fyrr en næsta sumar. Fyrir því taldi það að ráðherrar í ríkisstjórninni hefðu gefið vilyrði.
Uppsagnirnar eru þungt högg fyrir byggðarlögin, einkum Bolungarvík og Þórshöfn. Störfin eru afar sérhæfð og vel launuð og langt í frá að fólkið geti gengið að sambærilegum störfum í heimabyggð. Verst þykir fólki að sá aðlögunartíminn sem það hafði vonast eftir verður mun skemmri en lofað hafði verið.
28.9.2006 | 12:42
Orð dagsins
28.9.2006 | 12:36
Inn í skápinn
Staksteinar taka í dag í hnakkadrambið á frjálshyggjudeild Sjálfstæðisflokksins og vilja að þeir hafi hægt um sig á kosningavetri og séu svolítið miðjumannslegir. Ég bíð enn eftir að heyra Sigurð Kára og Pétur Blöndal tjá sig um Íbúðalánasjóðsstýrihópslokaniðurstöðuna. Það verður gaman að sjá hvort þeir taka mark á Staksteinum í því efni.
28.9.2006 | 09:07
Maður er nefndur
Mér finnst sennileg kenningin um að þetta sé Svanborg Sigmarsdóttir í dulargervi.
27.9.2006 | 18:00
Róbert á þing?
Innan Samfylkingarinnar er hávær orðrómur um að Róbert Marshall muni gefa kost á sér í prófkjörinu í Reykjavík, sem haldið verður 11. nóvember, og stefni á öruggt þingsæti. Framboðsfrestur rennur ekki út fyrr en 21. október.
27.9.2006 | 12:37
Obb bobb bobb !
Nákvæmlega hvað felst í þessum varnarsamningi hvað varðar hefðbundnar varnir sem ekki leiðir af stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins? Það að hingað komi einhverjir hermenn til æfinga eina viku á ári hverju? Er þetta þá 1/52 úr varnarsamningi, eða hvað?
Athyglisverðar þessar athugasemdir Baldurs Þórhallssonar. Víkingasveitin og ríkislögreglustjóri í samstarf við bandarísk lögreglu og hermálayfirvöld, og þá væntanlega mennina sem gáfu heiminum Abu Ghraib og Guantanamo og víðtækustu símhleranir án dómsúrskurða í mannkynssögunni, svo fátt eitt af afrekalista undanfarinna ára sé rakið. Er það málið? Á víkingasveitin að vera í lögreglubúningi hér á götunni milli þess sem hún er í æfingabúðum hjá Bandaríkjaher? Stundum í hernum, stundum ekki, en alltaf með byssurnar í beltinu.
Af hverju í ósköpunum er ekki leitað samstarfs við nágrannaþjóðirnar um löggæslu og öryggiseftirlitsþáttinn? Hvað hafa Bandaríkjamenn að bjóða okkur í því efni annað en að vísa veginn inn í Gulag 21. aldarinnar? Hvaða mat á íslenskum öryggishagsmunum býr hér að baki, hverjir hafa lagt það mat á þá hagsmuni að þeim sé borgið með þessu?
27.9.2006 | 10:07
Einu deilumálinu færra?
Það verður athyglisvert að heyra Sigurð Kára og Pétur Blöndal tjá sig um Íbúðalánasjóðsstýrihópslokaniðurstöðuna. Hún féll alveg í skuggann af varnarsamningalokaniðurstöðunni í gær. En mér sýnist ríkisstjórnin búin að ýta einu eldfimu deilumáli út af borðinu fyrir kosningaveturinn.
Samráð banka og verðbréfafyrirtækja er óánægt með niðurstöðuna... Það hafa orðið miklar breytingar á pólitísku andrúmslofti í húsnæðismálum undanfarna mánuði. Fyrir ári eða svo var hægt að sjá fyrir sér að erfitt yrði að tryggja framtíð Íbúðalánasjóðs. En með framgöngu bankanna á markaðnum undanfarna mánuði er almenningur einfaldlega hættur að treysta þeim fyrir þessu. Sjálfstæðisflokkurinn skynjar það eins og aðrir. Ég gluggaði í lokaálitið og sé ekki betur en þetta sé það sem Árni Magnússon vildi ná fram og stóð í stappi út af áður en hann fór að vinna í bankanum. Það er líka athyglisvert að lesa þarna um að það virðist ekki hafa verið eining um málið innan Samráðs banka og verðbréfafyrirtækja.
27.9.2006 | 08:52
Orða frjósöm móðir
Leiðarar Þorsteins eru iðulega frábærir, finnst mér, knappir og þrungnir merkingu en stundum óræðir.
Ég held að Þorsteinn hafi verið maðurinn sem bjó til orðið ásættanlegt í íslensku, talaði mikið um það áður fyrr í tengslum við kjarasamninga og sjávarútveg, ég hafði aldrei heyrt það fyrr en allt í einu var það komið á hvers manns varir.
En ég er kominn út á hjáleið. Það sem ég ætlaði að segja var: Veit einhver hvað þetta þýðir?
Og loks fór næstliðin borgaraleg ríkisstjórn út á hjáleið í þessu viðliti með hótun um uppsögn ef ekki yrði orðið við fullkomlega óraunhæfum og órökstuddum kröfum.
Ég held ég túlki þetta bara þannig að þáliðinn formaður Sjálfstæðisflokksins sé að gagnrýna næstliðinn formann Sjálfstæðisflokksins fyrir það hvernig hann hélt á varnarmálunum í sinni utanríkisráðherratíð með kröfum um lágmarksfjölda þotna. En ég er ekki viss.
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 536825
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar