17.10.2006 | 19:22
Fréttayfirlit
Það bar til tíðinda í prófkjörsfréttum í dag að Ágúst Ólafur Ágústsson fór viðurkenningarorðum um dómsmálaráðherra í frétt um fangelsismál. Gott hjá Ágústi Ólafi að viðurkenna það sem vel hefur verið gert, það gerir stjórnmálamenn miklu foringjalegri og traustari að vera sanngjarnir í garð andstæðinganna og þora að viðurkenna staðreyndir, ekki bara vera fúll á móti. Gagnast honnum kannski í prófkjörinu.
Það bar ennfremur til tíðinda að Gísli Tryggvason, talsmaður neytenda, sem lýsti yfir framboði í 2. sæti hjá framsókn í Kraganum um helgina, komst í fréttirnar og talaði um mjólkuriðnað og neytendur. Góð byrjun á kosningabaráttunni hjá honum.
Loks er þess að geta að Gylfi Arnbjörnsson hefur dregið sig til baka úr prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík en þar hafði hann lýst yfir framboði í 3.-4. sæti. Gylfi er framkvæmdastjóri ASÍ. Hann sætti gagnrýni víða (t.d. hér) fyrir viðbrögð sín við matarskattsaðgerðum ríkisstjórnarinnar. Þau þóttu of prófkjörskandídatsleg fyrir mann í hans stöðu og í kjölfarið gaf ASÍ m.a. út yfirlýsingu. Gylfi klikkaði á því að viðurkenna ekki það sem vel er gert. Meinið var að hann gerði ekki skýran greinarmun á hlutverki pólitíkuss og forystumanns fjöldasamtaka sem byggja á nauðungaraðild. Nú hefur Gylfi ákveðið að halda sig við ASÍ og láta drauminn um Alþingi bíða betri tíma.
17.10.2006 | 13:58
Rannsóknarhagsmunir og aðrir hagsmunir
Ríkissaksóknari er náttúrlega að gera skyldu sína með því að hefja opinbera rannsókn á hleranamálinu og eðli málsins samkvæmt beinist sú rannsókn að því að leita sakborninga og draga þá fyrir dóm. Þannig er þetta lögfræðikerfi og gott og vel. Ríkissaksóknari er svo sjálfstæður að hann er einn handhafi ákæruvalds, við erum sem betur fer ekki á tímanum fyrir 1961 þegar dómsmálaráðherra sjálfur var handhafi ákæruvaldsins.
En ríkissaksóknari býr ekki við mjög lýðræðislegan ramma. Hann er ekki ábyrgur gagnvart neinum og enginn hefur möguleika á að kæra t.d. ákvörðun hans að sækja mann ekki til saka á grundvelli rannsóknar. Og enginn á heimtingu á að fá aðgang að neinum upplýsingum frá ríkissaksóknara nema þá dómari og verjendur í þeim tilvikum þegar rannsókn leiðir til þess að ákæra er útgefin og þá aðeins þeim gögnum sem lúta að því sakarefni sem saksóknari hefur ákveðið að leggja fyrir dóm. Ef ákæra er ekki gefin út hefur enginn möguleika á að krefja saksóknara um skýringar og rökstuðning fyrir opnum tjöldum. Það er enginn að gæta varðanna og spurningin í þessu máli er einmitt sú: hvað hafa verðirnir verið að gera.
Það er mjög mikið af lögfræðingum í íslenskum stjórnmálum og stundum er eins og þeir vilji taka sig saman um að smætta bara stjórnmálin niður í lögfræðileg viðfangsefni. Þannig er það ekki, traust og trúnaður eru til dæmis ekki bara einhver lögfræðileg hugtök. Þess vegna þarf þingið að taka þetta mál af framkvæmdavaldinu, kannski ekki þann þáttinn sem snýr að glæp og refsingu heldur hinn sem snýr að grundvallartrausti á stofnunum samfélagsins. A.m.k. eiga rannsóknarhagsmunir ekki að þurfa að þvælast fyrir því að opinber umræða haldi áfram um málið.
16.10.2006 | 15:18
Gott hjá Þorgerði Katrínu
Menntamálaráðherra ætlar ekki að þvælast fyrir því að Kjartan Ólafsson fái að sjá gögnin um hleranir sem dómsmálaráðherra bað þjóðskjalavörð að geyma fyrir sig. Hún ógildir synjunarúrskurðinn.
16.10.2006 | 14:02
Mogginn var með 8,8% frídreifingu
Þegar nánar er rýnt í könnun á dagblaðalestri kemur í ljós að Blaðið er orðið stærra en Mogginn á höfuðborgarsvæðinu, en að vísu munar þar innan við prósenti. Svo er að því að hyggja að Mogginn jók frídreifingu milli kannana, nú var frídreifing Moggans hvorki meiri né minni en 8,8% en síðast 8%. Þrátt fyrir þetta tókst ekki að halda lestrinum yfir 50%. Annað athyglisvert er að Blaðið meira en tvöfaldar lestur sinn í aldurshópnum 20-29 ára. Í maí var lesturinn 17,9% í þeim hópi en er nú kominn í 39,1%. Þannig að blaðalestur ungs fólks er að aukast. Það má telja vel af sér vikið hjá Fréttablaðinu að halda sínu og bæta við sig örlitlu miðað við þá siglingu sem Blaðið hefur verið á.
16.10.2006 | 12:41
Fleiri lesa Fréttablaðið, Blaðið í stórsókn, Mbl dalar
Það er kátt á hjalla í Skaftahlíðinni í dag og líka á ritstjórn Blaðsins. Niðurstöður úr lestrarkönnun dagblaða voru að koma í hús. Fréttablaðið er með 68,9% lestur og eykst hlutdeildin um 0,6% frá því í maí. Mogginn tapar hins vegar 4,7% lesenda og fer í 49,6% lestur. Sme og Janus eru sjálfsagt býsna kátir með útkomu Blaðsins því það bætir við sig hvorki meira né minna en 12,7% og hefur nú 45,6% lestur. Þeir feðgar eru því farnir að anda ofan í hálsmálið á stóra bróður, hinum megin við vegginn í Hádegismóum. Og ætli það sé ekki sókn Blaðsins sem veldur mestu um minnkandi lestur Moggans?
15.10.2006 | 23:00
Kæri Jón
Kæri Jón. Ég sá þig í Silfrinu í dag og ákvað svo að skrifa þér línu vegna hlerananna. Mér finnst ekki hægt að gera þá kröfu til Jóns Baldvins og Árna Páls að þeir fari til dómsmálaráðherra eða umboðsmanns og láti rannsaka hvort þeir voru hleraðir í utanríkisráðuneytinu. Við erum að tala um grun, sem því miður virðist rökstuddur, um að hér hafi verið stundaðar hleranir án dómsúrskurða. Slík starfsemi skilur ekki eftir sig gögn í stjórnsýslunni með venjulegum hætti.
Ég hlustaði á viðtal við Geir H. Haarde í ríkissjónvarpinu á laugardagskvöld. Hann vill láta rannsaka þann árangur sem hleranir byggðar á dómsúrskurðum fyrir 1991 báru og miðla kaldastríðsgumsinu svo út í þjóðfélagið. Ég held að það sé ekki ekki málið heldur hitt hvort þessi starfsemi var stunduð innan ramma laga og réttar eða ekki. Því miður er mörgum erfiðum en nauðsynlegum spurningum ósvarað. Það nægir ekki að rannsaka gögn, það þarf að tala við fólk.
Kæri Jón, ég vona að þú hlustir frekar á Guðna en Geir í þessu máli. Guðni skynjar eins og oft áður hvernig þjóðarsálin metur þetta mál. Framkvæmdavaldinu er bara ekki treystandi til að rannsaka sig sjálft í þessu efni. Settu þetta nú í rannsókn í þingnefnd, kæri Jón, ekki láta Framsóknarflokkinn elta íhaldið út í þetta fúafen. Þú ræður því á endanum, við vitum það öll.
15.10.2006 | 22:28
Fyrsti allaballinn í utanríkisþjónustunni
Enn bætist við hleranamálið. Árni Páll Árnason, var fyrsti Alþýðubandalagsmaðurinn sem var ráðinn til starfa í utanríkisþjónustunni. Já, það er staðreynd að yfirlýstur Alþýðubandalagsmaður fékk fyrst starf í utanríkisþjónustunni í tíð Jóns Baldvins á árunum 1991-1995.
Árni Páll er sonur séra Árna Pálssonar, eins þeirra manna sem dæmdir voru fyrir árásina á Alþingishúsið 30. mars 1949. Verjandi séra Árna í því máli var einmitt Sigurður Ólason, faðir Jón Sigurðssonar formanns Framsóknarflokksins.
Jón Baldvin réði Árna Pál til starfa í utanríkisráðuneytinu. Jón Baldvin fól honum að starfa á varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins og sendi hann síðan til starfa í NATÓ um það leyti sem Jón Baldvin sjálfur fór úr ráðuneytinu og var þá búinn að láta flytja ráðuneytið úr lögreglustöðinni (þar sem hlerunarmiðstöð útlendingaeftirlitsins og fíknó var á neðri hæðinni) og yfir á Rauðarárstíginn.
Það þarf ekki gamla menn til þess að átta sig á því að bakgrunnur Árna Páls gerði það allt annað en sjálfsagt að hann væri aufúsugestur í hinu innvígða og innmúraða öryggissamfélagi á tíunda áratug síðustu aldar, jafnvel þótt hann væri ráðinn og skipaður til starfa af utanríkisráðherra sem lögum og stjórnarskrá Íslands samkvæmt bar ábyrgð á rekstri utanríkisráðuneytisins og samskiptum Íslands við alþjóðastofnanir á borð við NATÓ.
14.10.2006 | 19:38
Konur slógust í Kraganum
Kosið var milli nánustu samstarfsmanna Sivjar Friðleifsdóttur og Jónínu Bjartmarz á kjördæmisþingi framsóknar í Suðvesturkjördæmi í dag. Sivjarfólk vann með fjórum atkvæðum en það gæti hafa verið Pyrrhosarsigur. Ólga er í baklandinu vegna framkvæmdar kosningarinnar.
Vitað var að kjósa þyrfti formann í stað Eyjólfs Árna Rafnssonar, sem léti af störfum eftir langa þjónustu. Hildur H. Gísladóttir í Hafnarfirði, ein nánasta samstarfskona Sivjar, og Guðrún H. Brynleifsdóttir, lögmaður og bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi og náin samstarfskona Jónínu Bjartmarz, höfðu lýst yfir framboði. Þrýst var á Guðrúnu að bjóða sig ekki fram. Guðrún sagði fjölmörgum þingfulltrúum að Siv hefði tekið hana tali á þinginu sjálfu og beðið hana að draga sig í hlé. Guðrún Helga neitaði. Hún er bæjarfulltrúi flokksins í heimabæ Sivjar en gömul og náin vinkona Jónínu. Samband Guðrúnar og Jónínu er talin helsta ástæða þess að Siv vildi ekki að hún yrði formaður.
Þegar að kosningum kom sauð upp úr. Formanni kjörnefndar Guðmundi Einarssyni, frá Seltjarnarnesi, framkvæmdastjóra Heilsugæslunnar í Reykjavík, láðist að geta þess að Guðrún Helga hefði boðið sig fram sem þó var á allra vitorði. Stuðningsmenn Hildar byrjuðu að klappa, rétt eins og sjálfkjörið væri. Kurr varð í salnum. Þegar hitinn var mestur féllu þau orð að þar hefði Guðmundur gengið of langt í að reka erindi heilbrigðisráðherrans. Guðrún Helga þurfti því að kveða sér hljóðs og lýsa yfir framboði. Svo var kosið. Hildur Helga vann með fjögurra atkvæða mun. Enn jók það tortryggnina milli fylkinga að ekki var kannað hverjir hefðu kosningarétt heldur lét Guðmundur nægja að biðja þá að víkja úr salnum sem ekki mættu kjósa. Kærur eru ekki taldar útilokaðar.
13.10.2006 | 21:07
Ertu að hlusta, Heimdallur?
Finnst engum öðrum en mér undarlegt að ekkert heyrist í ungum sjálfstæðismönnum vegna símhleranamálsins? Nú eru þeir frægir áhugamenn um verndun friðhelgi einkalífsins, það er einmitt hennar vegna sem þeir skunda ár hvert niður á skattstofu og vernda skattskrána fyrir augum forvitinna.
Nú eru uppi grunsemdir um að árum og áratugum saman hafi verið rekin hér án lagaheimilda einhvers konar leyniþjónusta sem stundaði eftirlit með einkalífi fjölmargra einstaklinga, jafnvel ráðherra í ríkisstjórn landsins. Er það ekki brot á stjórnarskrárverndaðri friðhelgi einkalífsins að hlera síma fólks nema um sé að ræða dómsúrskurði í tengslum við rannsóknir sakamála? Það hélt ég.
En ekkert heyrist frá Heimdalli og bræðrum hans. Eru þeir kannski ennþá niðri á skattstofu?
Huxandi um þetta fer ég að velta fyrir mér nafni félagsins. Var ekki Heimdallur sá ás sem sá jafnt nætur sem daga, þurfti minni svefn en fugl og heyrði svo vel að hann heyrði grasið gróa? Karlgreyið, hann hefur ekki komist hjá því að vera með nefið ofan í hvers manns koppi. Feginn er ég að vera ekki fæddur með þessum ósköpum.
Athyglisvert að ungir sjálfstæðismenn kenni sig við Heimdall, fáir aðrir hafa orðið til að halda nafni hans á lofti. Það hefur ekki einu sinni verið skírt eftir honum varðskip, eins og flestum öðrum ásum af karlkyni, sem halda uppi sýnilegri og lögbundinni öryggisgæslu í landhelginni.
13.10.2006 | 20:55
Ha, ráðherra?
Fréttablaðið í dag ræðir við Þorstein Pálsson, ritstjóra sinn í frétt á bls. 2. Í fréttinni er Þorsteinn í hlutverki fyrrverandi dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, á þeim tíma þegar Jón Baldvin segir að sími sinn hafi verið hleraður. Þorsteinn talar um alvarleika þess að Jón Baldvin hafi ekki látið samráðherra sína vita.
Einhverra vegna nýtir blaðið ekki tækifærið til þess að spyrja Þorstein um almenna vitneskju hans um starfsemi leyniþjónustunnar og símhleranir. Nú þekki ég blaðamanninn sem skrifar fréttina og er hann einhver ágætasti ungi blaðamaður sem ég hef starfað með, með fréttanef í lengra lagi og fagmaður fram í fingurgóma. Ég ætla að gefa mér að það sé ekki áhugaleysi hans sem veldur því að svarið við þessari spurningu er ekki að finna í blaðinu. Raunar minnst ég þess ekki að nokkur fyrri ráðherra hafi verið spurður út í þetta í Fréttablaðinu, það hef ég þó ekki kannað í þaula.
Ég minnist þess hins vegar að Morgunblaðið spurði Óla Þ. Guðbjartsson og Jón Sigurðsson fyrrverandi ráðherra út í þetta á miðvikudaginn en náði þá hvorki í Þorstein né Halldór Ásgrímsson. Vonandi heldur Mogginn amk áfram að reyna að ná í þá og einnig væri fróðlegt að heyra hvað Friðjón Þórðarson hefur að segja en hann var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. Í vikunni greindi einmitt Morgunblaðið frá því að Friðjón hefði flutt mál fyrir Hæstarétti í sumar þótt hann sé orðinn 83 ára að aldri.
12.10.2006 | 23:15
Hvaða paranoju erum við að tala um?
Meinið er að þetta blessaða hleranamál er ekki á neinu stigi nema köttur-í-kringum-heitan- graut-stiginu. Enginn þeirra manna, sem enn eru á dögum og gegnt hafa embætti dómsmálaráðherra, kannast enn við að hafa verið kunnugt um starfsemi einhvers konar leyniþjónustu sem vísbendingar eru um að hér hafi verið starfrækt áratugum saman og jafnvel fram á þennan dag án lagaheimildar í skjóli opinberra stofnana og á kostnað almennings. Ef sú starfsemi var ekki á ábyrgð dómsmálaráðherranna, á ábyrgð hverra var hún þá? Kannski þarf líka að spyrja samgönguráðherrana en amk Steingrímur J. kannast ekki við þetta úr sinni ráðherratíð.
Grunsemdirnar beinast að því að undir því yfirskyni að verið væri að vernda stjórnarskrá og lög íslensks réttarríkis sem vildi byggjast á mannréttindum og vestrænum gildum hafi verið brotið gegn grundvelli íslenska réttarríkisins. Á ábyrgð hverra og á kostnað hverra? Af hverju?
Kannski af ótta við að aðrir væru að vinna gegn þessu sama. Hvað það varðar liggur fyrir að 18 ára drengur vildi kaupa sér byssu árið 1924, Gúttóslagurinn var 1932 og jarðskjálftafræðingur kom fyrir tímasprengju einhvers konar við bragga í Hvalfirði um 1960. Og Kleifarvatnsmálið, auðvitað og inngangan í NATÓ. Sjá menn samræmi í því og þeirri löglausu paranoju sem allt þetta virðist farið að snúast um? Miðað við sumt af því sem ég les og heyri mætti ætla að eina vandamálið sé paranojan í hausnum á Jóni Baldvin.
Þessu máli þarf að veita í gagnsæjan farveg.
12.10.2006 | 16:31
Eru þeir fleiri en fjórir?
Rannsókn mín bendir til þess að fjórir Íslendingar haldi með knattspyrnuliðinu West Ham United, sem ef til vill er að komast í eigu Eggerts Magnússonar og félaga hans.
Hinir íslensku stuðningsmenn West Ham eru þessir: bræðurnir Gunnar Smári og -sme, Gylfi Orrason, knattspyrnudómari og Hjálmar Jónsson blaðamaður.
Þessi rannsókn er enn sem komið er á frumstigi en næsta skref hennar hefst hér og nú. Opnað hefur verið fyrir komment með þessum pósti í því skyni að safna upplýsingum um alla þekkta stuðningsmenn West Ham United á Íslandi. Öll framlög eru vel þegin.
12.10.2006 | 16:24
Húsið hans afa
Það verður spennandi að fylgjast með því hvaða tilboð koma í þetta hús. Var ekki einhvern tímann um það fjallað að Björgólfur og/eða BTB vildu eignast það og gera að safni í minningu Thors Jensen, tengdaafa Björgólfs og langafa BTB? Það er eins og mig minni það. Svo verður spennandi að sjá hverjir aðrir bjóða, gæti verið að Magnús Kristinsson vilji líka slást um þetta við BTB?
12.10.2006 | 09:49
Saga húss
Lögreglustöðin við Hverfisgötu var að ég held tekin í notkun árið 1972, þegar hér sat vinstri stjórn Ólafs Jóhannessonar. Ákvörðun um að byggja hana var tekin á tímum viðreisnarstjórnarinnar, líklega í framhaldi af því að almenn lögregla fluttist frá sveitarfélagi til ríkis.
Einhverra hluta vegna var tekin sú ákvörðun á þessum tíma að í sama húsi og Reykjavíkurlögreglan skyldi utanríkisráðuneytið vera. Ennfremur var tekin sú ákvörðun að í lögreglustöðinni skyldi vera símstöð, með öllum tækjabúnaði til þess að hlera símtöl. Þessi símstöð var staðsett þannig í húsinu að hún var í sömu álmu og ráðherraskrifstofan og líklega beint undir henni. Tilvera símstöðvarinnar var verst varðveitta leyndarmálið á lögreglustöðinni í Reykjavík þegar ég vann þar fyrir rúmum 20 árum. Engum datt þó að ég held í hug að hún væri þarna til þess að hlera utanríkisráðherrann, menn héldu að hún væri til þess að auðvelda fíkniefnalögreglunni störfin, en vitað var að útlendingaeftirlitið notaði hana líka og litið var svo á að hún væri í umsjón þess.
Það að símstöðin er/var þarna var staðfest á forsíðu Fréttablaðsins í vor af aðstoðarlögreglustjóranum í Reykjavík. Hún er sjálfsagt ekki lengur í notkun og utanríkisráðuneytið er komið í annað hús en kannski liggja enn í húsinu ummerki eftir gömul rör og gamlar lagnir. Það ætti því að vera einfalt mál kanna hvort húsið var þannig hannað bókstaflega að hægt væri að fylgjast með símtölum utanríkisráðherra af neðri hæðunum. Það er ömurleg staðreynd að sú spurning á fyllsta rétt á sér í dag.
12.10.2006 | 09:48
Orð dagsins
Steinunn Stefánsdóttir í leiðara Fréttablaðsins.
11.10.2006 | 19:28
Skjallbandalagið klofið
Skjallbandalagið hefur klofnað í herðar niður. Ástæðan er ágreiningur um hvernig spinna eigi fréttir af áhuga Eggerts Magnússonar á því að kaupa West Ham United. Ég er á móti en þessi og hinn eru með, virðast alveg óðir og uppvægir yfir því að íslenska þjóðin sé í þann veginn að eignast sinn eigin Róman Abramovitsj.
Ljósi punkturinn við þetta West Ham mál er náttúrlega sá að gangi þetta upp þarf nýja forystu í KSÍ.
Í þessum rituðum orðum stend ég fyrir mótmælasetu í sófanum mínum til þess að mótmæla því að KSÍ er búið að stækka stúkuna í Laugardal á kostnað reykvískra skattgreiðenda en fækka um leið landsleikjamiðum á almennum markaði og breyta þeim í junket-varning fyrir viðskiptavini fjármálamarkaðarins. Fjölmiðlamönnum er svo boðið í hundraðatali til þess að tryggja þögn um þetta ótrúlega samsæri gegn íslenskum almenningi. Þetta er einmanaleg barátta og sonur minn er alls ekki sáttur við hana en ég ætla að halda mínu striki og horfa á alla landsleiki í sjónvarpinu þangað til skipt hefur verið um forystu í KSÍ. Helst vil ég að bindislausir menn komist þar til valda.
Ég er hins vegar viss um að þessir tveir eru í stúkunni núna, líklega með boðsmiða.
11.10.2006 | 09:53
Vestur skinka
Eggert Magnússon að fara að kaupa West Ham? Fyrir hvaða peninga? Peningana sem hann á í Straumi? Á hann peninga í Straumi, hann er þar fulltrúi "smærri hluthafa" en situr hann ekki bara þarna sem leppur fyrir helsta styrktaraðila KSÍ? Bresku blöðin verða örugglega ekki lengi að kveikja á nánu samstarfi Eggerts við sjálfan BTB.
En auðvitað á hann fleiri vini, þannig að það er óvíst að þetta hafi nokkuð með BTB að gera. Í húsi FIFA eru margar vistarverur, sá Panorama-þátt frá BBC í sumar þar sem fjallað var um Sepp Blatter og vini hans í CONCAF, sem er UEFA þeirra í Suður-Ameríku. Kæri Páll, værirðu ekki til í að sýna okkur þann þátt á RÚV og má ég í leiðinni biðja þig um að taka síðustu seríuna af West Wing til sýninga sem allra fyrst.
10.10.2006 | 18:26
Aukaatriði og aðalatriði
Hleranamálin verða ólíkindalegri með hverjum deginum sem líður, nú síðast með þessum yfirlýsingum Jóns Baldvins. Það er ekkert einkamál sagnfræðinga að komast til botns í þessu, þetta er rammpólitískt viðfangsefni í samtímanum, ekki síst þegar menn standa frammi fyrir umræðu um að setja svona starfsemi lagaramma í fyrsta skipti. Hvernig á það að vera hægt án þess að vita hvernig staðið hefur verið að verki til þessa?
Það hefur ekkert að segja að takmarka slíka rannsókn við einhverja sex dómsúrskurði. Ég vil virða Jóni Baldvin það til vonkunnar að hafa ekki tekið málið upp á sínum tíma, ætlað Bandaríkjamönnum verknaðinn og látið kyrrt liggja fyrr en nú þegar öll þessi umræða kemur fram og það eru teknar að renna á menn tvær grímur um þennan þátt í sögunni.
10.10.2006 | 09:39
Lengi lifi Paul
10.10.2006 | 09:24
Tveir vinir og annar ekki í fríi
Það er athyglisvert að bera saman viðbrögð þeirra Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ, og Grétars Þorsteinssonar, forseta ASÍ, við matarverðslækkuninni. Grétar tjáir sig á forsíðu Moggans í dag, fagnar aðgerðunum en lýsir hóflegum fyrirvörum. Mjög forsetalegt hjá honum. Gylfi tjáði sig í kvöldfréttum RÚV í gær, byrjaði á því að nefna lækkun vsk af sælgæti og fann lækkununum allt til foráttu. Mjög prófkjörsframbjóðandalegt hjá honum.
Nú höfum við dæmi um tvo prófkjörsframbjóðendur sem veita þekktum stofnunum forstöðu og hyggjast skora forystumenn hvor í sínum stjórnmálaflokki á hólm í prófkjörum. Guðfinna Bjarnadóttir vill í fremstu röð sjálfstæðismanna og skorar Björn, Gulla, Pétur Blöndal og Ástu Möller á hólm. Hún tilkynnti samstarfsfólki sínu þetta með saklausum tölvupósti og var samstundis send í frí.
Gylfi Arnbjörnsson vill í forystusveit Samfylkingarinnar og skorar Ingibjörgu Sólrúnu, Össur, Jóhönnu, Helga Hjörvar og Steinunni Valdísi á hólm. Nokkrar vikur eru síðan hann gaf kost á sér en hann heldur áfram að vinna eins og ekkert sé og fær að reka prófkjörsbaráttu sína með því að koma fram sem talsmaður ASÍ og umboðsmaður launafólks í landinu í fjölmiðlum.
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (14.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 536821
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar