15.1.2007 | 22:04
Björgvin rasskellir Geir og Moggann
Björgvin G. Sigurðsson, ráðherraefni Samfylkingarinnar, tekur því þungt að Mogginn væni hann um að vera í leynimakki um væntanlegt ríkisstjórnarsamstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Hann skrifar pistil um málið á heimasíðu sína og er mikið niðri fyrir, og greinilegt að hann hefur áhyggjur af því að Samfylkingin sé að tapa stöðu sinni sem leiðandi afl í stjórnarandstöðu eftir að stjórnarmyndunarþreifingar forystumanna í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki eru komnar upp á yfirborðið.
Í þessum pistli nefndi ég til sögunnar þá Samfylkingarmenn sem mest hafa daðrað við Sjálfstæðisflokkinn en Björgvin lítur á það sem hálfgerð meiðyrði að Mogginn selji allan 20 manna þingflokkinn undir sömu sök með því að nefna engin nöfn. Af þessu er ljóst að enn eru í Samfylkingunni menn sem er alvara með að hér verði mynduð ríkisstjórn á næsta kjörtímabili sem líti á það sem eitt sitt meginverkefni að efla og styrkja samband Íslands við Evrópu.
Björgvin tekur spunavél Moggans til bæna og segir síðan:
Íhaldið er að daga uppi sem nátttröll í Evrópumálum og það blasir við að það mun kosta flokkinn í næstu kosningum ranki hann ekki við sér. Geir þorir ekki að stökkva yfir skuggann sinn og taka ráðin í sínar hendur.
Björgvin lætur sér nægja að skamma Moggann og Ingibjörgu en engum dylst að í orðum hans felst þung ádeila á Ingibjörgu Sólrúnu fyrir hvernig hún hélt á málum og blessaði yfir þessar þreifingar í viðtalinu við Moggann. Meira hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.1.2007 | 20:00
Ótrúleg lesning
Skýrslan Ríkisendurskoðunar um Byrgið er ótrúleg lesning. Af amk um 90 milljónum sem hafa komið þarna inn er ekki hægt að sjá að 40 milljónir króna hafi skilað sér inn í reksturinn. Vistmenn greiddu sumir leigu með reiðufé af örorkubótum sínum í hendur starfsmanna sem hvorki gáfu út nótu né færðu greiðsluna til bókar. Fyrirtæki með fimm starfsmenn, 5,5 milljóna bókaðan launakostnað, engan húsnæðiskostnað sem heitið getur og varla nokkurn matarkostnað. Afrakstur fjársafnana rann inn á einkareikning forstöðumannsins. Vistmenn í meira og minna ólaunaðri eða svartri vinnu við störf. Í hvað fór þá peningurinn? Ekki í reksturinn.
Salvör viðskiptafræðingur og framsóknarkona telur ekkert benda til þess auðgunarásetningur hafi verið á ferðinni, ef ég skil hana rétt. Systir Kidda sleggju er ekki lengi að kenna Magnúsi félagamálaráðherra um allt málið, ef ég skil hana rétt. (uppfærsla eftir aths. Systir Kidda gerir athugasemd hér að neðan og segir að ég hafi misskilið hana, hún hafi þvert á móti verið að gagnrýna útskýringar og réttlætingar Guðmundar en alls ekki skella skuld á ráðherrann. Ekki var það nú ætlunin.)
Það er kannski bara innræti mitt en þegar ég les þessa skýrslu og rifja upp Kompásþáttinn finnst mér ég vera að lesa sögu um þaulskipulagða glæpastarfsemi. Mér finnst það vera vanvirða við allt það mikla og góða sjálfboðaliða- og líknarstarf sem fram fer í landinu í þágu alkóhólista og fíkla að ræða það í þessu samhengi. Niðurstaða Ríkisendurskoðunar um að vísa málinu til Ríkissaksóknara segir náttúrlega að stofnunin telur að hér séu á ferðinni alvarleg hegningarlagabrot. Ég hef lesið margar skýrslur frá Ríkisendurskoðun en enga líka þessari. Þarna stendur ekki steinn yfir steini.
Í hverjum miðlinum á eftir öðrum eru Guðmundur Jónsson og aðstoðarmaður hans að setja á langar ræður, þetta er allt bókaranum að kenna skilst mér. Hvað er í gangi? Væri ekki nær að ræða við sérfræðinga í rekstri og e.t.v. hæstaréttarlögmenn um hvaða sögu þessi skýrsla segir í raun og veru um starfsemina. Eða á maður bara að bíða rólegur eftir næsta Kompásþætti?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.1.2007 kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.1.2007 | 19:26
Frakkar ræddu aðild að Breska samveldinu
Það hefur verið mikill fréttadagur, svo mikill að fréttastofa Stöðvar 2 átti ekki aflögu fréttamann til að fylgjast með málflutningi í Baugsmálinu í Hæstarétti og lét nægja lesfrétt án myndar um málið. En þrátt fyrir Byrgið, Baug og allt það er ég ekki frá því að ég hafi fundið frétt dagsins í The Guardian í dag. Þar kemur fram að valdamenn í Frakklandi hafi viljað sameinast Bretlandi, eða amk fá aðild að breska samveldinu og segja sig undir bresku krúnuna árið 1956. Þetta kemur fram í gögnum, sem eru nýkomin fram í dagsljósið. Í frétt Guardian segir:
Þetta gerðist ári áður en Frakkar undirrituðu Rómarsáttmálann ásamt Þjóðverjum og öðrum þjóðum og hófu á þann hátt samrunaferlið í Evrópu.
Sé reyndar að RÚV hefur líka rekist á þetta og gert skil á vef sínum í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2007 | 14:56
Korter í þrjú
Athyglisverðast við viðtal Moggans við Ingibjörgu Sólrúnu finnst mér að hún viðurkennir þann orðróm sem lengi hefur verið í gangi um þreifingar áhrifafólks í Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki um ríkisstjórnarsamstarf á næsta kjörtímabili.
Orðrómur um gagnkvæmar pólitískar þreifingar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar fór í gang fljótlega eftir formannsskiptin í Sjálfstæðisflokknum. Í upphafi var rætt um að helstu áhugamenn um þetta væru tveir starfsmenn Landsbankans, - Borgar Þór Einarsson, stjúpsonur Geirs H. Haarde og formaður SUS, og Ásgeir Friðgeirsson, varaþingmaður og áhrifamikill baktjaldamaður í Samfylkingunni. Það var farið að tala um að það væri helsta verkefni þeirra tvímenningananna að skapa skilyrði fyrir þessu ríkisstjórnarsamstarfi, - Landsbankastjórninni. Það er talsvert verkefni að brúa það bil sem varð milli flokkanna tveggja í átökunum á síðustu misserum Davíðs Oddssonar í forsætisráðherrastóli.
En nú í haust var fór að spyrjast út að þessar þreifingar hefðu borið þann árangur að Ingibjörg Sólrún og Þorgerður Katrín væru farnar að tala mikið saman og skapa frekari jarðveg fyrir viðræður milli flokkanna tveggja. Þetta hefur verið á vitorði fjölmargra þingmanna úr báðum flokkum og heimildir mínar um þetta eru úr þeim hópi. "Samkennd kvenna á þingi þvert á flokka" er forsíðufyrirsögn Moggans með tilvísun í viðtalið við Ingibjörgu Sólrúnu og það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég las það var samkenndin sem orðin er til milli þeirra Ingibjargar og Þorgerðar.
Svo eru þingmenn Samfylkingarinnar eins og Kristján Möller og Lúðvík Bergvinsson ötulir í vinnu við brúarsmíði yfir til Sjálfstæðisflokksins, eða eru það kannski pólitísk jarðgöng sem þeir eru að grafa, Siglfirðingurinn og Eyjamaðurinn í þingflokki Samfylkingarinnar?
Í dag staðfestir formaður Samfylkingarinnar svo á síðum Morgunblaðsins að þessar viðræður hafi verið í gangi. Auðvitað er skiljanlegt að Samfylkingin líti á það sem spurningu um sitt pólitíska líf eða dauða að komast í ríkisstjórn. En um leið er þetta í raun besta staðfestingin á því að grundvallarhugmyndin sem tilvera Samfylkingarinnar átti að byggjast á er að engu orðin. Hún átti að vera hinn stóri flokkurinn á Íslandi, valkostur við Sjálfstæðisflokkinn.
Nú eru helstu áhrifamenn flokksins búnir að horfast í augu við að sá draumur rætist ekki og að Samfylkingin er bara enn einn smáflokkurinn og farinn að reyna að komast í hlutverk sætustu stelpunnar (eða einhverrar sem gerir sama gagn) sem Geir H. Haarde ætlar með heim af ballinu klukkan korter í þrjú aðfaranótt 13. maí í vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.1.2007 | 12:17
DV og Baggalútur í Brautarholtið
DV mun flytja úr Skaftahlíðinni á næstunni og í Brautarholt 28, A.Karlssonar húsið. Þar er nú verið að innrétta húsnæði fyrir blaðið.
Blaðið fær líka nýjan umsjónarmann menningarefnis á næstunni, það verður Guðmundur Pálsson, best þekktur sem söngvari í Baggalúti. Gengið var frá ráðningu hans í gær.
Sme er nú búinn að gefa út tvö tölublöð af DV og á því sem kom út í gær sést að auglýsingamarkaðurinn tekur vel á móti honum. Auglýsingahlutfallið er margfalt hærra en undanfarin þrjú ár og venjuleg fyrirtæki eru farin að auglýsa aftur í blaðinu, ekki bara vídeóleigur og súludansstaðir. Goldfinger auglýsir enn, en það fyrirtæki hélt nánast blaðinu uppi síðustu misserin. Auglýsingar þess eru nú í íþróttakálfinum. Svo er einhver hjálpartækjabanki á baksíðunni og má segja að það séu mest áberandi leifarnar af gamla blaðinu. Umfjöllunin er öll fréttalegri en áður og ég held að þetta líti bara nokkuð vel út hjá kallinum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.1.2007 | 11:16
Samfélagið hafnaði þeim
Vil vekja athygli á nýrri færslu Sigurlínar Margrétar um þá allsherjarhöfnun sem heyrnarskert börn bjuggu við í íslensku samfélagi þar til fyrir örfáum árum:
Og svo voru börnin þetta ung þegar þau voru send í heimavist, fjöggra ára gömul, grunnskólaskólaskylduð samkvæmt lögum fjöggra ára gömul. Foreldar stóðu því berskjaldaðir gegn þessu lagaboði, gátu ekkert gert. Þessi grunnskólaskylda varði til 18 ára aldurs. Mjög löng grunnskólaskylda semsagt. Græddu heyrnarlausir meira en almenningur á þessari löngu grunnskólaskyldu? Nei, varla er hægt að segja það, þeir stórtöpuðu á henni.
Þetta mál um kynferðislega misnotkun heyrnarlausra barna er einhver mesti óhugnaður sem hér hefur komið upp á yfirborðið. Það er sorglegt til þess að hugsa að þessir atburðir gerðust í umhverfi sem börnin og fjölskyldur þeirra voru nánast þvinguð með lögum til þess að laga sig að og greinilegt að hagsmunir barnanna voru aldrei í fyrirrúmi við þá lagasmíð. Táknmálið bannað og þeim þar með nánast bannað að tjá sig. Íslenskt samfélag á þessum einstaklingum stóra skuld að gjalda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.1.2007 | 15:04
Þorgerður í góðum málum
Er ekki óhætt að fullyrða að kosningabaráttan sé byrjuð. Búið að tilkynna um þriggja milljarða viðbótarframlag til Háskólans og nú er verið að standa við loforð um milljarð króna af söluandvirði Landssímans til þess að bæta GSM-samband á þjóðveginum. Svo byrjar þingið á mánudag. Kosningaskjálftinn fer vaxandi dag frá degi.
Viðbótarframlag til Háskólans er sannarlega gott mál og rós í hnappagat Þorgerðar Katrínar. Núna virðist fátt geta komið í veg fyrir að hún vinni stórsigur í kosningunum í vor. Hún leiðir geysilega öflugan lista Sjálfstæðisflokksins í Kraganum og kæmi ekki á óvart þótt hún ynni hreinan meirihluta þingmanna í því kjördæmi.
Það er fyrst og fremst eitt sem ég held að gæti spillt þeim möguleika fyrir henni; það væri ef RÚV-frumvarpið gengi henni úr greipum. Það mun verða meginefni Alþingis í næstu viku og Þorgerður á mikið undir því að ekki verði orðið við kröfum stjórnarandstöðunnar um að fresta málinu. Örugglega er hluti þingmanna stjórnarflokkanna tilbúinn í slíka frestun en forysta Sjálfstæðisflokksins mun áreiðanlega ekki gefa kost á því enda mikilvægt fyrir pólitíska stöðu varaformanns flokksins að þetta mál sigli fumlaust í gegnum þriðju og síðustu umræðu á Alþingi. Það yrði reiðarslag fyrir hana að koma málinu ekki í gegnum þingið.
Þetta mál með GSM-sambandið er hins vegar eldgamalt, þessu var lýst yfir haustið 2005 í framhaldi af sölu Símans. Sennilega hafa menn geymt sér að klára samninginn og hrinda málinu í framkvæmd þar til hæfilega stutt væri í kosningar.
Síminn lýkur við uppbyggingu farsímanets á Hringveginum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
11.1.2007 | 19:49
Reykjavík+snjór=umferðarteppa
Þetta er svona dagur þegar landsbyggðarfólk hristir hausinn og talar um að það megi aldrei koma korn úr lofti þá sé komin umferðarteppa í Reykjavík af því að fólk þar kunni ekki að keyra. Jamm.
Ég er ekki landsbyggðarmaður, hef búið í borginni alla tíð og var rétt í þessu að koma inn úr umferðinni eftir einhverjar mestu umferðarteppur sem ég man eftir um langt árabil. Var tæpar tæpar 20 mínútur á leiðinni frá Bólstaðarhlíð og að gervigrasvellinum í Laugardal. Klukkan 18.30 voru enn þéttar biðraðir á stofnbrautum og bíll við bíl á Kringlumýrarbraut, milli Miklubrautar og Háaleitisbrautar. Þetta ástand hefur ekki bara verið á stofnbrautum heldur líka á safngötum á borð við Skipholt, Háteigsveg og Nóatún.
Þessu veldur snjórinn. Þó er hann ekki mikill, - rétt þæfingur. Ótrúlega margir bílar ráða illa við að fara af stað úr kyrrstöðu, sérstaklega í þeim götum þar sem eru smábrekkur. Væntanlega verður allt brjálað að gera á dekkjaverkstæðum borgarinnar á morgun og líklega hafa margir ákveðið í dag að sækja nagladekkin ofan í geymslu og setja þau undir hvað sem borgaryfirvöld segja.
En þótt margir séu vanbúnir held ég að aðalorsök umferðarteppunnar í dag ég sé röng viðbrögð við aðstæðum. Ótrúlega mögrum bílum er ekið inn á hálffull gatnamót þótt augljóst sé að þeir muni ekki komast yfir áður en rautt ljós kviknar. Þess vegna afkasta fjölmörg gatnamót borgarinnar litlu sem engu við þessar aðstæður, það er allt fast af því að taugaveiklun og tillitsleysi eru áberandi sem aldrei fyrr í umferðinni á degi sem þessum. Sem betur fer taka margir ökumenn ástandinu með brosi á vör og gefa sénsa og reyna að gera ekki illt verra. Ég náði því stundum en stundum náði pirringurinn völdum við að horfa upp á feigðarflan og fólk á bílum sem ekki voru í standi til að vera á götunum.
En loks kem ég að því sem rak mig til þess að skrifa þessa færslu og það er það að allan þann tíma sem ég hef átt í bílnum mínum í dag hef ég ekki séð einn einasta lögreglubíl. Nú hef ég fylgst með mikilli ánægju með því hvernig Stefán Eiríksson hefur farið af stað sem nýr lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins. Honum er greinilega ofarlega í huga að lögreglan er fyrst og fremst þjónustustofnun fyrir borgarana. Hann leggur áherslu á sýnilega löggæslu en ekki einn einasti lögreglumaður var sýnilegur við gatnamót í dag til þess að greiða umferðinni leið og koma í veg fyrir þarflaust flan inn á gatnamót. Ég er viss um að Stefán verður ekki lengi að kveikja á þessu og endurvekja þá gömlu venju - sem var í gildi meðal lögregluþjónar voru í Reykjavíkurlögreglunni en ekki bara lögreglumenn - að stjórna umferð á helstu umferðaræðum þegar aðstæður eru eins og verið hafa í dag.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
11.1.2007 | 15:47
3ja sætis blús
Meiri vitleysan í þessum Hjörleifi framsóknarmanni á Akureyri sem býður 2 milljónir í hússjóð framsóknarfélagsins á Akureyri gegn því að hann fái að vera í 3ja sæti á framboðslistanum. Ætla rétt að vona að hann fái þá útreið sem hann á skilið fyrir þetta uppátæki í kosningu á tvöföldu kjördæmisþingi aðra helgi.
En er þetta ekki hvort sem er ólöglegt eftir áramót? Þá tóku gildi ný lög um fjármál flokkanna þar sem enginn einstaklingur má leggja fram meira fé en 300.000 kr á ári til flokks. Er ekki ljóst að þau lög gera þessi áform Hjörleifs hvort sem er að engu, þ.e.a.s. ef félagar hans meðal framsóknarmanna á Akureyri væru nógu vitlausir til þess að vilja þiggja múturnar, sem ég hef reyndar enga trú á að þeir séu.
En það verða fleiri 3ju sæti í deiglunni aðra helgi því að þá ætla framsóknarmenn í NV-kjördæmi líka að ganga frá sínum framboðslista á kjördæmisþingi. Einhverra hluta vegna hefur það verið dregið allan þennan tíma en prófkjörið fór fram í byrjun nóvember. Í samræmi við úrslit prófkjörsins er gerð tillaga um að Kristinn H. Gunnarsson skipi 3ja sæti listans en hann hefur ekki enn lýst því yfir hvort hann ætli að þiggja það. Það ganga miklar sögur um að á kjördæmisþinginu muni Kristinn ganga úr flokknum og til liðs við frjálslynda. Það fylgir sögunni að það liggi fyrir samkomulag milli hans og Guðjóns Arnars um að Kristinn verði í 2. sæti á lista frjálslyndra í kjördæminu en að Sigurjón Þórðarson flytjist milli kjördæma og verði oddviti frjálslyndra í Norðausturkjördæmi.
Sjáum hvað setur en allavegna ætti næsta vika að vera Kristni nokkuð hagstæð ef hann vill nota hana til þess að undirbúa brottför sína. Alþingi kemur saman á mánudag og þá verður RÚV frumvarpið væntanlega fljótlega á dagskrá. Í þeim umræðum mun Kristinn fá gott tækifæri til að gera ágreining við meirihluta þingflokksins og ríkisstjórnarinnar og semja forleik að úrsögn á málefnalegum forsendum. Ef það er þá ætlun hans að munstra sig á skipið hjá Adda Kitta Gauj.
9.1.2007 | 22:54
Hvöss sjálfsgagnrýni?
Það eru merkilegar umræður í gangi um skjöl og skjalasöfn hér á moggablogginu í kvöld. Upphafsmenn þeirra eru Guðmundur Magnússon og Björn Bjarnason. Tilefnið er einkaskjalasafnið sem Björn á og er sennilega einhver merkilegasta heimild hér á landi um kaldastríðsárin. Björn greinir frá því að ekkert íslenskt safn hafi falast eftir þessum skjölum svo að fræðimenn og almenningur geti fengið að þeim aðgang. Þess vegna geymi hann þau sjálfur. Að auki greinir hann frá því hve illa íslensk söfn séu í stakk búin til þess að skrá og flokka þau skjöl sem þau varðveita nú þegar. Hann skýrir frá því að hann hafi áður tekið myndir úr vörslu Ljósmyndasafns borgarinnar þar sem þær voru í hirðuleysi.
Þetta er alvörumál. Það er augljóst að Björn hreinlega treystir ekki söfnum íslenska ríkisins til að varðveita sómasamlega þau skjöl sem faðir hans lét eftir sig. Af orðum Guðmundar, sem er þjóðþekktur sagnfræðingur og rithöfundur, má ráða að hann deili þessum áhyggjum Björns. Þeir sameinast svo um það að kalla eftir því að íslenskir ólígarkar taki nú upp hjá sér að leysa þetta vandamál og búi hér til vandað einkasafn þar sem hægt verði að sýna sögulegum heimildum úr vörslu einstaklinga fullan sóma.
Ég blanda mér í umræður þeirra félaga um þessi þjóðþrifamál til að halda því til haga að Björn Bjarnason var sjálfur menntamálaráðherra á Íslandi á árunum 1995 til 2002. Á því tímabili var það hann sem bar ábyrgð á starfsemi Þjóðskjalasafnsins og annarra safna sem íslenska ríkið rekur. Í því ljósi er sennilega rétt að líta á þetta sem hvassa sjálfsgagnrýni.
Og er ég einn um að finnast það kómískt þegar reynt er að vísa ábyrgðinni á ófremdarástandi í skjalavörslumálum íslenska ríkisins yfir á íslensku milljarðamæringana og menningarleysi þeirra? Margt má um Baug og Bjöggana segja en þessari heitu kartöflu verður seint komið fyrir í þeirra kjöltu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ráðið menntamálaráðuneytinu frá 1991 og Björn var sjálfur þar húsbóndi og ábyrgðarmaður frá 1995-2002. Og ljósmyndasafni borgarinnar hefur Sjálfstæðisflokkurinn ráðið alla tíð, nema frá 1978-1982 og 1994-2006. Þetta ástand á sér skýringu í forgangsröðun stjórnvalda en ekki menningarleysi auðmanna.
En ég er líka ósammála því að söfn í eigu einkaaðila fái til varðveislu gögn sem orðið hafa til í embættistíð ráðherra. Einkaaðilasafn gæti valið og hafnað hvaða fræðimenn fengju að skrifa þá sögu sem slík gögn segja og hverjir ekki. Ég tel að gögn sem þessi eigi að vera í vörslum ríkisins, ekki síst til þess að hægt sé að tryggja að réttur til aðgangs að þeim lúti reglum almennra og gagnsærra heimilda upplýsingalaganna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.1.2007 kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2007 | 14:40
Árni í Eyjum en enginn Johnsen
Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og oddviti sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, ætlar að halda opinn fund með Guðjóni Hjörleifssyni í Ásgarði, félagsheimili sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum í kvöld.
Það sem vakti athygli mína í þessu sambandi er að Árni Johnsen, sem eftir því sem best er vitað mun skipa 2. sætið á framboðslista sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi, er hvergi nálægur og ekki þátttakandi í þessum fundi heldur eingöngu Guðjón Hjörleifsson, sem var hafnað í prófkjöri þar sem hann lenti í 7. sæti.
Af hverju ætli Árni Mathiesen vilji ekki hafa Árna Johnsen með sér á ferð um Eyjar? Er þetta kannski til marks um að það sé þegar búið að taka ákvörðun um að Árna Johnsen verði ýtt út af framboðslistanum eins og háværar kröfur hafa verið um?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.1.2007 | 20:03
Athyglisvert
Athyglisverð grein á heimasíðu Björgvins G. Sigurðssonar, oddvita Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Ágætur penni, Björgvin, og ritaði t.d. nýlega merka grein með samanburði á kjörum lántakanda í Evrulöndum og hér á Krónulandi.
En í nýlegum pistli er Björgvin að velta fyrir sér framsóknarmönnum og stöðu þeirra. Margir Samfylkingarmenn eru afskaplega hrifnir af framsóknarmönnum. Hjá sumum fær áhuginn stundum þráhyggjukenndan blæ, eins og t.d. hjá Össuri, en Björgvin andar bara með nefinu. Hann rekur söguna, telur ýmsar forsendur breyttar og rétt að huga að nánara samstarfi kratanna í Samfylkingunni og framsóknar. Segir þetta: "Hvort það gerist með samstarfi í ríkisstjórn hinna vinnandi stétta eða formlegum samruna síðar á eftir að koma í ljós en það dregur klárlega til tíðina á næsta ári." Athyglisvert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2007 | 14:32
Berja hausnum við Múrinn
Bók ársins: Minnislausa stelpan frá Stokkseyri. Margrét Frímannsdóttir heimfærir endurminningar Thelmu Ásdísardóttur upp á sjálfa sig.
Þetta þótti mörgum fréttnæmt enda furðulegt að varaformaður flokks sem kennir sig við femínisma grínist með reynslu eins og þá sem Thelma Ásdísardóttir lýsti í bók sinni í tilraun sinni til að gera lítið úr þeim lýsingum á andlegu ofbeldi og kvenfyrirlitningu sem Margrét Frímannsdóttir lýsti að hún hefði búið við af hálfu Steingríms J. og fleiri kalla í þingflokki Alþýðubandalagsins. Björn Ingi og Össur hafa báðir fjallað um þá heift VG í garð pólitískra andstæðinga sem þessi skrif eru til vitnis um og undrast að þessi skrif varaformannsins hafi ekki vakið meiri athygli en raun er á en engir fjölmiðlar hafa tekið þau upp.
Uppfærsla í framhaldi af aths: Ég sagði hér áðan Múrinn væri búinn að fjarlægja þennan brandara úr áramótauppgjöri sínu án þess að hafa um það nokkur orð en þar hljóp ég á mig því að ég linkaði þá í fljótfærni á vitlaust áramótauppgjör úr gagnasafni Múrverja. Rétt er að hann er þarna enn blessaður brandarinn og alveg jafnvonlaus og síðast þegar ég sá hann. Hins vegar er það rétt að þarna er komin ný færsla um þetta mál. Undir hana rita Ármann Jakobsson, Steinþór Heiðarsson og Sverrir Jakobsson. Þeir hnykkja á heiftinni sem Össur fjallar svo vel um, árétta brandarann um Margréti og Thelmu, eða hvernig öðru vísi er hægt að skilja þá staðreynd að hvorki draga hann til baka né biðjast á honum afsökunar en útskýra hann þannig að þeir hafi verið að gera með honum grín að kostulegum ritdómi Jóns Baldvins um bók Margrétar. Brandarinn er þarna hins vegar enn á sínum stað og er ekki að sjá á Múrverjum að þetta hafi verið nokkuð annað en í mesta lagi lítils háttar tæknileg mistök.
ps. Þeir sem vilja lesa eldri útgáfu af þeirri málsgrein sem ég er nú búinn að breyta geta gert það í aths.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.1.2007 | 13:37
Stórt er spurt
Í hinu ágæta fyrsta tölublaði DV undir ritstjórn -sme var meðal annars frétt um málefni Byrgisins og ástandið þar þessa dagana. Eftir lestur þessarar fréttar var ég huxi yfir ýmsum atriðum sem að málum Byrgisins snúa.
Ef ég man rétt liggur fyrir að Byrgið hefur fengið um 27 milljónir á ári frá ríkinu í rekstrarstyrk, auk þess hefur ríkið greitt 9 milljónir á ári í húsaleigu. Alls eru þetta 36 milljónir. Þarna hafa líklega verið um 40 vistmenn þegar mest var og strax í fyrsta Kompásþættinum kom fram að þeir greiddu um 57 þúsund krónur á mánuði í leigu og fæði meðan á dvölinni stendur. Þeir peningar koma af örorkubótum vistmanna og framfærslustyrkjum sveitarfélaga til vistmanna. Nú er komið fram að Reykjavík hefur borgað til Byrgisins um 58 þúsund krónur vegna um 20 skjólstæðinga.
Ég skil þetta þannig að þetta séu 58x20 á mánuði eða 1.160 þúsund krónur á mánuði eða 13.920.000 krónur á ári. Ég gef mér að þetta sé um helmingur af leigutekjum, sem nemi þá samtals 27.840 þúsund krónum (sem mundi þýða að rekstrarframlag ríkisins nemur akkúrat um helmingi). Að afgangurinn af leigunni komi frá Kópavogi, Hafnarfirði og öðrum sveitarfélögum þar sem vistmenn eru eða hafa síðast verið búsettir. Líklega kemur eitthvað af leigu heimilislausra vistmanna af örorkubótum þeirra og líklega má gera ráð fyrir því að talsverð rýrnun sé á leigunni og að kannski fjórðungur hennar innheimtist ekki.
Þetta ætti að þýða að innheimtar leigutekjur eru samtals 20.880.000 krónur á ári og að tekjur Byrgins séu samtals 48.720 krónur á ári og að það beri engan húsnæðiskostnað af því að ríkið greiðir leiguna á Efri-Brú með sérstöku framlagi upp á 9 milljónir á ári. Ef húsnæðisframlag ríkisis er tekið nema tekjurnar amk um 57,7 milljónum króna. Þá eru undanskildir hugsanlegir styrkir frá öðrum sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem fyrir liggur að Byrgið aflar.
Allt eru þetta spekúlasjónir en ég held að þær eigi ágætlega við miðað við þær upplýsingar sem fram hafa komið. Ég held að þetta sé varfærnisleg áætlun. Það væri t.d. fróðlegt að vita hve önnur sveitarfélög en þau á höfuðborgarsvæðinu hafa styrkt starfsemina mikið. Ég hef upplýsingar um að það hafi víða verið leitað hófanna.
Í fréttinni í DV kemur svo fram í gær að svo virðist sem Byrgið hafi lítil sem engin útgjöld haft til þessa af því að greiða mat fyrir vistmenn, því að ég get ekki skilið fréttina öðru vísi en þannig að allur matur hafi verið gefinn af Bónus, bakaríi á Selfossi og kannski fleiri fyrirtækjum, en einhver þeirra hafa kippt að sér höndum síðustu vikurnar.
Eftirtöldum spurningum hef ég aldrei séð svarað í fjölmiðlum:
- Hvað eru margir starfsmenn á launaskrá hjá Byrginu í hlutastarfi og fullu starfi?
- Hverjir eru helstu útgjaldaliðir fyrir utan launakostnað?
- Vinna vistmenn sjálfir við matseld og þrif frá því að afeitrun lýkur eða er þar um keypta vinnu að ræða, að hluta eða að öllu leyti?
Guðmundur Jónsson og núverandi forstöðumaður hafa lengi verið á launaskrá en hvað margir aðrir?
Miðað við ofangreindar spekúlasjónir hefur Byrgið amk 48.720 þús. kr til ráðstöfunar til greiðslu launakostnaðar á ári. Er óvarlegt að ætla að fyrirtæki í þessari starfsemi með þessar tekjur hafi um það bil 10 starfsmenn á launum í fullu starfi?
Annað atriði er þetta: Nú hefur komið fram að rekin hefur verið einhvers konar afeitrunarstarfsemi í Byrginu, en án tilskilinna leyfa. Það þýðir að þar hafa verið stundaðar lyfjagjafir á valíum og líbríum (og hugsanlega öðrum lyfjum vegna meðferðar morfínfíkla) til vistmanna í 10-30 daga eftir komu á staðinn.
- Hver er lyfjakostnaður vegna afeitrunar í Byrginu?
- Hafa þau lyf verið greidd af hinu opinbera eða eru þau kannski greidd með þeim styrk sem Byrgið fær frá ríkinu.
- Hafa lyfjafyrirtæki og/eða lyfsalar gefið lyf til afeitrunar?
- Og hvað með laun þeirra tveggja lækna sem hafa tekið faglega ábyrgð á afeitruninni, þ.e. fyrstu dögum meðferðarinnar, eru þau greidd af þessum styrkjum eða með öðrum hætti, t.d. úr ríkissjóði.
Auðvitað er vel hugsanlegt að þeir merku læknar Ólafur Ólafsson og Magnús Skúlason leggi þarna fram sjálfboðavinnu við afeitrunina og líti á hana sem líknarstarf sem hún auðvitað er.
Svo er eftir spurningin: Að hvaða leyti er sá hópur sem sækir meðferð til Byrgisins frábrugðinn þeim hópi sem leitar í Krísuvík og í Hlaðgerðarkot? Og jafnvel til SÁÁ og geðdeildar Landspítalans? Er hugsanlegt að munurinn sé fyrst og fremst munur á ímynd og þá tilkominn vegna þess hve forsvarsmenn Byrgisins hafa verið duglegir í að leita liðsinnis fjölmiðla í sókn sinni inn á styrkjamarkaðinn?
En svör við öllum þessum spurningum finnst mér að muni auðvelda manni að fá mynd af því hvernig starfsemin hefur verið og í framhaldi af því stendur maður á fastari fótum þegar kemur að því að meta hvort nægilegt opinbert eftirlit hefur verið með starfseminni í Byrginu og hjá öðrum sambærilegum stofnunum. Miðað við það, sem nú liggur fyrir, bendir fátt til þess.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2007 | 16:07
Hættulegasti vegur landsins?
Það urðu tvö banaslys í umferðinni á Kjósarskarðsvegi í fyrra og nú í upphafi þessa árs eru fimm manns slasaðir eftir bílveltu á þessum spotta sem einhverjir tugir bíla aka um á hverjum degi.
Það hlýtur að vera forgangsmál í umferðaröryggismálum að fá svör við því hvaða áform vegagerðin og samgönguráðherra hafa um úrbætur á veginum um Kjósarskarð.
Hér eru slóðir á fréttir í gagnasafni mbl.is um banaslysin tvö, sem urðu í maí og október 2006.
Fimm slasaðir eftir bílveltu á Kjósarskarðsvegi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.1.2007 | 12:35
Sjónvarpsstjóri dagsins
RÚV, 365, Skjár 1. Þetta er allt eitthvað svo 2006. Hver þarf á þessu að halda þegar maður hefur YouTube og OnlineVideoGuide?
Hér eru Led Zeppelin á tónleikum að fjalla um innflytjendamálin með Immigrant Song í boði YouTube. Síðan taka þeir Black Dog.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.1.2007 | 10:15
Orð dagsins
Leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag finnst mér merkilegur. "Það er ekki ásættanlegt að efnahagsleg stöðnun sé forsenda fyrir stöðugleika í þjóðarbúskapnum," segir hann og hafa aðrir ekki betur sett puttann á púlsinn í evrumálum.
Mér fundust talsverð tíðindi í því að Þorsteinn talaði með svo ótvíræðum hætti um evrumálin og þessi yfirlýsing er markverðari en ella ef hún er metin í ljósi sögunnar:
Að því er Evrópusambandið varðar hafa allar aðstæður líka breyst. Þau sjónarmið sem áður voru gild gegn aðild eru það sum hver ekki með sama hætti lengur.
Hér skrifar maður sem var formaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma, fyrir kosningarnar 1991, þegar Sjálfstæðismenn voru harðir andstæðingar samningsins um EES. Stefna Þorsteins í Evrópumálum sem formanns Sjálfstæðisflokksins var sú að ná tvíhliða samningum við Evrópusambandið, það voru bæði hagsmunir sjávarútvegsins og spurningin um fullveldisafsal sem réði þeirri afstöðu, ef ég man rétt.
Einhvern tímann var sagt að sú afstaða Þorsteins hefði ráðið miklu um að Davíð Oddsson bauð sig fram gegn honum til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Nú eru breyttir tímar og Þorsteinn, sem eins og jafnan er jarðbundinn og varfærinn í allri afstöðu er búinn að skipta um skoðun. Mér finnst ekki til skýrara tákn um það að í dag eru það hófsemdarmennirnir í þjóðfélaginu sem vilja taka upp evru og huga að nánara sambandi við Evrópu en ævintýramennirnir einir sem vilja áfram gera út á krónuna.
1.1.2007 | 13:45
Gleðilegt ár
Óska ykkur öllum gleðilegs árs og friðar. Ef árið 2007 verður jafngott og skaupið verður það magnað. Ég held ég hafi séð hvert einasta skaup frá upphafi sjónvarps á Íslandi og svei mér ef þetta slær ekki þau öll út, nema helst þessi sem Flosi Ólafsson gerði í svarthvítu fyrstu ár sjónvarpsins.
Skaupið í gær var iðandi af ferskleika og andagift, beitt eins og hnífur og laust við klisjur. Páll Magnússon gerði vel í að fá þetta fólk til að halda úti vikulegum þáttum og gefa Spaugstofunni löngu tímabært frí. Hér er íslenskt Monty Python gengi í fæðingu. Frábært.
En jafngott og skaupið var náði það ekki að toppa þær gleðifréttir sem urðu í lífi minnar fjölskyldu um hádegisbil á gamlársdag. Þá kom í heiminn lítill drengur sem mun kalla mig afa og konuna mína ömmu. Móður hans heilsast vel og tengdasonur minn er líka býsna brattur og glaður og virkaði ekki síður þreyttur en dóttir mín eftir átökin. Ég hef verið í sporum hans og skil hann vel, það álag sem fæðingar hafa í för með sér á feður hefur löngum verið vanmetið. Mér finnst eins og það hafi verið á árinu sem var að líða sem elsta dóttir okkar fæddist en það eru víst orðin liðlega 26 ár síðan.
Sá litli er enn á vökudeild því hann fékk legvatn í lungun í fæðingunni og er með sýklalyf í æð. Allt er það á góðri leið. Við fengum að sjá hann í gærkvöldi og áttum þá ógleymanlega stund við undirleik flugeldasveitar höfuðborgarsvæðisins með foreldrunum, föðurforeldrum og móðursystkinum hins nýfædda prins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
29.12.2006 | 18:35
Þættinum hefur borist bréf
Bréfrifari er maður sem þekkir vel til í fjölmiðlaheiminum og viðskiptalífinu. Hann spáir því að stjórnendur Árvakurs, sem eiga Blaðið á móti Sigurði G. Guðjónssyni, séu allt annað en ánægðir með samstarf Sigurðar G. Guðjónssonar við Jón Ásgeir. Hann segir þetta í framhaldi af fréttum um samruna Fögrudyra og Birtings:
Með sameiningu Birtings og Fögrudyra er öruggt að Sigurður G. Guðjónsson hefur samþykkt að falla frá lögbannskröfu og frekari lagalegum aðgerðum gagnvart SME. Hitt er svo annað mál hvort hluthafar í Blaðinu (Árvakur) hafi eða muni samþykkja slíkt.
Einnig er vert að velta fyrir sér hvort og þá með hvaða hætti sameiningin og samvinna Sigga G. og Jóns Ásgeirs hefur áhrif á Blaðið. Mun ráðandi hluthafi í Mogga (Björgólfur) samþykkja að samverkamaður mans og meðhluthafi í Blaðinu sé búinn að taka höndum saman við aðaleiganda og stjórnarformanna helsta keppinautar Morgunblaðsins? Og hvaða áhrif hefur samstarfið á stöðu Sigurðar G. sem framkvæmdastjóra Fjárfestingarfélagsins Grettis, þar sem Björgólfur er ráðandi?
Mér finnst einnig kómískt að lesa að Reynir Traustason, Mikael Torfason og Jón Trausti Reynisson séu taldir upp sem hluthafar í hinu sameinaða hlutafélagi: Samtals eiga þeir 2%. SME samdi þó um 11% hlut að minnsta kosti í orði.
Ákvörðun tekin í byrjun næsta árs hvort krafist verði lögbanns á störf Sigurjóns | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.12.2006 | 14:46
Birtingur og Fögrudyr sameinast - Hér og nú lagt niður
Það halda áfram vendingarnar á blaðamarkaði. Nú heyri ég að tilkynnt verði síðar í dag að Útgáfufélagið Birtingur muni renna saman við Útgáfufélagið Fögrudyr, sem gefur út Ísafold og keypti í gær útgáfuréttinn að Hér og nú og Veggfóðri. Um leið verður tilkynnt að Hér og nú verði lagt niður enda er það augljóslega helsti samkeppnisaðili Séð og heyrt sem Birtingur gefur út.
Hjálmar Blöndal mun verða framkvæmdastjóri útgáfufélagsins Dagblaðsins Vísis, hins nýja eiganda DV en mun að öðru leyti ekki koma að útgáfunni.
Stóra spurningin er hvert verður næsta skref? Rennur kannski DV saman við Útgáfufélagið Birting? Þá væri -sme aftur kominn í vinnu hjá Sigurði G. Guðjónssyni, aðaleigenda Birtings. Önnur spurning er hvort þetta þýði að Mikael Torfason sé orðinn yfirritstjóri Ísafoldar? Kemur væntanlega í ljós síðar í dag.
Ellý Ármanns fráfarandi ritstjóri Hér og nú greindi frá því á bloggi sínu í gær að henni hafi verið sagt upp og að Fögrudyr hafi keypt Hér og nú. Spurning hver hafi hagnast á þeim málamyndagerningi að láta blaðið hafa viðkomu í einhverju félagi í nokkra klukkutíma áður en það var aftur selt Fögrudyrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 5
- Sl. sólarhring: 5
- Sl. viku: 30
- Frá upphafi: 536811
Annað
- Innlit í dag: 3
- Innlit sl. viku: 16
- Gestir í dag: 3
- IP-tölur í dag: 3
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar