hux

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Hvor er róttækari femínisti, Valgerður eða Steingrímur J?

Fór að velta spurningunni í fyrirsögninni fyrir mér þegar ég var að rúnta á netinu áðan og sá annars vegar rifjuð upp orðaskipti þeirra tveggja í þinginu á árinu 2001 og hins vegar pistil Valgerðar, þar sem hún er að tala um hlut kvenna í íslenskum stjórnmálum. T.d. þetta:

Þegar við lítum til baka hér heima, og út fyrir landsteinana, hlýtur það að vera umhugsunarefni að kona hafi aldrei hlotið stuðning til að gegna ákveðnum ráðherraembættum hér á landi. Ég nefni hér embætti fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra, sjávarútvegsráðherra og samgönguráðherra, að ógleymdu forsætisráðherraembættinu. Ekki er það vegna þess að skortur er á hæfum konum. Ég hef kynnst hæfileikaríkum konum úr öllu litrófi stjórnmálanna sem gætu sinnt þessum embættum með miklum sóma.

Svo las ég þetta á síðunni hjá Birni Inga, þar sem hann (í tilefni af yfirlýsingum Steingríms J. um að hann sé róttækur feministi) var að rifja upp orðaskipti hans við Valgerði í þingsal árið 2001. Þá sagði hinn yfirlýsti feministi þetta um viðmælanda sinn:

Það er eins og mig minni að [Valgerður Sverrisdóttir] eigi frama sinn m.a. að þakka því að hafa ung verið kjörin fyrsta konan í stjórn Kaupfélags Eyfirðinga. Síðan stóð svo á í framhaldinu að það vantaði konu í stjórn SÍS og þá var [Valgerður] einnig kjörin þar inn til forustu. Síðan lá leiðin áfram upp í þingsæti eins og kunnugt er. Hér talar sá sem gerst á að þekkja.

Undarlegur þessi feminismi hans Steingríms og það má með sanni segja að það sé róttækt að sá sem svona talar kenni sig við femínísma.  Það væri kannski nær að tala um hann sem óvenjulegan feminista. Á þennan venjulega mælikvarða virkar hann svona álíka róttækur í sínum feminisma og Geir H. Haarde og Guðni Ágústsson og flestir aðrir stjórnmálakallar af þessari kynslóð.


Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins, góðan dag!?!

Þessa vikuna má segja að Stjórnmálaskóli Sjálfstæðisflokksins sé kostaður af Háskólanum í Reykjavík og Reykjavíkurborg. Þetta er þannig að þrír kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins - tveir borgarfulltrúar og þingmaður - verða frummælendur á ráðstefnu sem Háskólinn í Reykjavík er að gangast fyrir í lok vikunnar í félagi við Reykjavíkurborg og Álaborgarháskóla. Ráðstefnustjóri verður Guðfinna Bjarnadóttir, verðandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, - fjórði fulltrúi Flokksins eina á staðnum.

Helga Vala vakti athygli mína á þessari samkomu,. Hún talar um að nemendur HR séu reiðir og telji að  fyrrverandi rektor sé að misnota skólann pólitískt. Sjálfsagt hafi ráðstefnan verið undirbúin í rektorstíð Guðfinnu.

Allir pólitíkusar sem koma að ráðstefnunni eru sjálfstæðismenn. Þarna er gamli, góði Villi og Jórunn Frímannsdóttir borgarfulltrúi, og líka Guðlaugur Þór  þingmaður. Forstjóri Sjóvár, sem er fyrrverandi formaður Heimdallar, mun svo fjalla um hvað tryggingafélögin ætla að hugsa vel um gamla fólkið þegar sjálfstæðismenn eru búnir að einkavæða velferðarkerfið. Önnur pólitísk sjónarmið komast ekki að.


Hvað ætlar Guðjón Arnar að sitja lengi?

Smá hugdetta í framhaldi af hinni óvæntu ákvörðun Kristins H. Gunnarssonar að gerast aftursætisfarþegi Guðjóns Arnars í stað þess að leiða eitthvert kjördæmi og verða þannig augljóst ráðherraefni ef svo færi (sem guð forði okkur frá) að frjálslyndir fái aðild að næstu ríkisstjórn.

Getur verið að Guðjón Arnar sé farinn að huga að því að setjast í helgan stein fljótlega á næsta kjörtímabili? Að hann ætli sér að standa upp og eftirláta Magnúsi Þór formennsku í flokknum fljótlega og skilja þá við flokkinn með Kristin sem leiðtoga í Norðvesturkjördæmi. Getur það verið díllinn í þessu? Veit auðvitað ekkert um það en þannig meikar sú ákvörðun Kristins að gerast varaskeifa Guðjóns Arnars fyrst einhvern sens fyrir mér.

Það er óhætt að segja að Guðjón Arnar sé kominn af léttasta skeiði. Hann verður 63 ára í sumar og  mun vonandi verða látinn svara því fljótlega hvort hann hafi hugsað sér að sitja á þingi til 2011 eða hvort hann ætli sér að fara að njóta ávaxtanna af eftirlaunafrumvarpinu fljótlega.


Skotskífa sett á Einar Odd

Athyglisverð niðurstaða að Kristinn H. Gunnarsson ætli sér að setjast í aftursætið hjá Guðjóni Arnari Kristjánssyni í Norðvesturkjördæmi. Mest hefur verið um það rætt að hann mundi leiða lista á vegum flokksins enda hefði maður talið að frjálslyndir mundu tefla fram manni með þá miklu reynslu sem Kristinn býr yfir sem ráðherraefni. Var annað hvort Reykjavíkurkjördæmið nefnt í því sambandi.

Það verða sem sagt tveir fyrirferðaðrmiklir  Vestfirðingar, Guðjón Arnar og Kristinn H. Gunnarsson sem skipa efstu sæti frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi. Báðir njóta nokkurs persónufylgis í sínu kjördæmi, sem á rætur að rekja til gagnrýni þeirra á stefnu stjórnvalda í sjávarútvegi og byggðamálum. Með þessari niðurstöðu mun Kristinn geta einbeitt sér að slíkum málflutningi og forðast að lenda á oddinum í útlendingaumræðu flokksins. Sjálfsagt mun sameiginlegt framboð þeirra félaga hrista upp í hlutunum í pólitíkinni í þessum landshluta á næstunni og skal því spáð hér að þessi niðurstaða auki ekki líkur á því að Einar Oddur Kristjánsson, Vestfirðingurinn í baráttusæti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu, nái kjöri.


mbl.is Kristinn í 2. sæti hjá Frjálslyndum í Norðvesturkjördæmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margrét er enn handan við hornið, á fundi með JFM

Þótt enn sé beðið eftir því að framboðsmál Margrétar Sverrisdóttur skýrist og að niðurstaðan, sem var handan við hornið fyrir mörgum dögum, komi fram í dagsljósið er unnið af krafti að undirbúningi framboðs.

Margrét tók daginn í dag snemma og snæddi morgunverð með Jakobi Frímann Magnússyni, Stuðmanni, varaþingmanni Samfylkingarinnar og nýjum umboðsmanni Silvíu Nóttar á Hótel 101. Væntanlega verður Jakob einn helstu forkólfa nýja framboðsins en meðal annarra sem rætt er um í tengslum við framboð Margrétar er Ómar Ragnarsson.


15 ár frá Skítlegu eðli - hátíðarhöld ná hámarki á forsíðu Mbl.

Hátíðarhöld sjálfstæðismanna og (annarra áhugamanna um bandarískt þingræði) standa nú yfir til að minnast þess að hinn 13. febrúar voru liðin 15 ár frá því að forseti Íslands lét falla hin ósmekklegu ummæli um skítlegt eðli Davíðs Oddssonar. Nær hátíðin hámarki með frétt á forsíðu Morgunblaðsins í dag.

Fréttin er fólgin í því að með orðhengilshætti hefur ritstjóra Morgunblaðsins tekist að snúa út úr auðskiljanlegum ummælum, sem forsetinn lét falla í viðtali við Egil Helgason á Stöð 2 í gær. Útúrsnúningnum er slegið upp í fjórdálka forsíðufrétt. Öllum sem viðtalið heyrðu mátti vera ljóst að þar var forsetinn ekki að halda því fram að stjórnarráðið væri deild í forsetaembættinu heldur hinu að sú túlkun væri álíka langsótt og hin að forsetaembættið væri deild í stjórnarráðinu, eins og sjálfstæðismenn virðast telja. Þarf mikinn hæfileika til skapandi heyrnar eða vilja til að slíta ummæli úr samhengi til þess að geta lagt út af ummælunum eins og Morgunblaðinu tekst að gera í forsíðufrétt og ritstjórnargrein í dag. Þeim, sem ekki þekkja til á ritstjórninni, þykir sjálfsagt undarlegt að enginn samstarfsmanna ritstjórans hafi náð að telja hann ofan af því að leggja forsíðu blaðsins undir þessa vitleysu.


Baldur og Konni?

Reglugerðin sem Árni M. Mathiesen setti upp á sitt einsdæmi fyrir nokkrum dögum til þess að hindra bankana í því að gera upp bókhald sitt í erlendri mynt, líkt og Straumur-Burðarás gerir, hefur vakið furðulega litla umræðu í þjóðfélaginu og til að mynda ekki komið til umræðu í sölum Alþingis, svo ég viti. 

Hafliði Helgason skrifaði ágætan leiðara um málið í Fréttablaðið í gær og einnig hefur Árni Páll Árnason, lögmaður látið málið til sín taka á heimasíðu sinni. Hann telur lagastoð reglugerðarinnar hæpna og er ekki í vafa um að með reglugerðinni séu ráðherrar Sjálfstæðisflokksins að fara að vilja formanns bankastjórnar Seðlabankans og segir m.a.:

Samband Geirs Haarde og forvera hans er svipað og samband Baldurs og Konna og það fer ekkert á milli mála hvor er hugsuðurinn og hvor er spýtudúkkan í því sambandi. Þegar Davíð hvarf af vettvangi jókst fylgi Sjálfstæðisflokksins, því þjóðin vildi trúa því að nú væri lokið heiftúðugri hefndarherferð flokksins á hendur þeim forystumönnum í atvinnulífinu sem höfðu neitað að lúta flokkslegri forskrift. Endurkoma dúettsins Baldurs og Konna á svið stjórnmálanna sýnir að það var röng ályktun.

Ennfremur:

Í öllu þessu brambolti og óðagoti felast skýr skilaboð Sjálfstæðisflokksins til fyrirtækjanna í landinu. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að viðhalda ofþenslu og verðbólguþrýstingi og forðast stöðugleika eins og heitan eldinn. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar síðan að standa í vegi fyrirtækjanna þegar þau reyna að forðast þær búsifjar, sem þessi efnahagsóstjórn leiðir til, með því að gera upp í evrum. Til þess verða allir lagaklækir nýttir og nýjar reglur uppdiktaðar.



Vertu úti, hr. forseti, það er komið að Nágrönnum!

Það var athyglisvert að fylgjast með hinu ágæta viðtali Egils Helgasonar við Ólaf Ragnar Grímsson í Silfri dagsins á Stöð 2. Þegar klukkan var orðin tvö, (kannski einhverjar sekúndur yfir) og tilsettur tími liðinn, virtist Egill ekkert á þeim buxunum að fella talið. Fer þá ekki útsendingastjórinn að spila kynningarstef þáttarins undir orðum forsetans, og má ætla að það hafi hann ekki gert nema vera búinn að minna Egil á það í eyrað að slíta viðtalinu og ljúka þættinum. 

Egill lét á engu bera og hélt viðtalinu áfram. Þess vegna voru síðustu mínútur viðtalsins þannig að kynningarstefnið hljómaði undir meðan forsetinn og Egill ræddu saman og greinilega hafði Ólafur Ragnar ekki hugmynd um hvað var í gangi. Afar sérstakt, svo ekki sé meira sagt.

Þetta var fyrsta flokks "almannaþjónustusjónvarpsefni"- þar til útsendingarstjórinn skarst í leikinn. Þarna var forseti Íslands í viðtali í beinni útsendingu, sem gerist sjaldan, svaraði af fullri hreinskilni um mörg af umdeildustu deilumál í samfélaginu, þar á meðal virkjanamál, varði embætti sitt af einurð gegn atlögum sjálfstæðismanna (og naut þess greinilega að skjóta því á Halldór Blöndal að hann hefði talið Bandaríkin til þingræðisríkja í ádrepu sinni á forsetann við þingsetninguna haustið 2004!). 

En þeir á Stöð 2 máttu ekki til þess hugsa að viðtalið færi fram yfir auglýstan tíma af því að það þurfti að koma að tveggja klukkutíma endursýningu af áströlsku sápuóperunni Nágrönnum (!!!).

Ég ítreka að ég spái því að senn sjái fyrir endann á vist Egils á Stöð 2 og að hann flytji sig yfir til RÚV ohf. með haustinu. Held að þetta umhverfi svali illa metnaði Egils fyrir hönd þáttarins.


Til hamingju - en hvor er hvor?

davlFín niðurstaða ég er joshsammála því að Guantanamo- skrif Davíðs Loga, frumbyggjans hér á Moggablogginu,  hafi staðið upp úr á síðasta ári.

Líka gleðilegt að Jóhannes Kristjánsson fái verðskuldaða viðurkenningu eftir það sem gekk á í lok ársins - fárið í kjölfar fyrsta Byrgisþáttarins. Jóhannes er brautryðjandi og Kompásþættirnir hafa sætt tíðindum og varpað hér ljósi á mál sem ella væru enn í þagnargildi.

Mér finnst líka vel við hæfi að verðlauna Auðunn Arnórsson fyrir alla ESB-umfjöllunina, sem ber með sér hans miklu þekkingu á viðfangsefninu. Gaman að því að þeir fyrrverandi félagarnir úr erlendum fréttum á Mogganum, Davíð Logi og Auðunn, standi saman í þessum sporum í dag. Gleður gamla Moggamenn nær og fjær.

Í tilefni dagsins læt ég loks verða af því að birta þessar myndir af tvíförunum, Davíð Loga Sigurðssyni og Josh Marshall. Tveir fínir bloggarar og blaðamenn. Hvor er hvor?


mbl.is Davíð Logi fær tvær viðurkenningar fyrir umfjöllun um Guantanamo
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Davíð og Einar Oddur vildu hugsanlega ganga í ESB

aldamotFyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins haustið 1989 var lögð skýrsla svonefndrar aldamótanefndar sem flokkurinn hafði skipað. Starf nefndarinnar sætti tíðindum vegna þess að leiðtogi hennar var sjálfur Davíð Oddsson, þá borgarstjóri í Reykjavík en í augum allra sem fylgdust með stjórnmálum, framtíðarleiðtogi flokksins. Tæpum tveimur árum eftir að skýrslan var lögð fram komst Davíð Oddsson í þá aðstöðu til að hafa öðrum mönnum meira að segja um þá stefnu  sem íslenskt þjóðfélag tæki og þeirrar aðstöðu naut hann langt fram á þessa öld, sem kunnugt er.

Í aldamótanefndinni sátu með Davíð valinkunnir einstaklingar, Einar Oddur Kristjánsson, fiskverkandi á Flateyri, formaður VSÍ og síðar þingmaður, Guðmundur Magnússon, sagnfræðingur og fyrrverandi bloggari, Sigríður Anna Þórðardóttir, nú þingmaður og fyrrverandi ráðherra, Valur Valsson, bankastjóri og Þorgeir Pálsson, flugmálastjóri og nú forstjóri Flugstoða.

Skýrslan sem lögð var fram er nú hvergi aðgengileg á vefnum og kannski hvergi nema í skjalasafninu í Valhöll og á Þjóðskjalasafninu. Það er synd því vissulega væri verðugt rannsóknarefni að rifja upp þá sýn á þróun samfélagsins sem Davíð lagði fram rétt áður en hann komst til valda og bera saman við þá þróun sem síðar varð. En í þeim eftnum er í fljótu bragði aðeins hægt að styðjast við blessað Morgunblaðið, sem fjallaði nokkuð um störf nefndarinnar í fréttum sínum, nú opnum og aðgengilegum á vefnum.

Og í Morgunblaðinu er meðal annars fjallað um skýrslu aldamótanefndarinnar í þessari frétt, föstudaginn 6. október 1989:

Í DRÖGUM að greinargerð aldamótanefndar Sjálfstæðisflokksins er minnt á að Íslendingar taki nú þátt í viðræðum við Evrópubandalagið (EB) með öðrum EFTA-ríkjum.

Þar kunni að nást samkomulag sem Íslendingar geti sætt sig við til frambúðar. Hugsanlega verði þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngönguna ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki.

Í greinargerðinni sem lögð er fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins án þess að þar verði formlega tekin afstaða til hennar, segir að gjaldeyris- og gengismál, peningastjórnun og lagaleg atriði varðandi eignarhald fyrirtækja og skattalega meðferð þeirra hljóti að þurfa að færast í átt við það, sem viðurkennt er og best þykir til brúkunar í þeim löndum, sem viljum skipta við. Við getum ekki treyst því að endalaust verði horft í gegnum fingur við okkur af því að við séum lítil og skrítin og hernaðarlega mikilvæg þjóð á norðurhjara.

Í drögunum segir: "Hugsanlega verður þó skynsamlegast að óska beinlínis eftir viðræðum um inngöngu Íslands í Evrópubandalagið, þótt menn séu um leið reiðubúnir að láta inngönguna ráðast af því, hvort þau skilyrði, sem henni kunna að fylgja, þyki aðgengileg eða ekki. Verði sú niðurstaðan, að þau séu óaðgengileg talin, hafa menn heldur engar brýr brotið að baki sér. Og þrátt fyrir allt er líklegt að smæð okkar verði okkar styrkur ásamt með því að við erum að véla við bandalagsþjóðir okkar í Atlantshafsbandalaginu og margar hefðbundnar vinaþjóðir, þar sem við njótum trausts.  Það er því óheppilegt að borið hefur á því, að við séum sjálfir að búa okkur til skilyrði og mála skrattann á vegginn og þar meðað veikja okkar eigin samningsstöðu er við mætum með sjálfskapaða annmarka til viðræðna við Evrópubandalagið. . .

Í væntanlegum samningum við Evrópubandalagið í hvaða formi sem þeir verða, hvort heldur með öðrum EFTA-ríkjum eða á tvíhliða grundvelli, hljótum við að hafa það hugfast, að við náum fram því sem við viljum, ef sæmilega fast er fylgt á eftir og sanngirni beitt. Með þessum hætti unnum við að lokum fullan sigur í landhelgisbaráttu okkar með fullu forræði á 200 mílna efnahagslögsögu."

Hvað breyttist?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband