hux

Er kaffibandalagið til eftir auglýsingu Frjálslyndra?

Eftir auglýsingu Frjálslynda flokksins í Fréttablaðinu í dag hlýtur að vera komið að því að Samfylkingin og Vinstri grænir taki endanlega afstöðu til þess hvort málflutningur Frjálslyndra í garð útlendinga gangi of langt til þess að flokkurinn teljist samstarfshæfur.

Hingað til hafa þeir sagst mundu fylgjast með hvernig Frjálslyndir töluðu um útlendinga, ennþá væri málflutningurinn í lagi en ef Frjálslyndir gengju of langt yrðu þeir ekki samstarfshæfir. Hvað segja þeir nú?

Ég hef hlustað á Guðjón Arnar Kristjánsson segja í leiðtogaþætti á Stöð 2 að Frjálslyndir meini nánast ekkert með þessu tali öllu, útlendingamálin verði tekin út af borðinu um leið og stjórnarmyndunarviðræður hefjist og en nú birtist þessi dæmalausa auglýsing. Ég held að það sé ekki eftir neinu að bíða fyrir aðra aðstandendur Kaffibandalagsins að gera nú strax upp við sig hvort það eigi að gefa þessu sambandi líf eða ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Babel, félag þýðingafræðinema

Mér finnst menn almennt hafa tilhneigingu til að festast í umræðu um vandamál frekar en að hugsa í lausnum. Er til lausn? Eða er e.t.v. ekkert vandamál? Ef það er vandamál, er þá lausnin a) að taka á móti öllum, b) taka vel á móti öllum, c) banna flestum, d) banna öllum? e) Eitthvað annað?

Babel, félag þýðingafræðinema, 1.4.2007 kl. 12:55

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Fyrirgefið, þetta átti ekki að vera nafnlaust innlegg hér að ofan frá Babel. Ég er að hugsa um hvort menn hafi ekki staldrað of lengi við vandamálin í sinni mynd. Lausnir eru miklu meira spennandi umfjöllunarefni yfirleitt.

Berglind Steinsdóttir, 1.4.2007 kl. 12:59

3 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Berglind, ég er algjörlega sammála þér, það er auðvelt að benda á vandamálin, vera á móti og heimta eitthvað annað, án þess að bjóða lausnir.

Pétur Gunnarsson, 1.4.2007 kl. 13:07

4 identicon

ÚTLENDINGUM MUN FÆKKA hér með stóriðjustoppinu, sem komið var á koppinn í Hafnarfirði í gær. Hér eru alla vega níu þúsund útlendingar á vinnumarkaðinum, 9% af heildarvinnuaflinu, sem er alltof mikill fjöldi. Það snýst engan veginn um útlendingahatur, heldur alltof mikla þenslu hér á öllum sviðum, heimsmet í háum vöxtum, gríðarlegan viðskiptahalla eða 305 milljarða króna í fyrra, hækkanir á verðlagi í hverjum mánuði, átta sinnum meiri verðbólgu hér en á evrusvæðinu í ár og gríðarmikinn skort á innlendu vinnuafli í fjölmörgum greinum, til dæmis fiskvinnslunni, almennri verkamannavinnu, leikskólum og heilbrigðisþjónustunni.

Meirihluti þessara níu þúsund útlendinga mun ekki búa hér til frambúðar og mörg þúsund manna skortur er hér á starfsfólki í mörgum greinum. En innlent starfsfólk mun ekki manna fiskvinnslurnar að nýju að einhverju marki fyrr en núverandi kvótakerfi verður afnumið og því hægt að greiða fiskvinnslufólki og sjómönnum mun hærri laun en nú er gert, í stað þess að eyða alltof stórum fjárhæðum, allt að einum milljarði króna á ári, í kaup á aflakvótum í litlum sjávarplássum. Og hærri laun fiskvinnslufólks og sjómanna í öllum sjávarplássum landsins þýðir margfeldisáhrif um allt land. Það yrðu aldrei byggð álver á Vestfjörðum og í Vestmannaeyjum og vandi landsbyggðarinnar er ekki skortur á álverum, heldur fyrst og fremst núverandi kvótakerfi, sem 70% þjóðarinnar eru alfarið á móti.

Steini Briem (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 14:56

5 Smámynd: Guðrún Þóra Hjaltadóttir

Það þarf að kynna sér heildina þegar verið er að gera athugasemdir. Frjálslyndi flokurinn hefur sagt hvernig hann vilji að staðið sé að góðri móttóku útlendinga sem að hingað flytja. Þeir eiga að fá 500 tíma í íslenskukennslu og 300 tíma í samfélagsmálum. Það getur engin verið á móti því að nýbúar þessa lands læri íslensku. Ég hef sjálf kennt útlendingum sem að búnir eru að fara í gegn um íslenskunámeið og því miður eru allt of margir sem að skilja nánast ekki neitt.

Þess vegna eigum við að taka vel á móti útlendingum, búa til gott námsefni í íslensku og fjölga góðum kennurum í faginu.

Guðrún Þóra Hjaltadóttir, 1.4.2007 kl. 15:07

6 Smámynd: Sigurjón Þórðarson

Það er ótrúlegt að verða vitni að því að stuðningsmaður innrásarinnar í Írak, Pétur Gunnarsson, innrásar sem hefur leitt af sér hörmungar fyrir saklausa borgara, skuli telja sig þess umkominn að vera með umvandanir og krefja aðra stjórnmálaflokka svara um hvort þeir telji Frjálslynda flokkinn samstarfshæfan. Framsóknarflokkurinn er gjörspilltur og Pétur er spunameistari Framsóknarflokksins. Hann hefur notað aðstöðu sína til að sölsa undir sig eigur almennings, s.s. Búnaðarbankann.

Sigurjón Þórðarson, 1.4.2007 kl. 15:37

7 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Sæll Pétur. Vildi benda á að meginatriði heilsíðuauglýsingar Frjálslyndra hljóta að vera aprílgabb. Þeir velja að draga upp launavísitölu iðnaðarmanna til að hræða fólk á því að fjöldi erlendra starfsmanna lækki laun. Hið sanna er að hér eru einnig starfandi erlendir verkmenn, í síst minna mæli. Þeirra laun hafa hækkað meira en meðaltal annarra stétta. Þá er ekki tekið tillit til þess að flestir iðnaðarmenn vinna í afkastahvetjandi kerfi. Heildarlaun þeirra ráðast af afköstum, ekki fjölda innflytjenda. Launavísitala í byggingariðnaði og mannvirkjagerð hefur hækkað meira en meðaltalið sem reiknimeistarar Frjálslynda leggja fyrir þjóðina í dag. Það borgar sig alltaf að horfa á samspil hlutanna og heildarmyndina. Annars lendir maður í því að kaupa heilsíðuauglýsingu sem er stútfull af bulli.

Þá benda Frjálslyndir einnig á að fjöldi erlendra starfsmanna býr í ósamþykktu húsnæði. Þar er ekki við útlendingana að sakast, heldur í mörgum tilvikum fégráðuga Íslendinga sem notfæra sér stöðu þessa fólks, hrúga því saman í ósamþykktar kytrur og rukka morðfjár fyrir. Frjálslyndir hins vegar hengja bakara fyrir smið og skammast sín ekkert fyrir það.

Þá bendir Guðrún Þóra á aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur þegar samþykkt að ráðast í og eru í undirbúningi. Framsýni Frjálslyndra á sér engin takmörk.

Helga Sigrún Harðardóttir, 1.4.2007 kl. 16:32

8 identicon

Nú eru flokksmenn Frjálslynda flokksins króaðir af vegna þeirra eigins málflutnings og eru allir sem einn í lokuðu búri...og þá er barist um eins og sært dýr til að losna úr prísundinni. Ekki er hægt að tala sig út úr þessu. Guðjón hefur oft afneitað sannleikanum sem hans eigin flokkur boðar með því að gera lítið úr þessum skoðunum þegar hann hefur verið spurður opinberlega. Á mannamáli er það kallað sem Frjálslyndi flokkurinn hefur á stefnuskrá sinni kynþáttahatur og kynþáttafordómar. Ég fylgdist með Silfri Egils í dag þar sem kom skýrt fram hjá varaformanni flokksins að þeir munu gera kynþáttahatur og aðskilnað við Austur Evrópubúa að kosningamáli. Þeirri spurningu væri gott að fá skýrt svar við hjá formanni þessa flokks hvort svo er. Persónulega vil ég ekki að íslendingar hafni öðrum mannverum á forsendu ríkisfangs, menntunar eða sjúkdóma, hvað þá litarháttar. Egill sagði í Silfrinu að þetta væru talíbönsk viðhorf.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 16:40

9 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Í þessu máli vekur athygli að bæði Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin eru sammála í grundallaratriðum og líka allir stjórnmálaflokkar nema Frjálslyndiflokkurinn. Hann dregur þó jafnharðan í land þegar gengið er á þá og þykist vera jafnsammála og hinir en rísa svo aftur upp með skrumið jafnharðan (nema auðvitað Jón Magnússon sem alltaf talar af sér). Besta leiðin til að drepa þennan leiðindaflokk er að allir hinir sameinist um að vilja ekki vinna með honum. Við græðum öll á því.

Pétur Tyrfingsson, 1.4.2007 kl. 17:29

10 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sigurjón, ég er ekki stuðningsmaður innrásarinnar í Írak og hef aldrei verið, ég hef hvergi og aldrei sagt annað en að sú innrás hafi verið byggð á blekkingum og lygum, ég his vegar lýst því yfir að vegna þess hve íslensk stjórnvöld hafi gert sig hjá bandarískum stjórnvöldum um mat á upplýsingum og hagsmunum hefði það boðað meiriháttar breytingu á utanríkisstefnu landsins að láta ekki í té þá aðstöð sem bandaríkjamenn óskuðu eftir í aðdraganda innrásarinnar. Að öðru leyti bið ég þig að vera úti ef þú hefur ekki annað fram að færa en þessar  venjulegu dylgjur og þvætting.

Pétur Gunnarsson, 1.4.2007 kl. 18:40

11 identicon

Best væri ef þeir flokkar sem ekki eru að pissa á sig af hræðslu við útlendinga, myndu gefa út sameiginlega yfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki starfa með Frjálsynda flokknum.  Þarna er ég að sjálfsögðu að tala um Framsókn, Samfó, VG, Sjálfstæðisflokk og Íslandshreyfingu.

Sama hvað annað okkur kann að greina á um, held ég að við getum öll sameinast í fordæmingu á orðum og boðuðum gjörðum frjálslyndra. 

Björgvin Valur (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 21:28

12 Smámynd: Jón Magnússon

Pétur er verið að gera lítið úr útlendingum í auglýsingu Frjálslyndra? Fjallar málið ekki um að við stjórnum því að einhverju leyti hvað mikið af innflytjendum komi til landsins. Kemur fram í auglýsingunni að Frjálslynd séu á móti innflytjendum eða meti ekki framlag þeirra?  Nei þvert á móti kemur fram að við erum ekki á móti innflytjendum og við metum framlag þeirra. Við viljum hins vegar gæta að því að meginstoðir íslensks velferðarkerfis standi. Við viljum tryggja öllum sem hér búa mannréttindi og virðingu. Við viljum hjálpa innflytjendum til að aðlagast og gerum tillögu um veruleg ríkisútgjöld í því skyni.

Vandamálið er ekki þeir sem hingað eru komnir heldur hitt að ríkisstjórnin vanrækti að gera ráðstafanir til að tryggja hagsmuni innflytjenda. Má minna á kt. vandamálin síðasta haust. Í lokin Pétur eftir að ég vakti athygli á þessu máli með hóflegri grein í Blaðinu í nóvemberbyrjun þá hljóp ríkisstjórnin til og taldi nauðsynlegt að leggja fram meir en 100 milljónir af ríkisins fé í aðgerðir til aðstoðar innflytjendum. Varð það af hinu vonda. Má ekki segja að sú umræða sem við höfum hafið sé brýn. Vandamálið er hins vegar þegar fólk fer í skotgrafir og neitar að ræða vandamál sem er fyrir hendi. Hvaða vandamál eru það.

Of mikill innflutningur fólks á stuttum tíma. Of lítill stuðningur við þá sem hingað koma. Of litlar upplýsingar um þá sem hingað koma sem valda erfiðleikum fyrir innflytjendur og heilbrigðisyfirvöld svo dæmi sé tekið. Síðast en ekki síst þess er ekki gætt að innflytjendur njóti eðlilegs aðbúnaðar og réttinda. Eru þetta ekki allt mál sem eðlilegt væri að ríkisstjórn kaffibandalagsins tæki að sér að leysa.

Jón Magnússon, 1.4.2007 kl. 21:35

13 Smámynd: Hafliði

Fæ létt óbragð í munninn. Á sama tíma er mjög sérstakt að sjá að það er engin umræðuvettvangur fyrir þennan málaflokk. Málefnið sem slíkt er "Tabú" og því öll umræða (af hvað tagi sem er) óvelkomin. Það eru bara stóryrði, fordómar og fullyrðingar. Mig langar til að leggja fram spurningu en held ég sleppi því...

Hafliði, 1.4.2007 kl. 21:44

14 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Jón, mér finnst aðallega gert lítið úr kjósendum, sérstaklega vegna þess að á sama tíma og þessar auglýsingar eru keyrðar er Guðjón Arnar að tala um að til Norðvesturkjördæmis komi góðir útlendingar og að útlendingamálflutningurinn verði ekki gerður að ásteytingarsteini í stjórnarmyndunarviðræðum. 

Raunar skil ég þessa auglýsingu ekki síst þannig að hún eigi m.a. að vekja ótta og óöryggi hjá starfsfólki í bygginariðnaði um kaup sitt og kjör og að það sé hálfholur hljómur í talinu um umhyggju fyrir útlendingunum.

Voru kennitöluvandamálin sl. haust ekki bundin við eitt sveitarfélag á Vestfjörðum og til komin vegna verklagsreglna þess? 

Er um það ágreiningur að flestir, langflestir þessara útlendinga eru hér í tímabundnum verkefnum vegna þess tímabundna eftirspurnarástands sem við búum við? Auðvitað er það mikilvægt og erfitt verkefni að tryggja þeim sem hingað flytjast til langframa nauðsynlega þjónustu og veita þeim tækifæri til þess að læra að rata um samfélagið á sem skemmstum tíma og nýta þennan mannauð sem best má vera. Líka að læra af reynslu nágrannaþjóða. Það hefur margt verið gert til þess og ýmislegt má enn betur gera.

Við fáum væntanlega betri yfirsýn yfir það hve stórt þetta verkefni er þegar Davíð Oddsson hefur stýrt efnahagslífinu í harða lendingu með 5% atvinnuleysi eins og hann boðaði á föstudaginn. 

En með tali um sóttvarnir og glæpamennsku finnst mér lágt lotið og gert út á ótta, eða nákvæmlega hvað er það varðandi stóttvarnir sem þið t.d. viljið að sé gert hér sem er ekki þegar gert hér en er gert í nágrannalöndunum? Og ef ekki hefði verið farið að tillögum SA og verkalýðshreyfingarinnar hvað varðar aðlögunina 1. maí þá hefði starfsmannaleigum ekki verið settur stóllinn fyrir dyrnar og það hafa fyrst og fremst verið starfsmenn þeirra sem búið hafa við óviðunandi kjör og aðstæður, þannig að sú ákvörðun sem þá var tekin var til þess fallin að stuðla að bættri réttarstöðu erlends vinnuafls í landinu.

Pétur Gunnarsson, 1.4.2007 kl. 22:08

15 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Nei Jón, þessar 100 milljónir voru ekki af af hinu vonda. Ef þú heldur aftur á móti að greinin þín hafi búið þær til þá gerir þú heldur mikið úr sjálfum þér og lítið úr Alþjóðahúsi og þeim fjölmörgu þingmönnum úr öllum flokkum sem bera þetta hagsmuna- og velferðarmál fyrir brjósti.

Við Íslendingar megum vera virkilega stoltir yfir því hvað stjórnmálamenn þvert á alla flokka hafa skynsamlegt hugarfar á þessu sviði. Við getum svo rifist um hvort nógu mikið sé gert hér og þar en það er þref um megindir en ekki eigindir. Þetta er líklega eitt af fáum pólitískum málum á Íslandi þar sem menn þrasa í framhaldi af því að vera í grundvallaratriðum sammála.

Vertu svo ekki með þetta krapp þitt um að útlendingar séu birði á velferðarkerfinu. Vandamálið er þveöfugt við það sem þú heldur Jón minn. Þeir útlendingar sem hingað koma eru það aldeilis ekki. Vandamálið er okkar. Þeir greiða skatta, vinna og eru ábyrgir borgarar í okkar þjóðfélagi. Þróunin er bara svo hröð að við höfum sjálf ekki undan. Ég vinn á stóraspítala þjóðarinnar og vandinn sem ég hef rekið mig á (fyrir utan tungumálapróblemið) er að sumir þeirra eiga ekki rétt á þjónustu vegna einhverrar vitleysu í kerfinu. (Að sjálfsögðu reynum við að fara á svig við þetta í mannúðarskyni)

Það sem fer hér miður í íslensku þjóðfélagi er að Íslendingar gera ekki af skörungsskap það sem þarf að gera. Vandamálin snúast um þá sjálfa en ekki útlendinga og innflytjendur.

Ef þú hefur svona miklar áhyggjur af þessu öllu saman Jón og ert fullkomlega einlægur þá geri ég að tillögu minni að þú látir þetta snúast um sleifarlag okkar sjálfra en ekki eins og það góða fólk upp til hópa sem hingað hefur komið í atvinnuleit séu vandamálið, einhvers konar ógn í líkingu við yfirvofandi snjóflóð.

Þakka svo nafna mínum fyrir að laða fram þref um málið. Hann virðist hafa einstakt lag á því maðurinn og þarf ég að rannsaka hvernig hann fer að því svo ég geti orðið jafnstórkostlega vinsæll bloggari og hann! Hvernig ferðu að þessu strákur?

Pétur Tyrfingsson, 1.4.2007 kl. 22:51

16 identicon

Já og í dag heimsótti 200 þúsundasti gesturinn bloggið hans...og það er vegna þess að Pétur er fagmaður, blaðamaður, ritstjóri og hefur pólitískt innsæi sem marga skortir. Takk fyrir frábært blogg Pétur.

Axel Jón Fjeldsted (IP-tala skráð) 1.4.2007 kl. 23:12

17 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Nú veit ég ekki, nafni, en ég er mjög ánægður með hvað það er oft góð umræða hér í kommentunum. Hvað það hefur með mig að gera veit ég ekki, en vonandi hjálpar það að ég vil ekki umbera skæting í  kommentum og hef sett upp "tilfinningaleg skilrúm" svo þeir sem tjá sig hér þurfi ekki að þola persónulegar svívirðingar eða almenn leiðindi.

Þakk fyrir hlý orð, Axel.

Pétur Gunnarsson, 1.4.2007 kl. 23:30

18 Smámynd: Pétur Tyrfingsson

Ég held þetta hafi ekkert með stefnu þína í ritskoðun að gera. Heldur ekki hverjar skoðanir þínar eru eða hvar fokki þú stendur. Hallast að því að það sé bloggstíllinn ÉG þarf að stúdera hann svo ég nái því að verða frægur eins og þú!

PS: Þú mátt vita að ég er ekki í hátíðlegu deildinni sem heldur að þú sért "spunameistari" Framsóknar. Það er fólk sem hefur ekki grænan grun um hvað "spin doctors" eru fyrir nokkuð. Ég mundi fremur skilgreina þig sem mann sem hefur hæfileika til að bregða sér í líki talsmanns þess í neðra eða "devils advocate" og mega menn nú fletta því upp á netinu hver fjárinn það er fyrir nokkuð ef þeir vita það ekki fyrir.

Pétur Tyrfingsson, 1.4.2007 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband