hux

Vísir lokar á Egil sem biður Hux að birta yfirlýsingu

Eftir að lögmaður Egils Helgasonar, skrifaði 365 bréf það sem vísað er til í færslunni hér á undan, hefur aðgangi Egils að Vísi verið lokað. Hann getur því ekki birt bréfið né svarað fréttaflutningi af málum hans á síðunni á Vísi. Samt er 365 búið að leggja í leiðangur til þess að fá viðurkennt að Egill sé skuldbundinn til þess að vinna hjá fyrirtækinu. Egill hefur beðið mig að birta þessa yfirlýsingu sem hann ætlaði að birta á eigin vef en kemur þar að luktum dyrum:

Þær upphæðir sem hafa verið nefndar sem launagreiðslur til mín bæði frá 365 og RÚV eru fjarri veruleikanum eins og blaðamenn Fréttablaðsins hefðu getað komist að ef þeir hefðu haft samband við mig. Kannski sjá einhverjir sér hag í að dreifa svona skáldskap. 
Skipti mín yfir á Ríkisútvarpið eru ekki vegna þess að þar hafi mér boðist meiri peningar – heldur vegna þess að ég tel framtíðarhorfurnar bjartari í því fyrirtæki.

Samskipti mín við 365 undanfarna daga hafa styrkt mig í þeirri trú. 
Það er betra að byggja upp en rífa niður.

Í þessu ljósi er reyndar kaldhæðnislegt að það blasir við að í sumar verð ég á launalausum uppsagnarfresti frá 365 - en eins og komið hefur fram hefur fyrirtækið ekki greitt mér laun á sumrin – án þess þó að geta unnið fyrir mér annars staðar. Ég er ekki einu sinni viss um að ég megi blogga.

Eins og komið hefur fram hef ég ákveðið að heiðra meintan "samning" 
við 365. Ég hafna því að hann hafi verið gerður, en til að koma í veg fyrir þjark fyrir fógeta og dómstólum kýs ég að fara þessa leið. Vona þá að málið sé úr sögunni.

Það er dagljóst að í hinum meinta "samningi" er 3 mánaða uppsagnarfrestur. Í síðasta tölvupósti sem mér barst frá Ara Edwald stendur að samningurinn verði að öðru leyti (fyrir utan laun) "í samræmi við þann ramma sem gilt hefur". Í fyrri samningum mínum við fyrirtækið hefur ávallt verið 3 mánaða uppsagnarfrestur.

Ég hef þegar sagt upp hinum meinta "samningi".

Auðvitað vildi ég vera á launum eins og talað er um í slúðurdálki Fréttablaðsins. Staðreyndin er hins vegar að laun blaða- og fjölmiðlamanna á Íslandi eru frekar léleg, sérstaklega ef miðað er við forstjóra og lögmenn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Pétur,

Ég verð að líta svo á að Egill kalli eftir því með þessari yfirlýsingu að tölvuskeyti okkar á milli um starfskjör verði gert opinbert. Umsamin laun voru 1 m.kr. á mánuði, frá 1. sept. til 30. júní. Ég hef staðið í þeirri trú, án þess að þekkja söguna, að launalaust leyfi í júlí og ágúst væri að ósk Egils sjálfs. Hann dvelst þá mestan part erlendis og ég ímyndaði mér að hann starfaði við ferðaþjónustu eða ritstörf, en mér kom það svo sem ekki við. Allavega byggðist launaleysi frá 365 ekki á mannvonsku, heldur meira svona sveigjanleika í vinnutíma. Ég hef kallað samninginn við Egil tugmilljónasamning. Það er réttnefni. Egill var verktaki áður, en frá desember sl. greiða 365 launatengd gjöld, þannig að á 20 mánuðum í tveggja ára samningi er það nær 25 m.kr. Það er þó bara launaþátturinn. Samningurinn við Egil er auðvitað um þáttagerð í sjónvarpi, þannig að heildartalan fyrir fyrirtækið er verulega hærri.

Það er eðlilegt að lögfræðingar meti hver staða samningsins er á milli 365 og Egils, svo vinna megi úr málinu á réttum grundvelli. Ég sé að það sjónarmið vegur ekki þungt í bloggheimum. Mér finnst þú fljótur til að stökkva á meintan uppsagnarfrest Pétur. Þegar við Egill sömdum útskýrði ég fyrir honum muninn á tímabundnum og ótímabundnum samningi, sem þú manst kannski eftir úr lögfræðinni. Hann þyrfti ekki að óska eftir lengingu uppsagnarfrests úr 3 mánuðum í 6, vegna þess að við værum að gera samning til ákveðins tíma. Uppsagnarfrestur innan þess tíma væri því merkingarlaus. Þetta er þó bara eitt atriði af fleirum sem lögfræðingar skoða. Ég skil ekki í að neinn geti haft á móti því að slík mál séu skoðuð með faglegum hætti, frekar en að áhætta sé tekin á því að réttur sé brotinn á fólki eða fyrirtækjum.

Þá pósturinn:

Sæll Egill,

Staðfesti að eins og við töluðum um í símanum áðan, þá er kominn á samningur milli okkar til a.m.k. 2ja ára, með einum greiddum mánuði vegna sumarleyfis. Launagreiðsla til EH 1m.kr/mán. Að öðru leiti í samræmi við þann ramma sem gilt hefur og það sem farið hefur okkar á milli, en við skulum klára skriflega útgáfu af þessu í vikunni.

Kv. Ari

Ari Edwald (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 16:17

2 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Væntanlega hefur Ari Edwald réttinn sín megin. En mikið ósköp getur það stundum verið heimskulegt að standa á rétti sínum ...

Hlynur Þór Magnússon, 6.6.2007 kl. 16:33

3 Smámynd: Rögnvaldur Hreiðarsson

Það er nefnilega það. Heimskulegt að standa á rétti sínum. Mér finnst fólki ganga illa að setja þessi mál í samnhengi heldur snýst málið um það hvort Ari er vondur og Egill æði. Vistabönd og þannig orð ber mikið á góma. Enginn talar um grundvallaratriði.

Þetta snýst um réttindi vinnandi fólks gagnvart vinnuveitendum. Ég hefði reyndar ekki sérstaklega mikinn áhuga á því að kæra mig í vinnu hjá einum eða neinum en ætli ég myndi ekki skoða minn rétt ofan í kjölinn samt ef fyrirtæki gerði það sem Egill sýnist vera að gera hér.

Það verður aldrei heimskulegt að krefjast þess að menn séu heiðarlegir í samskiptum. Og það verður að vera krafa sem gildir bæði um vinnuveitendur og starfsmenn. Hér þarf að hugsa stórt en ekki smátt og komast útúr því að halda með einhverjum.

Rögnvaldur Hreiðarsson, 6.6.2007 kl. 16:50

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta virðist nú bara vera einhliða yfirlýsing Ara í tilraun til að tryggja sér Egil. Ari segir í tölvupóstinum: "þá er kominn á samningur milli okkar til a.m.k. 2ja ára". Hvernig getur samningur verið til "að minnsta kosti" 2ja ára en samt átt að heita tímabundinn og án uppsagnarákvæða? Þetta stríð Ara við Egil er hræðilegur afleikur 365 en virðist í sama anda og tapsárir í pólitíkinni hafa verið að hegða sér undanfarna daga og vikur. 

Helgi Jóhann Hauksson, 6.6.2007 kl. 17:20

5 identicon

Þetta getur ekki farið öðruvísi en með allsherjar flenging fyrir 365.  Mér finnst svona lögfræðingastælar með hótunum og tilraunum til þvingana bara eitt form af ofbeldi og vera mjög ógeðfellt.  Auk þess þeir hafa ekkert til að standa á.  Það var aldrei skrifað undir samning punktur.  Mín ráðlegging til Egils er að vera ekki að henda tíma og peningum í lögfræðingaskak við þá heldur svara þessu ekki, standa þetta bara af sér. 

Magnús Sigmundsson (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 17:33

6 identicon

Mín spurning varðandi þennan tölvuóst er: Getur vinnuveitandi látið Egil vera búinn að gera samning bara með því að senda honum tölvupóst og segja honum að það sé kominn á samningur milli þeirra? Þá finnst mér nú vald vinnuveitanda vera orðið ansi mikið. Varla getur Egill ráðið því hvað stendur í bréfum sem Ari sendir honum? 

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 17:44

7 Smámynd: Gunnsteinn Þórisson

Lögmenn sem og stjórnendur 365 eru augljóslega ekki að gæta sinna eigin hagsmuna, þeir hafa verið sviknir og vilja koma höggi á Egil, um það snýst þetta mál, þetta þjónar engum.

Gunnsteinn Þórisson, 6.6.2007 kl. 17:50

8 identicon

Anna, í bréfi lögmanns 365 (sem fólk sem ætlar að tjá sig um málið ætti endilega að lesa) kemur fram að Egill svaraði póstinum um samninginn svona: 

Ok, móttekið, ég fer á laun 1. sept. -kv. Egill.

Egill virðist samkvæmt þessu vera búinn að samþykkja samninginn. 

Óli Gneisti (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 17:54

9 identicon

Að allt öðru Egill er byrjaður að blogga.

"....án þess þó að geta unnið fyrir mér annars staðar. Ég er ekki einu sinni viss um að ég megi blogga."

Var ekki egill búinn að tala um að hann væri ekki bloggari.

Góðar stundir 

Sigurjón Njarðarson (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 17:56

10 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sæll Ari, takk fyrir kommentið.

Það er þá rétt skilið að Egill fái milljón á mánuði x 9 á ári og þrjá mánuði launalaust? Sem launþegi, en ekki verktaki.

Og að samningurinn sé að ykkar mati óuppsegjanlegur, þar sem hann er tímabundinn? 

Pétur Gunnarsson, 6.6.2007 kl. 18:15

11 identicon

Óli - það er rétt hjá þér að Egill svarar þessu, það kemur ekki fram í athugasemd Ara að hann hafi gert það og ég var nú bara að bregðast við þeirri athugasemd. Mér sýnist 365 ganga fram með þeim hætti að fyrir þeim vaki að sækja peninga til Egils eða jafnvel RÚV. Það verður áhugavert að fylgjast með framhaldinu. En ég er enn frekar á því nú en áður að 365 skjóti sig í annan ef ekki báða fætur með því að nálgast málið eins og gert er.

Anna Ólafsdóttir (anno) (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 18:30

12 Smámynd: Pétur Gunnarsson

Sæll aftur, Ari, í framhaldi af þessu með uppsagnarfrestinn: Egill segir i bréfinu: "Það er dagljóst að í hinum meinta "samningi" er 3 mánaða uppsagnarfrestur. Í síðasta tölvupósti sem mér barst frá Ara Edwald stendur að samningurinn verði að öðru leyti (fyrir utan laun) "í samræmi við þann ramma sem gilt hefur". Í fyrri samningum mínum við fyrirtækið hefur ávallt verið 3 mánaða uppsagnarfrestur."

Er það rétt hjá honum að í fyrri samningum (skriflegum og tímabundnum) hafi verið 3ja mánaða uppsagnafrestur. Og er það rétt hjá honum að samningur ykkar hafi falið í sér að fyrir utan laun væri hann í samræmi við þann ramma sem gilt hefur , þar á meðal um 3ja mánaða uppsagnarfrest? 

Pétur Gunnarsson, 6.6.2007 kl. 19:15

13 Smámynd: Hreiðar Eiríksson

Allt þetta mál er nokkuð broslegt.  Þarna er annars vega um að ræða spurningu um rétt launþega til að hætta störfum og ráða sig til nýs vinnuveitanda.  Hins vegar rétt atvinnurekanda til að verja hagsmuni fyrirtækisins, þ.e. vöruna sem verið er að selja.

Flestir sem standa í fyrirtækjarekstri nú á dögum hafa skilning á þeim verðmætum sem felast í starfsmönnum fyrirtækisins.  Fordæmin sýna að allur vafi í eða um samningsgerð er túlkaður starfsmanninum í hag.   Því er enn meiri ástæða til að ganga vel frá allri samningsgerð við lykilstarfsmenn. 

Ég held að fyrirsvarsmenn 365 hf. verði að draga lærdóm af þessu máli.  Sá lærdómur er að leita aðstoðar sérfræðinga í vinnurétti þegar gerðir eru samningar af þessu tagi.

Hreiðar Eiríksson, 6.6.2007 kl. 20:31

14 identicon

Orð skulu standa!  Er útlit fyrir að annar deilenda sé ómerkingur orða sinna?

Snorri Magnússon (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 21:50

15 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Ég verð nú að segja að tilurð þessa máls er nú með afbrigðum. Það sem enginn hefur talað um er að Egill hefur náttúrulega ekki verið alveg fullkomlega heiðarlegur í viðskiptum sínum við 365 því skv. því sem komið hefur fram hefur hann auðsjáanlega verið að semja við báðar stöðvarnar samtímis.

En mistök Ara hjá 365 er að fyrst að þeir höfðu áhuga á að hafa Silfrið áfram þá áttu þeir náttúruleg að vera búnir að semja við hann fyrir löngu.

Síðan er nú vafasamt að það sé kominn á bindandi samningur byggður á einhverjum tölvusamskiptum. Mundi telja að það þyrfti jú að fara fram einhver undirritun eða handsal í vitna viðurvist.

En ég er hjartanlega sammála Agli um að Stöð 2 var nú ekki að gera sér mikinn mat úr þætti Egils og hefði að ósekju mátt leggja meira í þátt hans. Hann hefur jú haft nokkuð trygga áhorfendur. En þó eru margir orðnir þreyttir á að Egill leyfi sumum þáttum að fara út í að allir tali þar í einu svo varla verður heyrt hvað fólk er að segja hálfu þættina.

Ég bíð spenntur eftir að sjá Egil á RUV í vetur. Ég tel að þátturinn eigi vel heima þar. Það er reyndar alveg til skammar að slíkur þáttur hafi ekki verið þar um árabil.

Magnús Helgi Björgvinsson, 6.6.2007 kl. 22:55

16 identicon

Þeir labba báðir haltir út úr þessarri hríð.
Heldur finnst mér draga úr trúverðugleika Egils sem gagnrýnanda á störf og orð stjórnmálamanna þegar hans orð halda ekki betur en raun ber vitni.
Ég væri varkárari í samskiptum við hann en margan annan eftir að hafa lesið út úr þessari framkomu hans við sinn launagreiðanda og samningsaðila. Þeir síst geta krafist sanngirni sem sýna hana ekki sjálfir.

Þorsteinn G. (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 23:06

17 identicon

Hverjum er ekki andskotans sama um hvar EH vinnur? -hvað hann fær í laun? -hvernig hann semur við vinnuveitendur sína? - etc. etc.

Þessi gengdarlausa umfjöllun um þetta mál sýnir enn á ný sjálfhverfni fjölmiðlafólks í hnotskurn. Það er látið með þetta af meiri þrótti og þunga en fjöldauppsagnir í undirstöðuatvinnugreinunum. Svei.

Guðmundur (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 23:18

18 identicon

? hvort að túlkun EH á "samningnum" væri með sama hætti ef þeir hefðu rekið hann! 
grf. að krafa hans væri þá 2 ár og með sama hætti vildu 365 þá eflaust bara borga 3 mán...

Þorsteinn (IP-tala skráð) 6.6.2007 kl. 23:36

19 Smámynd: Norðanmaður

1 milljón á mánuði, og hann getur ekki einu sinni unnið uppsagnafrestinn sinn. Egill, hvað er að, af hverju gerðiru það ekki til að forðast þetta vandræðalega mál.

  Mér sýnist þú nú alveg vera á forstjóralaunum. Allavega Landsbyggðar forstjóra launum. Það er ekki að marka launin hjá honum BaugsAra

Norðanmaður, 6.6.2007 kl. 23:44

20 identicon

Mér sýnist Snæfjallaströndin vera með því fallegasta sem ég hef litið í íslenskri náttúru með Djúpið spegilslétt á milli. Traðarhyrnan og Óshyrnan ramma þetta allt saman stórkostlega inn. Mikið væri gaman ef 8 þúsund Íslendingar hefðu nennu til að pæla í því eins og þeir velta sér upp úr þessu hjómi.....

Hólshreppur (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 00:06

21 Smámynd: Helga Guðrún Eiríksdóttir

Millu, millu, millu, millu / millu-kökur, millu-brauð

PS -Fengi ég vinnu ef ég aulaðist heim?

Helga Guðrún Eiríksdóttir, 7.6.2007 kl. 03:26

22 Smámynd: Lára Stefánsdóttir

Ari segir skýrt að þeir ætli að klára skriflegan samning í vikunni, hafi hann verið gerður hlýtur hann að standa, hafi hann ekki verið gerður þá er þessi tölvupóstur marklaus og lýsir bara skoðun annars aðila á málinu á þeim tíma sem hann setur hana fram. Enginn veit hvað hann sagði daginn eftir nema að baki því sé þessi skriflegi samningur sem hann vísar í.

Lára Stefánsdóttir, 7.6.2007 kl. 08:47

23 identicon

Hvernig ætli standi á því að svo erfitt hafi verið að ganga frá skriflegum samningi sem er eingöngu framlenging á gildandi samningi á þeim tíma? Ég geri ráð fyrir að breytingar hafi verið að megni til dagsetningar, upphæðir í launlið og annað því tengt. Varla getur verið flókið að opna skjalið með gamla samningnum, breyta þessum atriðum, vista undir nýju nafni og svo senda til Egils til staðfestingar. Hefði líklega verið hægt að ganga frá málinu samdægurs en málið tafðist og tafðis, gaman væri að fá að vita frá Ara af hverju það var.

Daði Einarsson (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 09:23

24 identicon

Smá athugasemd. Ég veit ekki betur en að lögmaður 365 í þessu máli sé einn að Baugslögmönnunum og þeir börðust hart fyrir því að tölvupóstar gætu verið notaðir í dómsmáli en núna er tölvupóstur eina sönnunargagn þeirra og þá er það hið besta mál að nota póstinn. Það finnst mér nokkuð skondið :-)

Addi (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 12:47

25 identicon

Leiðrétting vegna athugasemdar hér að ofan: Lögmenn Baugs börðust hart fyrir því að tölvupóstar gætu ekki verið notaðir sem sönnunargögn.

Addi (IP-tala skráð) 7.6.2007 kl. 12:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband