hux

Niður brekkuna

Aðeins 3 af 25 stærstu dagblöðum Bandaríkjanna juku útbreiðslu sína síðustu mánuði. NY Post það eina sem bætir við sig að gagni. LA Times missir 8%, NY Times 3,5. Meira hér.


Óþekkti þingmaðurinn eða Vitlausa póstnúmerið

Kostulegar þessar skýringar Önnu Kristínar Gunnarsdóttur á hrakförum sínum í prófkjörinu. Ég á reyndar erfitt með að setja mig inn í þessa stemmningu að það skipti miklu máli í hvaða póstnúmeri þú býrð hvort þú færð einhver atkvæði. Veit ekki til þess að á þessu landsvæði sé einhver að spá í hvort frambjóðandi býr í 105, 109 eða 220. En ég veit að úti á landi er þetta eitthvað sem skiptir máli. Ég held samt að þetta ráði ekki úrslitum þegar frambærilegt fólk á í hlut og að Anna Kristín reyni þarna að selja sjálfri sér fullauðvelda skýringu.

Nú er hún sitjandi þingmaður og kannski sá þingmaður sem fæstir Íslendingar þekkja. Hún átti aldrei séns í 1. sætið og tapar 2. sætinu fyrir manni sem var hættur eftir tilþrifalítinn pólitískan feril. Hún hangir með 16 atkvæðum í 3ja sætinu. Sú sem var næstum búin að fella hana enn neðar var einn fjögurra "vestfirskra" frambjóðenda í toppslagnum og aðeins búin að búa í kjördæminu í nokkrar vikur. Anna Kristín var hins vegar eini frambjóðandinn úr norðvesturhluta kjördæmisins sem sóttist eftir forystusæti.

Ég kaupi ekki að póstnúmerið hafi ráðið úrslitum og held að málið sé einfaldlega þetta: Hefði Anna Kristín notað betur það tækifæri sem hún hefur fengið á þessu kjörtímabili hefði hún rúllað þessu upp. Hún hafði forskot þegar lagt var af stað, eina konan í hópi alþingismanna í kjördæminu, en það nýttist henni ekki.

Ps. Er Anna Kristín réttur handhafi titilsins Óþekkti þingmaðurinn? Hverjir aðrir koma til greina? Svör óskast í komment.


Mjór munur

Helgu Völu Helgadóttur vantaði aðeins 16 atkvæði til þess að fella Önnu Kristínu Gunnarsdóttur úr 3ja sætinu í prófkjöri Samfylkingarinnar í NV. Hún hafnaði í 5. sæti, þar sem Sigurður Pétursson var með massívan stuðning í 4. sætið, sem hann sóttist eftir.


Sagan öll

Sme segir fréttir á blogginu sínu, í tilefni af útkomu nýja tímaritsins, athyglisverð lesning, m.a. þetta:


Fram og aftur Miklubrautina

Framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmi norður ákváðu á 30 manna kjördæmisþingi í dag að stilla upp framboðslista sínum vegna alþingiskosninganna næsta vor. Jón Sigurðsson formaður vill skipa fyrsta sætið og ekki er annað vitað en að Guðjón Ólafur Jónsson alþingismaður stefni í annað sætið. Óvíst er um fyrirætlanir Sæunnar Stefánsdóttur, þingmanns kjördæmisins og ritara flokksins, en hún er um þessar mundir á ferðalagi um Norðausturkjördæmi.

Framsóknarmenn stilltu upp í báðum Reykjavíkurkjördæmum fyrir síðustu kosningar og margir vildu að önnur leið yrði farin nú, annað hvort með kosningu á tvöföldu kjördæmisþingi beggja Reykjavíkurkjördæmanna eða prófkjöri. Ekki var stemmning fyrir þeirri leið norðan Miklubrautarinnar.

Óvíst er hvað gerist í Reykjavíkurkjördæmi suður. Þar er kjördæmisþing annan fimmtudag og þá skýrist fyrst hvort framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur stilla sameiginlega upp framboðslista eða hvort þeir sunnanmegin fara eigin leiðir og efna til tvöfalds kjördæmisþings eða prófkjörs.


Egill má sköpum renna

Björn skrifar sig frá úrslitunum í nýjum pistli. Kemur víða við. Gefur í skyn að hverfafélögum sé beitt í þágu ákveðinna manna en ekki flokksins í heild. Jón Baldvin og andstæðingar utan flokks fá sinn skerf fyrir "atlöguna" og einnig SUS fyrir "dæmalausa ályktun" á viðkvæmasta stigi prófkjörsbaráttunnar. Svo eru það álitsgjafarnir. Úr hópi þeirra nefnir Björn sérstaklega Sigurjón M. Egilsson og Egil Helgason til sögunnar "sem þá álitsgjafa sem sótt hafi harðast" að sér.

Þetta er í annað sinn sem Björn nefnir Egil Helgason til sögunnar þegar hann sleikir sárin eftir að hafa tapað kosningum. Eftir borgarstjórnarkosningarnar 2002, þar sem Birni mistókst að fella Reykjavíkurlistann, sagði hann þetta í pistli:


Eftir storminn

Sigurjón og Guðmundur eru búnir að melta prófkjörið, hvor með sínum hætti. Úrslitin hljóta að vera Birni og nánustu starfsmönnum Davíðs mikil vonbrigði, það verður spennandi að sjá hvernig þetta þróast. Athyglisvert að tveir nýliðar skella þorra þingflokksins aftur fyrir sig en Guðfinna og Illugi voru auðvitað mjög sterkir frambjóðendur.

Kona í 4., 7. og 10. sæti, Ásta Möller segir í Fréttablaðinu að staða kvenna á listanum sé sterk. Það var og.

Kjörsóknin finnst mér lítil miðað allt sem var undir lagt, rétt rúmlega 50%.


Lúðvík og léttadrengirnir

Lúðvík Bergvinsson er eini frambjóðandinn í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem hefur nægilega reynslu til þess að verða ráðherra. Eina von Samfylkingarfólks um að kjördæmið fái "sinn ráðherra" liggur í því að Lúðvík verði í efsta sætinu. Aðrir frambjóðendur hafa ekki þá reynslu sem til þarf. Þetta eru svolítið krassandi staðhæfingar. Hver er heimildin? Jú, það er Lúðvík Bergvinsson sjálfur. Hann lætur hafa þetta eftir sér í Eyjablaðinu Vaktinni.


Aftur á hleri

Var að skoða gögnin á skjalasafn.is , - það sem varðar 1949. Sé ekki betur en eina gagn dómsins hafi verið forsíða Þjóðviljans. Af henni er ekki auðvelt að álykta um annað en að fólk hafi ætlað að færa sér í nyt fundafrelsið og mótmæla. Það er krafist þjóðaratkvæðis og sagt að þingmönnum verði hafnað í næstu kosningum. Þetta er hlaðið þjóðernishyggju fremur en byltingarhyggju. Markmiðið virðist að framleiða pólitískan þrýsting, ekki byltingu, svona ef lesið er það sem stendur í línunum.

Svo er eins og dómurinn krefjist einskis rökstuðnings fyrir því að viðkomandi einstaklingar eigi að vera við þetta ætlaða valdarán riðnir. Ekki einu sinni augljóst að dómarinn viti hverja á að hlera. Það er ekkert próf lagt fyrir lögregluna, engir þröskuldar settir upp. Áttu þessir einstaklingar ekki í grófum dráttum sömu stjórnarskrárvörðu réttindi þá og þeir ættu nú? Minni á að á þessum tíma var þrígreining ríkisvaldsins ófullkomin í meira lagi, rannsóknarlögregla undir sakadómara og ráðherra fór með ákæruvaldið. Hvað var gert til að tryggja meðalhóf í aðgerðunum? Voru ekki lýðræðisöflin að verjast? Trúðu þau ekki í verki á það sem þau sögðu í orði?

Það kemur fram í greinargerð dómsmálaráðuneytisins að það eigi að hindra Alþingi í störfum sínum, sama orðalag og iðulega hefur verið síðan viðhaft um það sem gerðist á Austurvelli. Voru aðrar heimildir um það en forsíða Þjóðviljans? Mér sýnist sú ályktun síður en svo blasa við af því sem stendur í blaðinu. Mér sýnist þessi gögn vera heimild um paranoju stjórnvalda, fyrst og fremst, og til þess fallin að maður vilji túlka það sem gerðist dagana á eftir í því ljósi.


Enn á hleri

Þá er Guðni Jóhannesson búinn að greina frá því að hann hafi séð gögn sem bendi til þess að Ólafur Jóhannesson hafi vitað um flesta þætti í starfsemi öryggisþjónustu lögreglunnar og gefur afdráttarlausa yfirlýsingu um að það sé rangnefni að tala um leyniþjónustu Sjálfstæðisflokksins. Fínt að þetta liggi fyrir og ég hlakka til að sjá Guðna greina nánar frá þessum gögnum. Mér finnst líka gott hjá Guðna að árétta að Björn hafi greitt honum leið í hans störfum að þessu máli enda hef ég alltaf skilið Björn þannig að hann vildi að sem mest og best yrði um þessi mál öll fjallað.


Klukkan er rúmlega tólf

Hvernig fer þetta hjá sjálfstæðismönnum? Hef ekki hugmynd og held þetta sé tvísýnt. Miðað við að það eru 21.000 á kjörskrá og óflokksbundnir stuðningsmenn mega kjósa finnst mér kjörsóknin fara hægt af stað. Gæti unnið með Gulla, hann hefur mikið batterí í gangi, sem er að handlanga þúsundir á kjörstað. En hvað veit maður svosem hérna í sófanum.

Björnsmenn segja að andstæðingar flokksins voni að Björn tapi. Ekki held ég að það sé rétt. Ég held að það verði meira pláss á hinni pólitísku miðju ef Björn vinnur. Þess vegna hljóta andstæðingar flokksins að telja hann vænlegri keppinaut í kosningabaráttu í vor og svo hefur hann náttúrlega verið virkur gerandi í mörgum umdeildum málum.


Hvað segir Samkeppniseftirlitið?

Valdimar er misboðið enda stendur málið honum nærri. Er ekki verið að lýsa hér ólögmætum viðskiptaháttum?


Það er fjör í Eyjum

Utakjörfundaratkvæðagreiðsla í prófkjöri Samfylkingarinnar er hafin á skrifstofu flokksins í Eyjum, einmitt í sama húsi og Lúðvík Bergvinsson hefur opnað kosningaskrifstofu sína og líka hinir Eyjamennirnir í prófkjörinu, Guðrún Erlingsdóttir og Bergvin Oddsson.

Bíddu við, Eyjamennirnir í prófkjörinu? Hvað með Róbert Marshall, fær hann ekki líka að vera með kosningaskrifstofu á kjörstaðnum, sjálfur Brekkusöngvarinn? Nei, nýjustu fréttir herma að Róbert teljist ekki með Eyjamönnum af því að hann er ekki skráður í Samfylkingarfélagið í Eyjum, heldur í Reykjanesbæ.


Forsíðustúlkan

Unnur Birna verður forsíðustúlka fyrsta tölublaðs Ísafoldar, nýja tímaritsins hans Reynis Trautasonar. Það kemur út í næstu viku er mér sagt en fyrirmynd þess er glanstímaritið Vanity Fair.


Getraun dagsins

Það eru víðar prófkjör en hér á átakasvæðunum í Reykjavík. Til dæmis í Norðvesturkjördæmi. Þar er Samfylkingin að kjósa sér fólk. Getraunin er þessi: Hvernig fer? Hér er atrenna að spá en setjið endilega meira í komment.

1. Guðbjartur Hannesson.
2. Anna Kristín Gunnarsdóttir.
3. Helga Vala Helgadóttir.
4. Karl V. Matthíasson.


Pistill dagsins

Sigmar fer á kostum og klárar málið.


Ljóð dagsins

Það hefur líklega verið á degi eins og þessum sem Stefán Jónsson orti:

Hrollkaldri rigningu hann hellti yfir landið
svo hrikti í hriplekum torfkofaskriflunum
en andstkotinn má vera óspar á hlandið
ef hann ætlar að drekkja öllum helvítis fíflunum.


Andvarp dagsins

Ææ og óó.


Allt í klandri

Ég sagði hér að neðan að borgarstjórinn styddi Gulla og dró þá ályktun af heilsíðuauglýsingunni góðu. Eftir að hafa horft á gamla, góða Villa í kvöldfréttum Stöðvar 2 er ljóst að ekki er allt sem sýnist. Borgarstjóri veit ekki sitt rjúkandi ráð. Hvað getur hafa breyst í dag?

Formaður og borgarstjóri Sjálfstæðisflokksins eru greinilega ekki mjög miklir kappar þegar á hólminn er komið. Þeir létu hafa sig í það að efna til átaka við Kjartan og Björn en reyna svo að hlaupa í felur þegar mest gengur á. Kannski er þeim einhver vorkunn, það er örugglega hægara sagt en gert að eiga við þá innvígðu og innmúruðu í bardagaham.

En óneitanlega hefði verið gaman að vera fluga á vegg þegar Guðlaugur Þór horfði á þetta, nýbúinn að eyða tæplega hálfri milljón í heilsíðuauglýsingu með Villa í Fréttablaðinu. Og nú sé ég frétt á heimasíðu Gulla þar sem fagnað er "afgerandi stuðningi" borgarstjórans. Ertu ekki að grínast?


Mannauðsstjórnun

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra vill tryggja aðgengi útlendinga að íslenskunámi. Gott hjá honum.

Ég þekki kennara sem er með tvo 15 ára gamla drengi í bekknum sínum, nýflutta til landsins. Hann gerir sitt besta en hvorugur skilur orð í íslensku og móðurmál þeirra er annarrar gerðar og ættar en okkar. Þeir mæta í skólann og sitja kyrrir á sínum stað í bekknum frá klukkan 8-14 fimm daga í viku, skilja ekki orð og fá nánast enga aðstoð til þess að læra tungumálið eða læra eitthvað á sínu eigin.

Ég er viss um að með hverjum tímanum vex innra með þeim sú tilfinning að þeir séu utangarðs, öðruvísi, eigi ekkert sameiginlegt með hópnum og þeir gætu eins verið á tunglinu. Það er bókstaflega verið að reka þá út úr samfélaginu með því að sóa tíma þeirra á þennan hátt.

Þú reddar þessu Maggi, það er bara verið að rækta þarna reiða, unga menn. Við eigum nóg af þeim fyrir.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband