24.3.2007 | 00:27
Gunnar Smári ræðst til atlögu í Boston 17. apríl
Svo er að sjá sem útrás Gunnars Smára í Vesturheimi hefjist formlega þann 17. apríl næstkomandi þegar áformað er að blaðið BostonNOW hefji göngu sína í Boston. Ritstjóri Blaðsins heitir John Wilpers og hann bloggar í gríð og erg hér um áformin. Planið er að byggja á hugmyndafræði citizen journalism, gera bloggi og samvinnu bloggara og blaðamanna hátt undir höfði í þessu fríblaði. Ritstjórinn ræðir þó um að mörgum spurningum sé enn ósvarað. Boston Herald skrifaði nýlega um áformin.
Óneitanlega merkilegt að Baugur virðist ætla að leggja í þetta ævintýri á nýjum markaði, miðað við afkomutölur fjölmiðla fyrirtækisins hér og þá óvissu sem einkennir rekstur Nyhedsavisen í Danmörku.
Fríblaðamarkaður er vanþróaðri í Bandaríkjunum en í Evrópu en vestanhafs eru menn hins vegar komnir mun lengra en Evrópumenn í því að útfæra þá möguleika sem felast í citizen journalism vegna gagnvirkni og nándar milli bloggara og lesenda þeirra sem taka þátt í og aðstoða við efnisöflun með virkum hætti.
Í því sambandi stenst ég ekki mátið að halda því til haga að fari svo að Alberto Gonzales, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segi af sér á næstunni vegna hneykslis um pólitískan brottrekstur alríkissaksóknara, verður það ekki síst vegna þess að Josh Marshall og félagar hans á Talking Points Memo hafa haldið héldu málinu gangandi og vöktu á því athygli.. Þeir gerðu hneykslismál á landsvísu úr átta lókalmálum, sem virtust ótengd, með dyggri þátttöku og aðstoð við upplýsingaöflun frá lesendum um gjörvöll Bandaríkin eins og lesa má um hér og hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.3.2007 | 22:25
Hallgrímur kyssir Bláu höndina
Hallgrímur Helgason, rithöfundur og áhrifamaður í Samfylkingunni, er höfundur hugtaksins Bláu handarinnar. Í ritsmíðum Hallgríms skildist manni að höndin sú iðkaði hér ógnarstjórn í skjóli Sjálfstæðisflokksins og slægi menn leiftursnöggt í höfuðið þegar þeir villtust af leið. Þess vegna varð ég gapandi hissa þegar ég horfði á Hallgrím ræða tíðindi vikunnar ásamt Helgu Sigrúnu Harðardóttur. Hallgrímur notaði mikinn tíma til að tala um nauðsyn þess að koma framsókn frá völdum en nefndi ekkert Sjálfstæðisflokkinn.
Það er tvennt í þessu; annað hvort vill Hallgrímur vinna það til þess að Samfylkingin komist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að kyssa Bláu höndina og halda henni við völd eða hann er tilbúinn að viðurkenna að hún var aldrei neitt annað en ósvífinn hugarburður.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.3.2007 | 12:05
Ónefndur maður hafði rétt fyrir sér
Ónefndur maður sagði mér í gær að Davíð Oddsson ætti eftir að taka það nærri sér að lesa slúðurmola í Fréttablaðinu í gær þar sem sögð var í slúðurdálki á leiðarasíðu saga eftir Davíð um þá feðga Árna og Matthías Mathiesen. Sagan var þeim ekki til vegsauka, sérstaklega ekki Árna fjármálaráðherra. Ég yppti öxlum og fannst þetta eins og hver annar slúðurmoli, Davíð hefði lesið svona þúsund sinnum um sjálfan sig og væri orðinn bólusettur fyrir þessu kvaki, taldi ég. En ónefndi maðurinn reyndist hafa rétt fyrir sér enda kann hann vel að lesa innyfli Sjálfstæðisflokksins.
Það kom í ljós þegar Mogginn var opnaður. Á einni helstu fréttasíðu blaðsins er yfirlýsing frá Davíð Oddssyni í ramma með mynd, undir fyrirsögninni "Ku". Þar lætur Davíð vaða í Fréttablaðið af miklum þunga og skýtur föstum skotum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Davíð talar af lítilsvirðingu um Fréttablaðið og Baugsmiðlana en ef einhver hélt að afstaða hans hefði mildast við það að Þorsteinn Pálsson, varð ritstjóri þá er nú ljóst að svo var ekki. Orðfæri Davíðs í garð Baugsmiðlanna er hið sama og áður. Davíð segir:
Lesendur höfðu skilið það svo að gert væri ráð fyrir að lítt birtingarhæft efni yrði fremur haft í Dagblaðinu en Fréttablaðinu, þar sem því síðara er troðið inn á heimili fólks, sem ekkert vill hafa með það að gera og hefur jafnvel á því skömm. En nú virðist sem móðurfélagið hafi ákveðið að gera ekki upp á milli þessara barna sinna. Sjálfsagt getur verið af þessu hagræðing sem er reynandi, ef margvísleg hagræðing á sannleikanum hefur ekki skilað þeim fjárhagslega árangri sem að var stefnt.
Nú veit ég ekki hver var heimildarmaður Svanborgar Sigmarsdóttur fyrir sögunni dýru um Mathiesenfeðga og Davíð en ónefndi maðurinn sagði birtingu á þessu mola í blaði Þorsteins þrungna merkingu í innanflokksfræðunum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort Þorsteinn kemur Svanborgu jafnrösklega til varnar og Mogginn gerði þegar Ingibjörg Sólrún og Össur gagnrýndu skrif Agnesar á dögunum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.3.2007 | 20:45
Íþróttafréttir og pólitík
Ég er nokkuð viss um að aldrei hafa jafnmargir núverandi og fyrrverandi íþróttafréttamenn verið í framboði til Alþingis og nú. Tveir þeirra eru leiðtogar sinna flokka.
Steingrímur J. kom fram á sjónarsviðið sem íþróttafréttamaður á Ríkissjónvarpinu. Þá var sjónvarpið ennþá lokað í júlí, sjónvarpslaust á fimmtudögum en líklega var farið að senda út í lit. Ómar Ragnarsson var landsþekktur löngu áður en hann fór að flytja svarthvítar íþróttafréttir í sjónvarpi og nú er hann orðinn pólitískur leiðtogi, eða amk leiðtogaefni. Samúel Örn Erlingsson er svo í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kraganum.
Það má örugglega draga einhverjar merkilegar ályktanir um íslenska pólitík af pólitískum frama þriggja úr þeim fámenna hópi sem unnið hefur við að flytja íþróttafréttir í sjónvarpi. Ég ætla að eftirláta öðrum að fílósófera um það.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
22.3.2007 | 11:01
Norðurljós og drykkjarvatn
Fyrir síðustu kosningar voru Vinstri græn gagnrýnd fyrir að þau hefðu enga atvinnustefnu, töluðu bara um að fólk ætti að gera eitthvað annað. Þegar gengið var á þau einhverju sinni nefndi Kolbrún Halldórsdóttir (minnir mig) að miklir möguleikar væru í fjallagrasatínslu á hálendinu. Það var mikið hlegið að þessu og VG sárnaði óskaplega. Ég held að það hafi verið í samræðum um þetta í lókalsjónvarpinu á Akureyri sem Steingrímur sagði Valgerði Sverrisdóttur að þegja. Þetta hefur verið snöggur blettur á VG, einn af nokkrum. Nú er ítarlegri atvinnustefna flokksins loksins komin fram, ég horfði á hana kynnta á myndbandi, sem frumsýnt var á Iðnþingi í síðustu viku.
Þar var Steingrímur J. Sigfússon, einn álitsgjafa sem brást við frábæru erindi Víglundar Þorsteinssonar. Ég hvet alla til að lesa erindi Víglundar og á sömu síðu má lesa frábært erindi sem Þorsteinn Pálsson hélt um Evrópumál við þetta tækifæri. Þessir aðalleikarar í umræðum í þjóðfélaginu fyrir 20 árum eða svo hafa margt fram að færa. Efnahagslífið er betra en þá en þjóðfélagsumræðan áreiðanlega verri. En þetta var útúrdúr, ég ætlaði að segja frá atvinnustefnu VG, sem kynnt var á Iðnþingi.
Í myndbandinu talar Steingrímur J. Sigfússon um mikilvægi þess að stöðva hér hjól efnahagslífsins og þróun þeirra atvinnugreina sem starfa í framsöguhætti nútíðar. Þess í stað eigi menn í viðtengingarhætti framtíðar að bíða þess að ýmislegt annað gerist. Hann tekur dæmi um hvað hér muni knýja áfram efnahagslífið í framtíðinni. Og hann nefnir ekki fjallagrösin. Nei, hann talar um útflutning á drykkjarvatni. Og hann telur mikla tekjumöguleika fólgna í því að selja ferðamönnum aðgang að Norðurljósunum.
Nú geri ég ekki þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir búi til störf, heldur að þeir skapi skilyrði sem aðrir geta nýtt sér til nýsköpunar í atvinnuvinnulífi. En þegar menn hafna þeirri stefnu sem fylgt er er eðlilegt að þeir séu beðnir að benda á valkosti. Steingrímur tók þetta próf á Iðnþinginu. Hann talaði ekki um fjallagrös, heldur um Norðurljós og drykkjarvatn. Þannig er það, hin þríþætta atvinnustefna; drykkjarvatn, Norðurljós, og fjallagrösin að auki. Og svo eitthvað annað, það eru miklir möguleikar fólgnir í því. Svo miklir, að það er best að hætta því sem gengur vel hér og nú. Þetta er næsti forsætisráðherra landsins, segja margir. Besti kosturinn í augum fjórðungs þjóðarinnar. Jamm.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
21.3.2007 | 17:02
Framtíðin og landið og fleira
Einar Már Sigurðarson, Helgi Hjörvar, Kristján L. Möller og Lúðvík Bergvinsson eru þeir einu meðal þingmanna Samfylkingarinnar sem stefna að endurkjöri, sem enn hafa ekki undirritað sáttmálann Framtíðarlandsins. Kannski þeim finnist að þingmenn eigi bara að halda sig við ákvæði stjórnarskrárinnar um að þeir séu eingöngu bundnir af samvisku sinni og eigi ekki að sverja öðrum en henni hollustueiða.
Þingmannsefni Samfylkingarinnar, þau Guðbjartur Hannesson, Karl V. Matthíasson, Lára Stefánsdótir, Gunnar Svavarsson og Róbert Marshall hafa enn ekki látið undan þrýstingnum. Það hafa þau hins vegar gert, Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna, Mörður, Ágúst Ólafur, Ásta Ragnheiður, Katrín Júl., Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Mér sýnist Jónína Bjartmars vera eini þingmaður eða þingmannsefni stjórnarflokkanna sem skráð hefur sig á listann.
Athygli vekur að nöfn þekktra fréttamanna, sem fjalla mikið um stjórnmál og deilur um virkjanamál, er að finna meðal þeirra 4,709 sem nú hafa undirritað sáttmála Framtíðarlandsins. Þeirra á meðal eru Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, og Björg Eva Erlendsdóttir, formaður Félags fréttamanna.
Athyglisverð umræða hefur farið fram um fjármögnun hins mikla átaks Framtíðarlandsins hér á blogginu og þann mikla kraft sem einkennir söfnun undirskrifta á sáttmálann. Þar vísa ég sérstaklega til pistla Björns Inga, Árna Helgasonar og Andrésar Jónssonar.
Sáttmáli Framtíðarlandsins mun liggja frammi til undirritunar á vef samtakanna í 15 daga. Dæmi um velheppnaðar undirskriftasafnanir undanfarin ár er söfnun samtakanna Blátt áfram vegna fyrningar kynferðisbrota. Þar söfnuðust um 14.000 undirskriftir. Þá skrifuðu um 32.000 manns á undirskriftasöfnun sem fram fór vegna umdeildrar birtingar fréttar í DV snemma á síðasta ári.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
21.3.2007 | 15:47
Kjarni málsins
Davíð Logi kemur að kjarna málsins:
Mér finnst það persónulega talsverð óvirðing við þjáningu þess fólks, sem hefur mátt lifa hörmungarnar í Írak, að fara alltaf að tala um þessi Íraksmál eins og þau séu flokkspólitískt, íslenskt deilumál. Mál sem menn taka upp fyrir kosningar til að berja á ráðamönnunum, sem tóku þessa ákvörðun í óþökk þjóðarinnar. [...] Nema hvað. Eitt getur ný ríkisstjórn auðvitað gert, vilji hún sýna afstöðu sína til innrásarinnar í Írak. Hún getur kallað íslenska friðargæsluliðanna, sem er við störf í Bagdad á vegum NATO, frá Bagdad. Þetta væri sjálfsagt og eðlilegt, litu menn þannig á. Mikilvægt er samt að við tökum okkar ákvarðanir í þessum efnum með núverandi hagsmuni Íraka í huga, ekki með það í forgrunni að lýsa fyrirlitningu okkar á framgöngu Bandaríkjamanna eða Davíðs og Halldórs.
21.3.2007 | 11:15
Þegar stórt er spurt...
Nýjasti pistill Denna vekur upp athyglisverða pælingu. Ómar Ragnarsson er búinn að safna tilskyldum fjölda meðmælenda með framboði sem heitir Íslandsflokkurinn. Nú er rætt um að framboðið muni ekki heita Íslandsflokkurinn heldur Íslandshreyfingin.
Denni segir: "Í lögum um kosningar kemur fram að heiti framboðs þurfi að koma fram í haus meðmælendalista. Samkvæmt því er Íslandsflokkur ekki vinnuheiti, heldur nafn á framboði. Breyti Ómar og Margrét um nafn á flokknum eru undirskriftarlistarnir í raun ónýtt plagg, því eins og áður sagði þarf nafn framboðs, ekki vinnuheiti eða hugmynd, að koma fram á haus listans."
Kannski er þetta bara spurning um hvort einhver hreyfir andmælum eða ekki? Ef enginn hreyfir andmælum setur dómsmálaráðuneytið þetta kannski ekki fyrir sig en ef einhver andmælir formlega gætu Ómar og Margrét þurft að byrja upp á nýtt á undirskriftarsöfnuninni út af þessu formsatriði. Hreyfir einhver andmælum? Þegar stórt er spurt...
ps kl. 12.14: Annar flötur á framboðsmálum Ómars og Margrétar er sá sem Helga Vala bendir á í kommenti: Ísafjarðarlistinn fékk að nota listabókstafinn Í í síðustu sveitarstjórnarkosningum. Hvers vegna mega þá Ómar og Margrét ekki nota listabókstafinn Í í alþingiskosningum? Í RÚV í gær vísaði fulltrúi dómsmálaráðuneytisins í að það væri hefð fyrir því að nota ekki broddstafi (á,é,í,ó,ú,ý) í listabókstöfum en nú höfum við tæplega ársgamalt dæmi frá Ísafirði um notkun Í á Ísafirði. Ef ég man rétt er það svo að sveitarfélög og félagsmálaráðuneyti annast stjórnsýslu í sveitarstjórnarkosningum en dómsmálaráðuneyti í þingkosningum, en á samt að þurfa að breyta einhverju um atriði eins og þetta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.3.2007 | 10:57
Beðið eftir Jóni Ásgeiri
Í Fréttablaðinu í dag er sagt frá ræðu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar á aðalfundi 365 í gær. Þar segir:
Jón Ásgeir lagði áherslu á mikilvægi þess að fjölmiðlar væru óháðir eigendum sínum hvort sem þar færu kaupsýslumenn eða ríkisvald. Hann sagði að gera ætti kröfu um að ritstjórar og stjórnendur fréttastofa væru óháðir stjórnmálaöflum, hagsmunaaðilum eða fyrirtækjum, t.d. viðskiptabönkum. Fjárhagsleg staða ritstjóra, eignir þeirra í hlutabréfum, aðild þeirra að stjórnmálasamtökum eða öðrum félögum, verður að liggja fyrir. Krafan um gegnsæi á einnig að ná til ritstjóra.
Athyglisvert, ég sé ekki betur en Jón Ásgeir vilji gera meiri kröfur til ritstjóra dagblaða en gert er til viðskiptajöfra eins og hans sjálfs á verðbréfamarkaði, eða er gerð krafa um að hann upplýsi um persónulega fjárhagsstöðu sína? Auðvitað er Jóni Ásgeir í lófa lagið að hrinda þessu í framkvæmd gagnvart þeim ritstjórum sem starfa hjá fyrirtækjum hans. Maður hlýtur að ætla Kauphöllinni berist fljótlega svona upplýsingar um þá ágætu menn, annars er þetta bara eins og hvert annað blaður.
Í tilefni af þessu rifjaði góður maður upp fyrir mér grein sem Jón Ásgeir skrifaði í Moggann 7. janúar 2004 þar sem hann féllst á að hætta væri á því að fjölmiðlum væri misbeitt í þágu eigenda sinna. Þar stendur:
Fréttaflutningur ræður að mörgu leyti hvernig við skynjum það samfélag sem við búum í og hvaða skoðanir og viðhorf við höfum til ýmissa mála. Við eigum ekki kost á beinni snertingu við nema lítinn hluta samfélagsins en afganginn þekkjum við að miklu leyti af fréttum. Þótt ég treysti eigendum Fréttablaðsins, DV og Stöðvar 2 held ég að það væri til bóta að koma á kerfi sem tekur af allan vafa um hvort eignarhald hafi áhrif á fréttaflutning en leyfði um leið samfélaginu að njóta mestu hagræðingar í rekstri fyrirtækis til hagsbóta fyrir almenning.
Í greininni, sem vakti talsverða athygli, gerði Jón Ásgeir beinar tillögur um hvernig tryggja mætti frekar ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra þriggja fjölmiðla sem Baugur átti þá stærstan hlut í: Fréttablaðsins, DV og Stöðvar 2. Ein tillagan var þessi:
Stofnað verði fjölmiðlaráð sem vakir yfir fréttaflutningi fjölmiðlanna þriggja og gæti þess að hann sé innan hlutleysis- og réttlætismarka. Fjölmiðlaráðið yrði skipað þremur mönnum tilnefndum af félagasamtökum og óvilhöllum stofnunum; til dæmis Neytendasamtökunum, Háskóla Íslands og Blaðamannafélagi Íslands.
Hvað er að frétta af þessu máli? Jóni Ásgeir hefur alla tíð verið í lófa lagið að hrinda þessu í framkvæmd en hann hefur ekki gert það. Hvers vegna skyldi það vera?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.3.2007 | 17:39
Grunnnetið komið í leitirnar
Þegar Síminn var seldur fyrir ca. 2 árum þóttu öll tormerki á því að aðskilja rekstur grunnnetsins frá öðrum rekstri. Það var víst voðalega flókið að skilgreina hvað var grunnnet og hvað ekki. Nú hafa nýir eigendur ákveðið að fara nákvæmlega þá leið, sem menn kepptust við að segja ófæra áður og stofna sérstakt fyrirtæki um rekstur grunnnetsins. Hvað hefur breyst?
Fyrirtækið Míla stofnað um fjarskiptanet Símans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
20.3.2007 | 15:05
Þröstur frá DV til Blaðsins
Þröstur Emilsson hefur verið ráðinn fréttastjóri á Blaðinu. Þröstur var fréttastjóri á DV þegar blaðið hóf göngu sína undir stjórn Sigurjóns M. Egilssonar, fyrir nokkrum vikum, en er hættur og búinn að ráða sig yfir til Blaðsins og verður þar fréttastjóri við hlið Gunnhildar Örnu Gunnarsdóttur.
DV fær mann á móti því að í dag hættir á Blaðinu Trausti Hafsteinsson og fer til starfa hjá föðurbróður sínum, nefndum -sme. Þar hittir hann líka fyrir frændsystkini sín Janus og Hjördísi Sigurjónsbörn.
Af DV er það annars að frétta að sme ber sig vel yfir gengi blaðsins og segist vera að undirbúa að koma því í áskrift til lesenda. Nú er aðeins hægt að fá helgaráskrift en breyting verður væntanlega á því í apríl.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.3.2007 | 10:45
Óbundnar hendur
Auðvitað er það laukrétt hjá Jónínu Bjartmarz að með því að vinna gegn frumvarpi iðnaðarráðherra um auðlindir í jörðu og koma í veg fyrir afgreiðslu þess vann stjórnarandstaðan gegn náttúruvernd. Og það er laukrétt hjá Sæunni Stefánsdóttur að með þessari frestun hefur stjórnarandstaðan fært iðnaðarráðherra óbundnar hendur til þess að gefa út leyfi til rannsóknar og nýtingar á vatnsafli og jarðhita.
Og þegar Ingibjörg Sólrún talar um að frumvarpið hafi verið til marks um sátt stjórnarflokkanna einna er hún að dissa sinn eigin fulltrúa í nefndinni, Jóhann Ársælsson, hann tók þátt í að semja þetta frumvarp eins og Kolbrún Halldórsdóttir, þingkona VG, sem er sömuleiðis dissuð með afgreiðslu málsins sem hefði komið í veg fyrir að skref yrðu stigin til virkjana á nýjum svæðum fyrr en eftir gildistöku rammaáætlunar. Í greinargerð frumvarpsins segir:
Frumvarp þetta er samið af nefnd sem iðnaðarráðherra skipaði. Í nefndina voru skipaðir eftirtaldir aðilar: Karl Axelsson, formaður, tilnefndur af iðnaðarráðherra; [...] Arnbjörg Sveinsdóttir, tilnefnd af þingflokki Sjálfstæðisflokksins; Birkir J. Jónsson, tilnefndur af þingflokki Framsóknarflokksins; [...] Ingileif Steinunn Kristjánsdóttir, tilnefnd af þingflokki Frjálslynda flokksins; Jóhann Ársælsson, tilnefndur af þingflokki Samfylkingarinnar; Kolbrún Halldórsdóttir, tilnefnd af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs.[...]"
Frumvarpið var samið í þverpólitískri sátt með þátttöku fulltrúa allra flokka, en stjórnarandstöðuflokkarnir virtu ekki niðurstöður sinna eigin fulltrúa þegar frumvarpið kom til meðferðar í þinginu. Þess vegna hefur iðnaðarráðherra óbundnar hendur um útgáfu nýrra leyfa. Þetta er svona. Og stjórnarandstaðan hefði líka getað lögfest frumvarp umhverfisráðherra um meginreglur umhverfisréttarins. En hún kaus frekar 70 klst málþóf um RÚV og að slá pólitískar keilur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.3.2007 | 23:19
Capacent kannar og kannar
Í skoðanakönnuninni sem Capacent er að gera núna er meðal annars spurt hvort fólk sé líklegt eða ólíklegt til að kjósa framboðslista Íslandshreyfingarinnar, flokksins þeirra Margrétar og Ómars. Einnig er sams konar spurning um fylki við baráttuhóp aldraðra eða öryrkja.
Auk þess að spyrja um fylgi við flokka, aldur, menntun, fyrri störf, tekjur, skóstærð, fjölskylduhagi og hvað maður kaus síðast spyr Gallup hvort maður hafi orðið var við lækkun matarskatts í verslunum og veitingahúsum. Líka hvert mikilvægasta málefnið sé í kosningabaráttunni, annars vegar á landsvísu og hins vegar í viðkomandi kjördæmi. Svo er spurt: Hvað finnst þér brýnast að gert sé í samgöngumálum og málefnum aldraðra.
19.3.2007 | 12:05
Göngur og réttir
Það hafa 1029 skrifað undir sáttmálann sem Framtíðarlandið lagði fram í gær núna kl. tæplega 12. Á heimasíðu þeirra getur maður lesið nöfnin og meira að segja leitað að því hverjir hafa skrifað og hverjir ekki. Athyglisvert, þetta er skipulagður og öflugur þrýstihópur, sem veit nákvæmlega hvað hann er að gera.
Ég ákvað að nota þessi verkfæri á heimasíðunni í þeim eina tilgangi sem þau geta átt að þjóna, nefnilega til þess að leita að því hvaða þingmenn og þingmannsefni eru nú þegar búnir að hoppa á vagninn. Það var fljótlegt að ganga úr skugga um að allir þingmenn VG eru nú þegar búnir að skrifa, nema Þuríður Backman, þingmaður í Norðausturkjördæmi. Spái því að hún eigi eftir að skila sér, og að hún sé óhrædd við að þurfa að deila við kjósendur sína í nágrenni Húsavíkur um réttmæti þess.
En það var athyglisvert að leita þingmanna og þingmannsefna Samfylkingarinnar á þessum lista. Þar vantar býsna marga. Ingibjörg Sólrún, Ásta Ragnheiður, Jóhanna Sigurðardóttir, Helgi Hjörvar, Gunnar Svavarsson, Guðbjartur Hannesson, Karl V. Matthíasson, Kristján L. Möller, Einar Már Sigurðarson, Lára Stefánsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Róbert Marshall. Öll þessi láta sig ennþá vanta. Hins vegar eru Össur, Mörður, Guðrún Ögmundsdóttir, Björgvin G. Sigurðarson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir búin að skrifa sig á listann og líka starfsmenn flokksins, Skúli Helgason, Dofri Hermannsson og Guðmundur Steingrímsson. Kannski Ingibjörg, Jóhanna og þau viti bara ekki af þessu, ef þið sjáið þau segið þeim að fara inn á framtidarlandid.is og undirrita sáttmálann og sýna í verki hvað það ríkir mikil eindrægni í hópnum um virkjanamálin.
19.3.2007 | 11:48
Kosningar í fullum gangi
18.3.2007 | 22:27
Ómar + Margrét = xÍ
Í verður listabókstafur framboðs Ómars Ragnarssonar og Margrétar Sverrisdóttur og annarra aðstandenda. Mér er sagt að Ómar Ragnarsson sé búinn að tryggja sér þennan listabókstaf. Það hefur komið fram að vinnuheiti framboðsins er Íslandsflokkurinn. Umsókn um listabókstafinn Í bendir til að vinnuheitið eigi að verða endanlegt heiti. Það er stórt orð Hákot, sagði karlinn.
ps. 19.3: 08:50. Hermt er að nafn framboðsins eigi að verða Íslandshreyfingin - lifandi land.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 19.3.2007 kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.3.2007 | 22:04
Hann sagði það nú samt
Í Silfri Egils í dag þrætti Steingrímur J. Sigfússon fyrir að Ögmundur Jónasson hefði nokkru sinni sagt að hann vildi bankana úr landi. Svar Ögmundar við lesendabréfi á heimasíðu hans hefði verið afbakað. En Ögmundur sagði þetta nú samt eða það er amk fullkomlega eðlileg túlkun á ummælum hans. Hér er frétt Fréttablaðsins um málið, hér er pistillinn sem Steingrímur vísar til og hér er þessi færsla um málið.
Það sem Ögmundur sagði var þetta:
Er jafnaðarsamfélaginu fórnandi fyrir 12 milljarða og nokkra stráka og stelpur í silkigöllum; þotuliðið? Eða eigum við að snúa spurningunni við: Er þotuliðinu fórnandi fyrir meiri jöfnuð og félagslegt réttlæti? Mitt svar er játandi
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.3.2007 | 10:06
Meira um sameininguna sem ekki varð
Aðstandendum DV og Króníkunnar ber ekki saman um hvor aðilinn átti frumkvæði að viðræðum um sameiningu miðlanna tveggja. Í upphafi vildi Króníkufólk ná samlegðaráhrifum í rekstri skrifstofu, ljósmyndunar og umbrots. Krafa um að Króníkan yrði lögð niður kom fram frá DV á föstudag og það var hún sem leiddi til þess að Sigríður Dögg og Valdimar slitu viðræðum við Hrein Loftsson. Enginn af blaðamönnum Króníkunnar vildi fara yfir á DV.
Það er athyglisvert að viðræður um samkrull þessara miðla hafi farið í gang svo skömmu eftir að þeir hófu göngu sína. Það hlýtur að vera staðfesting á því að áætlanir eru ekki að ganga eftir og sala beggja er undir væntingum.
Hvað varðar efnistök eru DV og Króníkan kannski tvö ólíkustu blöðin á markaðnum og vandséð að þau eigi annað sameiginlegt en nýjabrumið. Það var alltaf vitað að Króníkan stæði og félli með Sigríði Dögg og Valdimar og að þau hefðu auk eiginfjár fengið lánsfé frá Björgólfsbatteríinu.
En maður hélt að bakland DV sem er í eigu Baugsveldisins, væri traustara en svo að fara þyrfti í svona æfingar eftir fáeinar vikur. Ég veit að frá upphafi hefur DV verið í klandri með að fullmanna stassjónina og hefur keypt talsvert af efni utan úr bæ frá degi til dags. Líklega sáu menn leik á borði að leysa mönnunarvandann á einu bretti og kaupa þaulreynda ritstjórn Króníkunnar. En hugmyndirnar að blöðunum tveimur eru gjörólíkar. Blaðamenn Króníkunnar slitu upp djúpar rætur á öðrum miðlum til þess að hrinda nýrri hugmynd í framkvæmd en ekki til þess að ráða sig á DV-skútuna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2007 | 18:58
Yfirtaka DV á Króníku rann út í sandinn
Fyrir tveimur klukkutímum runnu út í sandinn viðræður um yfirtöku DV á Króníkunni. Tilboð DV til Örnu Schram um aðstoðarritstjórastöðu var liður í einhvers kona taugastríði meðan þreifingar stóðu yfir um sameiningu, eða frá sjónarhóli DV: yfirtöku á Króníkunni, sem átti að hætta að koma út.
DV menn töldu sig hafa náð samningum við eigendur Króníkunnar, hjónin Sigríði Dögg og Valdimar Birgisson, og átti að undirrita samning kl. 17 í dag. Af því varð ekki, að sögn vegna þess að Ólafsfell, félag í eigu Björgólfsfeðga, neitaði að framselja DV lánssamning við útgáfufélag Króníkunnar. Talið er að þess í stað hafi Króníkunni verið tryggt fé til að halda áfram útgáfunni.
Samkomulagið er sagt hafa gert ráð fyrir að Sigríður Dögg yrði umsjónarmaður Helgarblaðs DV og Valdimar auglýsingastjóri. Jafnframt hafi DV ætlað að yfirtaka launasamninga allra starfsmanna Króníkunnar sem vildu koma til starfa á DV. Þreifingar milli blaðanna munu hafa hafist fyrir viku, gengu hægt í fyrstu, en komust á skrið í gær, og stefndi í samkomulag þar til Björgólfsfeðgar ákváðu að koma í veg fyrir að Króníkan kæmist í hendur félags í eigu Baugs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.3.2007 | 10:48
Upphefðin kemur að utan
Ingibjörg Sólrún er nú á fundi sænskra jafnaðarmanna sem ætla að heiðra hana, það má með sanni segja að upphefð hennar komi að utan þessa dagana. Ingibjörg vék af þingi fyrir Ellert B. Schram meðan allt var í háalofti í pólitíkinni. Mér er sagt að alþingi beri kostnaðinn af ferðalagi hennar.
ps. Skúli Helgason, framkvæmdstjóri Samfylkingarinnar, segir í kommenti hér að Alþingi beri engan kostnað af ferðinni heldur sé hún farin á kostnað Samfylkingarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 0
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 25
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 13
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar