hux

Samræmdur spuni

Samfylkingin er komin langt á undan öðrum flokkum í kosningabaráttunni vegna þingkosninganna. Hún auglýsir nú grimmt í blöðum, nánast daglega. Hún hefur skipulagt og miðstýrir fjölmörgum bloggsíðum hér á moggablogginu. Loks stendur nú yfir skipulögð greinaherferð í blöðum þar sem hver Samfylkingarmaðurinn og - konan á eftir öðrum úrfærir spunann um það að Ingibjörg Sólrún sæti einhverju sérstöku einelti í pólitískri umræðu. Það er ein svona grein í Fréttablaðinu í dag og í Mogganum skrifar Árni Gunnarsson, fyrrverandi alþingismaður, um þetta sama. Um daginn var svo Hallgrímur Helgason með makalausa grein í þessum anda. Bloggfærslurnar eru fleiri en ég kem tölu á en nærtækast er að nefna að truno.blog.is var að því er mér sýnist stofnað til þess að halda þessari umræðu á lofti.

Nú ætla ég ekkert að þræta fyrir það að Ingibjörg Sólrún hefur víða verið gagnrýnd undanfarið og stundum sjálfsagt ómaklega. Harðast hafa gengið fram hennar eigin flokksmenn. Tilefni gagnrýninnar hefur verið það að skoðanakannanir hafa sýnt hver á fætur annarri að frá því að Ingibjörg Sólrún tok við formennsku hefur fylgi flokksins í skoðanakönnunum hrapað úr 34% í um 20%. Samfylkingarfólk hefur verið frústrerað yfir þessu sem vonlegt er, leitar sökudólga og staðnæmist við konuna í brúnni. Og eins var greinilegt að ummæli Ingibjargar Sólrúnar um að þingflokkurinn nyti ekki trausts, sem mér fundust til marks um hugrekki og heiðarleika af hennar hálfu, hleyptu mjög illu blóði í marga þingmenn flokksins.

Ég var stuðningsmaður Halldórs Ásgrímssonar og mér finnst vægast sagt að það andstreymi sem Ingibjörg hefur mætt í umræðu undanfarið vera hjóm miðað við þau spjót sem stóðu á Halldóri, mér finnst það líka hjóm miðað við þá gagnrýni sem t.d. Valgerður Sverrisdóttir sat undir í viðskipta- og iðnaðarráðuneytinu. Og mér finnst hún hjóm miðað við margt af því sem beindist gegn Davíð Oddssyni á sínum tíma og rann meðal annars úr penna sama Hallgríms Helgasonar sem skrifaði greinina í Fréttablaðið á dögunum. En það er svo sem ekki í fyrsta sinn sem það kemur í ljós að það er eitt að gera kröfur á aðra og annað að rísa undir þeim sjálfur. Og þess vegna get ég ekki annað en hlegið þegar Samfylkingarfólk er að kvarta undan skorti á málefnalegri umræðu um pólitík í landinu. Það má þó hann Össur eiga að hann hefur ekki gerst söngmaður í þessum kór, enn sem komið er. Kannski á hann grein um þetta einelti gegn Ingibjörgu í blöðunum á morgun.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Værii þú til í að telja eitthvað af þessum bloggum upp. Maður veit nú um mörg en hafði ekki reiknað með því að það væri skipulagt og miðstýrt nema kannski trúnó  og einhverjir slíkir.

Bara forvitinn!

Magnús Helgi Björgvinsson, 22.2.2007 kl. 13:16

2 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Þessu var nú ekki sérstaklega beint að þér Samfylkingarmaðurinn þinn en nýkratar, heilbrigd-skynsemi t.d. og það eru líka tveir starfsmenn flokksins öflugir í bloggi hér á mbl.is og nokkrir kjörnir fulltrúar og wannabes og fjöldi bloggara, t.d. trúnóhópurinn meira og minna. Kórinn syngur þegar sprotanum er veifað, eins og við er að búast þegar um er að ræða fólk sem er virkt í sama stjórnmálaflokki. En ég er klár á því að það er líka þarna margt fólk sem er  samfylkingarmegin í lífinu og er bloggarar fyrst og fremst. En að hluta til eru þetta kosningaátaksverkefni og blogg sem munu þagna 13. maí, sannaðu til.

Pétur Gunnarsson, 22.2.2007 kl. 13:26

3 Smámynd: Steindór Grétar Jónsson

Halldór, Valgerður og Davíð hafa nú öll verið í ríkisstjórn og gagnrýni því skiljanleg. Það þarf að gefa Ingibjörgu Sólrúnu tækifæri til raunverulegrar ákvarðanatöku í landsmálunum. Ef hún bendlar þjóðina við stríð eða sökkvir tugum ferkílómetra af landi í ríkisstjórn, þá má alveg gagnrýna hana. Hingað til hefur gagnrýnin þó verið að mestu innihaldslaus.

Steindór Grétar Jónsson, 22.2.2007 kl. 13:57

4 Smámynd: Ragnar Bjarnason

Má einungis gagnrýna ef þú ert í ríkisstjórn en ekki ef þú ert ekki í ríkisstjórn Steindór? Er ekkert gagnrýnivert við störf ISG þess vegna eða er það vegna einhvers annars? Hefurðu einhverja nánari útskýringu á "að mestu innihaldslaus" gagnrýni?

Ragnar Bjarnason, 22.2.2007 kl. 14:09

5 identicon

Þetta er nú einn allra mesti þvættingur sem ég hef nokkru sinni lesið. Það er ekki hægt að gagnrýna þá sem eru ekki í ríkisstjórn!!! Hvers vegna ekki? Með þessum rökum er Frjálslyndi flokkurinn stikkfrí frá gagnrýni vegna útlendingastefnu sinnnar, svo dæmi sé tekið.

Aðalsteinn J. Halldórsson (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 15:00

6 Smámynd: Sigfús Þ. Sigmundsson

Merkilegt.  Ég var einmitt að blogga um daginn um átak Framsóknarmanna til höfuðs Steingrími J.  Fyrst lagðist þú í lúsarleit í ræðum steingríms á althingi.is og fannst þar ummæli um þjórsáver, skömmu síðar kom svo Björn Ingi með tilvitnun í ræðu Steingríms fyrir löngu síðan sem hann hafði fundið í gagnagrunni vefsíðu Alþingis og vildi meina að sú ræða bæri vott um karlrembu.  Aldeilis tími sem menn hafa í svona grúsk.

Ekki veit ég hvort þetta er sameiginlegt átak hjá ykkur félögunum en þið virðist samt á sama tíma hafa fengið skyndilegan áhuga á að leita gaumgæflilega í ræðum Steingríms aftur í tímann.  Nema þá að þið séuð mataðir af starfsmönnum flokksins sem settir hafa verið í að leita vandlega í öllum ræðum andstæðinganna.

Ég mun fylgjast spenntur með þegar næsta ræðubrot pólitískra andstæðinga verður grafið upp af vef Alþingis.  Spurning hvaða framsóknarbloggari birti það svo.....

Sigfús Þ. Sigmundsson, 22.2.2007 kl. 15:40

7 Smámynd: Stefán Friðrik Stefánsson

Góð skrif Pétur - sammála þeim. Þetta tal um einelti gegn ISG er spuni til hjálpar konu á síðasta séns í pólitík. Það er spurning hversu langt þessi spuni um meint einelti gegn ISG fleytir henni í kosningabaráttunni.

mbk.

Stefán Friðrik Stefánsson, 22.2.2007 kl. 15:51

8 identicon

Samfylkingin er bara sjö ára og hún er nú bara nokkuð stór eftir aldri. Halldór Ásgríms er ágætur, kallgreyið, gaf mér einu sinni pönnsur niðri á þingi og mig dreymir þær oft á nóttunum. Ingibjörg hefur hins vegar meiri kjörþokka og einu sinni brosti hún svo fallega til mín á brúnni yfir Tjörnina, með vindinn í hárinu. En nú er ég búinn að nurla saman fyrir sviðakjamma með 19 milljarða aðstoð ríkisstjórnarinnar og ætla að halda upp á að Bændasamtökin fari ekki í klámhundana.

Steini Briem (IP-tala skráð) 22.2.2007 kl. 16:21

9 Smámynd: Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu

Takk fyrir að nefna bloggið okkar heilbrigd-skynsemi þótt ég sé ekki alveg sáttur við tilefnið eða samhengið.

Í fyrsta lagi lúta okkar skrif og gerðir engri miðstýringu og við syngjum ekki í neinum "kór". Í upphafi var það raunar svo að einhverjir kusu að líta á þetta framtak jafnaðarmannanna sem harkalega gagnrýni á forystu Samfylkingarinnar og kröfu um breyttan kúrs. Aðrir héldu þetta spuna frá kosningastjórninni. Allt eftir "gleraugunum" sem upp voru sett. Hvorugt stenst þó.

Í öðru lagi hefur ekkert verið skrifað á þessa bloggsíðu um meintar árásir á formann Samfylkingarinnar svo hún á ekki heima í þessari umræðu þess vegna. Okkar átak snýst um þá stefnu og framtíðarsýn sem við viljum sjá Ingibjörgu Sólrúnu bera til sigurs ásamt öllu sínu liði enda hvatning til samstöðu jafnaðarmanna okkar hugðarefni. Í raun er spurning hvort Ingibjörgu Sólrúnu sé nokkur greiði gerður með greinum um meint einelti gagnvart henni. Hún hefur ekki kippt sér mikið upp við óvægna gagnrýni hingað til heldur frekar látið verkin tala.

Í þriðja er það ekkert leyndarmál að okkar átakssíða er sett upp fyrir kosningarnar. Samstöðuhvatningin sem fólki er boðið að undirrita er beinlínis við það miðuð. Það ræðst svo af áhuga og atburðum í framhaldinu hvort þessi hópur heldur áfram að fylgja sínum stefnumálum og framtíðarsýn eftir innan Samfylkingar sem utan. Þær raddir sem eru okkur sammála innan Samfylkingarinnar verða sífellt fleiri og sterkari svo það er tilefni til bjartsýni. Sjáum hvað setur.

Arnar

Átakshópur um heilbrigða skynsemi í pólitískri umræðu, 22.2.2007 kl. 16:27

10 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Takk ég vissi nú að þú varst ekki að beina þessu að mér. En jú það verður gaman að sjá hvort að Dofri og Guðmundur þangna í maí. Reyndar minnir mig að hann Guðmundur hafi byrjað með sitt blogg í prófkjörinu hjá sér. En voru ekki einhverjir að reyna að klína því á þig að þú værir að blogga á vegum framsóknar hér fyrir nokkrum mánuðum og töldu þá Steingrím Sævarr með líka?

Magnús Helgi Björgvinsson, 22.2.2007 kl. 17:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband