hux

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Endurvinnsla

Íslandshreyfingin hefur tekið upp á sína arma gamalt og gott slagorð  Framsóknarflokksins: ekki til hægri, ekki til vinstri heldur beint áfram. Þetta sagði Hermann Jónasson víst einhverju sinni og hefur síðan verið eitt helsta slagorð framsóknarmanna. Þetta er málið í dag, slagorð 21. aldarinnar, sagði  Ósk Vilhjálmsdóttur í Silfri Egils. Ég er alveg sammála Ósk um þetta. Hún er í bráðabirgðastjórn Íslandshreyfingarinnar; einn þeirra fjölmörgu femínista sem yfirgefið hafa Samfylkinguna eftir að femínistinn Ingibjörg Sólrún Gísladóttir komst þar til valda. 

Þá var öldin önnur er Steingrímur studdi álver við Húsavík

Tekið af vef Orkuveitu Húsavíkur, frétt frá síðustu kosningabaráttu, 16. apríl 2003 um heimsóknir stjórnmálamanna í fyrirtækið:  

Þá lýsti Steingrímur J. Sigfússon yfir eindregnum stuðningi við það að nýta jarðhitasvæðin í nágrenninu fyrir orkufrekan iðnað á Húsavík og nafngreindi hann sérstakalega Þeistareyki og jarðhitasvæðin í Mývatnssveit.

Fann þetta hjá Tómasi sem fann það hér.  Gefur mér tilefni til að rifja enn upp þetta hér.

 

ps. 25.03,kl. 16:48: Allar eldri athugasemdir við þessa færslu hafa verið teknar út.


Nú og þá

Þorsteinn Pálsson var ekki svona andvígur einkaframkvæmdum þegar hann sat í ríkisstjórn og tók þátt í því að ákveða að Hvalfjarðargöng skyldu gerð í einkaframkvæmd ekki með beinu ríkisframlagi.  Meira að segja Steingrímur J. greiddi atkvæði með Hvalfjarðargöngum í einkaframkvæmd en það eru hann og Þorsteinn Pálsson sem telja úr mönnum að ráðast í Sundabraut með sama hætti nú. Dagur B. talaði í útvarpinu í gær um þetta sem gamla hugmynd en man ég ekki rétt að í kosningabaráttunni í fyrravor hafi sami maður talað um einbreiða brú, eða amk brú með einni akrein í hvora átt? Það var gömul hugmynd !! Faxaflóahafnir hafa áður boðið þátttöku í fjármögnun, gerðu það í fyrravetur, en fyrirtækið hefur ekki áður lýst áhuga á að annast framkvæmdina með sama hætti og Spölur gerði þegar Hvalfjarðargöng voru gerð.


Gunnar Smári ræðst til atlögu í Boston 17. apríl

Svo er að sjá sem útrás Gunnars Smára í Vesturheimi hefjist formlega þann 17. apríl næstkomandi þegar áformað er að blaðið BostonNOW hefji göngu sína í Boston. Ritstjóri Blaðsins heitir John Wilpers og hann bloggar í gríð og erg hér um áformin. Planið er að byggja á hugmyndafræði citizen journalism, gera bloggi og samvinnu bloggara og blaðamanna hátt undir höfði í þessu fríblaði. Ritstjórinn ræðir þó um að mörgum spurningum sé enn ósvarað. Boston Herald skrifaði nýlega um áformin.

Óneitanlega merkilegt að Baugur virðist ætla að leggja í þetta ævintýri á nýjum markaði, miðað við afkomutölur fjölmiðla fyrirtækisins hér og þá óvissu sem einkennir rekstur Nyhedsavisen í Danmörku.

Fríblaðamarkaður er vanþróaðri í Bandaríkjunum en í Evrópu en vestanhafs eru menn hins vegar komnir mun lengra en Evrópumenn í því að útfæra þá möguleika sem felast í citizen journalism vegna  gagnvirkni og nándar milli bloggara og lesenda þeirra sem taka þátt í og aðstoða við efnisöflun með virkum hætti.

Í því sambandi stenst ég ekki mátið að halda því til haga að fari svo að  Alberto Gonzales, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, segi af sér á næstunni vegna hneykslis um pólitískan brottrekstur alríkissaksóknara, verður það ekki síst vegna þess að Josh Marshall og félagar hans á Talking Points Memo hafa haldið héldu málinu gangandi og vöktu á því athygli.. Þeir gerðu hneykslismál á landsvísu úr átta lókalmálum, sem virtust ótengd, með dyggri þátttöku og aðstoð við upplýsingaöflun frá lesendum um gjörvöll Bandaríkin eins og lesa má um hér og hér.


Hallgrímur kyssir Bláu höndina

Hallgrímur Helgason, rithöfundur og áhrifamaður í Samfylkingunni, er höfundur hugtaksins Bláu handarinnar. Í ritsmíðum Hallgríms skildist manni að höndin sú iðkaði hér ógnarstjórn í skjóli Sjálfstæðisflokksins og slægi menn leiftursnöggt í höfuðið þegar þeir villtust af leið.  Þess vegna varð ég gapandi hissa þegar ég horfði á Hallgrím ræða tíðindi vikunnar ásamt Helgu Sigrúnu Harðardóttur. Hallgrímur notaði mikinn tíma til að tala um nauðsyn þess að koma framsókn frá völdum en nefndi ekkert Sjálfstæðisflokkinn.

Það er tvennt í þessu; annað hvort vill Hallgrímur vinna það til þess að Samfylkingin komist í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að kyssa Bláu höndina og halda henni við völd eða hann er tilbúinn að viðurkenna að hún var aldrei neitt annað en ósvífinn hugarburður.


Ónefndur maður hafði rétt fyrir sér

Ónefndur maður sagði mér í gær að Davíð Oddsson ætti eftir að taka það nærri sér að lesa slúðurmola í Fréttablaðinu í gær þar sem sögð var í slúðurdálki á leiðarasíðu saga eftir Davíð um þá feðga Árna og Matthías Mathiesen. Sagan var þeim ekki til vegsauka, sérstaklega ekki Árna fjármálaráðherra. Ég yppti öxlum og fannst þetta eins og hver annar slúðurmoli, Davíð hefði lesið svona þúsund sinnum um sjálfan sig og væri orðinn bólusettur fyrir þessu kvaki, taldi ég. En ónefndi maðurinn reyndist hafa rétt fyrir sér enda kann hann vel að lesa innyfli Sjálfstæðisflokksins.

Það kom í ljós þegar Mogginn var opnaður. Á einni helstu fréttasíðu blaðsins er yfirlýsing frá Davíð Oddssyni í ramma með mynd, undir fyrirsögninni "Ku".  Þar lætur Davíð vaða í Fréttablaðið af miklum þunga  og skýtur föstum skotum. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Davíð talar af lítilsvirðingu um Fréttablaðið og Baugsmiðlana en ef einhver hélt að afstaða hans hefði mildast við það að Þorsteinn Pálsson, varð ritstjóri þá er nú ljóst að svo var ekki. Orðfæri Davíðs í garð Baugsmiðlanna er hið sama og áður. Davíð segir:

Lesendur höfðu skilið það svo að gert væri ráð fyrir að lítt birtingarhæft efni yrði fremur haft í Dagblaðinu en Fréttablaðinu, þar sem því síðara er troðið inn á heimili fólks, sem ekkert vill hafa með það að gera og hefur jafnvel á því skömm. En nú virðist sem móðurfélagið hafi ákveðið að gera ekki upp á milli þessara barna sinna. Sjálfsagt getur verið af þessu hagræðing sem er reynandi, ef margvísleg hagræðing á sannleikanum hefur ekki skilað þeim fjárhagslega árangri sem að var stefnt.

Nú veit ég ekki hver var heimildarmaður Svanborgar Sigmarsdóttur fyrir sögunni dýru um Mathiesenfeðga og Davíð en ónefndi maðurinn sagði birtingu á þessu mola í blaði Þorsteins þrungna merkingu í innanflokksfræðunum. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvort Þorsteinn kemur Svanborgu jafnrösklega til varnar og Mogginn gerði þegar Ingibjörg Sólrún og Össur gagnrýndu skrif Agnesar á dögunum.


Íþróttafréttir og pólitík

Ég er nokkuð viss um að aldrei hafa jafnmargir núverandi og fyrrverandi íþróttafréttamenn verið í framboði til Alþingis og nú. Tveir þeirra eru leiðtogar sinna flokka.

Steingrímur J. kom fram á sjónarsviðið sem íþróttafréttamaður á Ríkissjónvarpinu. Þá var sjónvarpið ennþá lokað í júlí, sjónvarpslaust á fimmtudögum en líklega var farið að senda út í lit. Ómar Ragnarsson var landsþekktur löngu áður en hann fór að flytja svarthvítar íþróttafréttir í sjónvarpi og nú er hann orðinn pólitískur leiðtogi, eða amk leiðtogaefni. Samúel Örn Erlingsson er svo í 2. sæti á lista Framsóknarflokksins í Kraganum.

Það má örugglega draga einhverjar merkilegar ályktanir um íslenska pólitík af pólitískum frama þriggja úr þeim fámenna hópi sem unnið hefur við að flytja íþróttafréttir í sjónvarpi. Ég ætla að eftirláta öðrum að fílósófera um það.


Norðurljós og drykkjarvatn

Fyrir síðustu kosningar voru Vinstri græn gagnrýnd fyrir að þau hefðu enga atvinnustefnu, töluðu bara um að fólk ætti að gera eitthvað annað. Þegar gengið var á þau einhverju sinni nefndi Kolbrún Halldórsdóttir (minnir mig) að miklir möguleikar væru í fjallagrasatínslu á hálendinu. Það var mikið hlegið að þessu og VG sárnaði óskaplega. Ég held að það hafi verið í samræðum um þetta í lókalsjónvarpinu á Akureyri sem Steingrímur sagði Valgerði Sverrisdóttur að þegja. Þetta hefur verið snöggur blettur á VG, einn af nokkrum. Nú er ítarlegri atvinnustefna flokksins loksins komin fram, ég horfði á hana kynnta á myndbandi, sem frumsýnt var á Iðnþingi í síðustu viku.

Þar var Steingrímur J. Sigfússon, einn álitsgjafa sem brást við frábæru erindi Víglundar Þorsteinssonar. Ég hvet alla til að lesa erindi Víglundar og á sömu síðu má lesa frábært erindi sem Þorsteinn Pálsson hélt um Evrópumál við þetta tækifæri. Þessir aðalleikarar í umræðum í þjóðfélaginu fyrir 20 árum eða svo hafa margt fram að færa. Efnahagslífið er betra en þá en þjóðfélagsumræðan áreiðanlega verri. En þetta var útúrdúr, ég ætlaði að segja frá atvinnustefnu VG, sem kynnt var á Iðnþingi.

Í myndbandinu talar Steingrímur J. Sigfússon um mikilvægi þess að stöðva hér hjól efnahagslífsins og þróun þeirra atvinnugreina sem starfa í framsöguhætti nútíðar. Þess í stað eigi menn í viðtengingarhætti framtíðar að bíða þess að ýmislegt annað gerist. Hann tekur dæmi um hvað hér muni knýja áfram efnahagslífið í framtíðinni. Og hann nefnir ekki fjallagrösin. Nei, hann talar um útflutning á drykkjarvatni. Og hann telur mikla tekjumöguleika fólgna í því að selja ferðamönnum aðgang að Norðurljósunum.

Nú geri ég ekki þá kröfu til stjórnmálamanna að þeir búi til störf, heldur að þeir skapi skilyrði sem aðrir geta nýtt sér til nýsköpunar í atvinnuvinnulífi. En þegar menn hafna þeirri stefnu sem fylgt er er eðlilegt að þeir séu beðnir að benda á valkosti.  Steingrímur tók þetta próf á Iðnþinginu. Hann talaði ekki um fjallagrös, heldur um Norðurljós og drykkjarvatn. Þannig er það, hin þríþætta atvinnustefna; drykkjarvatn, Norðurljós, og fjallagrösin að auki. Og svo eitthvað annað, það eru miklir möguleikar fólgnir í því. Svo miklir, að það er best að hætta því sem gengur vel hér og nú. Þetta er næsti forsætisráðherra landsins, segja margir. Besti kosturinn í augum fjórðungs þjóðarinnar. Jamm.


Framtíðin og landið og fleira

Einar Már Sigurðarson, Helgi Hjörvar,  Kristján L. Möller og Lúðvík Bergvinsson eru þeir einu meðal   þingmanna Samfylkingarinnar sem stefna að endurkjöri, sem enn hafa ekki undirritað sáttmálann  Framtíðarlandsins. Kannski þeim finnist að þingmenn eigi bara að halda sig við ákvæði  stjórnarskrárinnar um að þeir séu eingöngu bundnir af samvisku sinni og eigi ekki að sverja öðrum en henni hollustueiða.

Þingmannsefni Samfylkingarinnar, þau Guðbjartur Hannesson, Karl V. Matthíasson, Lára Stefánsdótir, Gunnar Svavarsson og Róbert Marshall hafa enn ekki látið undan þrýstingnum.  Það hafa þau hins vegar gert, Ingibjörg Sólrún, Össur, Jóhanna, Mörður, Ágúst Ólafur, Ásta Ragnheiður, Katrín Júl., Þórunn Sveinbjarnardóttir og Björgvin G. Sigurðsson. Mér sýnist Jónína Bjartmars vera eini þingmaður eða þingmannsefni stjórnarflokkanna sem skráð hefur sig á listann.

Athygli vekur að nöfn þekktra fréttamanna, sem fjalla mikið um stjórnmál og deilur um virkjanamál, er að finna meðal þeirra 4,709 sem nú hafa undirritað  sáttmála Framtíðarlandsins. Þeirra á meðal eru Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, varaformaður Blaðamannafélags Íslands, og  Björg Eva Erlendsdóttir, formaður Félags fréttamanna.

Athyglisverð umræða hefur farið fram um fjármögnun hins mikla átaks Framtíðarlandsins hér á blogginu og þann mikla kraft sem einkennir söfnun undirskrifta á sáttmálann. Þar vísa ég sérstaklega til pistla Björns Inga, Árna Helgasonar og Andrésar Jónssonar.

Sáttmáli Framtíðarlandsins mun liggja frammi til undirritunar á vef samtakanna í 15 daga. Dæmi um velheppnaðar undirskriftasafnanir undanfarin ár er söfnun samtakanna Blátt áfram vegna fyrningar kynferðisbrota. Þar söfnuðust um 14.000 undirskriftir. Þá skrifuðu um 32.000 manns á undirskriftasöfnun sem fram fór vegna umdeildrar birtingar fréttar í DV snemma á síðasta ári.


Kjarni málsins

Davíð Logi kemur að kjarna málsins:

Mér finnst það persónulega talsverð óvirðing við þjáningu þess fólks, sem hefur mátt lifa hörmungarnar í Írak, að fara alltaf að tala um þessi Íraksmál eins og þau séu flokkspólitískt, íslenskt deilumál. Mál sem menn taka upp fyrir kosningar til að berja á ráðamönnunum, sem tóku þessa ákvörðun í óþökk þjóðarinnar. [...] Nema hvað. Eitt getur ný ríkisstjórn auðvitað gert, vilji hún sýna afstöðu sína til innrásarinnar í Írak. Hún getur kallað íslenska friðargæsluliðanna, sem er við störf í Bagdad á vegum NATO, frá Bagdad. Þetta væri sjálfsagt og eðlilegt, litu menn þannig á. Mikilvægt er samt að við tökum okkar ákvarðanir í þessum efnum með núverandi hagsmuni Íraka í huga, ekki með það í forgrunni að lýsa fyrirlitningu okkar á framgöngu Bandaríkjamanna eða Davíðs og Halldórs.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband