hux

Þegar stórt er spurt...

"Stefna okkar er að vera á móti þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa mótað og skoða málið ofan í kjölinn." Um það bil svona svaraði Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmannsefni VG í Kraganum, þegar Valgerður Sverrisdóttir beindi til hennar þeirri spurningu í beinni útsendingu Kastljóssins frá Egilsstöðum hver væri stefna VG í þjóðlendumálum. Umfjöllunarefnið var byggðamál. Mér fannst þetta athyglisvert svar.

Vörður varðanna?

Það er komið fram að Jóhannes Rúnar Jóhannsson, einn umsækjenda um embætti Ríkissaksóknara sé búinn að draga umsókn sína til baka. DV greindi frá því í dag og jafnframt að búist sé við að Jón H.B. Snorrason verði skipaður í þetta lykilembætti æðsta handhafa ákæruvaldsins í landinu. Samkvæmt mínum heimildum er ekki ólíklegt að fleiri umsækjendur en Jóhannes Rúnar eigi eftir að draga umsóknir sínar til baka.

Umsækjendur voru allir fimm kallaðir í viðtöl við Björn Bjarnason dómsmálaráðherra í síðustu viku. Að þeim loknum var þeim tilkynnt að ákvörðun um veitingu embættisins yrði tekin og kynnt 4. maí. Þann dag barst umsækjendum svo tölvupóstur þar sem fram kom að ákvörðun hefði verið frestað og yrði hún tilkynnt síðar.

Samkvæmt mínum upplýsingum lásu amk nokkrir umsækjendur þannig í viðtal sitt við ráðherrann að hann hefði í hyggju að skipa Jón H. B. Snorrason í embættið. Það var í framhaldi af því sem Jóhannes Rúnar dró sig í hlé. Jón er nú aðstoðarlögreglustjóri í Reykjavík og undirmaður Stefáns Eiríkssonar, nýs lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu. Áður var hann undirmaður Haralds Johannessen, ríkislögreglustjóra, sem yfirmaður efnahagsbrotadeildar þess embættis og saksóknari í efnahagsbrotamálum. Hann er sagður í nánum og miklum tengslum við þessa tvo yfirmenn þeirra tveggja lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu sem ríkissaksóknaraembættið á mest samskipti við og hefur eftirlit með.

Árangur Jóns við saksókn efnahagsbrotamála hefur ekki þótt öfundsverður og fáir kollegar hans í stétt lögfræðinga og lögmanna telja að saksóknaraferill hans sé til þess fallinn að mæla sérstaklega með honum í embætti ríkissaksóknara. En boltinn er nú hjá Birni Bjarnasyni, framherja Sjálfstæðisflokksins í dómsmálaráðuneytinu. Lögfræðingar landsins fylgjast spenntir með. Ætlar Björn sér virkilega að skipa Jón í embættið og jafnvel fyrir kosningar?


Bíða fyrstu tölur meðan Eurovision klárast?

Ætli það sé rétt, sem haldið er fram, að RÚV hafi farið þess formlega eða óformlega á leit við kjörstjórnirnar í landinu að þær bíði með að birta fyrstu tölur úr kosningunum á laugardagskvöld þar til RÚV er búið að klára útsendingu sína frá Eurovision?  


Gæðablogg um valkreppu

Blogg Péturs Tyrfingssonar er alltaf athyglisverð lesning. Nú er Pétur að velta því fyrir sér hvað hann ætli að gera á laugardaginn. Hann hefur fylgt VG að málum enda rótgróinn í vinstri hreyfingunni en það eru komnar vöflur á sálfræðinginn. Hann horfði á nærmynd af Steingrími J í sjónvarpinu, settist niður við skriftir og segir

Forystumaður í stjórnmálaflokki sem hefur ekki ræktað karakter sinn betur en þetta á meir en tveggja áratuga streði í stjórnmálavafstrinu verður stórhættulegur ef flokkur hans lendir í vandræðum, upp koma deilur eða kreppuástand. Slíkt getur gerst í öllum stjórnmálaflokkum. Því efast ég mjög um alhliða leiðtogahæfileika mannsins og ótruflaða framsýni fyrir hönd heildarhreyfingar sósíalista og vinstrimanna....Ég hef verið stuðningsmaður Vinstri-Grænna þau ár sem sá flokkur hefur starfað. ... Renna nú á mig tvær grímur. Hvað er það sem í raun og sannleika réttlætir klofning hreyfingarinnar í þessa tvo flokka? Ekki eru það þau mál sem við flokkum undir lífskjör launafólks og velferðar- og heilbrigðismál. Þar er varla nema blæbrigðamunur á og varla greinanlegur. Ekki verður annað séð en báðir flokkar séu trúir félagshyggju í mennta- og skólamálum. Varla er hægt að halda því fram að mismunandi stefna í kvenfrelsis- og jafnréttismálum réttlæti tvo stjórnmálaflokka.

Miklu meira hér


Hvað liggur á?

Það var með ólíkindum að hlusta á frétt Ríkissjónvarpsins um vinnubrögð dómsmálaráðuneytisins við það að auglýsa laust til umsóknar embætti vararíkislögreglustjóra, næstæðsta embætti s lögreglunnar í landinu. Það var eingöngu auglýst í leyni á vef Lögbirtingablaðsins og sama auglýsing svo birt í prentútgáfu Lögbirtings daginn sem umsóknarfrestur rann út, nú rétt fyrir kosningar. Eini maðurinn, sem vissi af auglýsingunni og sótti um í tæka tíð, er mér sagt að sé sonur ritara dómsmálaráðherra.

Sá heitir Páll Winkel og er nýtekinn við starfi hjá Ríkislögreglustjóra en var áður framkvæmdastjóri Landssambands lögreglumanna. Páll er líklega þekktastur fyrir grein sem hann birti 3. febrúar sl. í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni Hvenær brýtur maður lög? en þar hjólaði hann í Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna Baugsmálsins og sagði meðal annars: "Það er athyglisvert að greina röksemdafærslu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur sem haldið hefur því fram og síðast nú á dögunum að ákæruvaldið sé "handbendi" Sjálfstæðisflokksins."

Sú aðferð sem viðhöfð var við að auglýsa embætti vararíkislögreglustjóra ýtir væntanlega undir getsakir um að Páll mundi koma illa út úr faglegum samanburði við aðra umsækjendur ef embættið hefði verið auglýst fyrir opnum tjöldum og með eðlilegum hætti. Hvort sem formlegum skilyrðum laga um auglýsingu opinberra embætta er fullnægt eða ekki gefa vinnubrögðin til kynna að málið sé rekið áfram og að málstaðurinn standist illa gagnrýni. Er óþarfi að láta Pál liggja undir slíku ámæli og sjálfsagt að auglýsa embættið að nýju með eðlilegum hætti.

Maður hlýtur að ætla að nú taki Geir H. Haarde sjálfur eða þá erindrekar hans dómsmálaráðherra á beinið og setji honum stólinn fyrir dyrnar um embættisveitingar fram að kosningum. Og í því sambandi er rétt að benda á að nú hefur dómsmálaráðherra á borði sínu umsóknir um embætti ríkissaksóknara, sem hann auglýsti og kaus að láta umsóknarfrestinn renna út rétt fyrir kosningar. Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að dómsmálaráðherra fylgi fordæmi félagsmálaráðherra sem auglýsti á dögunum lausa til umsóknar stöðu skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu en lét umsóknarfrestinn renna út löngu eftir kosningar, þannig að það komi í hlut þess sem gegnir embætti ráðherra á næsta kjörtímabili að skipa í embættið.


Kristján Þór og Stjáni blái

Sjálfstæðismenn segja fátt í þessari kosningabaráttu og það litla sem þeir segja reyna þeir að draga til baka jafnóðum. Ásta Möller skipti um skoðun á ljóshraða í beinni útsendingu þegar verið var að ræða forsetann og stjórnarmyndun. Geir H. Haarde setti allt á fullt þegar farið var að tala um áhuga sjálfstæðismanna á einkavæðingu Landsvirkjunar og dró svo vel í land að síðan hefur ekki verið á það minnst. Í dag var Kristján Þór Júlíuson í hádegisfréttum Stöðvar 2 að reyna að hlaupast undan því sem hann sagði á vinnustaðafundi hjá Sæplasti í Dalvík og hefur sagt víðar á vinnustöðum að þetta ríkisstjórnarsamstarf verði ekki endurnýjað og að hann sjái helst fyrir sér stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á næsta kjörtímabili.

Það var broslegt að sjá Kristján Þór reyna að hlaupast undan þessu. Hann neitaði aðeins að þetta hefði verið á opnum fundi, sem hvergi hafði verið fullyrt. Hann kannaðist við að hafa látið ummælin sjálf falla en það hefði verið í glensi. Ekki föttuðu þó allir brandarann og var mikið um þetta rætt manna á meðal og sama hefur verið upp á tengingnum á fleiri vinnustaðafundum í kjördæminu. 

Að lokum þetta:  Segir Kristján Þór eitt á vinnustaðafundum og annað á opnum fundum? Eru Kristján Þór og Stjáni blái ekki einn og sami maðurinn? Er hann í skemmtireisu eða á kosningaferðalagi um kjördæmið? Er hann ekki að biðja um traust almennings til að verða 1. þingmaður kjördæmisins?

Eftirmáli, smá upprifjun. Kristján Þór Júlíusson í viðtali við Dag, árið 1988:

Ég er ekki bundinn neinum flokkspólitískum böndum, enda held ég að myndi þrífast ákaflega illa í einhverjum flokki.


Nú og þá

Sniðugt myndband með Steingrími J. þá og nú 


Ótti við nærveru og ótti við fjarveru

Forseti Íslands er nú á sjúkrahúsi en sem betur fer er ekki talið að veikindi hans séu alvarleg. Megi hann komast til heilsu fljótt og vel.

Í kjölfar frétta af veikindum forsetans hefur athyglisverð umræða átt sér stað á bloggi Bryndísar Ísfoldar Hlöðversdóttur, Samfylkingarkonu. Bryndís óttast að fjarvera forsetans geti sett strik í stjórnarmyndunarviðræður að loknum kosningum. Hún lýsir áhyggjum af því að handhafar forsetavalds sinni skyldum forsetans við stjórnarmyndun en í því þríeyki hefur Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta, sem kunnugt er, Bryndís óttast að fjarvera forsetans auki líkur á að Sjálfstæðisflokkurinn leiði næstu ríkisstjórn.

Síðastliðinn sunnudagsmorgun henti það Ástu Möller að opinbera í bloggi ótta sinn og fleiri  sjálfstæðismanna vð nærveru forsetans við stjórnarmyndun. Ásta óttaðist að nærvera forsetans drægi úr líkum á því að Sjálfstæðisflokkurinn leiði næstu ríkisstjórn. Það er illa varðveitt leyndarmál að sjálfstæðismenn hafa lengi óttast það að forseti Íslands geti gerst plássfrekur við stjórnarmyndunarviðræður og jafnvel ráðið þar úrslitum.

Að vísu róaðist Ásta undraskjótt. Sama kvöld lýsti hún með ógleymanlegum hætti fullu trausti á því að forsetinn þekkti og mundi virða skyldur sínar við stjórnarmyndun. Skildi ég hana þannig að hún hefði verið fullvissuð um að enginn munur væri á hugmyndum Ólafs  Ragnars Grímssonar og sjálfstæðismanna um hlutverk og vald forstans, skv. stjórnarskránni. Voru það nokkur tíðindi.

Það var talsvert hneykslast og hlegið að þessari uppákomu hjá Ástu. Hæst hlógu Samfylkingarmenn, t.d. þessi og þessi. Í leiðinni hneyksluðust þeir á að hún léti sér til hugar koma að forsetinn misbeitti valdi sínu til að hafa áhrif á stjórnarmyndun. Guðmundur Steingrímsson, sagði að Ásta hefði gert þau reginmistök að taka undir með Reykjavíkurbréfi og sagði:

Nú ætluðu þeir að sá tortryggni í garð forsetans. Að hann myndi hafa "óeðlileg afskipti" eins og það heitir, af stjórnarmyndunarviðræðum.

En nú kemur Bryndís Ísfold fram og sýnir okkur að nákvæmlega sami óttinn býr í hjörtum Samfylkingarfólks og sjálfstæðismanna,  bara í annarri mynd. Báðar óttast að Ólafur Ragnar ráði úrslitum. Ásta óttaðist áhrifin af nærveru hans en Bryndís óttast nú áhrifin af fjarveru hans. Þarf nú ekki Samfylkingin að róa Bryndísi og fullvissa hana um að þetta sé óþarfi og forsetinn hafi auðvitað engin "óeðlileg afskipti" af stjórnarmyndunarviðræðunum. Þarf ekki Samfylkingin að minna  Bryndísi Ísfold á að trúa ekki Reykjavíkurbréfinu?


Einkavæðingarfíknin

Félagi minn var að benda mér á að í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um iðnaðarmál hefði verið laumað inn eindreginni stefnu um einkavæðingu í heilbrigðis-, orku- og menntamálum. Þar segir: 

Einkavæðing bankanna hefur sýnt okkur þann kraft sem leysist úr læðingi við það að einkaaðilar taki við rekstri. Nýsköpun og þróunarstarf þessara fyrirtækja hefur skilað þeim góðum árangri bæði hér heima og erlendis. Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði  heilbrigðis-, mennta- og orkumála.


Spámaður á Dalvík: D og S í næstu stjórn

Kristján Þór Júlíusson, oddviti sjálfstæðismanna í í Norðausturkjördæmi, var á kosningafundi í Dalvík í síðustu viku en þar bjó hann árum saman og hóf pólitískan feril sinn í bæjarstjórastólnum þar. Á fundinum sagði Stjáni blái að ríkisstjórnarsamstarfinu væri lokið hvernig sem kosningarnar færu. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin myndi næstu ríkisstjórn.

Best gæti ég trúað því að þetta væri rétt hjá honum Kristjáni Þór og að það væri jafnvel búið að ganga frá þessu. Í þeirri ríkisstjórn er ekki ólíklegt að Kristján L. Möller oddviti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verði ráðherra. Það er hins vegar afar ólíklegt að Kristján Þór Júlíusson stökkvi beint inn í ríkisstjórn. Hann yrði þess vegna að  láta sér nægja þrenn laun, amk fram eftir kjörtímabili, þ.e. þingfararkaup, biðlaun bæjarstjóra, og laun forseta bæjarstjórnar. Ráðherralaunin koma kannski seinna.


D + F vantar einn mann, samkvæmt Fréttablaðinu

Mér finnst athyglisvert við könnun Fréttablaðsins í dag að það munar litlu að Sjálfstæðisflokkurinn geti myndað tveggja flokka ríkisstjórn með Frjálslyndum. Könnunin í dag gefur sjálfstæðismönnum 28 þingmenn en Frjálslyndum þrjá, þannig að það vantar einn þingmann í meirihlutastjórn þessara tveggja flokka.

Það er athyglisvert í ljósi þess að frjálslyndir eru upphaflega klofningsbrot úr Sjálfstæðisflokknum. Og tveir af líklegustu þingmannsefnum frjálslyndra í dag eru einmitt fyrrverandi varaþingmenn Sjálfstæðisflokksins, Guðjón Arnar og Jón Magnússon. Hve langt yrði þá þangað til frjálslyndir rynnu aftur saman við stofninn sem þeir klofnuðu upphaflega frá? Þá væri íhaldið komið með nánast hreinan meirihluta á Alþingi.

Ég held hins vegar að það sé alveg ljóst að núverandi ríkisstjórn verður ekki endurreist  ef niðurstöðurnar verða í líkingu við þetta, ef Sjálfstæðisflokkurinn nýtur en Framsóknarflokkurinn geldur verka ríkisstjórnarinnar hljóta Framsóknarmenn að draga sig í hlé, ef fylgið er komið niður í um 10%. 


Capacent klúðrar

Capacent tók að sér að reikna út auglýsingakostnað stjórnmálaflokkanna fyrir kosningar og klúðraði því. Þeir tvíbókuðu einhverjar tekjur og ofmátu kostnað framsóknar um 4,3 milljónir. Er ekki tilvalið að Capacent noti svona 4,3 milljónir af sínum peningum í auglýsingar til þess að reyna að bæta þann skaða sem þessi rangfærsla fyrirtækisins hefur valdið á viðkvæmu stigi í kosningabaráttu?

Ranga fréttin var 2. frétt í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær með mikilli dramatík um að Framsóknarflokkurinn væri búinn að auglýsa mest og væri langt kominn með auglýsingapeningana. Leiðréttingin svokallaða um að í raun hafi Samfylkingin auglýst mest var lesin undir mynd í miðjum hádegisfréttum á laugardegi sem enginn hlustar á. Sama á við um fleiri miðla. Ranga fréttin var forsíða á vef RÚV en leiðréttingin rataði aldrei þangað inn.

Og um þetta samkomulag; það tók gildi eftir að Samfylkingin ein flokka var löngu farin í gang með blaðaauglýsingar. Það mælir bara blöð, útvarp og sjónvarp, ekki t.d. kostnað við símhringingar, sem er aðaláherslumál Sjálfstæðisflokksins, ekki markpóst og beina markaðssetningu, sem er líka mikil áhersla á hjá Samfylkingunni eins og sést af því að fólk á þeirra vegum gengur nú í hús og gefur rósir auk þess að senda stefnuplögg í markpósti á valda hópa. Það mælir ekki flettiskilti og götuskilti og ekki vefauglýsingar. Og það mælir ekki heldur 3ja milljóna króna leigu Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks á Húsdýragarðinum í Reykjavík.

Og heldur ekki útgáfu á blöðum, eins og þeim sem Samfylkingin hefur vikulega dreift í öll hús í borginni, og framsókn dreifði í dag í öll hús í Reykjavík. Þannig að þessar mælingar Capacent segja hvort sem er enga sögu nema þessa einu: þeir klúðruðu því, ollu skaða og eru ekki að leggja sig fram um að bæta fyrir hann. Þegar þetta bætist við lýsinguna á vinnubrögðum í skoðanakönnunum þeirra hér að neðan sýnist mér að þetta fyrirtæki sé í ákveðinni krísu.


Sérfræðingar og frambjóðendur

Fyrsta frétt Stöðvar 2 var viðtal við Elvira Méndez Pinedo, sérfræðing í Evrópurétti, og hún telur að það hafi verið vegið að grunnstoðum réttarheimspekinnar með ákvörðun um að veita verðandi tengdadóttur Jónínu Bjartmarz ríkisborgararétt. Stöð 2 taldi ekki ástæðu til þess að upplýsa okkur áhorfendurna um það að Elvira Méndez Pinedo skipar 4. sætið á framboðslista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður. Sömu mistök gerði Blaðið í dag. Ég segi eins og Ómar að ég er ekki sérfræðingur í Evrópurétti en hitt tel ég mig geta sagt að það er ekki í samræmi við útbreiddustu hugmyndir um góða  blaðamennsku að leiða fram manneskju sem hlutlausan sérfræðing í pólitísku máli án þess að geta þess að sami sérfræðingur er pólitíkus í framboði til Alþingis.

Skoðanakannanir og veðurfræði

Við Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og -bloggari, vorum að drekka saman kaffi yfir fartölvunum okkar og hann var að fara með mér yfir útreikninga sína á nýjustu skoðanakönnun Capacent, sem birt var í Mogganum í gær.  Af því að Einar bloggar bara um veðrið bað ég um og fékk leyfi til miðla þessum þeim útreikningum hans. Þeir eru svona:

Það voru 1225 manns í úrtakinu og svarhlutfallið var 62,3%, sem þýðir að ekki náðist í 37,7% af úrtakinu og því liggja 763 svör til grundvallar niðurstöðunni. Af þeim segjast um 26% vera óákveðnir, neita að svara eða segjast ekki ætla að kjósa. Þá eru eftir 575 einstaklingar um land allt sem svara Capacent og gefa upp afstöðu sína. Þrátt fyrir að fjöldinn sé ekki meiri en þetta brýtur Capacent svörin niður í kjördæmi og gefur upp prósentur í einstökum kjördæmum. Það er merkilegt af því að það þýðir að upplýsingarnar um stöðu mála í Reykjavíkurkjördæmunum byggist á svörum frá 116 einstaklingum. Út frá því er svo fullyrt að þessi sé inni, þessi sé úti og Sjálfstæðisflokkurinn fái annað hvert atkvæði.

Í Norðvesturkjördæmi eru uppgefin svör frá 61 einstaklingi á bak við þær niðurstöður sem Capacent gefur upp. Mér þykja þetta merkilegar upplýsingar. Einar fullyrðir að þetta séu mun smærri úrtök en Capacent hefur áður notað í skoðanakönnunum þar sem fylgi í einstökum kjördæmum er gefið upp, enda ekki skrýtið af því að það er ljóst að þegar fjöldinn er ekki meiri en þetta getur hver svarandi sveiflað fylgi flokkanna til og frá um heilt prósentustig eða jafnvel meira, eins og í Norðvesturkjördæmi, þar sem hver svarandi vigtar vel á annað prósent.


Úthverfapakk - nei takk

Það koma fram athyglisverðar upplýsingar fyrir minn smekk í smáletursdálkinum frá Degi til dags í Fréttablaðinu í dag. Þar er Sigríður Björg Tómasdóttir, fréttastjóri, búinn að leggjast í þá rannsóknarvinnu að telja í hvaða póstnúmerum efstu menn framboðslista búa. Hún kemst að því að hvorki fleiri né færri en sjö af efstu 10 frambjóðendum Samfylkingarinnar í báðum Reykjavíkurkjördæmunum eru búsettir í Mið- eða Vesturbæ Reykjavíkur, þ.e. póstnúmerum 101 og 107. Já, 14 af 20 efstu hjá Samfylkingunni í Reykjavík eru úr þessum hverfum. 

Hjá VG er staðan þannig í Reykjavík norður af 4 af 5 búa í 101 eða 107 en sá fimmti alla leið austur í Norðurmýri sem er vitlausu megin við landamæri 101 og 105.  Í Reykjavík suður er staðan önnur hjá VG, þar eru fjórir af fimm úr 108 eða 105. Athyglisvert.


Kæri

Ég kæri allt sem kæranlegt er, segir Sigurður Tómar Magnússon í Fréttablaðinu í dag. Hann er ekki jafnmikill fjölmiðlamaður og andstæðingar hans. Honum hefur t.d. ekki tekist að koma því til skila að meðal þess sem sakfellt var fyrir í héraði var ákæruliðurinn sem snýst um upphaf málsins, húsleitina sem fór fram vegna nótunnar sem Jón Gerald fór með til Jón Steinars. Eða er það ekki rétt hjá mér?  Maður hefði haldið að það væri það eit af því fáa sem ákæruvaldið getur huggað sig við eftir Baugsdóminn.

Allt annað líf

Allt annað líf. Þetta er slagorð VG, í blöðunum í dag er mynd Steingrími J. undir þessu slagorði. Mér finnst þetta fínt slagorð hjá VG, svona fyrir þeirra hatt. Ég held að þetta sé að virka fyrir þá. Ég held að með þessu sé einmitt verið að höfða til þeirra sem eru óánægðir með lífið og eru að bíða eftir því að eitthvað gerist. Að stjórnvöld taki nú á málinu. Ali t.d. fyrir þau upp börnin með því að herða útivistarreglurnar og koma á netlöggu í stað þess að taka sjálfur ábyrgð á því hvað krakkarnir manns eru að gera á netinu. Þá yrði nú allt annað líf. Ef ríkið gerði nú bara eitthvað í þessu.


Var hefndin sæt?

Ég hef fengið staðfest að Finnur Ingólfsson rak Skúla Thoroddsen, núverandi framkvæmdastjóra Starfsgreinasambandsins, úr starfi framkvæmdastjóra Félagsstofnunar stúdenta einhvern tímann í kringum 1980, þegar Finnur var leiðtogi Umbótasinnaðra stúdenta. Ætli það skýri bullið í Skúla Thoroddsen á Húsavík 1. maí?

Hvenær ætli stjórn Starfsgreinasambandsins biðjist afsökunar á því frumhlaupi framkvæmdastjóra síns? 


VG: Inn með börnin?

Ég held að ég skilji þessa færslu hennar Sóleyjar Tómasdóttur, ritara VG, rétt: Hún er að tala um að það sé nauðsynlegt að endurskoða og þrengja útivistarreglur barna á Íslandi. Ætli það sé stemmning fyrir því í þjóðfélaginu nú á þessum tíma þegar börnin eru farin út í sumar og sól?


Reiðilestur

Ósk Vilhjálmsdóttir, sem skipar 2. sæti Íslandshreyfingarinnar í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæminu, hellti sér yfir Egil Helgason og aðra starfsmenn Stöðvar 2 eftir kosningafundinn í Reykjavík norður í gærkvöldi. Egill lýsir þessu svo í pistli  þar sem hann talar um að Íslandshreyfingin sé að fara á taugum og hafi það helst fram að færa að skamma fjölmiðlamenn.

Á eftir kosningafundi á Stöð 2 í kvöld réðst á okkur reið kona úr Íslandshreyfingunni. Hún vildi meina að kosningaþættirnir væru svo leiðinlegir að þeir væru að eyðileggja kosningarnar. Vildi meina að þetta væri miklu betra til dæmis í Þýskalandi.

Egill nafngreinir ekki konuna en hann er að vísa til Óskar að sögn heimildarmanns sem varð vitni að uppákomunni. Það þótti mér undarlegt að heyra, Ósk Vilhjálmsdóttir varð eiginlega til sem álitsgjafi og og nafn í pólitískri umræðu af því að hún var fastagestur í Silfri Egils. Mér finnast reyndar kosningaþættir ekki alltaf skemmtilegir, sumir ömurlegir, eins og skattaþátturinn á RÚV þar sem klapplið hló niðursoðnum hlátri eins og í amerískri sápuóperu og Steingrímur J missti sig yfir góðan dreng sem spurði saklausrar og sjálfsagðrar spurningar um yfirlýsingar Ögmundar um bankana. En ég horfi alltaf á þessa þætti á Stöð 2 og bíð eftir lokakaflanum þegar Egill kveikir á grillinu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband