hux

Skýrsla Evrópunefndar: VG vill bakka út úr EES

Eins og fram hefur komið hér áður skiluðu fulltrúar sjálfstæðismanna og VG sameiginlegri bókun í Evrópunefnd undir stjórn Björns Bjarnasonar.  En að auki gera fulltrúar flokkanna tveggja sérbókun, hvor fyrir sig.

Sérálit Ragnars Arnalds og Katrínar Jakobsdóttur felur í sér grímulausa einangrunarhyggju þar sem kemur fram sú stefnumörkun að það geti þjónað hagsmunum Íslands til framtíðar að þróa samstarf við Evrópu í átt frá EES-samningum og að einfaldara tvíhliða samstarfi. 

Fulltrúar Vinstri hreyfingarinnar -græns framboðs leggja áherslu á að hagsmunir fjármagns og heimsfyrirtækja séu í alltof ríkum mæli drifkraftar Evrópusamrunans en miðstýring og skrifræði samfara skorti á lýðræði einkenni stofnanir þess um of. Þótt EES-samningurinn sé langt í frá gallalaus og byggist um of á forræði ESB teljum við reginmun á því fyrir Íslendinga að byggja samskipti sín við ESB á EES-samningnum fremur en með inngöngu í Evrópusambandið með þeim stórfelldu ókostum sem ESB-aðild fylgja eins og fyrr er rakið. Á komandi árum gæti það þjónað hagsmunum Íslands betur en ESB-aðild að þróa EES samninginn í átt til einfaldari tvíhliða ramma um viðskipti og samvinnu.

Skýrslan er stórmerkileg lesning og greinilegt að vandað hefur verið vel til starfsins og miklar upplýsingar dregnar saman.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jens Ruminy

Það er náttúrulega svo sem hægt að láta reyna á tvíhlíða samninga. Sjá bara Sviss. Spurning er hins vegar, hvort ESB mundi nenna að tala við Ísland um hagsmuni sem væri aðallega hagsmuni þessa úthafseyju, þ.e. að hafa aðgang að markaðinum, stýrki og allt þetta. Hvernig fór með hugmýndina um að tala við Bandaríkin vegna inngöngu í NAFTA þegar EES var ekki enn komið í höfn?

Eina beitið fyrir ESB til að tala við Ísland væri þá kannski fiskimiðin, eða ódýra orku, einmitt þau tvö atriði sem VG eru vænst ...

Ég helt að úrsögn úr EES er ein raunhæft á næstunni og að segja sig úr NATO á sínum tíma og senda Kana heim. Þeir fóru ekki fyrr enn þeim þóttist það passlegt. 

Jens Ruminy, 13.3.2007 kl. 22:20

2 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Þessi ályktun þín, Pétur, í fyrirsögn á sér ekki stoð í textanum ef grannt er lesið...

Árni Þór Sigurðsson, 13.3.2007 kl. 22:23

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Ég bið þig að skýra þetta nánar út, Árni Þór, ég get ekki skilið þetta á annan veg.

Pétur Gunnarsson, 13.3.2007 kl. 23:45

4 identicon

Það getur náttúrlega verið mikið sport í að skrifa skýrslur út og suður á okkar kostnað og kveina svo yfir því að ekki sé til króna með gati handa gamla fólkinu. Bíbí getur náttúrlega hreykt sér af því og spyrt við það Þórðargleði sinni yfir að hafa splundrað hjónaböndum með því að senda útlendinga úr landi vegna þess að þeir séu of ungir til að ganga hér í hjónaband. Það er langt seilst þegar ríkið skríður í hjónasængina en Bíbí er náttúrlega á móti því að Das Reich sé með nefið ofan í hvers manns koppi. En blautt er nefið á Birni bónda og safnaði hann miklu Sjallaliði í þessum hernaði gegn óæskilegum hjónasængum. Vindmyllurnar fuku og Sansjó Pansa hafði ærinn starfa. Sjaldan hefur fegurð mannlífsins verið meiri eða reisnin hjá stjórninni.

Það er ekki meirihluti á Alþingi fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið og það verður ekki heldur meirihluti fyrir því eftir kosningarnar í vor. En það sem búið er að samþykkja í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins verður ekki dregið til baka og viðskipti eru alls staðar að aukast, öllum í hag. Samningarnir eru tvíhliða, annars vegar á milli Íslands og hins vegar Evrópusambandsins, og við komumst ekki hjá að gera nýja samninga, til dæmis vegna mengunar íslenskra flugvéla í Evrópu og evrópskra flugvéla hér. Gangi Ísland í Evrópusambandið fær það engin fiskveiðiréttindi hér, því langt er um liðið síðan skip frá Evrópusambandslöndum stunduðu veiðar hér að einhverju marki. Hins vegar gætu Íslendingar fengið rétt til veiða annars staðar en á Íslandsmiðum. Við erum til dæmis með fiskveiðisamninga við Noreg. Noregur mun fyrr eða síðar, og það fyrr en síðar, ganga í Evrópusambandið og þá munum við óhjákvæmilega gera það líka.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 00:06

5 Smámynd: Pétur Gunnarsson

einmitt steini, það jákvæðasta sem ég get reynt að túlka út úr þessari bókun ragnars og katrínar og byggi þá á því sem ekki stendur í texta þeirra er að ef Noregur gangi inn í ESB eigum við ekki að fara sömu leið heldur að leita tvíhliða samnings við ESB þegar EES-samningurinn er orðinn að engu. Annars er þetta fínasta skýrsla ég sé hvert sem ég lít í henni röksemdir og vísbendingar um að við getum vænst hins besta árangurs í aðildarviðræðum.

Pétur Gunnarsson, 14.3.2007 kl. 00:13

6 identicon

Im Westen nichts Neues.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 02:00

7 identicon

Það eina sem Bíbí hefur afrekað af skynsamlegu viti um sína ævidaga, þvera og endilanga, er að í Rússíá sáu menn villu síns vegar þegar þeir lásu hvert Reykjavíkurbréfið á fætur öðru og notuðu þvínæst á sínum kömrum, því lítið var um salernispappír þar eystra. Þannig komu Reykjavíkurbréfin að tvíeinum notum í Garðaríki. Eru menn þar fyrir austan fjall því ævinlega þakklátir Mogganum og báðu fyrir þessar góðu kveðjur til Bíbí:


Meðan blómin anga og sorgir okkar sofa
er sælt að vera fátækur, elsku Bíbí minn.
Nú byggjum oss í lyngholti lítinn dalakofa
við lindina sem minnir á augasteininn þinn.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 06:09

8 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Jú, í bókuninni stendur:  Þótt EES-samningurinn sé langt í frá gallalaus og byggist um of á forræði ESB teljum við reginmun á því fyrir Íslendinga að byggja samskipti sín við ESB á EES-samningnum fremur en með inngöngu í Evrópusambandið með þeim stórfelldu ókostum sem ESB-aðild fylgja eins og fyrr er rakið. Á komandi árum gæti það þjónað hagsmunum Íslands betur en ESB-aðild að þróa EES samninginn í átt til einfaldari tvíhliða ramma um viðskipti og samvinnu.

Taktu eftir þessu undirstrikaða, þar er beinlínis sagt að EES-samningurinn sé betri en ESB aðild.  Fyrirvarinm að þróa EES samninginn í átt til einfaldari tvíhlíða ramma um viðskipti og samvinnu (taktu eftir viðtengingarhættinum) helgast að því að aðstæður geta breyst varðandi EES samninginn og sú staða getur komið upp að hann verði ekki lengur nothæfur.  Ef það gerist, sem er að vísu ekkert sjálfgefið, gætum við þurft að velja milli ESB aðildar og hins að þróa samninginn yfir í tvíhliða samkomulag. 

Annað segir þessi bókun ekki.

kveðja

Árni Þór Sigurðsson, 14.3.2007 kl. 09:28

9 identicon

Góðan daginn.

Ég er búinn að grufla svolítið í skýrslunni og finnst hún vel unnin og mikið um fróðlegar og góðar upplýsingar í henni.

Nefndarmenn, og starfsmenn nefndarinnar, eiga heiður skilið fyrir vinnubrögðin, ekki hvað síst formaðurinn Björn Bjarnason. Og Steini Briem, mér finnst að þú eigir a.m.k. reyna að draga úr skítkasti þínu í garð Björns, ef þú vilt hljóma trúverðugur, því hvar í flokki sem menn standa, eiga menn að fagna ástundun, vandvirkni og vinnusemi Björns og væri betur ef slík vinnubrögð væru ástunduð víðar. 

Afstaða framsóknarmannanna í nefndinni vekja mér nokkra furðu. Ég var byrjaður að halda að talsmenn hans tæki nú einarða afstöðu gegn inngöngu í ESB, hélt að áhrif Halldórs og hans stuðningsmanna gagnvart ESB væru horfin.  Hélt að flokkurinn þyrfti án vafa á slíkri afstöðu að halda, ef að hann ætlaði sér að reyna að ná í þá fjölmörgu fyrrum kjósendur sína, sem hafa horfið á braut vegna daðurs Halldórs við ESB. En lengi má manninn reyna. Kannski er það bara eðlilegast að Evrópusinnar í Framsókn yfirgefi flokkinn og sameinist Samfylkingunni, þar virðast þeir best eiga heima. Ég held nefnilega að verulegur meirihluti þeirra, sem ennþá kjósa Framsókn, vilji ekkert hafa með aðild að ESB að gera, grundvöllur flokksins er jú í upphafi á þjóðlegum, sjálfstæðs og óháðs íslendings nótum.

Mér finnast eftirfarandi ummæli Samfylkingarmannanna Össurar og Ágústs Ólafs í skýrslunni vera hins vegar mjög hreinskilin og upplýsandi, nefnilega;

"Í aðild að ESB felst að sjálfsögðu framsal ríkisvalds til sameiginlegra stofnana Evrópusambandsríkjanna."  (bls. 122).

Þá vitum við það, svart á hvítu. Við eigum að bugta okkur og beygja undir ESB valdið. Hvar er eiginlega hjá þeim Samfylkingarmönnum stoltið, sjálfstæðið, íslendingurinn og trúin á getu okkar íslendinga að fara betur með okkar eigin mál en fela erlendar ríkjum slíkt fyrir okkar hönd;  og svo;

"Það er rétt að minna á að þingmenn á Evrópuþinginu skipa sér í hópa eftir stjórnmálaskoðunum en ekki þjóðerni." (bls. 123). 

Þarna kemur loks skrifleg játning á því af hverju kratar/samfylking sækja svo heitt og fast í ESB. Hin "sósíaldemókratísku" viðhorf á meginlandi staðnaðar Evrópu gera það líklegt í hugum Samfylkingarinnar, að svokallaðir "jafnaðarmenn" á Íslandi komist í meirihlutaaðstöðu á Evrópuþinginu, aðstaða sem þeir fá væntanlega aldrei á Íslandi einir og sér.

Kveðja.

Guðm. R. Ingvason 

Guðm. R. Ingvason (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 10:32

10 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Eins og ég sagði í aths.5 þá þótti mér að með miklum og góðum vilja mætti leggja þetta út á þennan veg að það væri verið að fjalla um hvernig bregðast ætti við inngöngu Noregs í ESB og að þá vildi VG fremur tvíhliða samning en inngöngu. En ekki er þetta skýrt orðað hjá leikskáldinu. En er það rétt skilið að VG telji þessa röð besta á fyrirkomulagi samstarfs okkar við ESB. 1. tvíhliða samningur. 2. EES. 3. aðild? þannig að tvíhliða samningur sé fyrsti kostur en aðild sá sísti og ees. 

Pétur Gunnarsson, 14.3.2007 kl. 10:37

11 identicon

Ísland, Noregur og ESB eru núna í staðfestri sambúð í EES og hún verður áfram skráð hjá Hagstofunni þangað til Noregur og ESB ganga í heilagt hjónaband. Þá vill Kata kanna fyrst hvort hún getur gert tvíhliða samning við ESB, frekar en að skella sér í hjónasængina með þessum marghöfða þurs. Kata köttar krappið.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 13:34

12 identicon

Hver ætli sé nú hinn stóri mykjudreifari, Guðmundur minn? "Ástundun, vandvirkni og vinnusemi Björns" í þessu máli hefur fyrirhitt fólk sem hefur ekkert til saka unnið annað en það að vera ástfangið og giftast hér á lögmætan hátt, alveg eins og þú kvæntist væntanlega þinni spúsu á sínum tíma. Var hún rekin úr landi vegna þess og hefði þér verið slétt sama um það? Það mætti halda það, samkvæmt þínu viðhorfi. Íslenska ríkið varð að bakka í þessu máli vegna þess að þessi lög voru ólög, tóm steypa frá upphafi, og ríkið var með Evrópu á bakinu, þvera og endilanga, vegna þessara mála. Já, vandvirkni Björns bónda er hágæða vandvirkni og rennur á færibandi út úr dómsmálaráðuneytinu. Flórinn mokaður tvisvar á dag. Vont er þeirra ranglæti en verra er þeirra réttlæti.


Björn hinn vinnusami og vandvirki sagði í ræðustól á Alþingi Íslendinga að ein þessara personae non gratae hér hefði flutt kókaín til landsins. "J'accuse!" Hvers vegna er þá hið lúsiðna íslenska ákæruvald, sem nú fer hamförum og jafnvel samförum í þúsundfalt stærra máli, ekki löngu búið að ákæra þennan seka skógarmann sem var hér óalandi og óferjandi öllum bjargráðum?! Er Björn bóndi ekki dómsmálaráðherra í þessu landi, dómsmálanna æðsti strumpur, og á ekki að vera eitthvað að marka það sem hann segir í þessum efnum?! Eða er það bara bull og þvaður út og suður um ekki neitt?! Ég ákæri þennan og ég ákæri hinn. Allt í plati, rassagati. Þegar ég sá Björn bónda flytja þessa steypu í pontu hins háa Alþingis minnti hann mig óneitanlega á sinn einkavin í hverri þraut, Lenín sjálfan í lífi lifanda. Ég barði þann kappa nýlega augum á Rauða torginu en heldur var hann rólegri og yfirvegaðri að sjá en Björn bóndi í ræðu sinni, enda hefur sá fyrrnefndi yfirgefið oss í anda, enda þótt ekki hafi hann yfirgefið oss í efni. Megi Björn taka hann sér til fyrirmyndar í þessum efnum, landi og lýð til heilla.    
  

Ég minnist þess þegar hingað kom fjöldamorðingi og pyntingameistari af góðum kínverskum ættum fyrir nokkrum árum og fólk af sama ætterni kom hingað til að sýna vanþóknun sína á þessum höfðingja. Nokkrir þeirra valhoppuðu í sakleysi sínu um Ægissíðuna til að anda að sér sjávarloftinu en íslenskur spíón sat þar í lúxusjeppa og hafði uppi njósn um þessu gulu smælingja með stórum sjónauka af bestu gerð. Ég hlaut að vera í Kína. Ægissíðan þangað flutt í heilu lagi með öllum sínum gögnum og gæðum, grásleppuskúrum sem fjörunni endilangri, allt að bústað Davíðs í Skerjafirðinum. Já, það er gott að vera vandvirkur og vinnusamur. Það var líka sagt um Stalín, Hitler og Mússólíni. Sómafólk, allt það fólk, sagði séra Sigvaldi.


Hjartans þakkir fyrir fróðlegt bréf. Bið að heilsa þinni ektakvinnu og þakka henni kærlega fyrir síðast, Guðmundur minn. Hafðu það ætíð sem best. Þinn vinur ævinlega í lífsins þraut.   

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 15:06

13 Smámynd: Árni Þór Sigurðsson

Blessaður félagi.  Ég las aths. þína nr. 5 og átta mig ágætlega á henni.  En útlegging þín með valkostum 1., 2. og 3. (í aths. nr. 10) er hypotetisk, við erum aðilar að EES samningnum og höfum ekki lagt til að honum verði sagt upp.  Hvað snertir hugsanlega aðild Noregs að ESB, sem sumir eru að velta fyrir sér hér á síðunni, segir mér svo hugur um að hún sé alls ekki á dagskrá þar í landi.  Ljóst er að núverandi ríkisstjórn mun ekki taka það mál á dagskrá og raunar heldur ekki stuðningsflokkar aðildar, nema tryggt sé að hún yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.  Og þannig er staðan bara ekki þar á bæ.

Árni Þór Sigurðsson, 14.3.2007 kl. 15:51

14 identicon

Noregur ákveður að ganga í Evrópusambandið á undan okkur og þá munum við sameinast þessu partíi í einu og öllu, þó Kata geti náttúrlega reynt fyrst að gera tvíhliða samninga við Evrópuþursinn marghöfða, enda engin ástæða til að þýðast slíka risa á fyrsta deiti. Olíuauður Norðmanna, sá þriðji stærsti í heimi, er til dæmis ekki endalaus uppspretta auðs. Og þó digrir séu olíusjóðir þeirra, sem stofnaðir voru 1996, eru þeir þó ekki nema 60% af landsframleiðslunni, um tvær milljónir íslenskra króna á mann, EINS OG YFIRDRÁTTUR VENJULEGS ÍSLENSKS HEIMILIS.

Steini Briem (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 17:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband