hux

Er Framtíðarlandið við Austurvöll?

Það er mikið um fundarhöld hjá aðstandendum Framtíðarlandsins þessa dagana. Fundarefnið er  alltaf hið sama: eiga samtökin að bjóða fram til alþingis í vor. Skiptar skoðanir eru í hópnum, sumir eru  harðir á móti, sumir á báðum áttum, aðrir alveg áfjáðir.

Tveir forkólfa Framtíðarlandsins berjast harðast fyrir því að samtökin láti slag standa og bjóði fram til þings í vor. Þetta eru þau María Ellingsen, leikkona, og Jakob Frímann Magnússon, tónlistarmaður og MBA. Sólveig Arnarsdóttir leikkona er einnig sögð nokkuð áhugasöm um að feta í fótspor móður sinnar, Þórhildar Þorleifsdóttur, fyrrum þingkonu.

Jakob Frímann er varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavík og hefur tekið sæti á þingi á þessu kjörtímabili. Fyrr í vetur spreytti hann sig í prófkjöri Samfylkingarinnar í Kraganum en hlaut ekki brautargengi. En það er kannski ekki öll von úti enn fyrir Jakob því hann rær að því öllum árum að Framtíðarlandið setji stefnuna á þingframboð.

Ljóst þykir að ekki verði af framboði nema góð sátt takist um það í hópi helstu aðstandenda Framtíðarlandsins.  Ef sú sátt næst munu þekktir menn eins og Andri Snær Magnason og Reynir Harðarson, stofnandi CCP, líta svo á að þeir verði skuldbundnir til þess að taka sæti á listanum. Þeir hafa sig þó lítið í frammi í umræðum um málið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband