hux

Króníkan - fjárfesting dagsins

Ég er ekki í stærsta markhópnum en samt er ég mjög ánægður með það sem ég fékk fyrir 650 kallinn sem ég setti í að kaupa fyrsta tölublaðið af Króníkunni þeirra Sigríðar Daggar og Valdimars.

Ég er ekki í markhópnum af því að þetta blað er ekki fyrst og fremst stílað inn á karlkyns fréttafíkla á fimmtugsaldri með pólitíska bakteríu á háu stigi. Það er ekki gert út á skúbbin þótt þarna sé ágætis úttekt á sjóræningjaveiðum og misnotkun á vörumerkjum íslenskra fyrirtækja. (Fróðleiksmoli dagsins: sjávarútvegur er spilltasta atvinnugreinin í Rússlandi.)

Sumt af þeirri gagnrýni sem ég hef heyrt frá karlkyns blaðamönnum held ég snúist um eitthvað sem Króníkan ætlaði ekki að gera; ég held að planið hafi aldrei verið að endurvekja Helgarpóstinn. Mér sýnist konseptið það að ná til fólks (kvenna) sem er ekki á kafi í fréttahringiðunni alla daga en vill fá vikulega samantekt á gangi mála í þjóðfélaginu, í bland við viðtöl, hefðbundið tímaritaefni og áhugaverðar fréttaskýringar. Ég held að þetta sé stór lesendahópur og vaxandi. Hann fær þarna ágætt blað. Mér finnst á því ferskur blær, sem stafar kannski af því að aldrei áður hafa konur leikið jafnstórt hlutverk á íslenskri ritstjórn (ok, ekki gleyma Veru!).

Frábær hönnun blaðsins kemur ekki á óvart. Bergdís Sigurðardóttir kann sitt fag.


Magnús Þór og Hell's Angels í boði Gunnars Örlygssonar

Gunnar Örn Örlygsson, flóttamaður úr Frjálslynda flokknum, heldur áfram að fara á kostum í greinaskrifum í Moggann um fyrrverandi samherja sína. Í dag skoðar hann ritsafn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar og rifjar hann meðal annars upp árásir Magnúsar Þórs á Kristin H. Gunnarsson áður en pólitískar ástir tókust með þeim félögum.

En ég skellti aðallega upp úr við lestur þessarar stórskemmtilegu greinar þegar ég las upprifjun Gunnars á viðbrögðum Magnúsar Þórs við því þegar norskir mótorhjólamenn úr Hell's Angels voru handteknir á Keflavíkurflugvelli, 7. desember 2003: Þá skrifaði Magnús Þór á malefnin.com, að sögn Gunnars Arnar:

Ég verð nú að segja að þessi stefna lögregluvaldsins að ætla að fara að sortera fólk og nánast dæma og vísa á brott án dóms og laga þegar það kemur til landsins; það er í mínum huga mjög vafasamt." Og áfram segir Magnús: "Þessi viðbrögð gegn Norðmönnunum vekja margar spurningar. Ég er ekkert viss um að þetta hafi verið svo hættulegir menn og það eru örugglega miklu hættulegri ferðamenn sem þvælast inn og útúr landinu en þessir. Allt málið lyktar af paranoju sem ber þef af Halldóri Ásgrímssyni og fjósaflokki hans. Ég er gamall mótorhjólamaður og á enn mitt hjól og er stoltur af og ég hef kynnst þessum erlendu mótorhjólamönnum sem fá Framsóknarmaddömuna til að missa hland um leið og þeir birtast. Mín kynni af mótorhjólamönnum í Noregi eru þau að þar fer hið besta fólk sem ég gæti treyst fyrir bréfi á milli bæja hvenær sem væri.

Nú, þremur árum síðar, hefur Magnús Þór áhyggjur af því að fólk sem hingað kemur erlendis frá sé berkaveikir glæpamenn og heimtar læknisvottorð og sakavottorð.

Gunnar Örn hefur þetta að segja: "Að þessum orðum Magnúsar dreg ég þá ályktun að Magnús Þór sé eingöngu að nota hina nýju stefnu Frjálslyndra til þess að bjarga þingmannsstarfi sínu." Þetta er mögnuð aðdróttun og árás á Magnús, Gunnar heldur því fram að Magnús sé ekki raunverulegur útlendingahatari en hann sé tilbúinn til þess að þykjast vera það til þess að fá að sitja á þingi í fjögur ár í viðbót. 


Dimmir yfir á ritstjórn Blaðsins

Prentsmiðja Moggans er sá aðili sem hagnast mest á þeirri grósku sem nú er í blaðaútgáfu á Íslandi. Þar eru prentuð öll þau blöð sem bæst hafa í fjölmiðlaflóruna undanfarnar vikur.

Eigandi prentsmiðjunnar er vitaskuld Árvakur,  sem gefur út Moggann og á helming í útgáfufélagi Blaðsins. Einnig er Viðskiptablaðið prentað í Hádegismóum, sem og Króníkan og í næstu viku aukast enn verkefni við Rauðavatn þegar farið verður að prenta DV þar daglega á ný. DV er sem kunnugt er í eigu aðaleigenda 365, sem eiga sjálfir Ísafoldarprentsmiðju en beina viðskiptum samt til Moggans. Kannski sé það vísbending um frekara samstarf Moggans og 365 á sviði prentunar og dreifingar.

Og líklega er það vegna væntanlegrar prentunar DV sem dagblaðs sem blaðamenn Blaðsins voru sviptir útsýninu góða í vinnunni í gær.  Þannig er að ritstjórn Blaðsins er staðsett í sama húsi og prentsmiðjan og hafa blaðamenn getað horft ofan í prentsmiðjusalinn í gegnum glugga. En ekki lengur, í gær mættu þangað menn með dökkar filmur og límdu í gluggann til þess að koma í veg fyrir að blaðamenn Blaðsins geti séð það sem verið er að prenta í salnum. Ætli Sigurjón M. Egilsson, ritstjóri DV, sem áður var ritstjóri Blaðsins, hafi sett þetta sem skilyrði fyrir viðskiptum við prentsmiðju Moggans?


Orkuvinadeildin í VG er stærri en ég hélt

Viti menn, Steingrímur J. Sigfússon, er ekki eini áhrifamaðurinn í VG, sem lýst hefur stuðningi við virkjanir, Tryggvi Friðjónsson, fyrrverandi gjaldkeri flokksins og fulltrúi í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur er líka áhugasamur um orkunýtingu, og stóð að og studdi orkusölusamning OR við Alcan vegna stækkunar í Straumsvík.

Þessi frétt var í Mogganum 1. júlí 2005 undir fyrirsögninni Styður samkomulagið við Alcan:

TRYGGVI Friðjónsson, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, segist styðja samkomulag, um að Alcan kaupi af Orkuveitunni 200 MW af raforku vegna hugsanlegrar stækkunar álversins í Straumsvík. Fulltrúar Alcan á Íslandi og OR skrifuðu undir samkomulagið í fyrradag.

Tryggvi segir það rétt að Vinstri grænir hafi haft efasemdir um áframhaldandi álversuppbyggingu. "Við settum fram ákveðnar efasemdir um álver í Helguvík," sagði hann, "og ég tel eðlilegt að fjallað verði um áframhaldandi aðild Orkuveitunnar að orkuöflun til stóriðju, í viðræðunum um framtíð R-listans."

Hann bendir hins vegar á að í Straumsvík sé þegar búið að reisa álver og að umrætt samkomulag snúist um stækkun á því álveri. Á því sé því ákveðinn stigsmunur, þ.e. að reisa nýtt álver og að stækka álver. "Það er líka mikilvægt að gæta meðalhófs í öllum ákvörðunum. Ég tel því rétt að standa að þessu verkefni," segir hann.


Veit það ekki

Ég var að glugga í hleranaskýrsluna loksins og varð undrandi að sjá þess hvergi getið að könnuð hefði verið dómabók Sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum til að sjá hvort úrskurðir um hleranir vegna öryggis ríkisins hefðu verið kveðnir upp við þann dómstól.

Líklega var Sakadómur í ávana- og fíkniefnamálum lagður niður í kringum 1991 við aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds en hann var stofnaður árið 1973, um svipað leyti og lögreglan í Reykjavík flutti í lögreglustöðina á Hverfisgötu.

Dómstóllinn var til húsa á 2. hæð lögreglustöðvarinnar, hinu megin við ganginn frá Útlendingaeftirlitinu og voru starfsmenn hans nánast hluti af starfsliði lögreglunnar. Í 6. grein laga um dómstólinn er dómsmálaráðherra veitt heimild til að ákveða að hann skuli gegna öðrum verkefnum en sérstaklega eru upp talin í lögunum, ef ég skil rétt.  Ákæruréttarfar var tekið upp í landinu árið 1976, nema í fíkniefnamálum, þar gilti rannsóknarréttarfar til ársins 1986, skv. þessu

Nú kann að vera að gögn sakadóms í ávana- og fíkniefnamálum séu að öllu leyti runnin saman við dómabækur Héraðsdóms Reykjavíkur, en mér þætti auðveldara að álykta um að engir úrskurðir um símhleranir vegna öryggis ríkisins hefðu verið kveðnir upp ef þess hefði verið sérstaklega getið í skýrslunni eða hún bæri með sér að dómabók SÁF hefði verið könnuð.


Steingrímur J. styður virkjanir í Þjórsá

Hver sagði þetta á Alþingi, 22. nóvember, 2005?

Neðri virkjanirnar í Þjórsá eru mjög hagkvæmar vegna þess að þær nýta alla miðlunina sem fyrir er ofar í Þjórsársvæðinu. Núpavirkjun og síðan Urriðafossvirkjun eru að vísu ekki án umhverfisfórna. Það þarf vissulega að fara vel yfir það, en að breyttu breytanda eru þær mjög eðlilegur virkjunarkostur áður en menn ráðast í ný og óröskuð svæði

Alveg rétt, það var pólitískur leiðtogi umhverfissinna í landinu, Steingrímur J. Sigfússon.


Frjálslyndar staðreyndir - hryðjuverk og fíkniefni

"Gerir hv. þm. Sæunn Stefánsdóttir sér grein fyrir því að nú þegar er farið að handtaka á Keflavíkurflugvelli þekkta hryðjuverkamenn? (SæS: Það er einmitt þessi málflutningur.) Þú vilt fá sem sagt þekkta hryðjuverkamenn inn í landið? Þú vilt kannski bjóða þeim heim til þín?"

Valdimar Leó Friðriksson, þingmaður Frjálslynda flokksins, hefur orðið í umræðum á alþingi í síðustu viku. Hinn öflugi fréttamaður Sjónvarps, Brynja Þorgeirsdóttir, lét ekki nægja að spila þessar staðhæfingar Valdimars í Sjónvarpinu sama kvöld heldur hringdi í Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóra á Suðurnesjum og spurði hvort rétt væri að þekktir hryðjuverkamenn hefðu verið handteknir á Keflavíkurflugvelli.  Sæta þessi vinnubrögð Brynju - að staðreyna sjálf mörk staðreynda og fleipurs - nokkrum tíðindum í pólitískri fréttamennsku á Íslandi í seinni tíð. Í ljós kom að Valdimar fór þarna með fleipur, engir þekktir hryðjuverkamenn hafa verið handteknir á Keflavíkurflugvelli, svo að yfirmanni lögreglunnar á staðnum undanfarin ár sé kunnugt um.

Nú í morgun fylgdist ég með því í beinni útsendingu við upphaf þingfundar þegar Guðjón Ólafur Jónsson fór í ræðustól Alþingis til þess að kalla eftir því að Valdimar útskýrði nánar þessar staðhæfingar sínar um handtöku þekkta hryðjuverkamanna, eða drægi þær til baka og bæði Sæunni Stefánsdóttur, þingmann afsökunar á því að hafa vænt hana um að vilja fá þekkta hryðjuverkamenn inn í landið.

Valdimar svaraði engu en þess í stað kom upp Magnús Þór Hafsteinsson, varaformaður Frjálslyndra, og sá var nú ekki á þeim buxunum að gefast upp eða biðja afsökunar. Hann hafði réttlætingar á orðum Valdimars á reiðum höndum. Réttlætingin var þessi: Valdimar var að tala um fíkniefnasmyglara þegar hann talaði um þekkta hryðjuverkamenn. Valdimar og frjálslyndum er svo illa við fíkniefni að þeir kalla þá hryðjuverkamenn.  Reynið nú að lesa þennan texta hér að ofan aftur og koma þeirri túlkun heim og saman.


Orð dagsins

Gunnar Örn Örlygsson skrifar sitt pólitíska Opus magnum í Moggann í dag. Hann er sem kunnugt er sá þingmaður sem yfirgaf skiptistöð frjálslyndra og fór í Sjálfstæðisflokkinn með fúkyrðaflaum fyrrverandi félaga sinna á eftir sér. Síðan hafa komið á skiptistöðina Valdimar L. Friðriksson frá Samfylkingu og Kristinn H. Gunnarsson frá Framsóknarflokki og áður Alþýðubandalagi. Grein Gunnars Arnar er fyrst og fremst gagnrýni á Magnús Þór en Guðjón Arnar fær það líka óþvegið.:

Guðjón Arnar hefur að mínu mati brugðist sem formaður og leiðtogi stjórnmálaafls. Sem áhorfanda þótti mér með ólíkindum að horfa á manninn snúa baki við Margréti Sverrisdóttur og styðja títtnefndan Magnús Þór sérstaklega. Sú ágæta kona hefur skrifað niður ræður og reimað skóna fyrir gamla skipstjórann í hartnær áratug.


10 dagar - pólitísk eilífð

Mér finnst gaman að klisjunni um að vika sé langur tími í pólitík. En tíu dagar, það er heil pólitísk eilífð, amk í lífi Ingibjargar Sólrúnar. Mér finnst stundum að hún mætti temja sér meira af staðfestu og samkvæmni Össurar Skarphéðinssonar.

27. janúar sl. var Ingibjörg á aðalfundi Samfylkingarfélags Reykjavíkur, ræddi stækkun í Straumsvík og sagði þetta:

Þetta er þeirra bær og þetta er þeirra ákvörðun. Og það er ekki við hæfi að ég taki afstöðu til þess hvað Hafnfirðingar eigi að gera í því sambandi.

6. febrúar var Ingibjörg á Alþingi og enn að ræða um Straumsvík en nú sagði hún þetta:  

Og ég tel að til þess að við getum náð utan um þetta tekið raunverulega í taumana að þá þurfi að fresta þeim stóriðjuframkvæmdum sem nú eru fyrirhugaðar á næstu árum og þá er ég auðvitað að vísa til áforma um stækkunina í Straumsvík og álver í Helguvík.

Mig minnir að það hafi verið suðlægar áttir fyrri daginn en norðlægar þann seinni. Ég veit ekki hvort það skýrir eitthvað en vildi halda því til haga í þessu sambandi.


Engin Héðinsfjarðargöng

Ég samgleðst Vestfirðingum með það að ráðast eigi í gerð jarðganga milli Bolungarvíkur og Hnífsdals og leggja þannig af hinn fáránlega veg um Óshlíð.

Það liggja fyrir alls konar matsgerðir um það að Óshlíðarvegur er sá hættulegasti á landinu, þar aka um 600 bílar á dag og allir með lífið í lúkunum, grjóthrun og snjóskriður daglegt brauð þótt aldrei sé um það skrifað nema eitthvert tjón verði. Þetta eru engin Héðinsfjarðargöng.


mbl.is Bæjarstjórnir fagna jarðgangaákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vondar fréttir - góð kvikmynd

Bestu rökin gegn auknum umsvifum álfyrirtækja á Íslandi þykja mér vera þau sem byggjast á því að það sé varasamt að afhenda sárafáum erlendum stórfyrirtækjum of sterk ítök í okkar örsmáa hagkerfi og samfélagi

Þess vegna fölna ég þegar ég les fréttir um að Rio Tinto Zink - af öllum fyrirtækjum - sé að undirbúa yfirtöku á Alcoa, fyrirtækinu sem á Fjarðarál og hefur áform um álversuppbyggingu á Bakka við Húsavík. Fjörutíu milljarðar bandaríkjadala er verðið sem rætt er um í þessu samhengi og það er svona þrisvar sinnum landsframleiðslan á Íslandi, þetta eina fyrirtæki er stærð sem íslenskt þjóðfélag á ekki séns í.

Alcoa og Rio Tinto eiga sér margvíslega sögu í ýmsum löndum heims, þau eru gríðarlega öflug og sagan sýnir að það getur kostað sitt fyrir litlar ríkisstjórnir að lenda upp á kant við þau, vegna þess að bandaríkjastjórn hefur margsinnis beitt pólitískum áhrifum og aðgerðum til að takamarka getu ríkja til þess að setja þessum stórfyrirtækjum stólinn fyrir dyrnar. Og bæði fyrirtækin eru í nánum tengslum við þau öfl sem nú hafa tögl og hagldir í bandarísku stjórnmálalífi. Þau öfl eru t.d. ekki mjög hrifin af "meginreglum umhverfisréttarins."

Sem stendur eru þrjú erlend fyrirtæki í álframleiðslu á Íslandi, Alcoa, Alcan og Century. Það síðastnefnda stendur víst ekkert of vel og maður hefur lengi heyrt talað um að þar kunni að verða breytingar á eignarhaldi. Líklegustu kaupendurnir eru þá aðrir álframleiðendur á Íslandi. Og það er raunveruleiki að við getum með engu móti komið í veg fyrir að eignarhald álfyrirtækja hér á landi þjappist svo saman öll framleiðsla áls á Íslandi komist í raun og veru á hendur eins og sama fyrirtækisins, sem hafi þá hreðjatak á íslensku efnahagslífi. Sagan sýnir að alþjóðleg stórfyrirtæki eins og Rio Tinto nota sér slík hreðjatök til hins ítrasta.

Í tilefni af þessum fréttum set ég hér inn í boði Google og í tveimur hlutum heimildarmyndina The Corporation, eina bestu mynd sem ég hef séð hin síðari ár. Hún er líka til úti á vídeóleigu. Enginn áhugamaður um uppbyggingu í atvinnulífinu ætti að láta hana fram hjá sér fara.

 


 

 


 

 


Sextán ár

Ekki lái ég Birni Bjarnasyni að vilja helst að Sjálfstæðisflokkurinn fái að setjast í heilbrigðisráðuneytið í næstu ríkisstjórn. Þótt það nú væri að hann vildi það, það mundi ég örugglega vilja ef ég teldi að markaðslausnir væru rétta leiðin í heilbrigðismálum. Það tel ég hins vegar ekki en það eru miklar líkur á að Birni verði að ósk sinni og að Sjálfstæðismenn fái heilbrigðisráðuneytið í stjórninni sem þeir ætla að mynda með Samfylkingunni eftir kosningar. Svo óska ég Birni góðs og skjóts bata þar sem hann liggur á Landsspítalanum. Hann er hinn eini sanni ofurbloggari landsins og bætir enn fjöður í blogghattinn með því að skrifa sem aldrei fyrr af sjúkrabeði sínu.

En ég segi eins og Björn Ingi að ég mundi gjarnan vilja að það færi t.d. framsóknarmaður í menntamálaráðuneytið, án þess að það sé gagnrýni á þann sem nú situr þar fyrir eða aðra þá sjálfstæðismenn sem setið hafa undanfarin sextán ár, og ekki síður væri ég áhugasamur um að fá góðan framsóknarmann í dómsmálaráðuneytið. Þar þarf nú aldeilis að taka til hendinni, þykir mér, með fullri virðingu fyrir ýmsum þeim góðu verkum sem þar hafa verið unnin.

Það er til dæmis þetta með fangelsismálin, það er enn ekki búið að byggja nýtt fangelsi á höfuðborgarsvæðinu og þess vegna er komið í tómt óefni. Það er búið að þyngja svo dóma í fíkniefnamálum að sá vandaði embættismaður sem veitir forstöðu Fangelsismálastofnun telur ekki aðra lausn tæka en að láta barnaníðinga afplána dóma á áfangaheimili Verndar, það er bara ekki til fangelsispláss undir alla glæpamennina. Öðrum hefur verið vísað í afplánun í Byrginu, á Vog og víðar, vegna þess að ekkert var plássið í fangelsinu, þar þurfti að koma fyrir fíklum með sjö til tíu ára dóma fyrir að smygla inn e-töflum. Forgangsröðunin er sú að dæma þungt í fíkniefnamálum en taka t.d. vægar á brotum gegn börnum og ofbeldisbrotum. Ég er ekki ánægður með það. Hins vegar hefur miklu fé verið varið til að byggja upp embætti Ríkislögreglustjóra með þeim afleiðingum sem við blasa.

Og er ekki eitthvað að viðhorfum í lögreglustofnunum þegar menn bregðast við eins og sýslumaður á Selfossi, sem segist ekkert geta rannsakað mál kvennanna tíu sem talið er að hafi verið barnaðar af starfsmönnum Byrgisins nema þær gefi sig sjálfar fram? Er það ekki hægur vandi fyrir sýslumanninn að fá heimild til að kanna gögn og afla þannig upplýsinga um hvaða konur hafa verið í Byrginu og hverjar þeirra hafa eignast börn síðan og rekja sig þannig áfram eftir málinu, sem snýst um kynferðisbrot gegn skjólstæðingum heimilisins sem rekið var með tilstyrk hins opinbera? Er þetta það viðhorf sem skila mun árangri í þessari rannsókn?

Má ég biðja um aðeins meira af einurðinni sem birtist í Baugsmálinu í þessari Byrgisrannsókn, samt ekki meira en hálfan skammt, takk. Ég trúi ekki öðru en allar lögheimildir séu til staðar, en ef það er svo að lögregla hefur ekki þær heimildir sem þarf til að rannsaka þessi mál og að nota tálbeitur á barnaníðinga, á auðvitað löngu að vera búið að útvega henni þær heimildir.

Svo er það Hæstiréttur, ef ekki verður breyting stefnir í það að dómsmálaráðherrar  Sjálfstæðisflokksins hafi skipað alla níu dómara Hæstaréttar í embætti, það finnst mér ekki ganga og reyndar fyllsta tilefni til að tryggja aðkomu annarra en dómsmálaráðherra eins að skipun dómara í réttinn.

Þannig að ég er sammála Birni um að það er rétt að gera breytingar á pólitískri forystu í ráðuneytum oft og reglulega, ég tala nú ekki um ráðuneyti eins og dómsmálaráðuneyti og menntamálaráðuneyti, sem hafa verið í höndum sjálfstæðismanna í 16 ár samfleytt, líka samgönguráðuneytið. 


Jamm og já

Ég neita því ekki að það voru vondar fréttir að sjá 3,9% fylgi framsóknar  í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins. Og ég ætla ekki að gera lítið úr því að staðan er ekki góð og nenni ekki að eyða tíma í að tala um aðferðarfræði könnunarinnar og svo framvegis. En í sporum Jóns Kaldal, ritstjóra Fréttablaðsins, hefði ég beðið eftir annarri könnun, sem sýndi svipaða niðurstöðu, áður en ég skrifaði leiðara um útrýmingarhættu framsóknar. Verst að þetta er líklega síðasta skoðanakönnunin sem birtist í febrúarmánuði eða þangað til þjóðarpúls Gallup kemur um næstu mánaðamót. Þannig að það versta við hana er að hefur möguleika á að móta umræðuna býsna lengi, þótt hún víki mjög frá öðrum nýlegum könnunum..

Ég minni á að um 12.000 manns eru skráðir félagar í Framsóknarflokknum og að við síðustu sveitarstjórnarkosningar var 216.191 kjósandi á kjörskrá. Það þýðir að um 5,5% kjósenda eru flokksbundnir framsóknarmenn og ég ætla að leyfa mér að trúa því að hið mögulega gólf liggi við þá tölu, jafnvel þótt flokksskráin sé hugsanlega ofmetin um 10-20%. Og í raun er erfitt að sjá fyrir sér að fylgið verði mikið undir því sem svarar til tveggja atkvæða á hvern skráðan flokksmann, eða 10-11%. Kemur í ljós.

En svo fagna ég því að ungir framsóknarmenn í Skagafirði hafa ályktað um það að framsókn eigi að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu eftir kosningar hvernig sem fer. Ég þekki einn framsóknarmann sem er í raun áhugasamur um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf. Ég ætla að leyfa honum að njóta nafnleyndar.


Athyglisvert

"Meginábyrgð á málefnum sem varða forsetaembættið hvílir þannig á forsætisráðherra, en ekki utanríkisráðherra eins og formaður utanríkismálanefndar virðist halda, sem og reyndar ritstjórar Fréttablaðsins og Morgunblaðsins."

Þetta stendur í athyglisverðum pistli á heimasíðu Framsóknarflokksins. Þar stendur ennfremur:

"Átti að freista þess að fá Framsóknarflokkinn með Valgerði Sverrisdóttur í broddi fylkingar til að taka slag, sem Sjálfstæðisflokkurinn þorir ekki að taka."


Egill að hætta á Stöð 2?

Það er athyglisvert að þessa daga, rétt áður en sjö vikna aðalmeðferð Baugsmálsins hefst í Héraðsdómi, gengur á með mikilli auglýsingaherferð til þess að plögga nýjan síðdegisþátt Jóhanns Haukssonar á Útvarpi Sögu á sunnudögum, á sama tíma og Silfur Egils er á Stöð 2.

Nýi síðdegisþátturinn hans Jóa Hauks verður í boði DV og því er greinilegt að Baugsveldið telur nauðsynlegt að tefla fram nýjum þætti gegn Silfri Egils, og virðist hugsaður til að fá það fólk sem er að horfa á Silfur Egils milli kl. 12.30 og 14.00 á sunnudögum til þess að gera eitthvað annað, nánar tiltekið að hlusta á Jóa Hauks.

Ég tók eftir því um daginn að Kastjósið hélt upp á samþykkt nýrra laga um Ríkisútvarpið með því að fá Egil Helgason til þess að tala um fréttir vikunnar og þá fór ég að velta því fyrir mér hvort það geti verið að Silfur Egils heyri senn sögunni til á Stöð 2? Ég held ég láti mig bara hafa það að spá því að  svo sé og að næsta haust muni Egill fara í loftið með nýjan þátt hjá Páli Magnússyni og félögum á RÚV. Ég held að báðum líði illa í sambúðinni núna, Agli hjá 365, og þeim Baugsmönnum, sem treysta Agli ekki almennilega til þess að virða húsaga og hafa ástæðu til.


Óákveðnir eiga leikinn

Enn eru óákveðnir með pálmann í höndunum í skoðanakönnun Fréttablaðsins, þar sem um 45% svarenda gefa sig ekki upp, þegar hringt er í þá, svörin byggjast því á afstöðu um 400 manna um land allt og vikmörkin há. Það er ástæða til þess að halda því til haga sem sagt var hér og hér og hér um skoðanakönnun Blaðsins í síðustu viku og hér í gær því allt á það með sama hætti við í dag og það átti þegar skoðanakönnun Blaðsins var kynnt sl. þriðjudag. En af hverju ætli blöðin þeir sem standa fyrir símaskrárkönnunum birti ekki vikmörk, maður verður að treysta á að Einar Mar reikni þau út og birti líkt og hann gerði eftir könnun Blaðsins.


Hroki dagsins

Í þriðja skipti á skömmum tíma talar Mogginn í ritstjórnargreinum niður til Margrétar Sverrisdóttur með því að kalla hana unga konu. Það er í Reykjavíkurbréfinu í dag, þar sem það er rætt um hvað það sé ósanngjarnt að beina til hennar stórum og erfiðum spurningum.

Þetta er aðallega drepfyndið en undir liggur hrokinn. Margrét er 48 ára, og það er sama hvaða mælikvarði er á það tekinn, hún er hvergi unga konan, nema þegar hún er í heimsókn á elliheimilinu Grund eða þegar hún er að tala við ritstjóra Moggans.

Nú ætla ég alls ekki að gerast einhver talsmaður Margrétar en langar að koma á framfæri nokkrum ábendingum fyrir ritstjóra Moggans gamla.  Margrét er:

1. Jafnaldri Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, sem hefur setið á þingi í 16 ár. Hvað er langt síðan hann var kallaður ungi maðurinn í Mogganum?
2. Var 21 árs þegar Birkir Jón Jónsson fæddist og 19 ára þegar Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingarinnar fæddist, og gæti því hæglega verið mamma þeirra beggja.
3. Ári yngri en Ásta Möller og Jónína Ben.
4. Þremur árum yngri en Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra.
5. Fjórum árum yngri en Ingibjörg Sólrún.
6. Fjórum árum eldri en Siv Friðleifsdóttir.
7. Sjö árum eldri en Þórunn Sveinbjarnardóttir.
8. Sjö árum eldri en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
9. Tíu árum yngri en Davíð Oddsson, og þess vegna er Margrét núna jafngömul og Davíð Oddsson var þegar hann hafði verið forsætisráðherra í sex ár og liðin voru 15 ár frá því að hann tók við embætti borgarstjóra.
10. Þremur árum yngri en Steingrímur J. Sigfússon.


Fréttablaðið kannar skoðanir

Fréttablaðið hefur gert skoðanakönnun í dag, spurt um fylgi við flokkana, traust á stjórnmálamönnum og fleira.

Hingað til hefur Fréttablaðið gert kannanir með um 800 manna úrtaki og þannig hafa þær að öllu leyti sambærileg við þær kannanir sem Fréttablaðið hefur gert undanfarin ár, DV þar á undan árum saman og Blaðið gerði í fyrsta skipti í síðustu viku. Einhverjir voru að gagnrýna það að niðurstöður könnunar Blaðsins hefðu aðeins birtst á svörum um 350 manna en það er bara ekkert nýtt við það, það er algengur fjöldi þeirra sem hafa gefið sig upp í þessum könnunum blaðanna allra undanfarin ár og áratugi. Þetta hefur oft og iðulega verið gagnrýnt en aldrei hefur gagnrýnin þó verið jafnhávær og eftir að könnun Blaðsins sýndi að fleiri gáfu sig upp sem stuðningsmenn VG en Samfylkingarinnar.

Þess vegna verður fróðlegt að sjá hvort Fréttablaðið heldur ekki bara sínu striki með stærð úrtaksins eða hvort það bregst við þeirri hörðu gagnrýni sem fram kom á aðferðafræðina í liðinni viku með einhverjum hætti, eins og þeim að stækka úrtalið.

Það er svo athyglisvert við þessa könnun að hún er gerð sama daginn og kosningabaráttan hefst eiginlega formlega með birtingu auglýsingar frá Samfylkingunni í Blaðinu í dag. 


Engir landsleikir, 100 milljóna hagnaður?!?

Merkileg frétt á íþróttasíðum Fréttablaðsins í dag þar sem gagnrýnt er verkefnaleysi karlalandsliðs KSÍ og sú staðreynd að jafnvel Lichtenstein fær þrisvar sinnum fleiri æfingaleiki en karlalandslið Íslands. Á sama tíma kemur fram að KSÍ skilaði um 100 milljóna króna hagnaði á síðasta ári. Mér finnst þetta segja eitthvað um störf þeirra sem hafa undanfarin ár verið í forystu KSÍ hér á landi og hafa nánast afhent fjármálamarkaðnum knattspyrnuhreyfinguna á silfurfati.

Viljum við Landsbankaliðið sem spilar helst ekki fótbolta en safnar fullt af peningum?

Fréttablaðið segir líka að Halla Gunnarsdóttir hafi ekki nema um 4% stuðning  við framboð sitt á þingi KSÍ en ég held að þessi hreyfing hefði gott af ferskum vindum eins og þeim sem henni fylgja.


Þjóðlegur fróðleikur: JBH gagnrýnir samherja fyrir áróður

Eru menn ekki í skapi fyrir þjóðlegan fróðleik í dag? Til dæmis upprifjun á málum sem sem helst settu svip á umræður í þjóðfélaginu í aðdraganda alþingiskosninganna 1991. Þar kemur m.a. við sögu gagnrýni Jóns Baldvins á samherja sína í ríkisstjórn og auglýsingabæklingar sem dreift var inn á hvert heimili í landinu.

Alþýðubandalagsmenn sátu þá í ríkisstjórn með Alþýðuflokkinum og Framsókn í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, þeirri sem kom hér á þjóðarsáttinni sem gaf okkur blessaðan stöðugleikann, Ólafur Ragnar var fjármálaráðherra, Svavar Gestsson menntamálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon samgöngu- og landbúnaðarráðherra, Jón Baldvin kom við í utanríkisráðuneytinu milli tíðra flugferða til og frá landinu.

Pálmi Jónasson, fréttamaður á RÚV, hefur skrifað bók um Ólaf Ragnar, forseta vorn, sem er skemmtilegt að blaða í. Þar kemur fram að í aðdraganda alþingiskosninganna vorið 1991 var mikið rætt í þjóðfélaginu um áróðursbæklinga sem ráðherrar Alþýðubandalagsins gáfu út á kostnað almennings og miðluðu til almennings.  Jón Baldvin Hannibalsson hjólaði í félaga sína í ríkisstjórn fyrir þetta háttarlag og stjórnarandstæðingarnir í Sjálfstæðislfokknum drógu ekki af sér. Ólafur Ragnar, Svavar og Steingrímur J. sögðu gagnrýnina fjarstæðu, þeir væru eingöngu að koma nauðsynlegum upplýsingum á framfæri við almenning. 

Mest var deilt um bækling sem Ólafur Ragnar fjármálaráðherra lét litprenta í 82.000 eintökum og dreifa inn á hvert heimili í landinu. Þar var fjallað um stöðu ríkisfjármála. Eins og fram kom hér nýlega eyddi Ólafur Ragnar 75,1 milljón í auglýsingar og kynningu á verkum sínum síðustu sextán mánuðina fyrir kosningarnar 1991. Einnig var Svavar Gestsson gagnrýndur fyrir bækling um námslán og umfangsmiklar blaðaauglýsingar um nýtt grunnskólafrumvarp. Ekki slapp Steingrímur J. við gagnrýni heldur. Það var ekki bara Sjálfstæðisflokkurinn sem var hávær í gagnrýni sinni á þetta og fjölmiðlar eins og DV heldur ofbauð Jóni Baldvin þetta gjörsamlega og tók málið upp við forsætisráðherra, Steingrím Hermannsson. Kannski var það íframhaldi af þessu sem hann fór að tala við Davíð Oddsson um myndun Viðeyjarviðreisnarinnar, sem fram kom fyrir skömmu, að hafði í raun verið myndið fyrir kosningar, ef ég man rétt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband