21.4.2007 | 18:08
Langt í skólann
Athyglisverðar upplýsingar koma fram í grein Guðjóns Ólafs Jónssonar í Mogganum í dag um afstöðu VG og Frjálslyndra til húsnæðismála námsmanna. Guðjón var á fundi hjá Stúdentaráði með Kolbrúnu Halldórsdóttur, Jóni Magnússyni og fleirum. Hann segir svo frá:
Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, taldi hins vegar bestu lausnina þá að stúdentum við Háskóla Íslands yrði komið fyrir í fyrrverandi húsnæði bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli, og þaðan gætu þeir ekið kvölds og morgna til náms í Reykjavík. Undir þessa hugmynd tók Jón Magnússon, frambjóðandi Frjálslynda flokksins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.4.2007 | 23:10
Þá er það ákveðið
Í Viðskiptablaðinu í dag er beint spurningum um ýmislegt sem að atvinnulífi snýr til formanna þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á alþingi. Fátt kemur á óvart í svörunum en þó er eitt sem mér finnst ástæða til að halda til haga. Allir fimm taka þeir líklega í þá hugmynd að atvinnuvegaráðuneytin, þ.e. sjávarútvegsráðuneyti, landbúnaðarráðuneyti og iðnaðarráðuneyti verði sameinuð í eitt.
Geir H. Haarde, Ingibjörg Sólrún og Jón Sigurðsson vísa öll til þess að þetta sé á stefnuskrá flokka þeirra. Steingrímur J segir að það kæmi vissulega til greina en þá sem hluti af víðtækari endurskipulagningu ef ég skil hann rétt. Hann segir að endurskipuleggja þurfi fleira og amk sameina lífeyrismál, félagslega framfærslu og þau mál í einu ráðuneyti sem nálgist að geta kallast velferðarráðuneyti og létta þannig á heilbrigðisráðuneytinu, einnig þurfi að styrkja umhverfisráðuneytið. Guðjón Arnar segir að frjálslyndir séu ekki mótfallnir sameiningu atvinnuvegaráðuneytanna þótt þeir hafi ekki beinlínis lagt það til. Þannig að mér sýnast allar líkur á að þetta ætti að geta gerst innan tíðar, - og þótt fyrr hefði verið.
20.4.2007 | 17:44
Guðni dagsins
Rétt hjá Guðna Ágústssyni að Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðum við kosningar. Athyglisverð þessi orð: "Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins talaði forsætisráðherra eins og Sjálfstæðisflokkurinn stjórnaði landinu einn, það þóttu mér tíðindi."
Og Guðni túlkar stöðuna í Framsóknarflokknum þegar hann segir að stjórnarsamstarfið hafi að mörgu leyti verið gott en ef niðurstaða kosninganna verði í samræmi við skoðanakannanir verði framsókn ekki áfram í þessari ríkisstjórn og að hún þurfi 17-20% til að stjórna áfram með Sjálfstæðisflokknum.
Guðni: Sjálfstæðisflokkurinn virðist stikkfrí í umræðunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.4.2007 | 11:30
Söfnun Framtíðarlandsins: og hvað svo?
Söfnun Framtíðarlandsins fór í gang með miklum hvelli, sjónvarpsauglýsingum, Vigdísi forseta, Sigurbirni biskup og fleira góðu fólki. Henni lauk daginn fyrir kosninguna í Hafnarfirði og höfðu þá aðeins safnast liðlega 8.000 undirskriftir. Líklega er kostnaðurinn meira en 1.000 kr við að afla hverrar undirskriftar. En hvað nú?
Ekkert hefur heyrst um það hvað aðstandendur Framtíðarlandsins hyggjast nú fyrir, hvað ætla þeir sér að gera með undirskriftirnar? Þær eru ekki lengur aðgengilegar á vefnum. Á að afhenda þær einhvers staðar og gera eitthvað með þetta eða er bara allt búið? Er eitthvað útspil í uppsiglingu eða var þetta bara flopp sem var látið fjara út? Spyr sá sem ekki veit.
20.4.2007 | 11:26
Leggja Hafnfirðingar út 1,5 milljarða vegna niðurstöðunnar?
Fróður maður fullyrti við mig í gær að sá kostnaður sem falla mun á Hafnarfjarðarbæ í framhaldi af niðurstöðum íbúakosningarinnar um álverið verði ekki undir einum og hálfum milljarði króna. Þar er um tvo liði að ræða. Ég skil þetta svona:
Annars vegar er bærinn búinn að selja Alcan lóðina þar sem Reykjanesbrautin liggur nú um. Vegna úrslita kosninganna er talið hæpið að vegagerðin vilji kosta flutning Reykjanesbrautarinnar þar sem engin nauðsyn beri til þess. Á hinn bóginn sé Alcan nú orðinn eigandi vegarins og hafi samið við bæinn um að losna við hann. Bærinn muni því verða fyrir um 600 milljóna kostnaði sem hann þurfi að bera vegna nýrrar Reykjanesbrautar.
Hins vegar bauð Alcan korteri fyrir kosningu að kosta lagningu raflína í jörðu að stækkuðu álveri og auðvelda þannig ráðgerða skipulagningu að nýjum hverfum þarna í hrauninu. Nú mun það ekki gerast og bærinn sjálfur þarf því að bera þennan kostnað.
20.4.2007 | 11:26
Skörð og skildir
18.4.2007 | 22:30
JFM og Þorgerður saman á balli í Köben?
Lárus Vilhjálmsson, sem skipar 3ja sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í Kraganum átti stærstu fréttina í leiðtogaþætti kjördæmisins á Stöð 2 í kvöld. Hvað var Lárus þriðji að gera í leiðtogaþætti? Egill Helgason spurði einmitt að því og ekki stóð á svarinu:
Lárus sagði að oddviti íslandshreyfingarinnar í kjördæminu, Jakob Frímann Magnússon, væri í Kaupmannahöfn að spila með Stuðmönnum á árlegum Kaupmannahafnartónleikum Stuðmanna og Sálarinnar. Lárus lét ekki þar við sitja heldur lét fylgja sögunni að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, leiðtogi sjálfstæðismanna í sama kjördæmi, væri líka á þessu balli. Hvort það er satt veit ég ekki en hitt veit ég að í hennar stað var Bjarni Benediktsson mættur í leiðtogaþáttinn en hann skipar einmitt 2. sætið á lista Sjálfstæðismanna í Kraganum.
18.4.2007 | 22:18
Kenning dagsins
Guðmundur Magnússon er farinn að skrifa vikulegar kjallaragreinar í DV frá og með deginum í dag. Hann byrjar af krafti og varpar fram bombukenningu um málefni sem hér hefur verið til umfjöllunar:
Kunnugt er að sá frægi klækjarefur, Jón Baldvin Hannibalsson, hefur dregið Ómar okkar inn í reykfyllt bakherbergi og hvíslað ýmsu að honum. Einhverjir héldu að hann væri að biðja um að fá að vera á lista. Það var ekki. Hann er snjallari en svo. Hann ætlar auðvitað að verða forsætisráðherraefni flokksins í staðinn fyrir hinn reynslulausa Ómar ef svo færi nú að Íslandshreyfingin næði í höfn og hefði mannafla sem Samfylkinguna og Vinstri græna vantaði til að mynda starfhæfa ríkisstjórn. Til eru jafnvel þeir sem trúa því að um þetta sé handsalað samkomulag. [...] Þeir sem lásu hina löngu grein Jóns Baldvins í Lesbók Morgunblaðsins á laugardaginn tóku eftir því að í lokin nefndi hann einmitt þann möguleika á stjórnarmyndun í vor, að Íslandshreyfing Ómars Ragnarssonar yrði í oddaaðstöðu svipað og Samtök frjálslyndra og vinstri manna í byrjun áttunda áratugarins. Þá var framsóknarmaður valinn í stól forsætisráðherra í staðinn fyrir sigurvegara kosninganna, Hannibal Valdimarsson. Skiljanlega vill sonurinn ekki að slík mistök endurtaki sig.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.4.2007 | 17:52
HS samþykkir orkusölusamning til Norðuráls: Gunnar Svavarsson sat hjá
Báðir fulltrúar Samfylkingarinnar í stjórn Hitaveitu Suðurnesja sátu hjá þegar stjórnin samþykkti í dag orkusölusamning við Norðurál. Samfylkingin á tvo fulltrúa í stjórninni, annar þeirra er Gunnar Svavarsson, oddviti S-listans í Suðvesturkjördæmi, hinn er Björn Herbert Guðbjörnsson í Reykjanesbæ. Samningurinn var staðfestur með fimm atkvæðum fulltrúa sjálfstæðismanna.
Samkvæmt samningnum skuldbindur Hitaveita Suðurnesja sig til að afhenda næga orku til að knýja 1. og 2. áfanga álvers í Helguvík. Mér tókst því miður ekki að verða mér úti um upplýsingar um orkuverðið.
17.4.2007 | 20:36
Þingmaður í þoku
Rétt í þessu var Birkir Jón Jónsson að lýsa því yfir í umræðuþætti í Sjónvarpinu að það væri skýr stefna Framsóknarflokksins að flugvöllurinn í Vatnsmýrinni ætti að vera á sínum stað um alla framtíð. Hvað meinar Birkir? Hvílík reginfirra.
Getur verið að Birkir viti ekki að að í baráttunni vegna sveitarstjórnarkosninganna barðist Framsóknarflokkurinn í Reykjavík fyrir því að flugvöllurinn yrði fluttur til, úr Vatnsmýrinni? Fulltrúar flokksins voru meðal 14 borgarfulltrúa af 15 sem greiddu atkvæði með undirbúningi að flutningi flugvallarins á síðasta kjörtímabili. Framsóknarflokkurinn í borginni á nú aðild að meirihlutasamstarfi sem hefur að markmiði að flytja flugvöllinn úr Vatnsmýrinni til þess að greiða fyrir nauðsynlegri þróun höfuðborgarsvæðisins og arðbærri nýtingu verðmætasta byggingarlands borgarinnar.
Í ályktunum flokksþingsins, sem haldið var í mars, er ekki orð um Reykjavíkurflugvöll eða að hann eigi að vera á sínum stað. Þetta á Birkir Jón Jónsson að vita. Ennfremur má upplýsa hann um, ef hann hefur ekki getað lesið Fréttablaðið um helgina, að það er komið fram að þjóðhagsleg hagkvæmni þess að flytja flugvöllinn á Hólmsheiði er 38 milljarðar króna og þjóðhagsleg hagkvæmni þess að flytja hann á Löngusker er 33 milljarðar króna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
17.4.2007 | 17:53
Prófessor í Virginia Tech bjargaði lífi nemenda en féll sjálfur
Sjötíuogsex ára gamall ísraelskur prófessor við Virginia Tech háskólann er sagður hafa bjargað lífi nemenda sinna í skotárásinni í gær með því að fórna sínu eigin.
Frá þessu er sagt í The Jerusalem Post:
Professor Liviu Librescu, 76, threw himself in front of the shooter when the man attempted to enter his classroom. The Israeli mechanics and engineering lecturer was shot to death, "but all the students lived - because of him," Virginia Tech student Asael Arad - also an Israeli - told Army Radio. [...] Several of Librescu's other students sent e-mails to his wife, Marlena, telling of how he blocked the gunman's way and saved their lives, said Librescu's son, Joe.
Librescu var fæddur Rúmeni en lifði af útrýmingarherferð nasista gegn gyðingum. Hann var andófsmaður á tímum Ceausecsus en fluttist til Ísrael 1978 og síðan til Bandaríkjanna. Meira hér.
Bandarískir fjölmiðlar hafa greint frá því í dag að maðurinn sem talinn er hafa framið morðin hafi flust til Bandaríkjanna frá S-Kóreu barn að aldri en hann var 23 ára. Hann er talinn hafa undirbúið ódæðið allt frá því hann keypti byssu með löglegum hætti fyrir rúmum mánuði síðan. 33 féllu í árásinni. Sjá hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.4.2007 | 12:13
Samgöngumiðstöðina til Stykkishólms
Sturla Böðvarsson, þingmaður Norðvesturkjördæmis og samgönguráðherra, er þessa stundina í fréttum Stöðvar 2 að tjá sig um samgöngumál í Reykjavík. Það mál sem Sturla ber helst fyrir brjósti fyrir hönd okkar Reykvíkinga er bygging samgöngumiðstöðvar í Vatnsmýrinni en það er plott sem hefur það að markmiði að reyna að tryggja flugvöllinn um aldur of ævi í hjarta borgarinnar og koma í veg fyrir þróun höfuðborgarsvæðisins og nauðsynlega nýtingu verðmætasta byggingarlands borgarinnar.
Ég veit ekki um nokkurn borgarbúa sem hefur áhuga á þessari samgöngumiðstöð hans Sturlu, held að það sé býsna almenn skoðun Reykvíkinga að brýnustu samgöngumál borgarinnar séu Sundabraut, flugvöllinn burt, Öskjuhlíðargöng og mislæg gatnamót.
Mín vegna er Sturlu velkomið að byggja þessa samgöngumiðstöð heima í Stykkishólmi, við hliðina á nýja Pósthúsinu, eða þá við munna Héðinsfjarðarganga, ég er alveg klár á því að hann er amk ekki að hjálpa flokksbræðrum sínum hér í borginni með þessu. Kannski gengur það í einhverja kjósendur hans úti í kjördæminu að halda áfram fjandskapnum við Reykvíkinga með þessum hætti.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.4.2007 | 12:05
Garðar Thor á Upton Park
Það er athyglisvert að fylgjast með tilraunum Einars Bárðarsonar til að markaðssetja Garðar Thor Cortes, tenórsöngvara í Bretlandi. Hann hefur nú náð þeim merka árangri að Garðar fær að koma fram á Upton Park, heimavelli West Ham United og syngja þar tvö lög áður en leikur West Ham og Chelsea hefst annað kvöld.
Frá þessu er m.a. sagt í blaðinu Daily Star og frá því greint að Garðar sé landi Eggerts Magnússonar stjórnarformanns og mikill knattspyrnuáhugamaður, búsettur í Bretlandi. Hann mun syngja einkennislag Hamranna, I'm forever blowing bubbles, og svo Nessun Dorma úr Turandot eftir Puccini fyrir áhangendur, Eggert, Björgólf og aðra viðstadda.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2007 | 11:24
Pósturinn dreifir DV
DV fer í dreifingu til áskrifenda fljótlega og það verða bréfberar Íslandspósts sem verða í hluverki blaðberanna. DV er prentað að morgni dags og vitaskuld getur blaðið þess vegna ekki nýtt sér dreifikerfi 365 eða Morgunblaðsins og kaupir því þjónustu þeirra sem bera heimilunum gluggaumslög og póstkost frá ættingjum erlendis til þess að koma blaðinu til skila.
16.4.2007 | 20:41
Frá drögum til ályktunar: einkavæðingarsinnar urðu undir
Við samanburð á endanlegri ályktun og ályktunardrögum landsfundar Sjálfstæðisflokksins um umhverfismál og auðlindanýtingu kemur í ljós að bak við tjöldin á landssfundinum hefur verið tekist á um einkavæðingu orkufyrirtækjanna og einkavæðingarsinnarnir hafa orðið undir í glímunni. Niðurstaðan gefur þeim færi á að halda andlitinu en þó er ljóst að fjaðrir þeirra hafa verið stýfðar.
Ályktunardrögin, sem lágu fyrir fundinum, voru svohljóðandi:
Íslensku orkufyrirtækin eru í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki. Tímabært er að losa um eignarhald hins opinbera á orkufyrirtækjunum og leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins, svo þessi fyrirtæki fái að fullu notið sín í útrás íslenskrar sérþekkingar. Landsfundur leggur til að stefnt verði að því að færa eignarhald opinberra aðila að orkufyrirtækjunum yfir til einkaaðila, þó þannig að gætt sé vandlega að samkeppnis- og jafnræðissjónarmiðum.
Þarna hefur sú stefna verið mótuð í málefnanefnd í aðdraganda landsfundar að orkufyrirtæki hins opinbera, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, - Landsvirkjun, Rarik, Norðurorka, Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja, svo og væntanlega Landsnet - skyldu seld einkaaðilum. Þessi hugmynd hefur greinilega mætt andstöðu því að niðurstaðan sem samþykkt var er svohljóðandi:
Íslensku orkufyrirtækin eru í dag leiðandi þekkingarfyrirtæki Landsfundur fagnar aðkomu einkaaðila að útrás orkufyrirtækjanna. Tímabært er að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í þeirri útrás. Landsfundur leggur til að skoðaðir verði kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila, sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða.
Breytingarnar fela í sér að í stað þess að stefnt skuli að því að færa eignarhald opinberra aðila yfir til einkaaðila skal skoða kosti þess að færa eignarhald ríkisins yfir til einkaðaila. Sem sagt: 1. Það er ekki á stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins að selja Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja. 2. Í stað þess að stefnt sé að því að selja hlut ríkisins í Landsvirkjun, Rarik o.fl. ber að skoða kosti slíkrar sölu. Þannig að hófsemdarmennirnir hafa á fundinum rutt úr vegi þeirri hindrun fyrir stjórnarsamstarfi sem það hefði orðið ef flokkurinn hefði krafist einkavæðingar orkufyrirtækjanna. Einnig hefði það vafalaust valdið erfiðleikum í meirihlutasamstarfi í sveitarfélögum ef flokkurinn hefði viljað selja hlut einstakra sveitarfélaga í orkufyrirtækjum. Framsóknarflokkur, Samfylking og VG hafa að ég held allir ályktað að orkufyrirtækin eigi áfram að vera í opinberri eigu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.4.2007 | 20:20
Pilsnerstyrkur Kaffibandalagsins og fleira
Blendnar tilfinningar, sá frasi átti við við lestur fréttarinnar um skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag. Tvennt vakti athygli mína í könnuninni: 1. Sá fjöldi framsóknarmanna sem vill áframhaldandi stjórn með Sjálfstæðisflokknum. 2. Afhroð Kaffibandalagsins. Nánar í öfugri röð:
Samkvæmt könnuninni nefna innan við 4% kjósenda Kaffibandalagið sem fyrsta kost við ríkisstjórnarmyndun. Hljóta það að vera vonbrigði þeim leiðtogum stjórnarandstöðunnar sem héldu blaðamannafund til þess að lýsa yfir vilja til að fella ríkisstjórnina og starfa saman að kosningum loknum. Þó er löngu ljóst að bandalagið var andvana fætt en Steingrímur J., Ingibjörg Sólrún og Össur hafa verið treg til þess að gefa út dánarvottorðið. Geta þau lengur neitað að horfast í augu við hið augljósa?
En aðallega var það sú staðreynd hve mikill meirihluti þeirra sem lýstu stuðningi við Framsóknarflokkinn lýsti áhuga á endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins sem vakti athygli mína. Ég varð ekki hissa á að sjá og heyra Baldur Þórhallsson leggja þetta þann veg út að allir vinstri sinnar væru farnir úr Framsóknarflokknum og getur hann trúað því ef hann vill en ég veit reyndar ekki til að hann umgangist mikið af framsóknarmönnum eða hafi teljandi tengsl inn í flokkinn. Mín reynsla er önnur. Hvaða framsóknarmenn eru þetta? voru fyrstu viðbrögð mín, af því að ég þekki þá ekki sem eru svona áhugasamir um að endurnýja ríkisstjórnarsamstarfið þegar kannanir sýna að Sjálfstæðisflokkurinn græðir á árangri ríkisstjórnarinnar en Framsóknarflokkurinn tapar.
Við nánari umhugsun sannfærðist ég um að tvennt ræður miklu um þessa útkomu: 1. Þarna eru framsóknarkjósendur að lýsa andúð á VG og nýta tækifæri til að hafna ríkisstjórnarsamstarfi við þann flokk, ég þekki varla nokkurn mann sem er þess fýsandi nema það verði algjörlega óhjákvæmilegt að öllum öðrum kostum fullreyndum. Þar uppsker VG ávexti eigin málflutnings á kjörtímabilinu. 2. Mönnum gafst ekki kostur á að tjá sig um hvort þeir teldu að flokkurinn ætti að standa utan stjórnar og leitast við að ná nýrri viðspyrnu ef niðurstaða kosninga yrði í samræmi við það sem kannanir gefa til kynna. Ég hefði gjarnan vilja sjá mælingu á svörum við þeirri spurningu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
16.4.2007 | 19:45
Ræðan sem ekki aldrei var flutt
Benedikt Sigurðarson, sem tapaði baráttu um 1. sæti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, fyrir Kristjáni Möller birtir á bloggi sínu ræðu sem hann flutti ekki á landsfundi Samfylkingarinnar og er það athyglisverð lesning, í senn uppgjör og manifesto. Áreiðanlega hefði landsfundurinn ekki orðið verri ef Benedikt hefði flutt þess bráðskemmtilegu ræðu. En það gerði hann ekki og því verða menn að lesa hana á loggi hens. Birti hér tvo kafla. Fyrst þennan:
Prívat finnst mér heiðarlegt að játa að ég saknaði þess ekki að Steingrímur J Sigfússon stofnaði til sérframboðs - eftir að Hjörleifur Guttormsson hafði talið hann ofan af því að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn eins og Halldór Ásgrímsson og Kristinn H Gunnarsson höfðu reiknað með. Ég sá ekki eftir því að Steingrímur Jóhann yrði í öðrum stjórnmálaflokki en ég því hann hafði áður hjálpað mér til að skilja að það væri best fyrir mig að yfirgefa Alþýðubandalagið sáluga enda Steingrímur hvorki VINSTRI NÉ GRÆNN á þeim árum fremur en nú. [...] Nú veit ég auðvitað að þetta eru ekki stórmannlegar tilfinningar sem ég hér tjái því að í stórum jafnarmannflokki flokki allrar félagshyggju á Íslandi þarf að vera til pláss fyrir óþolandi fólk - meira að segja algerlega óþolandi fólk því eins og Guðmundur góði skildi á Skagafirði um árið að einhvers staðar verða vondir að vera þannig að nú hætti ég að blessa. (Svo þarf ég í rólegheitum að koma mér í karakter til að bakka upp ríkisstjórn þar sem Steingrímur Jóhann fær hlutverk og þá má ég auðvitað ekki sleppa mér alveg .)
Svo þennan:
Á þessum landsfundi Samfylkingarinnar les ég klofin viðhorf ég sé að nokkrar klíkurnar lifa góðu lífi ég sé að hér er ennþá fólk sem er í óða önn við að skilgreina sig til aðgreiningar frá öðrum menn beita hugtökum til að aðgreina sig frá hver öðrum tala um góða jafnaðarmenn tala um Natósinna tala um feminista og systur í kvennabaráttunni tala um umhverfis-sinna um öfgamenn tala um stóriðjusinna. Hér eru ennþá menn sem telja að það sé brýnt fyrir kosningarnar 2007 að berja í gegn ályktanir - með eða á móti NATÓ hér eru embættismenn flokksins eða eyða púðri í slíka vitleysu. [...] Hér eru einnig menn sem telja það meginmál flokksins að unnt sé að lýsa einhverjum sérstökum stuðning við álver á einhverri H-vík - til að fæla ekki frá kjósendur án þess að nenna að hafa fyrir því að útskýra stefnu flokksins í heildrænu samhengi Hér eru menn uppteknir af því að gamlir formenn eða fyrrverandi ráðherrar hafi eitthvað sérstakt til mála að leggja.
Afgangurinn er hér.
16.4.2007 | 19:34
Skarð fyrir skildi
15.4.2007 | 21:31
Einir á báti - sjálfstæðismenn vilja enn slást um forsetaembættið
Sjálfstæðismenn samþykktu á landsfundi sínum að fella skuli málskotsrétt forseta Íslands úr gildi við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Ekki hef ég séð fréttir af umræðum við afgreiðslu þessa á fundinum. Þetta er að finna í ályktun um réttarfars- og stjórnskipunarmál og birti ég málsgreinina í heild:
Stjórnarskrá lýðveldisins er kjölfesta stjórnskipunar landsins. Í ársbyrjun 2005 var skipuð nefnd til að endurskoða stjórnarskrána. Hún skilaði áfangaskýrslu í febrúar sl., en hefur ekki enn lokið störfum sínum. Landsfundur Sjálfstæðisflokksins telur eðlilegt að I. og II. kafli stjórnarskrárinnar verði færðir til nútímalegra horfs. Þar á meðal að skýrar verði kveðið á um inntak þingræðis, stöðu forseta lýðveldisins og myndun, eðli og valdheimildir ríkisstjórnar. Í því sambandi telur landsfundur óhjákvæmilegt að ákvæði 26. gr. um synjunarvald forseta verði fellt úr gildi. Ennfremur að allar breytingar á stjórnarskrá Íslands séu teknar af auknum meirihluta þeirra sem ákvörðunina taka. Jafnframt verði hugað að almennri heimild í stjórnarskrá til þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál og að breytingar á stjórnarskránni verði bornar undir atkvæði þjóðarinnar. Þá væri eðlilegt að endurskoða ákvæði V. kafla stjórnarskrárinnar um dómstóla.
Ákvæðið um málskotsréttinn sker í augu, hér er sjálfstæðisflokkurinn einn á ferð í íslenskum stjórnmálum, álíka einangraður að þessu leyti og frjálslyndir í málefnum útlendinga, satt að segja. Því vekur það athygli að flokkurinn telji skynsamlegt að spila þessu út í aðdraganda kosninga og bjóða upp á umræður og átök um forsetaembættið í kosningabaráttunni.
Ég spái því að þessu komi flokkurinn alls ekki inn í stjórnarsáttmála næstu ríkisstjórnar, hvort sem þar verða með honum Samfylking, VG eða Framsóknarflokkur. En með þessu dregur vissulega úr þeim vonum sem menn geta bundið við að samstaða náist um heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar á næsta kjörtímabili, amk ef Sjálfstæðisflokkurinn verður í ríkisstjórn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.4.2007 kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.4.2007 | 21:21
Fjórtán fróðleiksmolar
Á vef Sjálfstæðisflokksins má sjá hverjir náðu kjöri til miðstjórnar flokksins á landsfundinum í gær. Kjartan Gunnarsson varð efstur og hlaut glæsilega kosningu, 70,6% atkvæða. Aðrir sem náðu kjöri voru þessir:
Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir 66,2 % -Unnur Brá Konráðsdóttir 66,2 %- Áslaug María Friðriksdóttir 62,9 % - Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 60,6 %- Elínbjörg Magnúsdóttir 54,5 % - Þórunn Jóna Hauksdóttir 54,5 % - Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir 53,1 % - Erla Ósk Ásgeirsdóttir 48,8 % - Helga Þorbergsdóttir 47,2 % - Örvar M. Marteinsson 46,4 %
Góð útkoma kvenna vekur athygli, þær eru átta af ellefu, sem ná kjöri, og í hópi karlanna þriggja sem komast inn eru tvær landsþekktar kanónur, Vilhjálmur borgarstjóri, auk Kjartans. Á vefnum er hins vegar ekki lengur að finna nöfn allra sem buðu sig fram og af því að það kom ekki fram hverjur náðu ekki kjöri lagðist ég í smá rannsókn og hér er niðurstaðan: nöfn þeirra fjórtán sem ekki náðu kjöri í stafrófsröð, þetta eru 10 karlar og fjórar konur:
Birgitta Jónsdóttir Klasen - Carl Jóhann Gränz - Edda Borg Ólafsdóttir -Gísli Freyr Valdórsson - Gísli Rúnar Gíslason - Grímur Gíslason - Gunnar Hrafn Jónsson - Jóhanna Hlín Ragnarsdóttir - Magni Kristjánsson - Skapti Örn Ólafsson - Steinn Kárason - Teitur Björn Einarsson - Valgerður Sigurðardóttir - Þrymur Guðberg Sveinsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Tenglar
Bloggarar
- Björn Ingi
- Freedom Fries
- Denni
- Andrés J
- Jakob
- Helga Sigrún
- Axel
- Arna
- Tómas
- Friðjón
- Davíð Logi
- Eygló Harðar
- Guðmundur
- Sigmar
- Eiríkur Bergmann
- Ómar
- Hallur
- Stefán Fr.
- Ragnar B
- Aðalheiður
- Magnús
- Valdimar
- Bjarni Harðar
- Gísli Freyr
Fleiri bloggarar
- Sveinn Hjörtur
- Bæjarstjórinn
- Egill
- Óli Björn
- Össur
- Helga Vala
- Helgi
- Andrés M
- Sæunn
- Jón Axel
- Fanný
- Snorri
- Stefán Pálsson
- Valgerður
- Hrannar B
- Baddi
Og fleiri
Enn fleiri bloggarar
Eldri færslur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 2
- Sl. sólarhring: 4
- Sl. viku: 27
- Frá upphafi: 536804
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 14
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar