hux

Sögur úr kosningabaráttunni

Þetta er að mörgu leyti óvenjuleg kosningabarátta sem nú stendur yfir og flokkarnir beita óvenjulegum aðferðum og þá er ég ekki bara að tala um umræðuna á blogginu og öll þau áhrif sem tilkomu þess fylgja.

Meginbreytingin er bakvið tjöldin og hún er sú að flokkarnir, einkum hinir stærri eru að leggja miklu meiri áherslu á beina markaðssetningu en nokkru sinni fyrr. Í stað þess að treysta á auglýsingar í blöðum og ljósvaka, sem Gallup mælir og birtir, er farið nær einstökum kjósendum í von um að hafa áhrif á þá.

Samfylkingin hefur t.a.m. sent markpóst á ýmsa hópa sérfræðinga til þess að kynna þeim stefnumótunarplöggn, sem frambjóðendur flokksins veifa við hvert tækifæri í sjónvarpi eins og Vottar Jehóva Varðturninum. Unga Ísland var t.a.m. sent með þessum hætti út með persónulegu bréfi frá Ingibjörgu Sólrúnu á fagfólk sem starfar á sviði barna- og fjölskyldumála. Ekki er ólíklegt að sömu aðferðum hafi verið beitt með Fagra Ísland og efnahagsstefnuna hans Jóns Sigurðssonar.

Sjálfstæðisflokkurinn fer ekki hátt í auglýsingum en stendur engu að síður fyrir Móður allrar kosningabaráttu um þessar mundir. Höfuðáhersla er lögð á símhringingar og er sagt að markmiðið sé að hringja í nánast hvern einasta atkvæðabæran mann í landinu fyrir kosningar. Gríðarleg áhersla verður lögð á vinnu á kjördag og flutning kjósenda á kjörstað. Það eru komnir nýir húsbændur í Valhöll og þeir ætla sér að sýna að þeir geti hrundið þeirri mýtu að Sjálfstæðisflokkurinn eigi lægra hlutfall en aðrir flokkar í lausafylginu, sem gerir upp hug sinn vikurnar fyrir kjördag og á kjördaginn sjálfan. Lykillinn að því er bein markaðssetning fremur en auglýsingar í fjölmiðlum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En Framsókn???? - Ég er forvitin! Hvað gerist í bakherbergjunum þar og svo hjá hinum? Verður það í næsta bloggi?  Á bara að gefa Sjöllum og Samfó pláss í þessari greiningu???

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 16:44

2 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Já Anna, ég veit ekki um frásagnarverðar nýjungar í kosningabaráttu Framsóknarflokksins, hún held ég að sé fremur lík því sem áður hefur verið gert, mestur kraftur settur í auglýsingar í hefðbundnum miðlum og sjálfsagt er talsvert hringt, en þá að langmestu leyti í þá 12.000 sem skráðir eru í flokkinn. Nefndi hitt af því að það eru nýjungar, þ.e.a.s. umfangið hjá D og í raun hefur ótrúlega lítið verið um markpóstasendingar af því tagi sem S er nú að fara út í. Og um VG veit ég lítið fyrir utan barmmerkin hans Stefáns og auðvitað meiri blaðaauglýsingar á þeim bænum en nokkru sinni fyrr. Frjálslyndir, þeir eru líka í blöðunum og mér sýnist það einkenna þeirra auglýsingar að í þeim er meiri texti og smærri myndir en í auglýsingum annarra, held að þeir vilji þannig koma því á framfæri að þeir hafi víst heilmikið til málanna að leggja og séu með þaulmótaðar hugmyndir. Vona að þetta hafi orðið þér að liði því meira er nú ekki á könnunni minni að sinni.

Pétur Gunnarsson, 27.4.2007 kl. 18:31

3 identicon

Takk fyrir þetta Pétur  Tek fram í upphafi að ég er áhugamanneskja um auglýsingataktík, kynntist starfi á auglýsingastofu, vann þar í eitt ár og fannst margt afar merkilegt í þeim fræðum. Það sem þú segir um Framsókn er svipuð tilfinning og ég hef haft. fátt nýtt. Auglýsingarnar með Jóni Sig keyra á því sama og auglýsingarnar með Halldóri í den, mest verið að skapa ímynd. Slóganið Áfram árangur - ekkert stopp finnst mér vera til að sannfæra kjósendur um að Framsókn hafi ekkert að skammast sín fyrir, sé stolt af sinni stefnu og hafi ekki hangið eins og lítið peð í buxnaskálminni á Sjálfstæðisflokknum - sem sagt ímyndardæmi. Einhverra hluta vegna finnst mér ég sjá fingraför vinar míns Gunnars Steins á auglýsingaherferðinni. Ef það er ekki hann þá er einhver líklega að leita í hugmyndasmiðju hans. En aftur takk fyrir að gefa þér tíma til að bregðast við

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 27.4.2007 kl. 18:45

4 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Mín var ánægjan, ég held að það sé allt rétt hjá þér í þessu nema þetta með Gunnar Stein, hann er hvergi nærri.

Pétur Gunnarsson, 27.4.2007 kl. 18:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband