15.11.2006 | 21:37
Dúett dagsins
Hlustið á Geir H. Haarde og Árni Johnsen taka lagið saman í boði Helga Hjörvar.
15.11.2006 | 17:19
Getraun dagsins
Heimsækið Friðjón til að lesa meira um Magnús Þór og útlendinga.
15.11.2006 | 16:42
Bravó
Nefnd um fjármál stjórnmálaflokkanna gekk frá drögum að lagafrumvarpi um málið á fundi sínum í dag sem send verða til þingflokkanna.
Ég er ekki viss um að þingið geti unnið þarfara verk fyrir kosningar en að gera þetta frumvarp að lögum.
14.11.2006 | 19:55
Tæknileg mistök
Tvívegis var talað um tæknileg mistök í fréttunum í kvöld. Fyrst þegar Ísraelsher var að réttlæta fjöldamorðin á Gaza. Síðan þegar Árni Johnsen var að ræða um hegningarlagabrotin sín.
14.11.2006 | 19:07
En hvað með Mohammed al-Durra?
Í tilefni þeirra orða ísraelska sendiherrans að Ísraelsher skjóti ekki óbreytta borgara af ásettu ráði langar mig til að rifja upp örlög 12 ára pilts sem hét Mohammed al-Durra.
Ísraelsher gekkst við verknaðinum.
14.11.2006 | 19:04
Gamall temur, ungur nemur
Hlustið á Guðna Ágústsson taka Björgvin Sigurðsson á hné sér vegna forsíðufréttarinnar sem Björgvin plataði inn á Fréttablaðið á mánudag. Kosningabaráttan í Suðurkjördæmi er hafin.
Björgvin hefur ítrekað fært þetta í tal og fengið svör og athygli jafnoft en óneitanlega var kómískt að sjá þetta margrædda mál rata á forsíðu Fréttablaðsins á mánudag. Hér er t.d. umræða Björgvins og heilbrigðisráðherra um málið á þingi í nóvember 2004 og hér er sama fyrirspurn og skriflegt svar ráðherra til Björgvins í maí 2004.
14.11.2006 | 13:16
Kærleiksheimilið
Það hafa margir verið að velta fyrir sér innanbúðarmálum Samfylkingarinnar eftir prófkjörið og m.a. gert því skóna að 69% kosning formannsins í 1. sætið sé til marks um litla samheldni innan flokksins. Nú er óþarfi að tala lengur um þetta í einhverjum getsagnastíl, Össur er kominn með nýjan pistil þar sem hann talar hreint út; hann telur sig og sína menn setta til hliðar. Hann talar svo hreint út að meiri hreinskilni er ekki hægt að biðja um af manni sem er í þeirri stöðu að vera þingflokksformaður:Það er meira en nóg fyrir mig að vera formaður þingflokks. Ég hef meira gaman af því en ég hélt ég myndi hafa. Ég finn að reynsla mín kemur þar að notum, alveg einsog hún og reynsla nánustu stuðningsmanna minna og ráðgjafa myndi koma vel að notum við mótun stefnu flokksins ef menn út af fyrir sig vildu. Okkar dugur kom einfaldlega fram í prófkjörum um allt land.
Ég er góður í það og hef bestu ráðgjafa sem Samfylkingin á völ á í dag. Það ætti öllum að vera ljóst núna. Hvort menn geta notað þann hóp og þá reynslu á fleiri stöðum í flokknum kemur í ljós. En ég held að það gæti orðið öllum farsælt.
14.11.2006 | 09:21
Fórnarlömb dagsins
Eins og kunnugt er hafa fordómar fylgt Frjálslynda flokknum allt frá upphafi. Flokknum hefur verið núið upp úr því að stofnandi hans hafi verið útbrunninn fyrirgreiðslupólitíkus sem settur hafi verið yfir viðskiptabanka í ríkiseigu sem hann hafi rekið þráðbeint á hausinn. Helstu afrek stofnandans séu á sviði laxveiða.
Þá hafa þeir fordómar mætt Sigurjóni Þórðarsyni, þingmanni flokksins, að hann sé lifandi sönnun atgervisflóttans af landsbyggðinni. Hins vegar er ekki ágreiningur um það að Sigurjón er sundmaður góður. Ólafur F. Magnússon, foringi flokksins í Reykjavík, hefur mætt þeim fordómum að hann sé svo sótthræddur að honum sé nánast um megn að sinna læknisstörfum sínum. Svona mætti lengi rekja þá fordóma sem frjálslyndir hafa mætt hjá þjóðinni. En nú ætla þeir að berjast á móti. Í gær kom miðstjórn flokksins saman og samþykkti ályktun þar sem mótmælt er þeim fordómum sem Frjálslyndi flokkurinn mætir hjá þjóðinni.
Til þess að menn geti kynnt sér víðsýni og frjálslyndi frjálslyndra og látið af fordómunum læt ég hér fylgja slóð á ritsafn Sverris Hermannsonar í gagnasafni Morgunblaðsins, einnig slóð á þingræður Sigurjóns Þórðarsonar.
13.11.2006 | 19:28
Atvinnumál
Náttúrufræðistofnun hefur fengið nýjan starfsmann. Róbert Marshall, verðandi þingmaður, hefur fengið það verkefni að vinna við heimasíðu stofnunarinnar í hlutastarfi og sjá um að uppfæra hana.
Forstjóri Náttúrufræðistofnunar er Jón Gunnar Ottósson, eiginmaður Margrétar Frímannadóttur. Róbert er á Suðurlandi talinn pólitískt afkvæmi Margrétar, sem Ingibjörg Sólrún kallaði ljósmóður Samfylkingarinnar.
13.11.2006 | 15:19
Blóðmör
Sunnlendingurinn Sigurður Bogi ræðir prófkjör Sjálfstæðismanna á Suðurlandi: Á götuhornum á Suðurlandi hafði Kjartan Ólafsson hins vegar nánast verið blásinn af og fæstir af viðmælendum mínum töldu hann líklegan til pólitískra stórræða. Af löngum kynnum veit ég að Kjartan er vænsti piltur, en afrek hans á vettvangi stjórnmálanna eru helst hugmyndir um að leggja heilsárveg yfir Kjöl og hvetja fátækt fólk til að taka slátur, sem er að vísu alveg herramannsmatur.
13.11.2006 | 12:53
Spuni dagsins
Þorsteinn Pálsson, ritstjóri og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, og fyrsti þingmaður þess sem nú er Suðurkjördæmi, skrifar heilan leiðara um prófkjör undir fyrirsögninni Litlar pólitískar vendingar. Þar er ekki minnst einu orði á gamla kjördæmið ritstjórans og Árna Johnsen, bara fjallað um Samfylkinguna í Reykjavík og Sjálfstæðisflokkinn í Kraganum.
Að mati Þorsteins eru tíðindi helgarinnar þessi: En mesti pólitíski viðburðurinn í prófkjörum helgarinnar felst þó án efa í kosningu Bjarna Benediktssonar í annað sæti listans. Síðan fylgir útlegging um að Bjarni hafi nú tekið forskot á aðra af sinni kynslóð í baráttunni um framtíðarleiðtogahlutverk hjá Sjálfstæðisflokknum.
13.11.2006 | 10:32
Ekki er sopið kálið II
Það ólgar í Sjálfstæðisflokknum vegna kosningar Árna Johnsen. Friðjón er strax búinn að gera ágreining við Geir H. Haarde: Það má vera að Árni njóti traust flokksforystunnar, en hann mun ekki njóta trausts umtalsverðs hluta Sjálfstæðisflokksins. [...] Ég vil ekki sjá að kjördæmisráð Suðurkjördæmis samþykki þennan lista.
Hann hefur líka þetta að segja um málið: [Vera Árna] á lista sjálfstæðismanna mun kosta flokkinn nokkur atkvæði í kjördæmum hingað og þangað, meira en hann bætir við í S-kjördæmi ef það er eitthvað.
13.11.2006 | 10:25
Fyllsta traust
12.11.2006 | 21:25
Málefnaleg umræða frjálslyndra um útlendinga
Jón Magnússon í Silfri Egils: Eiríkur [Bergmann, dósent við Háskólann á Bifröst], hættu að sveipa um þig einhverju fræðilegu umhverfi, því þú hefur það ekki!
Í sama þætti pakkar Atli Gíslason frjálslyndum saman og bendir á að Magnús Þór Hafsteinsson hafi greitt atkvæði gegn því að aðlögunartími vegna stækkunar EES yrði lengdur, þar með hafi hann í raun greitt atkvæði með því að engar hömlur yrðu á aðgangi útlendinga að landinu.
12.11.2006 | 20:06
Ekki er sopið kálið
Andrés Magnússon er Vesturbæjaríhald af gamla skólanum, sjálfstæðismaður frá blautu barnsbeini, virkur þátttakandi á landsfundum og víða á ferð í baklandi flokksins í meira en tvo áratugi.
Hann segir þetta um sigur Árna Johnsen í Suðurkjördæmi: Hvaða úræði koma til greina til þess að stöðva framboð Árna Johnsen í nafni og skjóli Sjálfstæðisflokksins? Samkvæmt skipulagsreglum Sjálfstæðisflokksins þarf Miðstjórn flokksins að staðfesta framboðslista, svo að hann verði boðinn fram í nafni flokksins. En er hún líkleg til stórræða? Miðstjórnin lét gott heita að stórfellt prófkjörssvindl átti sér stað í Norðvesturkjördæmi fyrir síðustu þingkosningar, svo menn geta varla vænst myndugleika úr þeirri átt. Ekki virðast meiri töggur vera í framkvæmdastjórn flokksins. Og hvað? Á maður að lifa í voninni um að Sjálfstæðisfélag Vestmannaeyja víki Árna úr félaginu og þar með flokknum?
Stefán Friðrik Stefánsson er líka eðalsjálfstæðismaður norður á Akureyri og öflugur bloggari. Hann segir þetta um útkomu Árna: Endurkoma Árna í stjórnmálin er umdeild. Mér líkar ekkert alltof vel þessi endurkoma, hreint út sagt. Þetta á eftir að verða umdeilt að flestu leyti. En flokksmönnum í Suðurkjördæmi gafst færið á að kjósa og ekki betur hægt að sjá en að þeir vilji Árna aftur í fremstu víglínu hjá sér.
12.11.2006 | 11:41
Kjördæmi kvenna
Sjálfstæðisflokkurinn fær sterkan lista út úr prófkjöri sínu í Kraganum. Þorgerður, Bjarni og Ármann eru öflugir frambjóðendur og einnig Ragnheiður Elín í 5. sæti. Jón Gunnarsson, hvalveiðiáhugamaður og björgunarsveitarforingi fær þingsæti. Er þetta ekki hans þriðja tilraun? Í sex efstu sætum er kynjahlutfallið jafnt. Allt líkleg þingsæti. Það eru tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.
Það stefnir í að Kraginn verði kvennakjördæmið mikla, þaðan sýnist mér að gætu komið sjö þingkonur í vor. Þorgerður Katrín, Siv hjá Framsókn og líklega Katrín Jakobsdóttir hjá VG verða þar foringjar og eiga við nýliðann Gunnar Svavarsson, oddvita Samfylkingar.
12.11.2006 | 11:26
Hver vann?
Ég var úti á þekju þegar ég spáði Kristjáni Pálssyni góðu gengi í Suðurkjördæmi. Átti að vita að Sjálfstæðisflokkurinn fyrirgefur ekki hégómleg sérframboð, þótt hann fyrirgefi refsidóma. Ofmat fréttirnar sem ég hafði af því að nú ætluðu Suðurnesjamenn að láta af sér vita. Sá svo sem ekki kjörþokka Kristjáns en bið um skilning, þetta er nú einu sinni þeir kjósendur sem ætla að tefla fram Árna Johnsen. Og getur einhver útskýrt fyrir mér kjörþokka Kjartans Ólafssonar?
Árni Mathiesen er með innan við 50% atkvæða í 1. sæti, staða hans er svo sannarlega veikari en hún var, sérstaklega í ljósi þess að þarna var sjálfur fjármálaráðherrann að keppa við þá sem hann var að keppa við.
Ég er ekki frá því að Guðni Ágústsson og Björgvin Sigurðsson séu raunverulegir sigurvegarar þessa prófkjörs.
12.11.2006 | 10:48
Upprisur og föll
Össur: Það má því segja að síðasta hálfa áratuginn hafi Samfylkingin bæði hafið mig til himna, féllt mig til heljar, og nú veitti hún mér upprisu í annað sinni.
Mér sýnist að Össur og Björn Ingi séu búnir að segja flest sem þarf um prófkjör Samfylkingarinnar í Reykjavík en ég ætla að bæta örlitlu við. Ég hafði talið að Steinunn Valdís yrði sterkari. Hún nýtt vel það tækifæri sem henni gafst sem borgarstjóri. En fáir tóku þátt í þessu prófkjöri og fyrst og fremst flokkskjarninn. Í þeim hópi hefur Steinunn líklega goldið þess að hún hefur víst verið lítið sýnileg í flokksstarfinu. Það gaf henni borgarstjórastólinn á sínum tíma að samstarfsmenn hennar í Reykjavíkurlistanum töldu ólíklegt að með því væru þeir að ala upp nýjan leiðtoga fyrir Samfylkinguna eins og gert hefði verið áður með Ingibjörgu Sólrúnu. Í dag virðist það mat hafa verið réttmætt.
Ágúst Ólafur rak góða prófkjörsbaráttu, auglýsti talsvert en beitti sér af mestum þunga inn í flokkinn. Hann náði að undirstrika mikilvægi þess að varaformaðurinn fengi góða niðurstöðu og að uppskera fyrir þær áherslur sem hann hefur lagt á þessu kjörtímabili á kynferðisbrot og önnur mál. Með þessu prófkjöri er hann orðinn fullmegtugur varaformaður og þarf ekki lengur að búa við glósur vegna landsfundarins þar sem hann náði kjöri.
11.11.2006 | 10:19
Ellismellur dagsins
Sverrir Hermannsson fær enn eina rammagreinina birta eftir sig í Mogganum í dag. Eins og jafnan er kallinn orðljótari en aðrir menn og eys úr sér gusunum þannig að best er að forða sér á hlaupum. Sverrir er maðurinn sem stofnaði Frjálslynda flokkinn. Það er sennilegasta einhver ótrúlegasta vending í stjórnmálasögunni að kallinum hafi tekist að skapa um sig samúðarbylgju eftir að hann var rekinn úr stóli bankastjóra Landsbanka Íslands.
Eftir á að hyggja er það kannski einhver bestheppnaða hagstjórnaraðgerð undanfarins áratugs að reka Sverri Hermannsson, Björgvin Vilmundarson og Halldór Guðbjarnarson úr Landsbankanum. Í höndum þeirra var bankinn á hvínandi kúpunni og eilífar fréttir voru um tap bankans á hinu og þessu. Svo voru þessir kallar reknir, og pólitísku kommisararnir í Búnaðarbankanum líka og bankarnir settir í hendurnar á mönnum sem kunna að reka banka. Síðan hefur allt verið hér á fleygiferð í efnahagslífinu.
Þannig að í þessu ljósi er sennilega best að vera bara þakklátur fyrir þau atvik sem urðu til þess að Frjálslyndi flokkurinn var stofnaður, jafnskondin og þau voru á sinni tíð. En það er náttúrlega eins og út úr absúrdleikriti að Sverri, sem byggt hafði áratugalangan feril sinn á að útdeila almannafé til pólitískra vildarvina, skyldi ná að stofna um sig einhvers konar siðbótarflokk.
11.11.2006 | 10:17
Björn dagsins
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 4
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 29
- Frá upphafi: 536815
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 15
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar