hux

Borið í bakkafullan...

Ég er sammála helstu álitsgjöfum, eins og Morgunblaðinu og Pétri Tyrfingssyni, um það að leiðtogaþátturinn í sjónvarpinu í gærkvöldi var ágætur á að horfa og gefur vonir um málefnalega og kúltíveraða kosningabaráttu. Það er sannarlega þakkarvert ef menn losna við þann brag sem var á þessu vorið 2003. Líklega er það rétt hjá nafna mínum að stærsta breytingin er vegna formannsskiptanna hjá Sjálfstæðisflokknum. Það er svo annað mál að sú breyting hefur ekki orðið pólitískum ferli Ingibjargar Sólrúnar til framdráttar, þvert á móti. Mér fannst það sjást á henni að sjálfsöryggið er ekki hið sama og áður,  meðan hún var anti-Davíð, óöryggið braust fram í því að hún virtist hrædd um að gengið yrði fram hjá sér í þættinum og hún var nokkrum sinnum með innskot eins og: nú verð ég að fá að komast að og á ég ekki að segja eitthvað um ríkisstjórnina? Mér finnst Ingibjörg hins vegar alltaf leggja sig fram um að vera málefnaleg og ég skil illa hvað hún vekur heita andstöðu hjá mörgum, Guðmundur heitinn bloggari segir að stíll hennar sé gamaldags en ég hallast frekar að því að hún minni menn á Davíð, og margir telji að þau hefðu átt að leiðast saman inn í hið pólitíska sólarlag, fjandvinirnir.

Ég var líka ánægður með Jón Sigurðsson í þessum þætti og held að honum sé að takast jafnt og þétt að vinna á, hann hélt sig við sín meginskilaboð: áfram árangur - ekkert stopp. Það var helst að hann væri ekki nógu djarfur að kveðja sér hljóðs en það er hárfín lína og eins og fram kom að ofan fannst mér ISG fara yfir þá línu og virka fyrir vikið óörugg. Aðeins of kurteis við forsætisráðherrann,  hefði viljað sjá hann greina sig betur frá honum en mér létti líka við að heyra hann tala niður þá hugmynd sem verið hefur í gangi að hann útiloki stjórnarsamstarf við VG og Samfylkingu, ég held að það hafi aldrei verið byggt á öðru en útúrsnúningi úr hans orðum, augljóslega gengur hann "óbundinn til kosninga" og semur við hvern þann flokk sem málefnaleg samstæða næst við ef sú staða kemur upp. Minn maður í þessu.

Steingrímur J. Sigfússon stóð sig líka vel og það er ljóst að hann ræður ágætlega við hlutverk yfirvegaðs og miðjusækins foringingja enda maður með yfir 20 ára reynslu. Framganga hans er önnur en áður, hann er ekki jafnreiður.  Það örlaði á tilraunum til stjórnarmyndunar milli hans og Geirs H. Haarde þegar Steingrímur greindi frá þeirri stefnubreytingu VG að í stað þess að krefjast þess að fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður úr 10 í 18% mundu þeir sætta sig við hækkun í 14%. Þetta er sjálfsagt ein stærsta hindrunin í vegi þess að VG og Sjálfstæðisflokkur geti náð saman um stjórnarmyndun, kemur beint að kjarna málsins um andstæða sýn flokkanna tveggja á stjórnmálin. Steingrímur er nú búinn að leggja sig fram um að lækka þá hindrun og getur illa gengið lengra en hann gerði í gærkvöldi án þess "að svíkja sína huldumey". Hins vegar er því enn ósvarað hvort Geir H. Haarde er tilbúinn að standa að því að hækka fjármagnstekjuskattinn úr 10% í 14%. Ég sé illa fyrir mér að landsfundur sjálfstæðismanna um næstu helgi samþykki neitt sem nýtist formanninum í slíkan leiðangur. 

Annars finnst mér við hæfi að fara miklum viðurkenningarorðum um frammistöðu Geirs í þættinum, mér fannst hann frábær, nýtti tíma sinn vel með hárnákvæmum skilaboðum og beittri gagnrýni á andstæðingana þegar við á. Samt hógvær og alls ekki plássfrekur. Súrrealískasta augnarblik þáttarins var þegar Geir spurði Ómar Ragnarsson hvort það væri rétt að hann hefði viljað nýta aðrennslisgöng Kárahnjúkavirkjunar undir maraþonhlaup en ekki til raforkuframleiðslu og Ómar játti því. Þetta var eina óþægilega spurningin sem  Ómar fékk í þættinum og mér fannst komast nokkuð vel frá sínu, hann var þarna í fyrsta skipti í þessum félagsskap og ég trúi því að stuðningsmenn hans séu sáttir. Mér er sagt að þetta sé í fyrsta skipti sem maður fái sæti í leiðtogaþætti án þess að vera kominn fram með einn einasta framboðslista og líklega hefur sú staðreynd að Ómar er og hefur verið þjóðareign áratugum saman auðveldað mönnum að víkja frá hefðinni.

Eins og við var að búast fórst Ómari best að tala um sitt hjartans mál, virkjanamálin, en hann á enn nokkuð í land í öðrum málum. Við viljum annars konar hagkerfi, annars konar atvinnustarfsemi, sagði hann meðal annars.  Það var undarleg yfirlýsing, eitt andartak fannst mér ég vera að hlusta á gamlan byltingarsinna. Hann þarf væntanlega að útskýra þessar hugmyndir betur síðar. Eins efast ég um að hann tali mikið meira um 150.000 kr. skattleysismörk, sem kostar um 60 milljarða króna eða um 20% af ríkisútgjöldum að hrinda í framkvæmd. Ekki trúverðugt.

Guðjón Arnar Kristjánsson var líka í þættinum og það kom í ljós að það er engin leið að fá botn í útlendingastefnu flokksins og að Guðjón hefur ekki sannfæringu fyrir henni sjálfur, tilraunir hans til að tala máli hennar skorti sannfæringarkraft, sem betur fer, enda var hann þarna aleinn á báti og hefur horfst í augu við að þetta mál nær ekki í gegn hjá fólki. Hann sagði að á næstunni mundu frjálslyndir kynna fleiri mál, sjávarútvegsmál, samgöngumál og fleira. Mér fannst gæta tilhlökkunar í málrómnum eins og Guðjón vildi helst af öllu aldrei þurfa að tala um útlendingamálin oftar og gæti ekki beðið eftir því að fá að tala aftur um sjávarútveg og jarðgöng.  Ég hlakka til þess líka og er viss um að hann sækir í sig veðrið þegar þar er komið sögu.

Uss, þetta er orðin allt of löng færsla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Baldur Kristjánsson

...en góð!

Baldur Kristjánsson, 10.4.2007 kl. 14:19

2 Smámynd: Magnús Þór Hafsteinsson

Sæll Pétur. Ja, hverjum þykir sinn fugl fagur - segi nú ekki annað. En mikið eruð þið nú hræddir við þessi útlendingamál. Það gætir afar sterkrar óskhyggju hjá þér þegar þú talar um að formann Frjálslynda flokksins hafi skort sannfæringarkraft og svo framvegis. Og að halda það að afstaða annarra flokka slái okkur út af laginu er mikill misskilningur. Það er bara betra. Við öðlumst þar með dýrmæta sérstöðu sem eini flokkurinn sem vill gera eitthvað til að ná einhverri stjórn á aðstreymi EES búa til landsins. Takk fyrir það Íhald, Framsókn, Samfylking og VG. Mbk, MÞH

Magnús Þór Hafsteinsson, 10.4.2007 kl. 14:21

3 identicon

Hvernig færðu út að hækkun skattleysismarka upp í 150 þús.kr. kosti 60 ma.kr.?

Pétur (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 14:23

4 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Pétur: 1. Geir Haarde nefndi að kostnaðurinn yrði á biliu 50-60 milljarðar. 2. Í morgun var framsókn að kynna loforð um 100.000 kr. skattleysismörk en þau eru nú um 90.000. Þar kom fram að sú hækkun kosti um 10 milljarða. Þetta er nú það sem ég hef til hliðsjónar þegar ég segi þetta. Skattleysismörk í 150.000 finnst mér líka ekki jafnaðarleg hugmynd, hún gerir t.d. ekkert fyrir þann fjölmenna hóp sem er á bilinu 120-150.000 kr í heildarlaun, t.d. öryrkja, lífeyrisþega og á sem lifa á lægstu töxtum, þeir eru skildir eftir.

Pétur Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 14:36

5 identicon

DRÖG AÐ SJÁLFSMORÐI hafa verið lögð fram hjá Sjöllum fyrir landsfundinn og ég fæ ekki betur séð en að þeir hafi stolið öllum mínum hugmyndum hér, enda þótt þeir hafi nú gleymt auðlindarentunni að þessu sinni. Hún kemur fyrir næstu kosningar og þá verður blessuð stóriðjan löngu gleymd og grafin, enda hafa menn hér annað og betra að iðja en stóriðja. Hún er agnarsmá í hagkerfinu og við förum nú ekki að leggja allt landið og fegurð þess undir slíka iðju. Og 70% þjóðarinnar eru mótfallin núverandi kvótakerfi í sjávarútveginum.

Við stjórnarmyndun í vor koma einungis tveir kostir til greina, "vinstri græn stjórn" með Vinstri grænum, Samfó og Ómari, eða "vinstri-hægri græn stjórn"  með Vinstri grænum og Sjöllum, en sú fyrri er mun líklegri kostur. Stóriðjan er því úr sögunni, hvernig sem allt veltist og snýst. Sjallar fá í mesta lagi 35% fylgi, enda missa þeir fylgi yfir til Ómars, og Framsókn fær í mesta lagi 8%, því þeir hafa misst andstæðinga stóriðjunnar yfir til Vinstri grænna. Samanlagt verður því fylgi stjórnarflokkanna nálægt 43% og í mesta lagi 42% verða fylgjandi stóriðjunni í vor, því 58% þjóðarinnar eru nú þegar mótfallin henni.

Addi Kitta Gau nær kosningu í Norðvesturkjördæmi, þar sem honum nægja 10% atkvæða til að vera kjörinn á þing, en Frjálsbllindir fá ekki þau 5% atkvæða á landsvísu sem þeir þurfa til að fá jöfnunarþingmenn.

Steini Briem (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 15:54

6 identicon

Tekjuskattur einstaklinga í fjárlögum ársins 2007 er áætlaður 75,6 ma.kr. Er trúverðugt að ætla að allt að 80% tekna ríkisins af tekjuskatti einstaklinga hverfi við að breyta skattleysismörkum í 150 þús.kr? Og ef það yrði afleiðingin; hvers lags skattkerfi hefur þá verið skapað í landinu?

 Það er alveg sama hvað ég reikna, ég kemst aldrei yfir 40 ma.kr. (Hækkun í 150 þús.kr. krefðist um 18 þús.kr. hækkunar persónuafsláttar, eða um 225 þús á ári. Vinnuafl landsins telur um 175 þús manns og tekjumissirinn gerir því um 39,5 ma.kr.) Þá á eftir að taka tillit til aukningar í tekjum vegna aukinnar neyslu og veltu... Ætli lendingin yrði ekki í kringum 30 ma.kr. Hvort það er viðráðanlegt er allt annað mál!

Pétur (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 17:04

7 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Kann ekki að ræða þessa útreikninga nánar, nafni, vísa bara í þá félaga Jón og Geir en hækkun skattleysismarka nýtist öllum, jóni, séra jóni og jóni ásgeiri og færir þeim það sama í vasann, þegar komið er yfir lægstu laun og lífeyrisbætur er farið að skilja fólk eftir og það nýtur ekki ávinningsins, mér finnst þetta ekki rétta leiðin til þess að bæta kjör hinna lægst settu, hugnast betur tekjutilfærsluleiðin. Hvort sem þetta eru 30-40-5- eða 60 milljarðar rynni lækkun skattleysismarka að mestu í vasa þeirra sem eru með millitekjur og þaðan af meira en að minnstu leyti í vasa þess - vissulega stóra - en hlutfallslega litla hóps, sem er á þeim lægstu launum sem mest þörf er á að bæta.

Pétur Gunnarsson, 10.4.2007 kl. 17:17

8 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Mér sýnist sem þið nafnar gætuð sæst á 120 þús. kr. skattleysismörk ...

Berglind Steinsdóttir, 10.4.2007 kl. 19:33

9 Smámynd: Gestur Guðjónsson

Sló á þetta um daginn. Gaf mér að fjöldi gjaldenda sé óbreyttur 227 þús, heildartekjur gjaldenda óbreyttar og útsvarið óbreytt. Þá kostar hækkunin í 100 þús kr 10,4 milljarða, en hækkunin í 150 þús kr 58,8 milljarða og eftir standa 6 milljarða tekjur ríkisins af tekjuskatti í stað 65 milljarða í dag.

Gestur Guðjónsson, 10.4.2007 kl. 22:01

10 Smámynd: Elfur Logadóttir

Hvers konar skattkerfi búum við við, ef þeir sem hafa 150 þúsund krónur á mánuði eða minna, standa undir 58,8 af 65 milljarða tekjum ríkisins af tekjuskatti?

Sér enginn neitt öfugt við þessar upplýsingar? Að allir þeir einstaklingar sem hafa hærri laun en 150 þúsund krónur á mánuði, greiði ekki nema samtals 6 milljarða til ríkisins? Þið áttið ykkur vonandi á að 6 milljarðar eru 9% af 65 milljörðum.

Eruð þið virkilega að segja mér að lágtekjufólk landsins standi undir 91% af tekjum ríkisins af tekjuskatti á árinu 2006? Og er það eðlilegt?

Ertu viss um að þú viljir ennþá standa við þessa útreikninga Gestur? 

Elfur Logadóttir, 11.4.2007 kl. 15:48

11 Smámynd: Elfur Logadóttir

Ég meinti að sjálfsögðu að lágtekjur standi undir 91% af tekjum ríkisins. Þ.e. að fyrstu 150 þúsund krónurnar standi undir 91% af tekjuskattinum.

Athugasemdina má skilja sem svo að ég sé að meina einungsi þá sem ná ekki hærri launum en 150þúsund. Það var ekki meiningin. 

Elfur Logadóttir, 11.4.2007 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband