hux

Ég er sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur

Það gerist ekki oft, en þegar ég hlustaði á utandagskrárumræðu í þinginu um meðferð áfengis- og vímuefnasjúklinga var ég sammála Kolbrúnu Halldórsdóttur þegar hún hvatti til þess að sá lærdómur yrði dreginn af Byrgismálinu að sameina eigi heilbrigðis- og félagsmálaráðuneyti. Þá þyrftu menn ekki lengur að hártogast um heilbrigðisstofnanir og búsetuúrræði og þau gráu svæði sem geta myndast við slíkar hártoganir.

Ég var reyndar ekki sammála Kolbrúnu um hennar fílósóferingar um orsakir alkóhólisma og fíknar sem mér þóttu bera með að enn geti hún bætt við sig upplýsingum á grunnþætti málsins, eins og glöggt kom fram í bestu ræðu umræðunnar, þeirri sem Katrín Fjeldsted hélt. En þarna hitti hún svo sannarlega naglann á höfuðið, þótti mér. Það er svo auðvitað rétt sem Siv sagði að jafnvel þótt ráðuneytin yrðu sameinuð stæði eftir að munurinn á heilbrigðisstofnunum og félagslegum búsetuúrræðum.

Það er reyndar í gangi í stjórnarsamstarfinu vinna við að endurskoða lögin um stjórnarráðið, hún hófst sem verkefni Björns Bjarnasonar og Árna Magnússonar og var komin nokkuð á veg þegar Árni lét af störfum. Hvað er orðið af þessu? Væri það ekki tilvalið hjá þessari ríkisstjórn að sameina atvinnuvegaráðuneytin þrjú (landbúnaðar-, sjávarútvegs- og iðnaðar-) í eitt ráðuneyti, sameina heilbrigðis- og félagsmáalráðuneyti í eitt ráðuneyti, þó þannig að jafnréttismál fari undir forsætisráðuneyti og e.t.v. sveitarstjórnarmál í innanríkisráðuneyti þar sem dómsmálaráðuneytið væri og  samgönguráðuneytið.

Að lokum minni ég á hugmyndir bæjarstjórans um greiningarstöð til að samhæfa nýtingu meðferðarúrræða en bæði Hjálmar Árnason og Ögmundur Jónasson hafa flutt þingmál í þá veru. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Pétur Þorleifsson

Katrín Fjeldsted hefur áður haldið góðar ræður.

http://www.althingi.is/altext/128/01/r28203059.sgml

Pétur Þorleifsson , 22.2.2007 kl. 06:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband