hux

Mannanafnanefnd verði lögð niður

Nafn manna hefur löngum verið talið einn mikilvægasti þáttur sjálfsmyndar þeirra og margir hafa litið svo á að það varðaði fremur einkahagi fólks og persónurétt þess en hagsmuni alls almennings.
Þessi orð eru rituð í greinargerð með frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannanöfn, sem Björn Ingi Hrafnsson flytur á Alþingi ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni, Guðjóni Ólafi Jónssyni og Sæunni Stefánsdóttur.

Í frumvarpinu er eytt út úr gildandi lögum öllum tilvísunum til mannanafnanefndar og hún lögð niður. Þannig að þeir einstaklingar sem hafa hist reglulega til funda til þess að fjalla um það hvort rita eigi nöfn manna með einu r-i eða tveimur þurfa að finna sér annað að gera verði frumvarpið að lögum.


Skallbandalagið nýja

Fyrst skrifaði Össur lof um Björn Inga. Nú þakkar Björn Ingi fyrir sig, skrifar lof um Össur og segir: Þeir Kratar sem ég talað við síðustu daga, segja flestir að útkoma Össurar Skarphéðinssonar skipti miklu máli um stuðning þeirra við Samfylkinguna í vor.


Halldóri sagt upp hjá Vísa Ísland

Mér voru að berast fréttir af því að Halldóri Guðbjarnarsyni hefði verið sagt upp störfum framkvæmdastjóra hjá Vísa Ísland. KB-banki er orðinn stærsti eigandi fyrirtækisins og hefur sett Höskuld H. Ólafsson, sem var hjá Eimskip, inn í fyrirtækið sem nýjan framkvæmdastjóra.

Halldór Guðbjarnarson var bankastjóri Landsbankans en var sagt þar upp störfum á sama tíma og Sverri Hermannssyni og Björgvin Vilmundarsyni. Áður var hann bankastjóri Útvegsbanka Íslands og var m.a. ákærður en sýknaður í Hafskipsmálinu á sínum tíma.


Á Árni Johnsen endurkomu?

Veit ekki vel hvernig þetta fer hjá Sjálfstæðisflokknum í Suður en ætla að skjóta á þetta:

1. Árni Mathiesen
2. Árni Johnsen
3. Kristján Pálsson
4. Drífa Hjartardóttir
5. Björk Guðjónsdóttir
6. Grímur Gíslason.

Samkvæmt þessu væru þrír þingmenn ekki meðal sex efstu: Guðjón Hjörleifsson, Kjartan Ólafsson og Gunnar Örlygsson. Einnig verður spennandi að sjá hvaða mælingu Árni Mathiesen fær í sínu nýja kjördæmi. Veðja á að Suðurnesjamenn vilji láta að sínum mönnum kveða og lyfti Björk og Kristjáni í ágæta niðurstöðu. Tek eftir því að Árni Sigfússon hefur stillt sér upp með Kristjáni Pálssyni í heilsíðuauglýsingu en ég hef ekki séð hann styðja frænda sinn og nafna, Árna Johnsen, með sama hætti. Hvað segir anonymous um þetta og aðrir helstu sérfræðingar? Látið ljósið skína í kommentum. Það er líka spáð hálfvitlausu veðri, sem gæti dregið úr kjörsókn, amk hjá fólki í dreifbýlinu.


Kosningaspá dagsins

Þessu ætla ég að spá um prófkjör sjálfstæðismanna í Kraganum.
1. Þorgerður Katrín.
2. Bjarni Benediktsson.
3. Ármann Ólafsson
4. Ragnheiður Elín Árnadóttir.

Ef þetta verður niðurstaðan er Sjálfstæðisflokkurinn með geysilega sterkan lista í þessu kjördæmi.

Þá er það Samfylkingin í Reykjavík, þar læt ég nægja að segja það sem allir vita að í þremur efstu sætunum verða Ingibjörg Sólrún, Össur og Jóhanna. Um önnur sæti vísa ég til lesenda og bið þá gera sína eigin spá í kommentakerfið eða þá að fara og taka þátt í þessari prófkjörskönnun hér, nema hvorttveggja sé.


Tíðindalaust af suðurvígstöðvunum

Framsóknarmenn í Reykjavíkurkjördæmi suður ákváðu að stilla upp framboðslista fyrir alþingiskosningarnar á kjördæmisþingi í kvöld. Áður höfðu framsóknarmenn í norðurkjördæmi Reykjavíkur ákveðið að fara sömu leið. Björn Ingi fjallar um þetta á heimasíðu sinni og segir að hann gefi ekki kost á sér í 2. sæti listans eins og síðast og ætli að einbeita sér að borgarpólitíkinni. "Jónína Bjartmarz, umhverfisráðherra, hefur ein gefið kost á sér í 1. sæti listans og nýtur án efa mikils stuðnings í það sæti." segir Björn.


Leiðrétting

Með glöðu geði kem ég því á framfæri sem fjórir lesendur hafa orðið til að benda mér á í kommentum að Þorgerður Katrín og Bjarni hafa þegar haldið svona fund hjá Ragnheiði Ríkharðsdóttur og jafnvel fleiri frambjóðendum. Svona vilja staðreyndirnar stundum svipta mann ánægjunni af því sem betur hljómar. Ég þarf greinilega að fara að rýna fastar í prófkjörsauglýsingarnar. Ég treysti því að greiningardeildin færi þetta til bókar.


Tilkynning til spámanna og -kvenna

Helgi býður öllum, sem vilja, að taka þátt í prófkjörsgetraun, og raða upp lista Samfylkingarinnar í Reykjavík að vild. Sannspáum er heitið verðlaunum.


Skilaboð til Ragnheiðar Ríkharðsdóttur

Það er heilsíðuauglýsing í Blaðinu í dag frá stuðningsmönnum Ármanns Ólafssonar, sem keppir við Ragnheiði Ríkharðsdóttur um 3ja sæti sjálfstæðismanna í Kraganum um helgina.

Alls konar fólk lýsir þar yfir stuðningi við kappann en stuðningur sumra skiptir meira máli en stuðningur annarra. Þess vegna tek ég eftir rastaða rammanum neðst í auglýsingunni. Þar kemur fram að Þorgerður Katrín, hinn óumdeildi leiðtogi listans, og Bjarni Benediktsson, hinn óumdeildi maður í 2. sæti, ætla að mæta á kosningaskrifstofu Ármanns kl. 17.30 í dag og spjalla um málefni kjördæmisins.

Skilaboðin verða ekki öllu skýrari, forystan vill sjá Ármann á Alþingi. Þá er bara spurning hvort kjósendur eru á sama máli.


Úr tilhugalífi stjórnarandstöðunnar

Steingrímur J. við Magnús Þór: “Er þetta þá allt okkur að kenna? Það er ekki nóg með að við þurfum að þola þig eins og þú ert, helvítis fíflið þitt!”


Talsmaður neytenda ekki í framboði

Gísli Tryggvason, sem kosinn var í 4. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í Kraganum um síðustu helgi, hefur ákveðið að taka ekki sæti á listanum. Gísli stefndi upphaflega á 2. sæti. Í yfirlýsingu, sem barst rétt í þessu, segist Gísli ekki hafa náð því markmiði sem hann stefndi að með framboði sínu. Hann hafi fallist á að taka 4. sæti listans þegar honum bárust áeggjanir þess efnis á kjördæmisþinginu sjálfu.

Að nánar athuguðu máli, og að fengnum óháðum lögfræðiálitum, telji hann að ekki leiki vafi á því að framboð til Alþingis væri ósamrýmanlegt óbreyttum störfum talsmanns neytenda. Því hafi hann ákveðið að taka ekki 4. sætið en einbeita sér þess í stað að embættinu. Hann segir þessa niðurstöðu fengna í fullri sátt við oddvita listans, Siv Friðleifsdóttur, heilbrigðisráðherra.

Fyrir Alþingi liggur fyrirspurn, sem Magnús Þór Hafsteinsson lagði fram á mánudag og beindi til Jón Sigurðssonar viðskiptaráðherra. Spurningin er svohljóðandi: Telur ráðherra það samræmast starfi talsmanns neytenda á Íslandi að sá sem því gegnir sé í framboði fyrir stjórnmálaflokk til Alþingis? Nú þegar ákvörðun Gísla liggur fyrir er væntanlega ekki lengur þörf á að ræða málið á Alþingi.


Vika er langur tími í pólitík

1. nóvember 2006: President Bush said Wednesday he wants Defense Secretary Donald Rumsfeld and Vice President Dick Cheney to remain with him until the end of his presidency, extending a job guarantee to two of the most-vilified members of his administration. "Both those men are doing fantastic jobs and I strongly support them," Bush said.

8. nóvember 2006: President Bush announced Wednesday that Defense Secretary Donald Rumsfeld is stepping down from his post. "The timing is right for new leadership at the Pentagon," Bush said at the White House Wednesday afternoon.


Niko kwenye uchaguzi wa

Bryndís Ísfold er búin að þýða áherslurmál sín á svahílí. Flestir láta nægja ensku, pólsku og eitthvað fleira. Hún varð um daginn fyrsta manneskjan í sögu Morgunblaðsins til að fá þar birta grein með fyrirsögn á pólsku. Svo var hún með tillöguna um grænu kellinguna á gangbrautarljósunum og er fyrsti prófkjörsframbjóðandinn, sem ég veit um, sem er með YouTube í þjónustu sinni.

Ég held að hún og Ingibjörg Sólrún og Guðrún Ögmundsdóttir séu einu konurnar í prófkjöri Samfylkingarinnar sem Staksteinar hafa ekki lýst sérstakri velþóknun á.


Týnda ræðan

Andrés Magnússon er byrjaður að blogga og auðvitað fjallar hann um samskipti Skúla Helgasonar og sme og veltir fyrir sér hverju goðin reiddust.

En það sem vakti athygli mína var að Andrés fullyrðir í neðanmálsgreinBorgarnesræða Ingibjargar Sólrúnar sé nú horfin af vef Samfylkingarinnar.


Til hægri snú

Orðið á götunni er með athyglisverðar upplýsingar um hvernig afstaða Magnúsar Þórs Hafsteinssonar til útlendinga á Íslandi hefur breyst frá árinu 2004 til 2006. Styður hugmyndir um að þetta sé markviss tilraun til að komast úr 3% farinu og halda vinnunni næstu fjögur ár.


Þættinum hefur borist bréf

Bréfritari er Skúli Helgason, framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar sem gerir grein fyrir sinni hlið á samtali sínu við Sigurjón M. Egilsson. Bréfið er í lengra lagi en hér eru feitustu bitarnir:


"Blessaður Pétur!
Þú fjallar á ágætri bloggsíðu þinni um samtal mitt við ritstjóra Blaðsins í gær og lýsir yfir einlægum áhuga á samtalinu. Mér er ljúft og skylt að sinna því enda hlynntur samræðum eins og félagar mínir í Samfylkingunni. Samtal okkar Sigurjóns fjallaði um lítið smáatriði sem tengist Blaðinu og reyndar nokkuð persónulegt. Nú þarf ég að tala varlega því málið snýst um fjarstaddar persónur sem ég þekki lítið og get því ekki farið út í smáatriði. En ég læt nægja að segja að málið snúist um spennu og ástríður, óendurgoldna ást og lofsöng sem stundum fer vandræðalega yfir strikið.

[...] Tvennt kemur fram í máli Sigurjóns sem ber vott um verulegan misskilning. Annars vegar kveður hann mig hafa pantað hrókeringar á ritstjórn Blaðsins og hins vegar hótað aðgerðum ef menn létu ekki svo lítið að afgreiða pöntunina. Hvort tveggja er skemmtilegt en því miður fjarstæðukennt. Ég er nú ekki svo stórtækur að ég gangi um og panti hrókeringar hjá fjölmiðlum eða yfirhöfuð nokkrum aðilum í þessu þjóðfélagi enda væri það fullkomlega út í hött.

[...] Ég get því fullvissað Sigurjón um að Samfylkingin mun ekki grípa til neinna aðgerða gegn Blaðinu umfram það að lesa það auðvitað – sem varla flokkast undir fréttnæm athafnastjórnmál.

[...] Láttu svo vita ef þú vilt að við Sigurjón höfum þig á ‘speakernum’ í næsta spjalli.
Bestu kveðjur
Skúli Helgason."


Skammir en ekki hótanir

Sme tjáir sig nánar um hringingu framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar og segir: Mér er lífsins ómögulegt að taka fljótfærnisleg orð framkvæmdastjórans sem hótun, og þá hótum um hvað, heldur einhver að hann ætli að lemja mig?


Hvítur vann

Demókratar náðu fulltrúadeildinni og enn er tvísýnt um öldungardeildina. Bandaríkjamenn eru þar með búnir að endurvekja þrígreiningu ríkisvaldsins í reynd en fráfarandi meirihluti Repbúblíkana var forsetanum svo þægur í taumi að mönnum þætti jafvel orð á því gerandi hér á landi.


Hvað segir Ameríka?

Howard Fineman í Newsweek: "Across the planet, people want to know: do Americans still see the world the way George W. Bush does? Do they still accept (or tolerate) his theory of how to achieve peace and security? . . .Voters are angry about the loss of American life and treasure, but many of them also worry about whether we are losing something just as precious, and as critical to our security: our sense of commanding moral mission in the world."


Ég hefði viljað heyra þetta símtal

Sigurjón M. Egilsson segir að framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar hafi heimtað hrókeringar á ritstjórn Blaðsins og hótað því að flokkurinn mundi grípa til aðgerða gegn Blaðinu ef ekki verði orðið við kröfunum. Meira á bloggi sme.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband