hux

Orð dagsins

Leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag finnst mér merkilegur. "Það er ekki ásættanlegt að efnahagsleg stöðnun sé forsenda fyrir stöðugleika í þjóðarbúskapnum," segir hann og hafa aðrir ekki betur sett puttann á púlsinn í evrumálum.

Mér fundust talsverð tíðindi í því að Þorsteinn talaði með svo ótvíræðum hætti um evrumálin og þessi yfirlýsing er markverðari en ella ef hún er metin í ljósi sögunnar:

Að því er Evrópusambandið varðar hafa allar aðstæður líka breyst. Þau sjónarmið sem áður voru gild gegn aðild eru það sum hver ekki með sama hætti lengur.

Hér skrifar maður sem var formaður Sjálfstæðisflokksins á þeim tíma, fyrir kosningarnar 1991, þegar Sjálfstæðismenn voru harðir andstæðingar samningsins um EES. Stefna Þorsteins í Evrópumálum sem formanns Sjálfstæðisflokksins var sú að ná tvíhliða samningum við Evrópusambandið, það voru bæði hagsmunir sjávarútvegsins og spurningin um fullveldisafsal sem réði þeirri afstöðu, ef ég man rétt.

Einhvern tímann var sagt að sú afstaða Þorsteins hefði ráðið miklu um að Davíð Oddsson bauð sig fram gegn honum til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Nú eru breyttir tímar og Þorsteinn, sem eins og jafnan er jarðbundinn og varfærinn í allri afstöðu er búinn að skipta um skoðun. Mér finnst ekki til skýrara tákn um það að í dag eru það hófsemdarmennirnir í þjóðfélaginu sem vilja taka upp evru og huga að nánara sambandi við Evrópu en ævintýramennirnir einir sem vilja áfram gera út á krónuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan daginn Pétur og gleðilegt ár.

Gott hjá þér að vekja athygli á þessum leiðara Þorsteins.

En er það nú svo að það séu bara "hófsemdarmennirnir" sem vilja taka upp EVRU og ævintýramennirnir, sem vilja gera áfram út á krónuna? Ég dreg það stórlega í efa.

Af hverju láta 94% Frakka í ljós þá skoðun sína að upptaka EVRU hafi haft í för með mikla verðbólgu? Af hverju virðist meirihluti fólks í dag í EB löndunum vera þeirra skoðunar að EVRAN hafi haft í för með sér aukið atvinnuleysi, minni hagvöxt, aukna verðbólgu og rýrnandi lífskjör? Af hverju vill verulegur meirihluti Þjóðerja taka upp DM á ný? Þetta fólk hefur allt saman upplifað EVRUNA, hinn sameiginlega gjaldmiðil og þann ósveigjanleika sem hann hefur í för með sér í hagstjórn einstakra landa og rýnandi lífskjör þar af leiðandi.

Því skyldu Íslendingar vilja gefa frá sér þann sveigjanleika í hagstjórninni, sem ótvírætt er eitt af þeim meginatriðum, sem ráðið hefur mikilli og vaxandi velsæld þjóðarinnar á undanfarandi 10-15 árum? Stöðnun og samdráttur í hagkerfinu er óhjákvæmilegur fylgifiskur upptöku EVRUNAR, það hafa aðrar þjóðir fundið á sínu  "eigin skinni" og þáttakendur í slíku "hagfræðilegu þjóðarlottói" vilja ábyggilega ekki margir "hósemdarmenn" á Íslandi verða.

Þó að "nokkuð hóflega" verðbólga og ójafnvægi í peningamálum þjóðarinnar sé á stundum "hvimleiður" fylgifiskur sjálfstæðrar krónu, þá er stöðnun hálfu verri. Okkar Íslendinga íslenska hagstjórn hefur fært okkur miklu meiri velsæld en flestra annarra nágrannalanda okkar og að henni eigum við því áfram að hlúa.

Bestu kveðjur.

Guðm. r. Ingvason

Guðm,. R. Ingvason (IP-tala skráð) 2.1.2007 kl. 11:28

2 identicon

Þessi endalausa sveifla krónunnar gerir engum gott. Hvað sem annars má segja um tollabandalag Evrópu er skynsamlegt að ganga í Evrópusambandið. Það er fáránlegt að standa fyrir utan og gagnrýna og hafa engin áhrif en kokgleypa allar tilskipanir án athugasemda. Við ættum að byrja á því að ráða 20 manns á skrifstofu sveitarfélaganna í Brussel í stað þess að hafa þar einn starfsmann - 20 manna góð lögfræði- og lobbýdeild myndi skila þjóðarbúinu miklum tekjum. Síðan eigum við að ganga í sambandið og hafa eitthvað um málið að segja. Að nota rökin: við erum svo lítil að við höfum engin áhrif er alveg eins og að segja: ég bý á Raufarhöfn og nota þess vegna ekki atkvæðið mitt í kosningum.

Hólshreppur (IP-tala skráð) 3.1.2007 kl. 11:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband